Samþykkt: Atvinnuréttindi, frelsi og lýðræði á vinnumarkaði
Samantekt: Atvinnufrelsi, markaðslögmál og skýr réttindi starfsfólks eru undirstaða hagvaxtar og velferðar í framtíðinni.
- Allir landsbúar eiga að hafa frelsi til að stunda atvinnu við sitt hæfi eða stunda atvinnurekstur eftir getu og vilja, sem ekki á að skerðast vegna til dæmis fötlunar, móðurmáls, veikinda eða öldrunar (ekki tæmandi listi).
- Atvinnurekendur og fulltrúar þeirra skulu gæta að hagsmuna starfsfólks til jafns við hagsmuna eigenda, fjárfesta og annarra hagsmunaaðila.
- Styðja skal við lýðræðislega starfshætti í atvinnurekstri, þannig að í öllum atvinnurekstri, þar sem starfa fleiri en 50 manns á ársgrundvelli, verði í það minnsta þriðjungur stjórnar lýðræðislega útnefndir af starfsfólkinu og hafa þá sama atkvæðavægi innan stjórnar. Í fámennari fyrirtækjum er þetta valkvætt. Bjóða skal upp á efnahagslega hvata fyrir alla atvinnurekendur til að fjölga fulltrúum starfsmanna í stjórn eins og mögulegt er.
- Tryggja skal getu og úrræði starfsfólks til að verja réttindi sín gagnvart atvinnuveitendum. Efla skal eftirlit, úrræði og auka viðurlög vegna brota á réttindum starfsfólks.
- Vinnuveitendum skal vera skylt að upplýsa starfsfólk um öll helstu lagaleg réttindi og skyldur við ráðningu.
- Eignarhald lögaðila skal vera að fullu opinbert, aðgengilegt og rekjanlegt þar sem fram kemur hverjir eru ábyrgðamenn, eigendur og stjórnendur, til þess að þeir geti síður firrt sig ábyrgð til að forðast afleiðingar gjaldþrota og tapreksturs. Koma skal í veg fyrir að gjaldþrot og kennitöluflakk bitni á skattgreiðendum og starfsfólki.
- Hafi lögaðili brotið lög, ekki staðið skil gagnvart skattayfirvöldum eða starfsfólki getur hann átt á hættu að missa kennitöluna. Ekki skal veita nýja kennitölu til ábyrgðaraðila atvinnureksturs sem brotið hefur gegn skattalögum með vanskilum eða hefur brotið gegn lagalegum réttindum starfsfólks án þess að bæta fyrir.
- Hvetja skal til frumkvöðlastarfsemi og nýliðunar á öllum sviðum vinnumarkaðarins, t.d. með skýrum upplýsingum um skráningar og leyfi, með sveigjanleika í leyfisveitingum og skattamálum, með úrbótum í úthlutun fiskveiðikvóta, eða með því að flýta fyrir skráningar- og umsóknarferlum (ekki tæmandi listi).
- Hlutverk stjórnvalda í vinnumarkaðsmálum skal byggja á jafnræði fremur en á ekki að felast í geðþóttaákvörðunum og beinum inngripum í atvinnugreinar eða fyrirtæki. Fremur skal skilgreina lagaleg réttindi og skyldur atvinnurekenda og launþega, en láta markaðsöflin um úrlausnir.
- Efla skal frjálsan markað með því að koma í veg fyrir fákeppni, samráð og undanskot sem grafa undan virkri samkeppni. Beita má ýmsum leiðum sem geta verið ólíkar eftir því hvaða atvinnugrein um ræðir.
- Koma skal á fullri samkeppni á húsnæðismarkaði með hag neytenda að leiðarljósi, þannig að fáir aðilar nái ekki markaðsyfirráðum.
- Tryggja skal innviði, t.d. alnet, þriggja fasa rafmagn og álíka, sem stuðla að nýliðun, nýsköpun, rannsóknum og þróun í atvinnuvegum og jafnræði, um allt land.
Við samþykkt þessarar stefnu falla úr gildi eftirfarandi stefnur Pírata:
- Stefna um stéttarfélög og vinnudeilur
- Stefna um samvinnufélög
- Stefna um markaðssvæði internetsins
- Stefna um samkeppnismál
- Stefna um sjálfseignarstofnanir
- Stefna um Norrænt samstarf
- Stefna um netvænt Ísland
Greinargerð:
Hugmyndin með þessari stefnu er að móta heildstæða mynd af því atvinnusamfélagi sem Píratar vilja stefna að, byggðu á frelsi, gagnsæi, lýðræði og persónuréttindum.
