Lög Pírata
1. Heiti
1.2. Nafn félagsins er Píratar. Aðsetur þess og varnarþing skal vera í Reykjavík.
1.2. Ensk þýðing á heiti félagsins er Pirate Party Iceland. Nota má hana sem hjáheiti.
2. Hlutverk
2.1. Félagið er stjórnmálaflokkur.
2.2. Félagið skal reyna að bjóða fram lista til alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga til að ná fram markmiðum sínum.
2.3. Félagið skal leitast við að bjóða fram undir listabókstafnum P, bjóði það fram undir sínu eigin nafni.
3. Félagsmenn
3.1. Hver sem er 16 ára á árinu eða eldri getur fengið fulla aðild að félaginu.
3.2. Félagatal skal teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga og skal meðhöndlun þess vera í samræmi við landslög. Aðildarfélög skulu eiga rétt á afriti af félagatali sínu gegn undirritun lagalega bindandi yfirlýsingar af hálfu stjórnarmanna þess um að það verði einvörðungu notað vegna starfa innan aðildarfélagsins í samræmi við lög þessi og landslög. Framkvæmdaráði er þó rétt og skylt að sjá til þess að listi yfir trúnaðarmenn félagsins og aðildarfélaga sé aðgengilegur almenningi.
3.3. Félagar mega vera skráðir með dulnefni í félagatali.
3.4. Listi yfir trúnaðarmenn félagsins skal þó vera aðgengilegur almenningi.
3.5. Inntökubeiðnir í félagið, sem og úrsagnir skulu fara fram skriflega eða með rafrænum hætti.
3.6. Þeir sem vilja ganga í félagið skulu auðkenna sig með aðferð sem ákveðin er af framkvæmdaráði.
3.7. Skráningar og úrsagnir skulu gilda frá tímasetningu staðfestingar á móttöku.
3.8. Félagsmaður telst virkur um leið og hann hefur tekið þátt í rafrænu kosningakerfi félagsins. Ef félagsmaður hefur ekki tekið þátt í kosningakerfi félagsins í meira en þrjá mánuði þá telst hann óvirkur.
3.9. Ákveða má félagsgjöld á aðalfundi.
3.10. Eingöngu félagsmenn mega gegna trúnaðarstöðum innan félagsins og aðildarfélaga. Nú hefur félagsmaður sagt sig úr Pírötum og fellur þá umboð hans til að gegna trúnaðarstöðum innan Pírata og aðildarfélaga þess sjálfkrafa úr gildi. Sama gildir ef félagsmaður gegnir á sama tíma, samkvæmt hans samþykki, trúnaðarstöðum hjá öðrum stjórnmálaflokki. Til trúnaðarstaða telst seta í stjórnum, nefndum, ráðum eða aðrar stöður þar sem einstaklingi er treyst, stöðu sinnar vegna, fyrir upplýsingum og/eða ákvarðanatöku sem er ekki í boði fyrir almenna félagsmenn þess sama félags. Framangreind umboð falla ekki sjálfkrafa niður ef félagið er bersýnilega stofnað í þeim tilgangi að gerast aðildarfélag Pírata og tekst það innan fjögurra mánaða frá stofnun þess. Aðildarfélög skulu sjá til þess að framkvæmdaráð sé upplýst um það hvaða trúnaðarstöður eru hjá því og hverjir gegna þeim.
4. Aðalfundur
4.1. Aðalfundur skal vera haldinn fyrir lok ágústmánaðar ár hvert.
4.2. Á aðalfundi er mörkuð stefna félagsins og teknar ákvarðanir um starf þess, skipulag og fjárreiður.
4.3. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með öruggum hætti.
4.4. Framkvæmdaráð hefur heimild til að fresta landsfundi eða aukalandsfundi um viku frá auglýstri dagsetningu, en aðeins í eitt skipti.
4.5. 1/3 hluti félagsmanna getur hvenær sem er farið skriflega fram á að boðað sé til auka-aðalfundar. Framkvæmdaráð skal þá boða til hans innan þriggja vikna.
4.6. Framkvæmdaráð skipuleggur dagskrá aðalfundar.
4.7. Fundargögn aðalfundar skulu afhent félagsmönnum með rafrænum hætti samhliða fundarboði. Verði fundargögn til eftir að boðað er til fundar skal afhenda félagsmönnum uppfærðan fundarboðspakka minnst þremur sólarhringum fyrir aðalfund.
4.8. Árskýrsla félagsins og ársreikningur fylgja öðrum fundargögnum.
4.9. Allir félagsmenn sem skráðir eru 30 dögum fyrir aðalfund hafa aðgang að honum.
4.10. Á aðalfundi er framkvæmdaráð ákveðið í samræmi við 7. grein.
