Stefna um útfærslu á samþykkt nýrrar stjórnarskrár
Samþykkt á félagsfundi 9.9.
Málsnúmer: | 71/2016 |
---|---|
Tillaga: | Stefna um útfærslu á samþykkt nýrrar stjórnarskrár |
Höfundur: | Beltiras |
Í málaflokkum: | Ályktanir, Stjórnsýsla og lýðræði |
Upphafstími: | 15/09/2016 18:09:22 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 22/09/2016 23:59:59 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 29/09/2016 23:59:59 (0 minutes) |
Atkvæði: | 86 (2 sitja hjá) |
Já: | 66 (76,74%) |
Nei: | 20 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata:
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
3.2 Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.
4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Með hliðsjón af:
Ályktun aðalfundar Pírata árið 2015 um nauðsynlegar lýðræðisumbætur
Stefnu Pírata um Stjórnarskrá stjórnlagaþings og kosning um ESB viðræður - sjá https://x.piratar.is/issue/173/
Stefnu Pírata um stjórnskipunarlög - sjá https://x.piratar.is/polity/1/document/35/
Lögum nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands - sjá http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
Tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá - sjá http://stjornlagarad.is/otherfiles/stjornlagarad/Frumvarpmed_skyringum.pdf
Niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október 2012 - sjá http://www.kosning.is/thjodaratkvaedagreidslur2012/frettir/nr/7990
Frumvarpi og greinargerð meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 415. mál 141. Löggjafarþings - sjá http://www.althingi.is/altext/141/s/1111.html
Álykta Píratar eftirfarandi:
- Vinna við frumvarp að nýrri stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili skuli byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs, sem og á því frumvarpi meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vorið 2013 sem byggði á þeim tillögum.
- Alþingi skuli alfarið byggja á þeirri stjórnarskrá þjóðarinnar við meðferð frumvarps á þessum grunni. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning, sérfræðinga og fyrrum meðlimi Stjórnlagaráðs, til að forðast að slíkar breytingar gangi gegn markmiðum ráðsins og anda tillagnanna.
- Alþingi setji þessa vinnu í forgang á komandi kjörtímabili og ljúki henni á eins skömmum tíma og fýsilegt er.
- Að þessari vinnu lokinni fái þjóðin tækifæri til þess að segja skoðun sína á endanlegu frumvarpi að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu, annað hvort á því kjörtímabili eða samhliða næstu alþingiskosningum eftir samþykkt frumvarpsins.
Alþingi skuli fylgja niðurstöðum þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu við samþykkt nýrrar stjórnarskrár og/eða breytingar á núverandi stjórnarskrá.
Greinargerð:
Með ályktuninni er lögð til útfærð tillaga að vinnulagi við samþykkt nýrrar stjórnarskrár á næsta kjörtímabili.
Ályktuninni er ætlað að virða að fullu það mikla og lýðræðislega ferli sem fram fór kjörtímabilið 2009-2013 við gerð tillagna að nýrri stjórnarskrá, tryggja aðkomu þáverandi meðlima Stjórnlagaráðs og þjóðarinnar að hvers kyns breytingum sem mögulega verði gerðar á tillögum ráðsins í meðförum Alþingis og sætta sjónarmið þeirra sem hafa ólíkar skoðanir á því hvernig skuli samþykkja nýja stjórnarskrá.
Með ályktuninni er viðurkennt að þegar hafa verið gerðar talsverðar breytingar á tillögum Stjórnlagaráðs, fyrst og fremst hvað varðar orðalag og uppbyggingu, í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi , 2012-2013, eftir samráð við lögfræðingahóp, Feneyjarnefnd og ýmsa aðra sérfræðinga og álitsgjafa. Eðlilegt sé að taka mið af þessari vinnu við gerð og samþykkt nýs frumvarps að nýrri stjórnarskrá á næsta kjörtímabili.
Jafnframt er tekið tillit til þeirra sem telja eðlilegt að taka tillögurnar aftur til upplýstrar og málefnalegrar umræðu og hugsanlega gera einhverjar frekari breytingar á þeim til bóta, þó ávallt verði byggt á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs, í samræmi við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og stefnu Pírata um stjórnskipunarlög.
Þá er kveðið á um að sú vinna skuli fara fram í fullu samráði við þjóðina, við fyrrum meðlimi Stjórnlagaráðs og aðra sérfræðinga. Þetta er meðal annars hægt að gera með formlegum umsögnum en einnig með því að hvetja til opinnar og gagnvirkrar umræðu í samfélaginu um stjórnarskrána og tillögur að nýrri stjórnarskrá, t.d. í gegnum internetið og/eða borgarafundi.
Reynt er að tryggja að lýðræðislegt umboð og vinna Stjórnlagaráðs við gerð nýrrar stjórnarskrár sé viðurkennt þrátt fyrir hugsanlegar breytingar á tillögum þess, með því að kveða á um að leita skuli sérstaklega samráðs við fyrrum meðlimi þess og reynt að forðast að mögulegar breytingar gangi gegn markmiðum þess og anda tillagnanna.
Ekki er kveðið á um sérstök niðurnegld tímamörk í tillögunni, en þar er að finna sérstakt leiðbeinandi markmiðsákvæði um að málið skuli sett í forgang á komandi kjörtímabili og lokið á eins skömmum tíma og fýsilegt er.
Sömuleiðis er fullt vald þjóðarinnar sem réttmæts stjórnarskrárgjafa landsins, og vilji hennar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012, að fullu viðurkennt með því að kveða á um að aftur verði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá í þáverandi mynd og að niðurstöðum hennar skuli Alþingi fylgja án undanbragða.
Varðandi tilvísanir í grunnstefnu Pírata:
Liðir 1.1. og 1.3. eru leiðarvísir þess vinnulags sem hér er lagt til; að samþykkt nýrrar stjórnarskrár verði með eins upplýstum hætti og mögulegt er.
Liðir 2.1., 3.2., 4.3., 4.6., 5.1 og 6.3. eru taldar endurspeglast í þeim tillögum Stjórnlagaráðs og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem hér er lagt til að samþykkt nýrrar stjórnarskrár skuli grundvallast á.
Liður 4.6 endurspeglast í liðum 3-5 í þessari stefnu, sem gera ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um fullbúið frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem Alþingi verði skylt að virða.