Sjálfbærnimarkmið
Málsnúmer: | 5/2017 |
---|---|
Tillaga: | Sjálfbærnimarkmið |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Ályktanir |
Upphafstími: | 04/03/2017 09:39:43 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 11/03/2017 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 18/03/2017 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 50 (1 sitja hjá) |
Já: | 49 (98,00%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Nýir vísar varðandi sjálfbærni og velferð
Með tilvísun til:
- Greinar §2.2 í grunnstefnu Pírata um útvíkkun borgararéttinda
“Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.” - Greinar §4.2 og 4.3 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
“Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.” og “Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.” - Greinar §3 í almennri umhverfisstefnu Pírata
“Tryggja skal upplýsingarétt almennings um umhverfismál, gagnsæi í allri stjórnsýslu umhverfismála og aðild almennings að ákvarðanatöku sem varðar umhverfi og náttúru.” - Greinar §1 Í efnahagsstefnu Pírata
“Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.”
Og með hliðsjón af eftirfarandi þróunarmarkmiðum til ársins 2030, sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti þann 25. september 2015:
- Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar
- Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði
- Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla á öllum aldri
- Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að símenntun fyrir alla
- Tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt allra kvenna og stúlkna
- Tryggja aðgengi, og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu
- Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði
- Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum, mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla
- Byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúa að nýsköpun
- Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa
- Gera borgir og aðra búsetu manna örugga og sjálfbæra fyrir alla
- Tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslumynstur
- Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra
- Vernda og nýta hafið og auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt til að styðja við sjálfbæra þróun
- Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa, sjálfbærri stjórnun skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva og snúa við jarðvegseyðingu og sporna við hnignun líffræðilegs fjölbreytileika
- Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja jafnan aðgang að réttarkerfi og koma á fót skilvirkum og ábyrgum stofnunum fyrir alla á öllum stigum
- Styrkja framkvæmd og blása lífi í hnattræna samvinnu um sjálfbæra þróun.
Álykta Píratar að:
1. Alþingi á að samþykkja langtímaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi sem er samþætt við langtímaáætlanir í öðrum málaflokkum og unnið að samræmt hjá öllum ráðuneytum og stofnunum hins opinbera.
2. Gera skal aðgerðaáætlun til að íslensk stjórnvöld uppfylli öll þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna árið 2030. Aðgerðaáætlun verði komin í gagnið árið 2020.
3. Lögleiða skal vinnslu tölulegra upplýsinga um sjálfbær þróunarmarkmið S.Þ. og birta þær sem opinberar hagtölur.
4. Söfnun, vinnsla og birting upplýsinga um umhverfismál og birting tölulegra umhverfisvísa á að taka mið af því að hægt sé að reikna ýmsa samanburðarstuðla, sjálfbærnisvísa og vistspor samfélagsins líkt og þau sem nefnd eru í greinargerð.
Greinargerð:
Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skrifuðu undir þróunarmarkmið fyrir 2030 sem kallast “UN Sustainable Development Goals.”. Ísland ætti að stefna að því að hraða því að verða eitt af þeim ríkjum heims sem uppfylla þessi skilyrði, þannig er hægt að bera árangur í umhverfis- og velferðarmálum saman ár frá ári, einnig til að meta samanburð við nágrannalöndin.
Pírötum þykir mikilvægt að unnið sé eftir langtímaáætlunum í umhverfismálum og öðrum málaflokkum. Einnig er mikilvægt að ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög vinni saman að langtímamarkmiðum varðandi sjálfbæra þróun og að samræmi sé á milli áætlanagerðar og lagasetningar í hinum ýmsu málaflokkum, sér í lagi þá sem varða grunnstoðir samfélagsins.
Til að innleiða þróunarmarkmið S.Þ. á markvissan hátt væri best að Alþingi ályktaði um slíkt og feli helstu stofnunum að meta stöðu og áætla vinnu til innleiðingar á hverju atriði fyrir sig. Síðan þyrfti að innleiða þetta í lög þar sem stofnunum er falið vinna að markmiðunum og skrá hjá sér með viðeigandi mælingum og hagtölum. Margt af þessu má samtvinna við áætlun um græna hagkerfið sem mætti þannig endurvekja. Einnig er þörf á að innleiða vísa til að fylgjast með atriðum er varða Parísarsamninginn og fleiri alþjóðlegar skuldbindingar.
Sjálfbærnivísa og hagtölur byggðar á sjálfbærum þróunarmarkmiðum S.Þ. má vinna af til þess bærum stofnunum og birta til hliðar við hagtölur um hagvöxt og landsframleiðslu. Með lögleiðingu þessara verkefna fylgir einnig fjármagn til þess að vinna í þessu á fullnægjandi hátt. Gott væri t.d. að vinna með öðrum Norðurlöndum til að uppfylla sjálfbærnimarkmið S.Þ.
Ýmsar stofnanir hafa töluleg gögn um umhverfismál, en þó er óvíst hvort þessi gögn séu nægilega aðgengileg, gagnsæ og samræmd til að reikna út hin ýmsu alþjóðlegu sjálfbærniviðmið svo sem SWI (sustainable wellbeing index), SDI (sustainable development index), Framfarastuðullinn Genuine Progress Indicator (GPI), Human Development Index (HDI), Environmental Performance Index (EPI), Gross National Happiness GNH eða Better Life Index.
Gott væri að markvisst verði stefnt að því að safna öllum grunnbreytum sem þarf til að reikna ofangreinda samanburðarstuðla og birta á reglulega sem hagtölur og umhverfisvísa.