Gr. 1. Frelsi til atvinnu er varið í stjórnarskrá lýðveldisins, þess til viðbótar vilja Píratar stuðla að tryggja að allir geti stundað atvinnu við hæfi og að sjálfsákvörðunarréttur fólks verði grundvallarréttindi, t.d. með auknu gagnsæi, lýðræði, tjáningar- og upplýsingafrelsi. Vinna við hæfi getur einnig átt við þá sem vinna heima vegna fötlunar, veikinda, vegna tungumálaörðugleika eða þá sem kjósa að vinna hlutastarf eða kjósa önnur úrræði. Sem dæmi má nefna að þegar borgaralaun verða tekin upp má búast við að val einstaklinga um atvinnuframlag verði mun frjálsara, því þurfa lögaðilar og opinberir aðilar að vera undirbúinn fyrir slíkar umbreytingar.
Gr. 2. Stjórnvöld þurfa að bjóða upp á hvata fyrir atvinnurekendur til að hlúa að starfsfólki til jafns við hluthafa og önnur viðmið sem stjórnendur kunna að hafa, svo sem fjármögnun, sjálfbærni, ofl.
Gr. 3. Samkvæmt lögum virðist vera nú þegar eðlilegt og fýsilegt, á Íslandi, að lög grípi inn í stjórn fyrirtækja er öðlast hafa þá stöðu að veita 51 mönnum vinnu, til þess að efla jöfnun kynjanna. Það sama ætti að gilda fyrir starfsmannafulltrúa. Samkvæmt skýrslu viðskiptaráðs "Hugsum Smátt" vinna fleiri en helmingur vinnandi manna í fyrirtækjum sem hafa 50 eða fleiri starfsmenn. Vænta má þess að aukið gegnsæi þar sem starfsmannafulltrúar gæta hagsmuna starfsmanna dragi úr spillingu. Það gildir bæði fyrir spillingu yfirmanna við ríkið og spillingu yfirmanna gegn hagsmunum fyrirtækisins. Þá er ljóst að fólki líður betur í lýðræðislegum aðstæðum, þar sem það hefur áhrif, slíkt getur aukið framleiðni og bætt lýðheilsu, sem leiðir til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Nú þegar er algengt á hinum Norðurlöndunum að láta ákveðið hlutfall stjórnar vera fulltrúa starfsfólks.
Gr. 4. Til að styðja við liði liði 1-3 þarf að tryggja réttindi starfsfólks, bjóða upp á úrræði sem þörf er á, bæði félagsleg, lagaleg og stjórnsýsluleg.
Gr. 5. Atvinnurekendum er gert að útbúa skriflega og rekjanlega ráðningasamninga við allt starfsfólk og upplýsa það um réttindi sín og skyldur. Lagaleg úrræði, refsingar og hvatar þurfa að vera til fyrir vinnuveitendur sem ekki uppfylla slíkt. Auka þarf eftirfylgni með nýjum kröfum og uppfæra nokkur landslög varðandi vinnumarkaðinn til að bæta úr þessari upplýsingaskyldu:
- Lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda
- Lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna
- Lög nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum
- Lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur
- Lög nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda
Gr. 6. Til að hægt sé að tryggja réttindi almennings og starfsfólks er nauðsynlegt að gera gögn um eignarhald og stjórn fyrirtækja gagnsæ og aðgengileg almenningi sem getur nýtt lýðræðisleg réttindi og sjálfsákvörðunarrétt til að verja persónulegan hagsmuni í samskiptum og viðskiptum við lögaðila. Koma þarf í veg fyrir að gjaldþrot og kenntöluflakk bitni á skattgreiðendum eða starfsfólki með því að auka eftirlit og upplýsingagjöf.
Gr. 7. Neikvæðar afleiðingar kennitöluflakks fyrir samfélagið ætti að stöðva með nýjum úrræðum, t.d. ættu þeir sem ekki hafa staðið í lögbundnum skilum til skattayfirvalda og starfsfólks hreinlega ekki að geta stótt nýja kennitölu og haldið áfram stöfrum án afleiðinga eða athugasemda. Hugsanlegar stjórnsýsluaðgerðir geta verið tímabundin kennitölufrysting eða sambærilegir hvatar byggðir á heftri notkun kennitalna til að lögaðilar standi við lagalegar kvaðir, enda virka kennitölur lögaðila eins og markaðsleyfi að ýmsu leyti.
