Endurbætur á lögum um Upplýsingaráð
Þessar tillögur fela í sér þrennar breytingatillögur er varða Upplýsingaráð. Fyrst, að sætta mismunandi sjónarmið er varða grein 9.16, gera okkur kleyft að mynda virkt upplýsingaráð án þess að halda nýjan aðalfund, og taka út formann og varaformann.
Þó er vert að geta þess að Upplýsingaráð hefur heimild til þess að nota þá titla kjósi það svo.
Málsnúmer: | 65/2016 |
---|---|
Tillaga: | Endurbætur á lögum um Upplýsingaráð |
Höfundur: | HalldorArason |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 27/07/2016 20:33:04 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 10/08/2016 21:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 17/08/2016 21:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 84 (11 sitja hjá) |
Já: | 75 (89,29%) |
Nei: | 9 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Breytingartillaga þessi felur í sér að greinum 9.3, 9.4, 9.7, 9.11, 9.12, 9.15 og 9.16 um upplýsingaráð verði breytt svo í þeim standi eftirfarandi:
9.3. Fulltrúar kjörnir á aðalfundi kallast landsfélagsfulltrúar. Þeir bera ábyrgð á því að starfsemi ráðsins sé virk og sjá um að senda út fundarboð.
9.4. Framkvæmdaráð skipar allt að tvo áheyrnarfulltrúa í upplýsingaráð. Það val getur sætt endurskoðun og má framkvæmdaráð velja nýja fulltrúa eftir þörfum. Því þarf ekki að skipa sérstaka varamenn. Slíkir áheyrnarfulltrúar sitja fund áfram þó svo ákveðið sé að loka fundi í samræmi við grein 9.18.
9.7. Upplýsingaráð velur sér sjálft ritara og önnur embætti sem það telur sig þurfa.
9.11. Upplýsingaráðsfundur telst löglegur ef a.m.k. 5 aðalmenn eru viðstaddir eða varamenn þeirra. Varamaður hvers aðalmanns hefur forgang. Varamenn landsfundarfulltrúa eru næstir og taka sæti fulltrúa sem er fjarverandi á fundi, sé þeirra varamaður heldur ekki á fundinum. Hafi þeir þegar tekið sæti, eða séu ekki til staðar, og þarf enn að manna sæti aðalmanna, mega þeir ráðsmenn sem tekið hafa sæti sjálfir ákveða hver af viðstöddum varamönnum taki þau sæti aðalmanna sem eftir á að fylla með einföldum meirihluta.
9.12. Haldi upplýsingaráð ekki löglegan fund í 60 daga, skal framkvæmdaráð boða til neyðarfundar upplýsingaráðs. Falli sá fundur niður sökum vanmönnunar, eða sé það niðurstaða fundarins að ráðið sé óstarfhæft, skulu báðir landsfélagsfulltrúar víkja og varamenn þeirra taki sæti. Þeir skulu þá gera kjördæmaráðum og þingflokki grein fyrir stöðu mála og krefjast endurskoðunar á fulltrúum þeirra. Takist ekki að manna upplýsingaráð á 30 dögum svo það sé starfhæft skal boða til auka-aðalfundar. Gerist það aftur í setu sama upplýsingaráðs að ekki sé haldinn löglegur fundur í 60 daga skal einnig boða til auka-aðalfundar.
9.15. Séu að minnsta kosti þrír aðalmenn sammála um að komið hafi upp mikilvægt málefni sem krefjist tafarlausrar meðferðar ráðsins skulu landsfélagsfulltrúar boða til aukafundar. Á þann fund þarf að boða alla aðalmenn og varamenn, en það má vera með skemmri fyrirvara en viku. Ákvarðanir þess fundar teljast þó ekki gildar nema þær hljóti aukinn meirihluta.
9.16 Komi upp mál þar sem brýnt þykir að skýra afstöðu félagsins í mikilvægu málefni, þar sem ekki liggur fyrir skýr stefna, hefur upplýsingaráðs heimild til þess að skrifa yfirlýsingu um málið sem senda skal framkvæmdaráði með ósk um að framkvæmdaráð setji það í neyðarkosningu. Geri framkvæmdaráð það og hljóti yfirlýsingin samþykki í kosningu má gefa hana út í nafni félagsins. Aukinn meirihluta Upplýsingaráðs þarf til að fara þessa leið.
