Stefna um húsnæði Listaháskólans
Málsnúmer: | 3/2017 |
---|---|
Tillaga: | Stefna um húsnæði Listaháskólans |
Höfundur: | Beltiras |
Í málaflokkum: | Ályktanir |
Upphafstími: | 08/01/2017 21:15:34 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 16/01/2017 18:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 23/01/2017 18:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 46 (3 sitja hjá) |
Já: | 41 (89,13%) |
Nei: | 5 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Stefna um húsnæði Listaháskólans
Með tilvísun í Grunnstefnu Pírata
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
Tillögur stjórnlagaráðs (24. gr. Menntun):
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Auk samþykktrar menntamálastefnu Pírata þar sem ályktað er að ekki eigi að gera upp á milli list, verk og bókgreina í menntakerfinu.
Álykta Píratar eftirfarandi:
Við felum þingflokki okkar að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem menntamálaráðherra er falið að kveða á um framtíðarstaðsetningu Listaháskólans og hefja undirbúning á byggingu hans.
Greinargerð :
Listaháskóli Íslands var stofnaður 1999 með sameiningu ólíkra skóla sem kenndu m.a. tónlist, leiklist, hönnun og myndlist. Markmið var að færa listkennslu á Íslandi upp á háskólastig og stuðla að samstarfi milli greina. Að þessu leyti hefur sameiningin heppnast, mikil gróska er í listum og mikið þverfaglegt samstarf. Listaháskóli Íslands hefur stuðlað að nýsköpun og eflingu allra lista, og er mikilvægur hornsteinn í uppbyggingu framtíðaratvinnulífs á landinu, enda gegnir hann lykilhlutverki fyrir flestar skapandi greinar.
Þó hefur sameiningin ekki heppnast að öllu leyti. Mikill kostnaður felst í því að vera með deildirnar dreifðar og algjör óvissa ríkir um framtíð skólans meðan húsnæðisástand hans er eins og það er. Miklar áhyggjur eru varðandi myglusveppi í húsakynnum hans, en skólinn leigir bæði frá ríkinu og einkaaðilum og ver miklu fjármagni í aðstöðu sem hentar stofnuninni ekki. Tónlist er til dæmis kennd í húsi með lélegri kyndingu sem skortir hljóðeinangrun, leiklist er kennd án viðunandi leikrýmis, myndlistin er staðsett í fyrrum sláturhúsi og svo mætti lengi fram telja. Bókasafn og mötuneyti skólans var áður dreift á fimm mismunandi hús en nú er svo komið að skólinn hefur þurft að skera niður, rekur ekki mötuneyti og bókasafnið er komið á einn stað fjarri flestum deildum skólans. Hugmyndin um að nemendur vinni saman og auðgi sjónarmið hvors annars gengur heldur ekki upp sökum þess að þeir iðka nám sitt í öðrum byggingum. Við bætist að í mörgum byggingum er ekkert aðgengi fyrir fatlaða, miklar áhyggjur um áhrif húsnæðisins á heilsu nemenda og starfsfólks, aukinn kostnaður með því að dreifa starfseminni, plássleysi og óvissa sem veldur því að ekki er hægt að gera góðar langtímaáætlanir. Óvíst er hvort skólinn muni fá nægt fjármagn til að halda áfram að leigja húsnæði sitt áfram en miklar hækkanir hafa verið á húsnæðismarkaði á sama tíma og skorið hefur verið niður hjá skólanum.
Við bætist að nemendur greiða mun hærri skólagjöld en aðrir háskólanemendur á Íslandi þrátt fyrir gífurlegan mun á þeirri aðstöðu sem þeir þurfa að sætta sig við.
Það ætti að vera flestum ljóst að til að tryggja að Ísland sé í fremsta flokki á sviði nýsköpunar þurfi öflugan listaháskóla, en skólinn hefur í nærri tuttugu ár verið í sífellri óvissu vegna skorts á viðunandi húsnæði. Ýmsar tillögur finnast um framtíðarstaðsetningu skólans en óþarft er að stefna Pírata taki formlega afstöðu til þess. Til þess að koma listnámi á háskólastigi í viðunandi horf þarf menntamálaráðuneytið að taka afstöðu um hvar skólinn verði staðsettur og setja fram áætlun um hvenær hann verði reistur. Þegar náðst hefur samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Listaháskólans og ráðuneytisins, auk þess sem raunhæf fjármögnunaráætlun fyrir byggingu hans hefur litið dagsins ljós mun vera hægt að skipuleggja starfsemi skólans með langtímahagsmuni hans í huga.