4.11. Á aðalfundi eru tveir skoðunarmenn reikninga kjörnir með STV forgangskosningu.
4.12. Framkvæmdaráð tekur við framboðum í öll embætti, og tryggir að allir frambjóðendur fái sanngjarna kynningu.
4.13. Frambjóðendur í embætti skulu skila inn hagsmunaskráningu til sitjandi framkvæmdaráðs, tveimur vikum fyrir aðalfund.
4.14. Slembivaldir framkvæmdaráðsmenn skulu skila inn hagsmunaskráningu eigi síðar en tveimur vikum eftir val þeirra.
4.15. Hagsmunaskráningar eru birtar á vefsíðu félagsins.
4.16. Nánari reglur um hagsmunaskráningu skulu útfærðar af framkvæmdaráði og samþykktar á félagsfundi.
5. Fundarhald (félagsfundir)
5.1. Fundir félagsins skulu að jafnaði vera opnir öllum.
5.2. Allir hafa málfrelsi á fundum.
5.3. Meðlimir geta lagt fram tillögur á fundum.
5.4. Aðrir en meðlimir geta lagt fram tillögur, fái þeir til þess samþykki 5% fundarmanna en aldrei færri en þriggja.
5.5. Kosningar á fundum skulu að jafnaði fara fram með handauppréttingu.
5.6. Sé óskað eftir því má fundarstjóri ákveða að hafa atkvæðagreiðslur skriflegar eða rafrænar.
5.7. Sé óskað eftir því, og 5% fundarmanna en aldrei færri en þrír samþykkja það, skulu kosningar vera leynilegar.
5.8. Í kosningum á fundum eru ákvarðanir teknar með einföldum meirihluta.
5.9. Fundir félagsins skulu fara fram samkvæmt hefðbundnum fundarskaparreglum.
5.10. Boða skal til almennra félagsfunda með viku fyrirvara með óvefengjanlegum hætti.
6. Lög og stefnumál
6.1. Þessi lög eru öll lög félagsins, en þeim má breyta á aðalfundi með 2/3 hlutum atkvæða. Einnig má breyta þeim með 2/3 atkvæða á kosningakerfi flokksins.
6.2. Samfara þessum lögum skal vera grunnstefnuskjal félagsins. Gilda sömu reglur um breytingar á grunnstefnu og á lögum.
6.3. Tillögur að breytingum á lögum eða grunnstefnu flokksins skulu liggja fyrir á vettvangi flokksins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.
6.4. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta í gegnum rafræn kosningakerfi félagsins.
6.5. Stefna má aldrei ganga gegn grunnstefnu félagsins.
6.6. Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins.
6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.
6.8. Stefna er ákveðin með einföldum meirihluta í rafrænni kosningu þar sem fjöldi greiddra atkvæða nær 10% af fjölda virkra félagsmanna.
6.8.1 Fjöldi virkra félagsmanna er hámark af fjölda virkra félagsmanna úr félagatali eða fjöldi atkvæða í síðustu atkvæðagreiðslu.
6.9. Að jafnaði skulu rafrænar kosningar standa yfir í 6 daga.
6.10. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki framkvæmdaráðs, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar.
6.11. Sérhver félagsmaður má stofna málefnahóp í kringum stefnumál. Tilkynna skal félagsmönnum um stofnun vinnuhóps.
6.12. Öllum er heimilt að taka þátt í málefnahóp, fundir þeirra skulu alltaf vera opnir.
6.13. Málefnahópur skal velja sér ábyrðgarmann og fundarritara.
6.14. Málefnahópur skilar reglulega skýrslu til félagsmanna um störf sín, í það minnsta þegar starf hópsins lýkur.
7. Framkvæmdaráð
7.1. Framkvæmdaráð annast almenna stjórn og rekstur félagsins.
7.2. Í framkvæmdaráði sitja sjö manns, sem skipta með sér verkum.
7.3. Félagsmenn aðrir en kjörnir fulltrúar geta átt sæti í framkvæmdaráði. Þó skal enginn sitja meira en tvö ár samfleytt í framkvæmdaráði.
7.4. Fimm meðlimir framkvæmdaráðs eru kjörnir í kosningu á aðalfundi, og fimm til vara. Kosning skal fara fram með STV forgangskosningu.
7.5. Condorcet sigurvegari skal vera formaður, sé hann til. Annars skal hann ráðinn út frá Schultze aðferðinni.
7.6. Tveir meðlimir framkvæmdaráðs eru valdir með slembivali, og tveir til vara. Allir félagsmenn sem hafa ekki verið slembivaldir í framkvæmdaráð eru í slembivalinu.
