Sértæk skólastefna, grunnskólar
Málsnúmer: | 18/2017 |
---|---|
Tillaga: | Sértæk skólastefna, grunnskólar |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Menntamál |
Upphafstími: | 05/09/2017 13:09:44 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/09/2017 13:09:44 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 19/09/2017 13:09:44 (0 minutes) |
Atkvæði: | 60 (2 sitja hjá) |
Já: | 42 (70,00%) |
Nei: | 18 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Sértæk skólastefna, grunnskólar
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir._
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
Almennri menntastefnu Pírata
26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
76. gr. Stjórnarskrár Íslands
4. gr. Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030.
ÁLYKTA PÍRATAR:
1. Mikilvægasta hlutverk grunnskóla er að gera börn læs, þ.e.a.s. fær um að afla sér upplýsinga á ýmsu formi og vinna úr þeim, og fær um að tjá hugsanir sínar á skilvirkan hátt og að taka þátt í umræðum um hugmyndir sínar og annarra. Auk þeirrar þjálfunar í íslensku er mikilvægt að grunnskólabörn nái tökum á einföldum reikningi, og á ensku. Umfram það skulu skólar, kennarar og nemendur hafa mikið frelsi í vali á námsgreinum, og skólar skulu leitast við að búa börnum umhverfi þar sem þau eiga kost á ýmiss konar námi og starfi sem þau gætu haft áhuga á. Það á jafnt við bókleg og verkleg viðfangsefni, listir og aðra sköpun, sem og íþróttaiðkun.
2. Grunnskólar gegna líka umönnunarhlutverki, sérstaklega á fyrstu árum nemenda. Nemendur skulu hafa mikið svigrúm til leiks og félagslegs þroska í leik og starfi sem fellur utan hefðbundins náms.
3. Skólar gegna félagslegu uppeldishlutverki þar sem jafnræði, einstaklingsfrelsi, friðhelgi og lýðræði skulu höfð að leiðarljósi. Grunnskólar ættu að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og umræðu og hvetja til gagnrýninnar umræðu þeirra á milli um samfélagsmál, heimspekileg viðfangsefni og borgaravitund. Þó skal þess sérstaklega gætt að kennarar innræti nemendum sínum ekki tilteknar skoðanir á samfélagsmálum eða heimspekilegum viðfangsefnum.
4. Endurskoða skal menntun grunnskólakennara, með það fyrir augum að kennarar framtíðarinnar verði fjölbreyttur hópur varðandi sérhæfingu og áhugamál í kennslunni. Tryggja þarf að í flestum skólum séu kennarar sem ráða vel við helstu námsgreinar sem líklegt er að verði stundaðar í miklum mæli, og sérstaklega námsgreinar sem ætla má að krefjist langrar þjálfunar sem undirbúnings fyrir framhaldsnám.
5. Afleggja skal samræmd próf í grunnskólum og skal námsmat fyrst og fremst byggt á vinnu við verkefni.
6. Sameiginlegar námsskrár yfir skyldunám í grunnskólum skulu takmarkast við þær greinar og það umfang þeirra sem nauðsynlegt er að öll börn fari í gegnum, og skal innihald þeirra vandlega rökstutt með tilliti til þeirrar nauðsynjar.
7. Að jafnaði skal ekki gera kröfur um heimanám nemenda í grunnskólum.
8. Bæta þarf framkvæmd stefnunnar um „skóla án aðgreiningar“, í ljósi þess að hún hefur sums staðar leitt til einangrunar nemenda með sérþarfir, í stað þess að þjóna menntun og hagsmunum hvers nemanda. Mikilvægt er í þeirri endurskoðun að hafa samráð við foreldra barna með sérþarfir. Einnig skal meta áhrif núverandi fyrirkomulags á umhverfi þeirra barna sem ekki hafa neinar sérþarfir og laga það sem ekki virkar sem skyldi.
9. Þar sem því verður við komið skal bjóða nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku (eða eru tvítyngdir) kennslu í því máli.
GREINARGERÐ:
Enn þurfa börn bókstaflega að verða „læs“ og „skrifandi“ til að geta aflað sér upplýsinga og tjáð hugsanir sínar. Nú á dögum fer upplýsingaleit hins vegar sífellt meira fram rafrænt, mest á netinu, og tjáning hugsana einnig. Af því þarf skólastarf að taka mið.