Gr. 8 Koma skal á hvötum og stoðkerfi í stjórnsýslu sem stuðlar að nýliðun í öllum atvinnugreinum, sér í lagi í landbúnaði, sjávarútvegi og annarri sjálfbærri framleiðslu. Hvatarnir geta verið margvíslegir, t.d. Samkeppnisstyrkir um nýsköpun, rannsóknir og þróun. En huga þarf að jöfnuði á milli lögaðila og hafa sem minnst áhrif á frjálsa samkeppni ásamt því að hvatarnir hafi ekki neikvæð áhrif á önnur markmið eins og menningarleg, sjálfbærni og velferð.
Gr. 9. Fækka þarf beinum inngripum hins opinbera í atvinnuvegi og vinnumarkað, svo sem verkfallsstöðvanir og önnur bönn og þvinganir. Þess í stað á að koma á hvötum og tryggja réttindi starfsfólks og jafnfræði milli atvinnugreina. Góð leið er að skilgreina vel réttindi og skyldur atvinnurekenda, einstaklinga og launþega sem markaðsaðilar og stéttarfélög geta úr án þess að yfirvöld grípi til geðþóttaákvarðana til úrlausnar á vinnumarkaðsmálum. Hafa ber þó í huga að í samræmi við grunnstefnu Pírata ganga einstaklingsréttindi einatt lengra en réttindi lögaðila. Þá má búast við að dómsstólar ljúki málum sem ekki er hægt að útkljá.
Gr. 10. Koma má í veg fyrir fákeppni, samráð og undanskot sem grafa undan virkri samkeppni með ýmsum leiðum sem geta verið ólíkar eftir því hvaða atvinnugrein um ræðir. Einnig þarf að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir, inngrip, kjördæmapot, spillingu og ólýðræðisleg vinnubrögð hins opinbera sem trufla samkeppni á frjálsum markaði.
Gr. 11. Gera skal ráðstafanir til að tryggja fulla samkeppni með því að koma í veg fyrir fákeppni og að hvalreki til einstakra fyrirtækja trufli frjálsa samkeppni á húsnæðismarkaði. Efla þarf gagnsæi, neytendaúrræði og samkeppniseftirlit til að koma í veg fyrir að markaðsráðandi aðilar skerði frelsi og réttindi fólks til húsnæðisúrræða.
Gr. 12. Skortur á tæknilegum inniðum á ekki að vera þröskuldur fyrir atvinnuppbygginu og jafnræði á milli atvinnugreina. Til að atvinnulíf um allt land blómstri og allir njóti tækifæra þarf að uppfæra tengingar. Tengjum Ísland með þriggja fasa rafmagni, bestu samgönguúrræðum milli landshorna og virkri nettengingu um allt land.
Píratar skulu leggja fram þingsályktanir og lagafrumvörp um að á Íslandi verði byggð upp innviði sem henta atvinnurekstri um allt land og séu tilbúin að takast á við nýsköpun og tækniframfarir eins fjlótt og kostur er. Þar með talið aðgengi að fullnægjandi rafmagni, interneti og öðrum innviðum sem tryggja nýsköpun og r&þ í atvinnugreinum um allt land. Endurskoða þarf ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu með hliðsjón af auknu öryggi milliliða í fjarskiptum.
Innleiða skal stjórnarskrárákvæði sem er efnislega í takt við tillögu stjórnlagaráðs um að: “Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.” Píratar skilja að góð nettenging er grunnstoð fyrir atvinnulíf um allt land (Kosningaráherslur Pírata 2017).
Ítarlegri greinargerð um lýðræði í atvinnulífinu:
Vinnandi fólk eyðir stóru hlutfalli vakandi tíma síns, í flestum tilvikum, í ólýðræðislegum aðstæðum -- í atvinnulífinu. Sem Píratar, virðum við lýðræði og viljum að sem flestir upplifa lýðræði og frelsi eins oft og mikið og hægt er. Eðlilegt er að atvinnulífið verði lýðræðisvætt.
