Lagabreyting: Slembival á aðalfundi

Þessi tillaga er úreld. Nýrri útgáfa hefur tekið gildi.
Á aðalfundi félagsins árið 2013 var samþykkt undanþága frá lögum um að hver einasta félagsmaður væri í slembivalsmenginu og í staðinn væri það takmarkað við viðstadda félagsmenn. Við hæfi er að setja það í lög og nánari ákvæði um framkvæmd svo það fari ekki milli mála.

Meginreglan verður sú að eingöngu viðstaddir félagsmenn séu í slembivali og geta þeir sagt sig úr því, kjósi þeir svo. Þá geti fjarstaddir félagsmenn skráð sig í slembivalið en þurfa að gera það á skýran og ótvíræðan hátt með tilkynningu til framkvæmdaráðs eða aðalfundar. Yfirlýsingar fjarstaddra félagsmanna verða þá túlkaðar svo að þeir samþykki allar þær stöður sem þeir eru slembivaldir í.

Sé félagsmaður viðstaddur er hann spurður hvort hann vilji stöðuna. Hafni hann stöðunni er slembivalið endurtekið. Hafi félagsmaðurinn þegar verið valinn í sömu stöðuna eða getur ekki uppfyllt lagaskilyrðin til að gegna stöðunni, þá er slembivalið endurtekið án þess að spyrja félagsmanninn. Ef staðan inniheldur þau skilyrði að hann megi ekki gegna henni á sama tíma og öðrum stöðum er eðlilegt að spyrja hann, enda getur hann uppfyllt lagaskilyrðið ef hann svo kýs. Þar að auki hefur viðkomandi ekki formlega tekið við stöðunni þar sem allar stöðubreytingar taka gildi eftir að fundinum lýkur og hefur því tækifæri til að velja.

Sú staða gæti komið upp að fjarstaddur félagsmaður er slembivalinn eða kosinn í stöðu og síðan slembivalinn í stöðu þar sem bannað er að gegna öðrum trúnaðarstöðum. Í þeim tilvikum myndi félagsmaðurinn vera útilokaður sjálfkrafa þar sem hann ekki er gert ráð fyrir að spyrja hann í tæka tíð fyrir lok aðalfundar hvora stöðuna hann vill. Það skilyrði myndi ekki virkjast ef félagsmaðurinn hefur tilgreint það sérstaklega í yfirlýsingunni að hann vilji frekar þá stöðu og myndi þar af leiðandi detta út úr þeim til að taka við þeirri sem hann var slembivalinn í. Hafi hann verið slembivalinn í þær stöður sem hann datt út væri rétt að endurtaka slembivalið fyrir þau sæti sem hann fór úr. Þegar röð skiptir máli varðandi slembival myndu þau sem eru slembivalin í staðinn raðast aftan við aðra slembivalda.
Málsnúmer: 17/2014
Tillaga:Lög Pírata
Höfundur:Kjarrval
Í málaflokkum:Innra skipulag Pírata
Upphafstími:08/08/2014 15:04:48
Atkvæðagreiðsla hefst:09/08/2014 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðslu lýkur:15/08/2014 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæði: 13
Já: 13 (100.00%)
Nei: 0
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:66.67%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.