7.7. Slembival skal fara fram á eftir kosningu
7.8. Framkvæmdaráð skal funda að lágmarki mánaðarlega, og skal boðað til fundarins með viku fyrirvara.
7.9. Framkvæmdaráðsfundur telst löglegur ef a.m.k. 4 aðalmenn mæta eða senda varamenn sína.
7.10. Ef þrír fundir framkvæmdaráðs í röð falla niður vegna vanskipunar skal boðað til aukaaðalfundar.
8. Úrskurðarnefnd
8.1. Misbresti í framkvæmd eða brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.
8.2. Tveir eru slembivaldir á aðalfundi til að sitja í úrskurðarnefnd til næsta aðalfundar.
8.3. Þrír eru slembvaldir að auki á félagsfundi þegar upp kemur misbrestur til að úrskurða um það efni.
8.4. Úrskurðarnefnd tekur ákvarðanir aðeins í samræmi við lög félagsins og landslög.
8.5. Komi upp grunur um saknæmt athæfi skal úrskurðarnefnd vísa málinu til lögreglu.
8.6. Komi upp ágreiningur um brottrekstur skal úrskurðarnefnd úrskurða um málið.
8.7. Úrskurður úrskurðarnefndar er bindandi.
9. Starfsmenn
9.1. Framkvæmdaráð er heimilt að ráða framkvæmdastjóra fyrir hönd félagsins ef fjárreiður leyfa.
9.2. Framkvæmdastjóri skal hafa frumkvæði um að ráða almennt starfsfólk félagsins, en framkvæmdaráð skal samþykkja allar ráðningar.
9.3. Félagsdeildum er heimilt að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni.
9.4. Laun framkvæmdastjóra og annara starfsfólks skal ekki vera hærra en þingfararkaup.
9.5. Fastráðning starfsfólks er háð samþykki félagsfundar.
9.6. Upplýsingar um starfsfólk skulu koma fram á vefsíðu félagsins.
10. Aðildarfélög
10.1. Heimilt er að líta svo á að lögaðilar séu aðildarfélög Pírata að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Félag sem óskar eftir að teljast aðildarfélag Pírata sendir umsókn um slíkt til framkvæmdaráðs, ásamt lögum sínum.
Framkvæmdaráð úrskurðar hvort tilvonandi aðildarfélag uppfylli þau skilyrði sem hér eru lögð fram. Sé svo skal aðildarfélagið tafarlaust hljóta aðild, en að öðrum kosti skal því tilkynnt um þá ágalla sem á umsókninni eru.
10.2. Aðildarfélögum er óheimilt að ganga gegn lögum eða grunnstefnu Pírata. Úrskurðarnefnd er heimilt að fella niður aðild félags sem brýtur gegn lögum eða grunnstefnu.
10.3. Framkvæmdaráð heldur sameiginlega félagaskrá fyrir öll aðildarfélög Pírata. Allir félagar aðildarfélags teljast jafnframt félagar í Pírötum. Nú segir félagsmaður sig úr félaginu eða aðildarfélagi og hann gegnir trúnaðarstöðu hjá því og skal framkvæmdaráð þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.
10.4. Aðildarfélagi ber að skila fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum sínum til framkvæmdaráðs. Hafi slík gögn borist fyrir lok júnímánaðar telst aðildarfélag vera virkt.
10.5. Aðildarfélagi ber að skilgreina í lögum sínum hvenær það teljist starfhæft. Uppfylli aðildarfélag ekki eigin skilyrði um starfhæfni skal því slitið. Einnig skal aðalfundi Pírata heimilt að boða aðalfund í eða slíta óvirku aðildarfélagi.
Eignir aðildarfélaga skulu renna til Pírata við félagsslit.
10.6. Starfssvæði svæðisbundins aðildarfélags skal vera minnst eitt sveitarfélag.
Einungis skal eitt svæðisbundið aðildarfélag starfa í hverju sveitarfélagi. Þó skal heimilt að stofna aðildarfélag sem nær yfir heilt kjördæmi með aðkomu allra virkra aðildarfélaga innan þess kjördæmis.
Úrskurðarnefnd sker úr um ágreining um starfssvæði.
10.7. Aðildarfélagi er heimilt að skipta starfsemi sinni frekar. Aðildarfélagi ber að gera framkvæmdaráði grein fyrir slíkri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.
11. Fjármál
11.1. Bókhaldsár félagsins er almanaksárið.
11.2. Félagið skal lúta lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.
11.3. Bókhald félagsins skal vera opið almenningi á vefsíðu félagsins. Það skal uppfært jafn óðum, með fyrirvara um villur og samþykki aðalfundar.