Fólki líður betur í lýðræðislegum aðstæðum, þar sem það hefir áhrif, en ella, sem mun auka framleiðni og bæta lýðheilsu, einkum á sviðum geðsjúkdóma.
Hin Norðurlöndin, Austurríki og Þýskaland eru ekki óstöðug, fátæk lönd, eyðilögð af óraunsæjum starfsmannafulltrúum:
Algengt er, um Evrópu, að skylda fyrirtæki til að hafa ákveðið hlutfall stjórnar sem starfsmannafulltrúa. Mest áberandi er það á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Austurríki.
Einfaldaðar upplýsingar:
- Austurríki: Ef >300 menn: ⅓ stjórnar kosinn af starfsmannaráði.
- Danmörk: Ef >35 menn: ⅓ stjórnar (að minnstu tveir) kosinn af starfsmönnum.
- Finnland: Ef >150 menn: að minnstu ⅕ stjórnar, að mestu fjórir, valinn af starfsmannaflokkum.
- Noregur: Ef >=30 menn: einn kosinn af stéttarfélaginu. Ef >50: ⅓. Ef >200: ⅓ plús einn.
- Svíþjóð: Ef >25 menn: tveir kosnir af stéttarfélaginu. Ef >1000: þrír. Venjulega ⅓ stjórnar svo starfsmannafulltrúar, en allt að ½ (ekki meirihluti).
- Þýskaland: Ef >500 menn: ⅓ stjórnar kosinn af starfsmönnum eftir framboð gegnum starfsmannaráð. Ef >2000: ½ (ekki meirihluti).
- Ísland (þessi stefna): Ef >50 menn: að minnstu ⅓ stjórnar kosinn eða slembivalinn af starfsmönnum. Ef <=50 menn: að minnstu 0. Í báðum tilfellum: því meira lýðræði, því minni skatt þarf fyrirtækið að borga. Kjarasamningar mega ráða aðferð útnefningar og hvort lágmarks hlutfallið sé meira en ⅓ eða 0.
Ekki einfaldaðar: http://www.oecd.org/employment/emp/Board-level%20employee%20representation.pdf
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Across-Europe/Board-level-Representation2
http://www.worker-participation.eu/content/download/5971/102108/file/BLER%20in%20Europecomparative%20table%20for%20wp%20eu31072015%20EN.pdf
http://www.worker-participation.eu/content/download/4282/58932/file/EPI-background-paper.pdf
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Countries
https://www.government.se/4ac877/contentassets/af2a3399726a445ea0e6655d58ac9508/19871245-board-representation-private-sector-employees-act
https://www.government.se/government-policy/labour-law-and-work-environment/19871245-board-representation-private-sector-employees-act-lag-om-styrelserepresentation-for-privatanstallda/
https://en.wikipedia.org/wiki/Worker_representation_on_corporate_boards_of_directors
https://www.repository.cam.ac.uk/bitstream/handle/1810/256566/cbr-lri-117-countries-codebook-and-methodology.pdf?sequence=1&isAllowed=y
Greinimörk/viðmiðanir/þröskuldar:
Samkvæmt lögum virðist vera nú þegar eðlilegt og fýsilegt, á Íslandi, að lög grípi inn í stjórn fyrirtækja er öðlast hafa þá stöðu að veita 51 mönnum vinnu, til þess að efla jöfnun kynjanna. Það sama ætti að gilda fyrir starfsmannafulltrúa. Samkvæmt skýrslu viðskiptaráðs "Hugsum Smátt" vinna fleiri en helmingur vinnandi manna í fyrirtækjum sem hafa 50 eða fleiri starfsmenn.
https://www.vi.is/files/smeweb_1749858511.pdf, bls. 18
25 manna greinimark er í gildi í Svíþjóð, 30 á Noregi og 35 á Danmörku.
Sjávarútvegur:
Á Þýskalandi fá starfsmenn í kolanámafyrirtækjum (með fleiri en 1000 starfsmenn) að minnsta kosti 50% stjórnar. Af sögulegu og núverandi mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi, gæti það verið viðeigandi að setja slík lög á sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. En andstaða gegn þessu væri sennilega mjög sterk.
Þetta gæti orðið kjarasamningaefni.
