Aðgerðir til að flýta fyrir árangursríkri sjávarútvegsstefnu Pírata
Málsnúmer: | 76/2016 |
---|---|
Tillaga: | Aðgerðir til að flýta fyrir árangursríkri sjávarútvegsstefnu Pírata |
Höfundur: | elinyr |
Í málaflokkum: | Sjávarútvegur |
Upphafstími: | 03/11/2016 16:11:59 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 10/11/2016 16:11:59 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 17/11/2016 16:11:59 (0 minutes) |
Atkvæði: | 53 (3 sitja hjá) |
Já: | 26 (49,06%) |
Nei: | 27 |
Niðurstaða: | Hafnað |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í eftirfarandi stefnur Pírata:
Sjávarútvegsstefnu Pírata
2 gr. í efnahagsstefnu Pírata
Álykta Píratar um aðgerðir sem eiga að gerast í upphafi kjörtímabils:
1) Sjávarútvegsráðherra skal þegar í stað gera breytingar á strandveiðunum í átt að frjálsum handfæraveiðum í krafti þeirra lagaheimilda sem nú þegar eru fyrir hendi.
2) Fyrir handfæraveiðibáta skal sjávarútvegsráðherra greiða fyrir niðurfellingu aflamarks á þeim fisktegundum sem ekki eru bundnar í lög.
3) Vinna skal ítarlega og óháða úttekt á kostum og göllum uppboðskerfis til leigu á aflaheimildum til útgerða, fullri markaðssetningu landaðs afla, nýliðun í greininni byggða á því að rentan sé greidd eftir löndun og auk annarra atriða í sjávarútvegsstefnu Pírata. Í þeirri vinnu skal hafa samráð við þjóðina og samtal við hagsmunaaðila og sérfræðinga með því markmiði að koma á nýrri sjávarútvegsstefnu.
Greinargerð:
Stjórn fiskveiða á að snúast um sjálfbærni, viðgang stofnanna og hámörkun afraksturs, en ekki um verð á kvóta og veðhæfi. Það er mikilvægt að hafist sé handa sem fyrst á kjörtímabilinu við að koma sjávarútvegsstefnu Pírata í gagnið. Þess á ekki að vera þörf að bíða eftir lagabreytingum eða stjórnarskrárbreytingum í málum þar sem ráðherra hefur nú þegar stjórnsýsluheimildir. Dæmi um slíkt eru að ráðherra getur aukið veg frjálsra handfæraveiða yfir sumartímann, undanskilið nytjategundir frá aflamarki við handfæraveiðar og aukið þannig nýliðun og farsæla afkomu smærri útgerðaraðila. Því er ráðgert að sjávarútvegsráðherra verði þegar í stað falið að gera ofangreindar breytingar á strandveiðunum í krafti þeirra lagaheimilda sem hann hefur.
Einnig skal hefjast strax handa við að gera ítarlega úttekt á kostum og göllum allra atriða í sjávarútvegsstefnu Pírata. Skoða þarf hvaða útfærslur eru best til þess fallnar að ná markmiðum stefnunnar. Skoða þarf vandlega hvernig aðgangi að miðunum skal stjórnað með uppboði, þar sem allir skulu sitja við sama borð varðandi aðgang að veiðiheimildum. Koma skal í veg fyrir að veiðiheimildir lendi að miklu leyti á fárra manna höndum. Stefna þarf að því að greiðsla fyrir aflaheimildir geti farið fram við sölu afla fremur en strax eftir uppboð. Þannig má minnka vægi fjármálastofnana í útgerð og til að auðvelda nýliðun í greininni. Skoða þarf vel hvaða innviði, tækni og undirbúning þarf til að öllum afla verði landað á fiskmarkað. Fiskmarkaðir þarf að efla verulega og tryggja sjálfstæði þeirra. Álit sérfræðinga á sviði uppboðshönnunar skal nýtt til formlegs samstarfs við úfærslu uppboðanna og ákvarðanatöku. Einnig skal hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða af uppboðum aflaheimilda. Rannsóknir á fiskistofnum við Ísland þarf að efla strax, sérstaklega skulu stofnstærðarmælingar og alþjóðasamvinna aukin. Fá skal faglega og óháða alþjóðastofnun til að gera úttekt á starfsemi Hafrannsóknastofnunar og koma með tillögur að úrbótum.