Upplýsingaöflun og tjáning nemenda í grunnskólum fer fyrst og fremst fram á íslensku, þótt huga þurfi sérstaklega að þörfum nemenda með annað móðurmál. Til að geta notfært sér netið vel til upplýsingaöflunar er líka nauðsynlegt að kunna ensku, þar sem yfirgnæfandi meirihluti alls efnis á netinu er á ensku.
Allir þurfa að skilja einfaldan reikning, til að geta tekist á við hversdagsverkefni sem og margt í öðrum námsgreinum. Auk þess er nauðsynlegt að skólarnir bjóði upp á miklu ítarlegra nám í stærðfræði fyrir þá nemendur sem hafa áhuga. Einnig er brýnt að hafa í huga að upplýsingatækni, forritun og tölvunarfræði eru ekki síður mikilvægar námsgreinar í dag, þótt þær hafi enn ekki fengið mikið pláss í grunn- og framhaldsskólum, þar sem kunnátta á þessu sviði mun hafa stór áhrif á framtíð nútímabarna.
Umfram þessar mikilvægustu grunngreinar ættu skólarnir að bjóða upp á fjölbreytt nám á ýmsum sviðum og leitast við að búa öllum nemendum umhverfi við hæfi þar sem þeir geti þroskað hæfileika sína og menntun. Þar ætti ekki að gera neinn greinarmun á bóklegum, verklegum og skapandi greinum, heldur gera öllum greinum og nemendum jafn hátt undir höfði, í anda þeirrar hugmyndar að grunnskólarnir eigi að þjóna menntun hvers nemanda sem best. Nemendur eiga að kynnast því viðhorfi í skólanum að engar greinar séu öðrum æðri, enda eru hugmyndir um hið gagnstæða óverjandi í skólakerfinu og til þess fallnar að veikja stöðu sumra nemenda.Þar sem nemendur verja stórum hluta tíma síns í grunnskóla, árum saman frá unga aldri, er óhjákvæmilegt að skólinn sinni umönnunarhlutverki. Því er mikilvægt að séð sé fyrir þörfum skólabarna umfram þær sem tengjast náminu.
Grundvallaratriði lýðræðissamfélags og virðing fyrir borgararéttindum eiga að einkenna allt starf skóla. Skólar þurfa líka í starfi sínu að taka tillit til minnihlutahópa og sérstakra þarfa hvers nemanda, ekki síst nemenda sem eiga á hættu að flosna upp úr skóla, og þeir þurfa að hafa samstarf við forráðamenn nemenda. Þeir þurfa að hafa verklagsreglur til að taka á hegðunarvandamálum, einelti og öðrum vandamálum sem búast má við að komi upp í stórum barnahópum. Að innræta nemendum tilteknar skoðanir fer hins vegar í bága við það hlutverk skólanna að efla gagnrýna og sjálfstæða hugsun nemendanna.
Í sumum námsgreinum grunnskóla, t.d. stærðfræði, þurfa kennarar að hafa að baki langa þjálfun til að ráða vel við viðfangsefnin sjálfir, og án þess er nánast útilokað að þeir geti gert námið áhugavert fyrir nemendur. Það virðist hins vegar algengt að nemendur í kennaranámi byrji í því með afar lítið nám í stærðfræði úr framhaldsskóla, og þeir geta farið í gegnum fimm ára kennaranám í háskóla án þess að bæta teljandi við sig. Þetta er ekki vandamál ef nógu margir kennarar hafa áhuga á að afla sér mikillar og djúprar þekkingar og færni í viðkomandi greinum, og gera það sem hluta af kennaranámi sínu, en svo virðist sem margir kennarar í grunnskóla séu að kenna t.d. stærðfræði af miklum vanefnum hvað varðar eigin bakgrunn. Þeir kennarar geta tæplega vakið áhuga nemenda á greininni og veitt þeim þá aðstoð sem þeir þyrftu að fá. Ein leið til að efla færni kennara í námsgreinum grunnskólans væri að bjóða upp á nám í þeim greinum sem væri sérsniðið fyrir kennara, og þeir bættu síðan við nauðsynlegu námi í kennslufræði almennt.