Fjórða iðnbyltingin:
Í nýlegri (2020) þingsályktunartillögu Vinstri grænna um atvinnulýðræði eru færð áhugaverð rök varðandi fjórðu iðnbyltinguna:
“Með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar má og ætla að mikilvægara sé að auka lýðræði á vinnumarkaði þegar gervigreind og sjálfvirknilausnir taka við hlutverkum mannsins í auknum mæli. Það hefur mikla þýðingu fyrir vinnandi stéttir að tekin séu skref til að gera þeim kleift að koma að ákvörðunum fyrirtækja um innleiðingu nýrrar tækni og gefa þeim þannig tækifæri til að njóta virðisaukans af tækniframförum. Þann virðisauka mætti til að mynda nýta til að stytta vinnutíma starfsfólks, hækka laun þess, auka starfsöryggi og bæta vinnuumhverfi og kjör að öðru leyti. Að auki má telja að þekking starfsfólks geti nýst vel við innleiðingar nýrrar tækni, sem gæti meðal annars birst í aukinni framleiðni fyrirtækja.”
https://www.althingi.is/altext/151/s/0040.html
Gæti aukið lýðræði í fyrirtækjum spornað gegn spillingu?
Vænta má þess að aukna gegnsæið, og það að starfsmannafulltrúar eiga að gæta hagsmuna starfsmanna, dragi úr spillingu. Það gildir bæði fyrir spillingu yfirmanna við ríkið og spillingu yfirmanna gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Þar eru þó tilfelli á Þýskalandi þar sem spilling gerðist, með því að svíkja ríkið -- til að mynda Dieselgate. Ekkert er fullkomið.
Hvernig gætu lög komið í veg fyrir því að starfsmannafulltrúar verði að fulltrúum yfirmanna?
Þar eru margar mögulegar aðferðir. Í sumum löndum er einföld leið tekin með því að skilgreina menn sem annaðhvort yfirmenn eða starfsmenn og láta bara starfsmenn kjósa.
Aðra leið mætti taka byggða á efnahagslegri stöðu starfsmanna, þannig að kjörgengi til þess að verða starfsmannafulltrúi, kosningaréttur starfsmanna og áframhaldandi dvöl í stjórn væru eingöngu leyfð þeim er:
- Fengju sem heildartekjur frá allri starfsemi og vinnu (utan sem innan fyrirtækisins) ekki meira en 150% miðgildis heildartekna starfsmanna fyrirtækisins.
- Ynnu að jafnaði ekki minna en 50% og ekki meira en 150% miðgildis vinnutíma starfsmanna fyrirtækisins, fyrir það fyrirtæki.
- Hefðu ekki notið dvalar í stjórn lengur en tvö ár síðan síðustu útnefningu.
- Væru ekki ráðnir til þess að verða í stjórn eða kjósa fulltrúa í stjórn.
- Væru starfsmenn fyrirtækisins búsettir á Íslandi.
Liðir 1. og 2. myndu tryggja að aðeins alvöru starfsmenn yrðu starfsmannafulltrúar, ekki einhver ríkur sem ynni lítið fyrir fyrirtækið eða að öðru leyti endurspeglaði ekki starfshópsins.
Varðandi 3., tveggja ára stjórnarskeið væri gott því að spillingarhætta ykist með lengd stjórnarskeiðs -- fulltrúinn yrði hugsanlega að yfirmanni í sínum hugi og hætta yrði að yfirmenn reyndu að múta fulltrúanum eða með öðrum aðferðum fá hann að gera það sem þeir vildu. Auk þess, þar sem slembival væri notað til útnefndar fulltrúa, væri sem flestum gefið tækifæri til að hafa áhrif.
Hverjir eru kostir í því að nota slembival?
Slembival gæti verið auðveldara, fljótara og ódýrara, einkum fyrir smærri fyrirtæki. Einnig eru minni líkur á kosningabrögðum og gruni að langvarandi fulltrúar verði að stjórnendum. Og allir geta fengið sitt tækifæri í stjórn.
Þessir kostir gilda að hluta í blönduðu kerfi (forvali) þar sem starfsmenn kjósa suma til stjórnarmöguleika og þá eru fulltrúar útnefndir úr þeim hópi með slembivali.
Stéttarfélög geta samið um framboðs- og útnefningaraðferðir í kjarasamningaviðræðum.
Hvernig samræmast hlutföll starfsmannafulltrúa kynjahlutföllum?
