Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn
Samþykkt á félagsfundi 15.6.2016 (https://docs.google.com/document/d/1giKHGk7YhTZTbiFQN7_JH8ofvQvrfxIReZtx639cfRg)
Málsnúmer: | 54/2016 |
---|---|
Tillaga: | Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn |
Höfundur: | bjornlevi |
Í málaflokkum: | Fjárlög, ríkisfjármál og opinber innkaup, Menntamál |
Upphafstími: | 27/06/2016 10:26:01 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 04/07/2016 10:26:01 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 11/07/2016 10:26:01 (0 minutes) |
Atkvæði: | 132 |
Já: | 120 (90,91%) |
Nei: | 12 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
Gr. 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
Gr. 2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
Gr. 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Með tilliti til
Stefnu Pírata um velferðar- og heilbrigðismál: "Að leita þurfi leiða til þess að hluti af námslánunum sé styrkur. Ekki er ásættanlegt að hver sá sem kýs að afla sér þekkingar eða menntunar samfélagi sínu til hagsbóta, sé knúinn til þess að skulda fjármálastofnunum til lengri tíma, hvort sem þær eru ríkis- og/eða einkareknar."
Skýrslu samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 um brottfall nemenda.
Álykta Píratar eftirfarandi
- Ríkið skal sjá til þess að allir 18 ára og eldri og hafa lögheimili á Íslandi eða íslenskan ríkisborgararétt geti fengið styrki eða lán til framhalds- og háskólamenntunar, allt að 12 mánuði ársins.
- Tryggja skal öllum skilyrðislausa grunnframfærslu á meðan á námi stendur.
- Námslán svo sem fyrir skólagjöldum skulu vera aðgengileg á hagstæðum kjörum.
- Tekjur einstaklinga skulu ekki skerða námslán eða námsstyrki.
- Framfærslan skal greidd fyrirfram og mánaðarlega.
- Löggjafavaldið skal ákvarða skilmála um námslán og námsstyrki í langtímaáætlunum um menntamál.
- Við endurgreiðslu námslána skal leyfilegt að greiða inn á höfuðstólinn umfram lántökuskilmála eða greiða upp lánið, hvenær sem er, án aukakostnaðar.
Greinargerð
Markmið stefnunnar er að tryggja skuli að fólki í framhalds- og háskólanámi fulla grunnframfærslu. Grunnframfærsluna má miða við eðlilegar fjárþarfir fólks svosem framfærsluviðmið eða lágmarkslaun. Grunnframfærsla námsmanna í útlöndum skal vera hlutfall af grunnframfærsluviðmiði á Íslandi með tilliti til framfærsluviðmiðs þess lands sem námsmaður stundar nám í. Námslán og námsstyrkir skulu greidd fyrirfram, sem er nauðsynlegt til að fyrirbyggja óeðlilega skuldasöfnun námsmanna og minnka stress vegna peningaáhyggja.
Píratar vilja gera framhaldsmenntun að góðum valkost fyrir sem flesta borgara, gildir þá einu hvort um sé að ræða bóklega menntun eða verkmenntun, erlendis eða innanlands. Til þess er ljóst að íslenska ríkið þarf að hafa skýra langtímastefnu í málefnum framhaldsmenntunar og vera reiðubúið að gæta og tryggja grunnframfærslu nemenda í framhaldsnámi og háskólanámi ásamt öðrum mögulegum fjárhagslegum hagsmunum.
Í stefnunni er gert ráð fyrir að allir 18 ára og eldri sem hafa lögheimili á Íslandi eða íslenskan ríkisborgararétt geti fengið námslán eða námsstyrki til þess að greiða mánaðarlegan framfærslukostnað. Framfærsluskylda foreldra nær einmitt til 18 ára aldurs. Æskilegt er að tekið verði upp styrkjakerfi sem tryggir skilyrðislausa grunnframfærslu nemenda hið allra fyrsta, en einnig skal námsmönnum tryggður aðgangur að námslánum á hagkvæmum kjörum, hvort sem er hjá stofnunum ríkisins eða hjá öðrum fjármálastofnunum.
Námslán eða námsstyrki skal ekki skerða þó nemendur afli sér annarra tekna á meðan á námi stendur, enda greiða námsmenn skatta séu tekjur umfram persónuafslátt. Koma skal í veg fyrir tekjuskerðingu vegna námslána til að koma í veg fyrir háan jarðarskatt sem sé vinnuletjandi og ýtir undir möguleg undanskot frá skatti.
Ríkið skal gæta og tryggja hagsmuni nemenda samkvæmt stefnunni, hvort sem um er að ræða námsstyrki eða gagnvart lánveitendum. Til að gæta jafnræðis má ætla að ef boðið verður upp á námsstyrki munu þeir endast í tiltekinn árafjölda. Standi nám lengur yfir eða ef einstaklingur hefur annað nám skal tryggja hagkvæm námslán. Einnig skal ríkið stuðla að hagkvæmum lánum til greiðslu skólagjalda. Þannig að ef námsmaður lýkur ekki tilteknum námsárangri geti hann sótt um aukið svigrúm til að ljúka námi eða hefja endurgreiðslur láns. Aukið svigrúm á ekki að hafa áhrif á námstyrk.
Erlendir ríkisborgarar sem hafa lögheimili á Íslandi hafa rétt til námslána og námsstyrkja.
Í langtímaáætlun um menntamál skal löggjafavaldið m.a. taka tillit til eftirfarandi
- Að framvindukröfur hvers og eins námsmanns verði lagðar af, en þess í stað geti komið almennar kröfur um að námsán og námsstyrkir verið greiddir í tiltekinn árafjölda.
- Að veita námsstyrki í anda þess sem í boði eru á Norðurlöndum, sem hvetja nemendur til að sinna námi sínu af alúð og skuldsetja sig sem minnst.
- Möguleika á hagstæðum námslánum fyrir þá sem óska þess vegna skólagjalda, hækkaðs framfærslu (t.d. vegna fjölskylduaðstæðna) eða vegna langs námstíma.
- Námslán séu hagstæð lánþegum og skapi sem minnsta byrði, áhyggjur eða kvíða á meðan á námi stendur og eftir að námi lýkur.
- Hvort ríkið skuli standa að baki námslánum eða hvort viðskiptabönkum eða öðrum fjármálafyrirtækjum verði falið að veita lánin á þeim forsendum sem löggjafavaldið ákveður.
- Að mögulegt verði að greiða námslán hraðar en áætlað var við lántöku án þess að til komi aukalegur kostnaður lántaka.
- Hvort mögulegt verði að fella niður eða afskrifa hluta af endurgreiðslu námslána í hlutfalli við þá mánuði sem viðkomandi borgar skatt á Íslandi að námi loknu, þ.e. nýtir námið, hvaðan sem það er, til þess að auðga íslenskt atvinnulíf.
- Hvort æskilegt sé að leggja alfarið eða að miklu leyti niður eftirlit með námsframvindu og tekjum námsmanna, aðra en þá hvar lögheimili er skráð á landinu, hvert ríkisfangið er og hversu lengi einstaklingur hefur verið skráður í nám.
- Hvort yngri námsmenn en 18 ára geti óskað eftir fjárhagslegum stuðningi til náms við sérstakar aðstæður.