Ráðning starfsmanna
Málsnúmer: | 48/2016 |
---|---|
Tillaga: | Ráðning starfsmanna |
Höfundur: | odin |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 12/06/2016 12:48:46 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/06/2016 13:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 12/06/2016 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 80 (3 sitja hjá) |
Já: | 61 (76,25%) |
Nei: | 19 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Níundi kafli orðist svo:
> 1. Framkvæmdaráði er heimilt að ráða framkvæmdastjóra fyrir hönd félagsins ef fjárreiður leyfa.
>
> 2. Framkvæmdastjóri skal hafa frumkvæði að ráðningu annars starfsfólk félagsins.
> Endanleg ráðning skal vera háð samþykki framkvæmdaráðs.
>
> Sé framkvæmdastjóri ekki starfandi skal framkvæmdaráði heimilt að leggja tillögu fyrir rafrænt kosningakerfi félagsins um að ráðið skuli í aðra stöðu.
> Starfslýsing stöðunnar skal fylgja tillögunni.
> Sé tillögunni hafnað er ráðinu óheimilt að skrifa undir ráðningarsamning.
>
> 3. Laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks skal ekki vera hærra en þingfararkaup.
>
> 4. Með samþykki 2/3 fundarmanna á almennum félagsfundi skal vísa tillögu um brottvikningu starfsmanns til rafrænna kosninga.
> Slík tillaga skal koma fram í fundarboði.
> Aldrei má bera slíka tillögu fram nema að undangenginni tilraun til sáttamiðlunar trúnaðarráðs skv. kafla 8.a..
> Trúnaðarráði skal þó heimilt að vísa tillögu um brottrekstur til rafrænnar kosningar án félagsfundar.
>
> Sé tillagan samþykkt í kosningakerfinu með meira en ? hluta atkvæða er framkvæmdastjóra eða framkvæmdaráði skylt að segja viðkomandi starfsmanni upp störfum.
> Framkvæmdaráði eða framkvæmdastjóra er heimilt að segja starfsfólki upp störfum án aðkomu félagsfundar.
>
> 5. Upplýsingar um starfsfólk skulu koma fram á vefsíðu félagsins.
Athugasemdir
Í lögum Pírata er eins og stendur einungis heimild fyrir framkvæmdaráð til að ráða framkvæmdastjóra til starfa.
Þetta hefur áður valdið nokkrum erfiðleikum.
Fyrir síðustu kosningar til Alþingis var þetta leyst með því að ráða framkvæmdastjóra tímabundið.
Sá framkvæmdastjóri gekk síðan frá samningum við kosningastjóra og aðra sem gerðu víkjandi verktökusamninga við flokkinn.
Eftir kosningar stóð til að framkvæmdastjórinn yrði ráðinn ótímabundið.
Samkvæmt núgildandi lögum er nauðsynlegt að staðfesta slíka ráðningu á félagsfundi.
Niðurstaða þess varð að félagsfundur neitaði að staðfesta ráðninguna – en hafnaði henni þó ekki – og óskaði eftir því að staðan yrði auglýst til umsóknar.
Afleiðing þess varð að fyrrverandi framkvæmdastjóri sóttist ekki frekar eftir stöðunni.
Fram hafa komið áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag muni geta valdið vandræðum við ráðningar í framtíðinni.
Hér eru lagðar fram tvær efnislegar breytingar á lögum Pírata til að greiða úr báðum þessum vandamálum.
Annars vegar er lagt til að framkvæmdaráði verði heimilað að ráða beint í aðra stöðu en stöðu framkvæmdastjóra, ef enginn slíkur starfar.
Hins vegar er lagt til að krafan um staðfestingu félagsfundar á hverri ráðningu fyrir sig verði felld niður, en í stað hennar verði félagsmönnum gert kleift að leggja fram nokkurskonar vantrauststillögu á starfsmenn flokksins.
Sterkar kvaðir eru lagðar á heimild framkvæmdaráðs til að ráða starfsmenn aðra en framkvæmdastjóra.
Markmið þeirra er að tryggja að ráðning almennra starfsmanna sé framkvæmd með staðfestingu tveggja aðila.
Þannig getur framkvæmdastjóri ekki ráðið starfsmenn án staðfestingar framkvæmdaráðs, og framkvæmdaráð ekki án staðfestingar flokksmanna.
Vert er að hafa í huga að framkvæmdaráð þarf ekki að fá staðfestingu fyrir því að ráða tiltekinn einstakling, heldur einungis fyrir því að ráða megi í stöðuna.
Þó ekki sé útlit fyrir að þessi heimild verði nýtt í fyrirsjáanlegri framtíð er engu að síður betra að hafa þessi mál á hreinu, ef svipuð staða og verið hefur uppi undanfarin þrjú ár skapast á ný.
Krafa um staðfestingu félagsfundar á ráðningu er einnig felld á brott.
Í stað hennar kemur heimild til vantraustsyfirlýsingar á starfsmann.
Slíka tillögu þarf að samþykkja með auknum meirihluta á félagsfundi, og fer hún þá áfram í kosningu í kosningakerfinu.
Ef tillagan er svo samþykkt þar, með auknum meirihluta atkvæða, er skylt að segja viðkomandi upp störfum.
Fer þar að sjálfsögðu eftir ákvæðum samninga og laga um uppsagnarfrest.
Að auki eru gerðar sérstakar kröfur til þess að leggja slíka tillögu fyrir félagsfund:
Tillagan þarf að koma fram í fundarboði, sem þýðir að efni hennar þarf að koma fram, þó hún sé ekki endilega orðrétt.
Þetta þýðir að efnislegar breytingar eru ekki leyfðar á félagsfundinum.
Einnig er krafa um að trúnaðarráð hafi tekið mál starfsmannsins fyrir, og leitast við að leysa þann ágreining sem um er að ræða í góðu.
Með þessum ráðstöfunum er leitast við að koma í veg fyrir að ráðning starfsfólks geti orðið að vopni í innanflokksátökum á kostnað starfsmanna.
Að lokum er lagt til að grein sem er fyrir löngu orðin ógild verði felld brott úr kaflanum.
Það er heimild til félagsdeilda – en félagsdeildir hafa ekki verið í lögum Pírata frá því 2013 – til að ráða starfsfólk til sín tímabundið.
Ein fyrsta lagabreyting sem gerð var á lögum Pírata var að setja aðildarfélög í stað félagsdeilda.
Engin þörf er á að heimila þeim sérstaklega að ráða starfsfólk, heldur fer einfaldlega að lögum viðkomandi félags um slíkt.