Með einföldu slembivali má vænta oftast kynjahlutfalla sem endurspegli kynjahlutföll kjörgengra starfsmanna, að nokkru leyti.
Með kosningum er málið erfiðara. Fyrsti vandinn er hlutfall þeirra sem bjóða sig fram (sé kerfið ekki þannig að það megi kjósa hvern kjörgengan sem er, án frambjóðenda). Annar vandinn eru hlutföll atkvæða fyrir hvert kyn. Það má ímynda sér málamiðlanir á lýðræði og kynjahlutföllum, en þær gætu valdið ósátt, sérstaklega ef kynjahlutföll kjörgengra starfsmanna eru mjög skökk (höfundinum detta hásetar og grunnskólakennarar í hug).
Einnig mættu kynjahlutföll starfsmannafulltrúa hugsanlega gefa yfirmönnum meiri kost til að hafa áhrif á niðurstöðurnar, einkum ef kynjahlutföll starfsmanna eru mjög skökk. Stéttarfélög mættu meta þá hættu í undirbúningi til kjarasamningaviðræða, svo best væri ekki að kveða á um kynjahlutföll í lögum. Búast má við að kynjahlutföll starfsmannafulltrúa (eða framboðs til embættisins) verði gagnlegust í geirum hvar fjöldi karl- og kvenmanna er nokkuð jafn sem starfsmenn en ekki sem þeir kjörnu, ef kosningar eru notaðar heldur en slembival.
Þess má geta að á Noregi eru einföld kynjahlutföll sem gilda fyrir starfsmannafulltrúa í hlutafélögum (ekki einkahlutafélögum): ef kynjaminnihlutinn er meiri en 20% starfsmanna og ef starfsmenn hafa fleiri en einn fulltrúa í stjórn, á hvort kyn að hafa að minnsta kosti einn starfsmannafulltrúa.
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Countries/Norway/Board-level-Representation
Vitaskuld gilda kynjahlutföll (nú 40% í fyrirtækjum þar sem starfa fleiri en 50) enn fyrir þá stjórnendur ekki útnefnda úr starfsmönnum. Efling stöðu starfsmanna er ekki tilefni til að höggva að færum kvenna sem yfirmanna í stjórn.
Hví er mikilvægt að leyfa stéttarfélögum áhrif á framboðs- og útnefningaraðferðir, hlutföll starfsmannafulltrúa í stjórn o.s.fr., með kjarasamingum?
Ekki er gerlegt fyrir stjórnmálamenn og Alþingi að leysa öll mál og móta altækar reglur sem hæfa öllum aðstæðum vel. Hins vegar geta stéttarfélög og fyrirtæki haft innsýn á þær aðstæður sem ríkja í starfstéttum, fyrirtækjum, o.s.fr..
Jafnframt má þess geta að framfarir í samfélaginu hafa oft orðið sakir átaka stéttarfélaga, og í þeim baráttum eru málin skýrari, ekki í blöndun með öðrum málum eins og oftast er raunin í alþingiskosningum, og þannig sterkari. Stéttarfélög geta þrýst á fyrirtæki fyrir meira lýðræði og betra, en og aftrað bakslögum og tilraunum til að afnema árangur þessarar stefnu af stjórnvöldum framtíðar. Þó við Píratar gætu orðið í stjórn landsins, yrðum við sennilegast ekki ávallt í stjórn og við vildum ekki að okkar afrekum yrðu eytt.
Væri hægt að þvinga starfsmenn til að kjósa “rétt” eða til að bjóða sig fram eða ekki?
Ekki með einföldu slembivali, nema slembival sé af einungis þeim sem bjóða sig fram.
Varðandi kosningu, leynilegar kosningar ættu að veita þvingun viðnám.
Stéttarfélög ættu að aftra almennri þvingun og þvingun á framboði, ef yfirmenn reyna hana til að velja “rétta” fulltrúa eða útiloka þá “ranga”.
Varðandi þvingun af stéttarfélögum, ásamt stjórninni eða ekki: sé það í gangi þá er vond staða sem þarf að laga sem fyrst. Ekkert er fullkomið, og það er ekki auðvelt að berjast gegn bæði stéttarfélagi og fyrirtæki. Nema, að nokkru leyti, með einföldu slembivali af öllum kjörgengum starfsmönnum.
