Um samskipti ráðherra og Alþingis

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.

Stjórnskipan Íslands byggir á svonefndri þingræðisreglu, og hefur gert frá árinu 1904. Í henni felst að stjórnsýsla landsins starfar í umboði þingsins, sem er þannig jafnframt falið eftirlit með störfum hennar. Fyrirkomulagið er tryggt með því að æðsti embættismaður ríkisins starfar með stuðningi þingsins - eða a.m.k. ekki gegn vilja þess. Hér á landi er þessi embættismaður titlaður forsætisráðherra.

Víða erlendis er það viðtekin venja að ráðherrar sinni engum öðrum störfum; nánar tiltekið, að á þeim hvíli hvorki skyldur né réttindi þingmanna. Þessi venja hefur ekki náð fótfestu á Íslandi, þó ekkert í stjórnarskrá komi í veg fyrir að henni sé fylgt. Afleiðing þessa er að forysta bæði Alþingis og ríkisstjórnar - löggjafar- og framkvæmdavalds - er í höndum sömu einstaklinganna.

Þetta er ekki einsdæmi, en hið sama á t.d. við um stjórnskipan Bretlands. Engu að síður er fyrirkomulagið afar umdeilt innanlands. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýjum stjórnskipunarlögum er gert ráð fyrir að því verði breytt með kröfu í stjórnarskrá.

Tillagan sem hér liggur fyrir leggur til að Píratar beiti sér fyrir því að þessari hefð verði breytt áður en ný stjórnarskrá taki gildi. Hún byggist á því að flokkurinn hafni aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar. Ekki er tekið fram hvort það eigi að gera með því að fá utanþingsráðherra, eða krefjast þess að ráðherrar víkji úr sæti á þingi á meðan þeir gegna embættinu. Vel má hugsa sér að í einni ríkisstjórn megi finna hvort tveggja. Með tillögunni er lagt til að gert skuli að algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á. Gildir þar einu hvort Píratar væru leiðandi í stjórnarsamstarfi eða ekki. Þó er vert að hafa í huga að orðalagið útilokar ekki að Píratar verji minnihlutastjórn annarra flokka, sem skipuð er þingmönnum, falli.

Stærsta og veigamesta röksemdin fyrir þessu er sú sem reifuð var hér að ofan: Hlutverk ríkisstjórnar er að framfylgja vilja þingsins, og hlutverk þingsins er að fylgjast með því að ríkisstjórnin fari eftir settum reglum. Þegar engin aðgreining er á forystu ríkisstjórnar og þingsins verður nær ómögulegt að gera raunverulegan greinarmun á því hvort það er þingið eða stofnanir framkvæmdavaldsins sem ráða för. Með fyllri aðgreiningu ríkisstjórnar og þings opnast í mun ríkari mæli fyrir möguleika þingsins á að hafa raunverulega getu til að beina tilmælum til ráðherra og veita framkvæmdavaldinu nauðsynlegt aðhald.

Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga hvaða áhrif þessi skipan hefur á getu þingsins til að sinna störfum sínum með viðunandi hætti. Störf ráðherra eru það viðamikil að það er í reynd útilokað að sinna bæði þeim og skyldum þingmanns með viðunandi hætti. Þetta bitnar jafnan á þingskyldunum, samanber þá staðreynd að ráðherrar eru undanskildir nefndasetu á þingi. Afleiðingin er sú að þingmönnum er í raun fækkað um jafn marga og nemur ráðherrafjöldanum hverju sinni. Það munar um þann fjölda. Með þessari ráðstöfun er staða þingsins þannig styrkt á margvíslegan hátt.

Málsnúmer: 7/2016
Tillaga:Um samskipti ráðherra og Alþingis
Höfundur:odin
Í málaflokkum:Innra skipulag Pírata, Lýðræði
Upphafstími:11/02/2016 14:00:04
Umræðum lýkur:24/02/2016 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðsla hefst:16/02/2016 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðslu lýkur:24/02/2016 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæði: 122 (3 sitja hjá)
Já: 115 (94.26%)
Nei: 7
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:50.00%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.