11.4. Samþykktir ársreikningar skulu liggja fyrir á vefsíðu félagsins.
11.5. Félaginu er eingöngu heimilt að taka lán fyrir rekstri og öðrum útgjöldum félagsins ef áætlaðar tekjur eru fyrirsjáanlegar og öruggar. Engin lán sem binda félagið mega fara fram án samþykkis framkvæmdaráðs.
11.6. Félaginu er ekki heimilt að lána öðrum lögaðilum fé.
11.7. Öll fjárútlát sem fara yfir 200.000 kr, miðað við neysluvísitölu 1. október 2012 skulu vera skriflega samþykkt af framkvæmdastjóra eða gjaldkera.
11.8. Fé sem situr eftir í sjóðum eftir bókhaldsárið skal renna í sjóð næsta árs.
12. Þátttaka í kosningum
12.1. Þátttaka í kosningum er á ábyrgð aðildarfélaga á kjörsvæði.
Hafi aðildarfélögum innan kjördæmis til Alþingiskosninga ekki komist saman um annað skal starfa kjördæmisráð skipað einum fulltrúa fyrir hvert sveitarfélag þar sem Píratar hafa starfsemi.
12.2. Framkvæmdaráð annast samræmingu kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélögin. Framkvæmdaráði er heimilt að útbúa kosningastefnuskrá fyrir Alþingiskosningar út frá samþykktri stefnu.
12.3. Heimilt er að stofna til kosningabandalags við Alþingiskosningar.
Aðildarfélögum er heimilt að veita samskonar heimild í lögum sínum hvað varðar sveitarstjórnarkosningar.
12.4. Allir félagsmenn, sem kjörgengir eru til þeirra kosninga sem um ræðir, geta gefið kost á sér á framboðslista.
12.5. Raða skal á framboðslista samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsmanni er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal raða á lista með endurtalningu atkvæða að brottfelldum frambjóðanda.
Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.
13. Störf þingflokks og annarra kjörinna fulltrúa
13.1. Þingmenn Pírata eru ábyrgir gagnvart félaginu í heild.
Sveitarstjórnarfulltrúar eru ábyrgir gagnvart því svæðisbundna aðildarfélagi sem starfar í sveitarfélagi þeirra.
13.2. Fundir þingflokka og sveitarstjórnarflokka mega vera lokaðir þrátt fyrir ákvæði 5. gr. séu málefnalegar ástæður fyrir því.
13.3. Haldi þingflokkur eða sveitarstjórnarflokkur lokaðan fund hefur hann tilkynningarskildu til félagsmanna um efni fundarins og ástæður fyrir lokun.
13.4. Framkvæmdaráð getur óskað eftir því að kjörnir fulltrúar mæti á fund sinn.
13.5. Fulltrúar í þingflokkum og sveitarstjórnarflokkum skiptast á að gegna þeim embættum sem skylt er að þau taki sér, eigi lengur en til árs í senn.
13.6. Tilheyri þingflokkur minni hluta á Alþingi og geti ekki fengið aðstoðarmann til starfa á þinginu nema með því að hafa formann, skal einn þingmaður gegna embætti formanns félagsins, eitt þing í senn. Skal hann slembivalinn eftir þingkosningar, en gangi það í keðju þar eftir. Hann hafi ekki aukin pólitísk völd og afþakki formannsálag á þingfararkaup. Þingflokksformaður getur ekki einnig verið formaður félagsins.
13.7. Aðstoðarmenn þingflokka eða sveitarstjórnarflokka skulu að jafnaði starfa fyrir flokkinn sem heild.
14. Framfarafundur
14.1. Framfarafundur skal haldin á 8 vikna fresti.
14.2. Framkvæmdaráð skal boða til fundarins með amk. viku fyrirfara og skal hann auglýstur samkvæmt reglum flokksins sem varða tilkynninga og auglýsingaskyldu fundarhalda.
14.3. Framkvæmdaráð sér um að skipuleggja fundinn ásamt þingmönnum og málefnahópum séu þeir til staðar.
14.4. Á framfarafundi skal koma fram ítarleg úttekt á störfum þinghóps, framkvæmdaráðs og málefnahópa.
14.5. Á fundinum skal fara fram umræða um störf þinghóps, framkvæmdaráðs og málefnahópa.
15. Félagsslit
15.1. Félagsslit geta aðeins farið fram sé tillaga um slíkt á auglýstri dagskrá löglegs aðalfundar og samþykkt með ¾ hluta fundarmanna.
15.2. Við félagsslit skulu eignir félagsins renna til Pirate Parties International.