Hvernig væri beint lýðræði mögulegt?
Hugsanlega gæti stjórn fyrirtækis kosið að boða atkvæðagreiðslur, eða gæti einungis starfsmannafulltrúar boðað atkvæðagreiðslur bara fyrir þeirra vægi í stjórn, sem venju eða bara í sérstökum aðstæðum. Það kynni að vera vandræðalegt fyrir fulltrúa eigenda (þ.e. hefðbundna, venjulega stjórnendur) að hunsa niðurstöður slíkra atkvæðagreiðslna, þó að starfsmannafulltrúar væru minnihluti stjórnar.
Þannig væri það óbeint beint lýðræði, í boði fulltrúa. Einnig mættu atkvæðagreiðslur vera gildar í lögum fyrirtækisins, eða í kjarasamningum, en þessa stefnu varðar þetta ekki.
Hví eiga lýðræðislegri fyrirtæki að borga minni skatt?
Til þess að auðvelda tilraunir í meira lýðræði, án þess að ríkið þvingi meir né þurfi að velja besta mögulega hlutfall í öllum tilfellum, þar sem það gæti breyst eftir aðstæðum, markaði, stærð o.s.fr.. Frábært væri ef 100% lýðræði reyndist án undantekningar best, auðveldast og varanlegast, en það er einfaldlega ekki vitað.
Hins vegar þarf hvatningar til þess að slíkar tilraunir gerist: þær gerast ekki mjög oft nú, og almennt er sjaldgæft að menn yfirgefa vald, án þrýstings.
Það að ríkið taki minni skatt af fyrirtækjum með meira lýðræði mun einnig greiða leið fyrir stéttarfélög til að krefja meira lýðræðis, sem meira hlutfalls í stjórn, enda auðveldara að halda fram að slíkar breytingar efli samkeppnishæfni fyrirtækis.
Hví eigum við að gefa forskot fyrirtækjaformum sem þurfa þess til þess að vera til?
Lýðræði hefir sitt eigið verðmæti, og valddreifing yfirhöfuð. Auk þess, ef skortur lýðræðis, án hvatningar, er helstur af valdagræðgi manna, þýðir það ekkert að lýðræði dragi teljandi úr skilvirkni fyrirtækja.
Yfirleitt, sýna rannsóknir að áhrif starfsmanna í stjórn fyrirtækja muni litlu á skilvirkni -- ekki talsvert verr né betur:
https://hbr.org/2018/09/what-we-do-and-dont-know-about-worker-representation-on-boards
https://www.researchgate.net/publication/285356456ThePerformanceofWorkers%27_Cooperatives (sem sýnir hins vegar að framleiðni geti verið meiri í samvinnufélögum með fullt lýðræði)
Myndi ríkið ekki tapa miklum peningi af því að minnka skatta fyrir lýðræðislegri fyrirtæki?
Þar eru nú ekki mörg fyrirtæki minnstu ögn lýðræðisleg, á þeim hætti sem uppfyllti kröfur þessarar stefnu. Þann veg myndu skattatekjur líklega ekki breytast verulega, í fyrstu.
Ef skattatekjur lækkuðu seinna, væri það hliðarverkun árangurs, tákn einhvers góðs. Þá mætti hækka skattana, sem myndi halda hvatningunni til lýðræðis, eða aðra skatta, til að koma jafnvægi aftur í bókhaldið.
Af hverju ekki bara leggja skatt og sleppa lágmarks hlutföllum?
Lágmarks hlutföll starfsmannafulltrúa eru reynd leið, prófuð í mörgum löndum -- skattarleiðin er ekki. Einnig mun það vera sennilegra að fyrirtæki prófi dálítið (eða dálitlu meira) lýðræði ef þau sjái önnur stærri virka með því (eða séu þvinguð til þess, í byrjun).
Hvaða skattur passar til að hvetja meira lýðræði í fyrirtækjum?
Skatturinn þarf þess að vera ekki háður lánum, hagnaði (því fyrirtæki sem starfsmenn stýra mætti kjósa að fjárfesta afganginn í sig eða borga meiri laun, svo myndi ívilnun á hagnaðarsköttum ekki hjálpa þeim) né svindlum til þess að fela ágóða. Viðeigandi er að velja skatt sem á við starfsmenn, af því að fyrirtæki sem ræður engan neyðir engan, svo er ekki ólýðræðislegt að né af sínu formi. Tryggingagjald, eða annars lags (nýr?) skattur á tengingu fyrirtækis við starfsmann (e. “payroll tax”), uppfyllir þessar kröfur.