Athuga mætti að hafa kennaranámið mikið starfstengt, þannig að kennaranemar störfuðu samhliða náminu undir handleiðslu reyndra kennara.Sú hugmynd að menntun felist í að læra hluti sem hægt er að prófa með prófum sem eru samræmd fyrir allt landið, og eru tekin í tímaþröng og einangrun frá umheiminum, rímar illa við nútímann og hvernig við leysum verkefni yfirleitt. Sú einsleitni sem samræmd próf snúast um fer líka í bága við það frelsi og fjölbreytileika sem á að einkenna starf skólanna. Námsmat stýrir vinnu nemenda og kennara, og það að „læra undir“ samræmd próf er ekki til þess fallið að þjálfa nemendur í lausn verkefna sem þeir gætu haft áhuga á og gagn af að fást við. Það er líka rökvilla að telja það sýna ágæti samræmdra prófa að „góðum námsmönnum“ (samkvæmt einhverjum öðrum mælikvörðum) gangi almennt vel á slíkum prófum; sú fylgni þýðir alls ekki að gengi á þeim prófum segi til um getu einstakra nemenda. Að framhaldsskólar hafi notað samræmd próf til að velja inn nemendur eru ekki rök fyrir þeim, enda getur það ekki fallið undir hlutverk grunnskóla að veita slíka þjónustu.
Fjöldi mögulegra „námsgreina“ hefur margfaldast síðustu áratugina, samtímis því sem tilkoma internetsins hefur gerbreytt möguleikunum í upplýsingaöflun og þess að nota námsefni víða að úr heiminum. Það er því tímaskekkja að staðla þær námsgreinar sem grunnskólabörn ættu öll að læra, umfram það sem nauðsynlegt er til að geta aflað sér upplýsinga á hinum ýmsu sviðum og nýtt sér þær. Því ætti að veita nemendum, kennurum og skólum mun meira frelsi í vali námsgreina, og kynda undir nýsköpun og fjölbreytni í þeim efnum.
Auk þeirra takmarkana í umfangi sem ítarlegar námsskrár fela í sér eru þær lítt til þess fallnar að hvetja til þeirrar samþættingar námsgreina sem er stundum æskileg. Þar má t.d. nefna að tengja saman nám í íslensku og ensku, húsasmíði og byggingarlist, eða forritun og bókhaldi.Sú skoðun virðist njóta nokkuð almenns fylgis að stytta ætti vinnudag fullorðins fólks, svo að það hafi meiri frítíma, meðal annars til að sinna fjölskyldu. Í því ljósi er óeðlilegt að ætlast til að skólabörn vinni ”yfirvinnu“’ á kvöldin og um helgar. Við sérstakar aðstæður má þó gera ráð fyrir að nemendum sé falið að leysa verkefni sem krefjast vinnu utan skólatímans, svo sem ef afla þarf upplýsinga sem ekki eru aðgengilegar í skólanum.
Sú stefna að stía nemendum ekki sjálfkrafa sundur vegna sérþarfa er góð. Að hafa enga aðgreiningu eftir aðstæðum nemenda getur hins vegar t.d. leitt til þess að blindur nemandi einangrist í bekk þar sem allir aðrir nemendur eru sjáandi, þar sem hann getur ekki tekið þátt í leikjum þeirra og ýmsu skólastarfi þeirra. Þannig býður skólakerfið viðkomandi nemanda ekki sömu möguleika og öðrum nemendum. Foreldrar barna með sérþarfir ættu að vita mikið um hvað hentar börnum þeirra og hvað ekki, og því er nauðsynlegt að hafa samráð við þá þegar þessi endurskoðun fer fram. Sama gildir um þá nemendur með sérþarfir sem hafa aldur og þroska til að tjá skoðanir sínar um þær.
Sú skoðun heyrist meðal kennara og foreldra að sum börn með sérþarfir fái þeim ekki fullnægt í því skólastarfi sem hentar öðrum börnum, og að það valdi oft alvarlegum truflunum í umhverfi þeirra sem ekki hafa neinar sérþarfir. Þetta þarf að leysa þannig að báðir hópar fái það út úr skólastarfinu sem þeir hafa getu og þroska til.Annars vegar er mikilvægt að nemendur fái aðstoð við að ná góðum tökum á móðurmáli sínu, hvert svo sem það er, og hins vegar er verðmætt fyrir samfélagið að hafa fólk sem ræður vel við önnur mál en þau sem jafnan eru kennd í skólum landsins.