Tímamörk kosninga á framboðslista
Málsnúmer: | 52/2016 |
---|---|
Tillaga: | Tímamörk kosninga á framboðslista |
Höfundur: | odin |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 12/06/2016 12:54:58 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/06/2016 13:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 12/06/2016 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 88 (4 sitja hjá) |
Já: | 41 (46,59%) |
Nei: | 47 |
Niðurstaða: | Hafnað |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Þriðja málsgrein gr. 12.1 verður sérstök grein, 12.2, og breytist tölusetning síðari greina til samræmis.
Við greinina bætist ný setning, og orðast hún í heild svo:> Starfi engin aðildarfélög innan kjördæmis til alþingiskosninga er framkvæmdaráði heimilt að standa fyrir kjöri á lista fyrir það kjördæmi.
> Einnig skal framkvæmdaráði heimilt að standa fyrir kjöri á lista ef aðildarfélög innan kjördæmis til alþingiskosninga hafa ekki framkvæmt slíkt kjör mánuði áður en framboðsfrestur rennur út.
> Skulu allir félagsmenn Pírata hafa kosningarétt í kjöri á vegum framkvæmdaráðs.
> Þeir sem raðast í fimm efstu sæti slíks lista bera ábyrgð á þátttöku hans í kosningum.Á eftir gr. 12.5 kemur ný grein, og orðast hún svo:
> Kosið skal á framboðslista innan fjögurra mánaða fyrir kjördag þeirra kosninga sem listinn er til.
Athugasemdir
Á aðalfundi Pírata 2015 var bætt við grein 12.1 reglu sem heimilar framkvæmdaráði að halda kosningar á framboðslista ef engin aðildarfélög starfa innan kjördæmis fyrir Alþingiskosningar.
Rökstuðningur þeirrar breytingar var að vegna reglna um jöfnunarsæti, sem áskilja að stjórnmálasamtök sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum eigi ekki kost á jöfnunarsætum, er ekki tækt að aðstæður í einu kjördæmi geti orðið til þess að draga gríðarlega úr möguleikum flokksins á að ná kjöri.
Sambærileg rök eiga við ef aðildarfélög innan kjördæmis ná einhverra hluta vegna ekki að sinna því hlutverki sínu að sjá um þátttöku flokksins í kosningum til Alþingis.
Lagt er til að viðbótin frá síðasta aðalfundi verði gerð að sérstakri grein, og að við þá nýju grein verði bætt setningu sem heimilar framkvæmdaráði einnig að annast kosningu á framboðslista ef hún hefur ekki farið fram þegar mánuður er að lokum framboðsfrests.
Vert er að hafa í huga að hér er einungis um að ræða heimild, og í hæsta máta ólíklegt að hún verði nýtt ef aðildarfélög eða kjördæmisráð hafa þegar skipulagt kosningu, þó svo hún fari fram síðar.
Seinni grein þessarar breytingar setur svo ytri mörk á það hve löngu fyrir kosningar hægt er að kjósa á framboðslista.
Mögulegt er að túlka greinina á tvo vegu.
Annars vegar má skilja hana sem svo að ekki sé heimilt að kosning á framboðslista fari fram fyrr en minna en fjórir mánuðir eru í auglýstan kjördag.
Hins vegar má skilja hana svo að ekki sé heimilt að nota niðurstöður úr framboðslistakosningu sem fram fór meira en fjórum mánuðum fyrir kjördag.
Greinin er stuttorð, en hefur engu að síður nokkrar afleiðingar.
Fyrsta afleiðingin er að ekki er hægt að halda bindandi kosningu á framboðslista nema kjördagur liggi fyrir.
Ekkert kemur þó í veg fyrir að framboðslistakosning fari fram.
Verði kjördagur síðan auglýstur, og sé innan fjögurra mánaða, er heimilt að byggja framboðslista Pírata á niðurstöðum þeirra.
Falli kjördagur hins vegar utan þess ramma er nauðsynlegt að halda framboðslistakosningu að nýju.
Þessi takmörkun er lögð til af tveimur ólíkum ástæðum.
Annars vegar er nauðsynlegt að taka tillit til þess að aðstæður geta tekið örum breytingum, og engan veginn er víst að niðurstöður kosninga séu sambærilegar ef langur tími líður á milli, jafnvel þótt frambjóðendur væru hinir sömu.
Það er aftur á móti engan veginn tryggt, sérstaklega ekki undir kringumstæðum eins og nú eru, þar sem starf Pírata er enn að víkka gríðarlega út.
Það er því mikilvægt að umboð frambjóðenda Pírata sé ekki margra mánaða gamalt, eða jafnvel nálægt ársgamalt, þegar til kosninga kemur.
Hins vegar verður að líta til þeirrar stöðu sem frambjóðendur hljóta eftir að kosningin er afstaðin, og þess hvaða áhrif það hefur á getu frambjóðenda til að taka þátt.
Framboð til Alþingis, hvort sem kosningarnar eru á næstu grösum eða eftir langa hríð, getur haft mikil áhrif á atvinnumöguleika fólks.
Það getur skipt miklu um möguleika fólks til að gefa kost á sér hversu lengi það verði opinberlega í stöðu frambjóðanda, og í flestum tilvikum leiðir styttra tímabil til þess að fleiri eiga möguleika á þátttöku.
Ekki liggur fyrir kjördagur fyrir Alþingiskosningar sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað á árinu 2016.
Þrálátur orðrómur er þó um að kosið verði 22. október.
Miðað við þær reglur sem hér eru lagðar til, og að sá tími gangi eftir, hefst fjögurra mánaða ramminn 22. júní, tíu dögum eftir afgreiðslu þessarar tillögu.
Aðeins eitt kjördæmi, NA, hefur lagt til að hefja framboðslistakosningu fyrr - tveimur dögum fyrr.
Jafnvel þar er ekki gert ráð fyrir að kosningu ljúki fyrr en innan rammans.
Því verður ekki séð að samþykkt þessarar breytingar setji neinar áætlanir úr skorðum nema til þess komi að ekki verði staðið við gefin loforð um kosningar í haust.
Verði ekki staðið við þau loforð er erfitt að sjá að forsendur þeirra áætlana standist að öðru leyti.