Lagt er til að bætt verði við grein 9.4 eftir grein 9.3 og númerum eftirfarandi greina breytt til samræmis. 9.4. Líði aðalfundur hjá án þess að takist hafi að kjósa landsfélagsfulltrúa í upplýsingaráð skal framkvæmdaráð auglýsa eftir framboðum og láta kjósa milli þeirra í kosningakerfi Pírata, svo fljót sem auðið er. Skipar þá framkvæmdaráð staðgengla, en þeir bera ábyrgð á skyldum landsfélagsfulltrúa þangað til kosning fer fram. Líði lengur en þrír mánuðir frá Aðalfundi án þess að landsfélagsfulltrúar séu kjörnir skal boða til auka-aðalfundar þar sem kosið skal um þá.
Lagt er til að grein 6.9 verð breytt svo í henni standi: 6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki framkvæmdaráðs, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Þó þarf ekki staðfestingarkosningu til að staðfesta yfirlýsingu félagsins í samræmi við lög um upplýsingaráð, enda er þar ekki um lög eða stefnu félagsins að ræða.
Greinargerð
9.3. Þetta ákvæði tilgreinir hlutverk landsfundarfulltrúa, en þeir eru ekki lengur sérstaklega tilgreindir sem formaður og varaformaður. Þó er ráðinu frjálst að velja sér formann og varaformann ef það kýs.
9.4 Hér er tilgreint að framkvæmdaráð megi skipa allt að tvo áheyrnarfulltrúa í upplýsingaráð. Ekki er Fjölmiðlunarnefnd tilgreind sérstaklega lengur, þar sem hún kemur ekki annarstaðar fram í lögum félagsins, en framkvæmdaráði er þó frjálst að úthluta þessum sætum til fulltrúa þeirra nefnda eða vinnuhópa sem því þykja eiga erindi að starfinu hverju sinni.
9.7 Hér er tilgreint að ráðið skuli sjálft velja sér þau embætti sem það telji sig þurfa. Eina embættið sem tilgreint er sérstaklega að það skuli velja sér er ritari.
9.11 Þessi grein útlistar reglur um varamenn, og er því orðalagi breytt að fjalla sérstaklega um formann og varaformann. Eftir sem áður er það megin reglan að á eftir fulltrúum hvers félags þá teljist varamenn kjörnir af landsfélaginu almennir varamenn, séu þeir tiltækir.
9.12 Hér er tilgreint hvernig skuli bregðast við falli starfsemi ráðsins niður, eða sinni það ekki hlutverki sínu. Orðalagi sem fjallar um formann og varaformann er breytt og fulltrúar landsfélags gerðir jafn-ábyrgir fyrir að starfsemi haldist í viðunandi lagi.
9.15. Hér er tiltekin heimild til að boða til aukafundar með skemmri fyrirvara en viku. Þá þurfa amk. þrír aðalmenn að vera sammála um að brýnt sé að ráðið komi saman í flýti, og það er þá á ábyrgð landsfélagsfulltrúa að boða til þess fundar alla aðal- og varamenn (hvort þeir eru sjálfir sammála því mati eður ei). Þegar sá fundur kemur saman þarf alltaf aukinn meirihluta til að ákvarðanir hans séu gildar. Tekið er út orðalag sem vísar sérstaklega til formanns eða varaformanns.
9.16 Reglur um hvernig upplýsingaráð megi gefa út yfirlýsingu sem ekki hefur beina skírskotun í Grunnstefnu eða samþykkta stefnu eru tilteknar hér. Þar ætti það að leitast við að túlka vilja félagsins eins og þeim framast er unnt, og er krafist aukins meirihluta ráðsins, samþykkis framkvæmdaráðs og samþykktar grasrótar í kosningu til að tryggja sem best að svo sé. Slík yfirlýsing ætti að vera viðbragð við skyndilegum eða ófyrirséðum atburðum, en ætti ekki að túlkast sem stefnu-ígildi. Upplýsingaráð skyldi einnig óska eftir því við grasrót félagsins að mynda stefnu um málið.