Væri tryggingagjaldið valið, gæti kerfið virkað eftir þessu dæmi (með 10% tryggingagjaldi til einföldunar reikninga):
Sveinki ehf. er lítið fyrirtæki með fáa starfsmenn, svo á enga skyldu til að láta starfsmannafulltrúa í stjórn. Sveinki borgar 10% tryggingagjald ef enginn starfsmannafulltrúi er í stjorn, 5% ef helmingur stjórnar eru starfsmannafulltrúar, 0% ef öll stjórnin eru starfsmannafulltrúar, og svo framvegis, hlutfallslega.
Haraldur hárfagri hf. er stórt íslenskt fyrirtæki, svo skal láta að minnsta kosti þriðjung stjórnar vera starfsmannafulltrúa -- sé það þannig, borgar hann 10% tryggingagjald. Ef helming, borgar hann 7,5% tryggingagjald; ef tvo þriðjunga, borgar hann 5%; ef alla stjórnin, borgar hann ekkert tryggingagjald. Þannig eru honum leyfðir að mestu tveir þriðjungar sem fulltrúar eigenda/annars, og heilt hlutfallið kostar 10%, en það þarf ekki að nota heila hlutfallið. Tryggingjaldið er svona skattur á ólýðræði.
Napoléon SARL er lítið erlent fyrirtæki án íslensks útibús, en samt hefir starfsmenn á Íslandi. Án þess að sýna að íslensku starfsmennirnir hafi lýðræðislegan aðgang að stjórn (sém gæti verið flókið ferli, væri það unnt), borgar erlenda fyrirtækið 10% tryggingagjald, því gert er ráð fyrir að lýðræðislega hlutfallið sé 0%.
C. IVLIVS CAESAR S.p.A. er stórt erlent fyrirtæki án íslensks útibús (skráðs á Íslandi). Ef það hefir þó íslenskan starfsmann, og (mjög sennilega) ekki lýðræðislegt kerfi sem íslensk yfirvöld og stéttarfélög geta haft eftirlit á, þá borgar það 15% tryggingagjald, því að það þykir nota 150% rétta hlutfallsins sem ekki starfsmannafulltrúa. Rétta, mesta, hlutfallið eru tveir þriðjungar. Þannig er “level playing field” (hugtak sem EES notar oft), til þess að erlenda fyrirtækið geti ekki hagnast með því að komast framhjá lögum um atvinnulýðræði -- og það sama gildir kannski fyrir fyrirtæki skráð í skattaskjólum en þó í eigu íslendinga.
Tekjur á mann á Íslandi með tryggingagjaldi eru lágar miðað við samsvarandi skatta um heiminn (ljósblái liturinn -- tryggingagjaldið var 7,69% árið 2013 en er nú 6,35% árið 2020):
https://en.wikipedia.org/wiki/File:Payroll_and_income_tax_by_country.png
https://www.rsk.is/atvinnurekstur/skattar-og-gjold/tryggingagjald/
Með tilvísun í Grunnstefnu Pírata:
- 4: um gagnsæi og ábyrgð, almennt
- 4.1: Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
- 4.5: Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
- 4.6: Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
- 6: um beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur, almennt
- 6.1: Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
- 6.3: Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Og með hliðsjón að:
- Stefnu um gerð hagkerfisins (https://x.piratar.is/polity/1/issue/31/) 5. lið: “Sérstaklega ber að hlúa að rekstri sem byggir á lýðræðislegum starfsháttum og efla rétt og getu launþega til að koma að ákvörðunum sem varða starfsskilyrði þeirra.”
- Lögum um hlutafélög 63. gr. (https://www.althingi.is/lagas/150c/1995002.html)
- Lögum um einkahlutafélög 39. gr. (https://www.althingi.is/lagas/150c/1994138.html)
- Lögum um samvinnufélög 27. gr. (https://www.althingi.is/lagas/150c/1991022.html)
- Lögum um sameignarfélög 13. gr. (https://www.althingi.is/lagas/150c/2007050.html)
Tilheyrandi mál: | Atvinnuréttindi, frelsi og lýðræði á vinnumarkaði |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | htg |