Sértæk skólastefna, framhaldsskólar
Málsnúmer: | 19/2017 |
---|---|
Tillaga: | Sértæk skólastefna, framhaldsskólar |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Menntamál |
Upphafstími: | 05/09/2017 13:09:58 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/09/2017 13:09:58 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 19/09/2017 13:09:58 (0 minutes) |
Atkvæði: | 54 (2 sitja hjá) |
Já: | 46 (85,19%) |
Nei: | 8 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Sértæk skólastefna, framhaldsskólar
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir._
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
Almennri menntastefnu Pírata
26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
76. gr. Stjórnarskrár Íslands
4. gr. Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030.
ÁLYKTA PÍRATAR:
1. Stuðla skal að mikilli fjölbreytni í námsframboði framhaldsskóla, sem spanni bóknám, verknám, íþróttir, listir og annað skapandi starf, og skal öllum þessum sviðum gert jafn hátt undir höfði.
2. Framhaldsskólar skulu hafa mikið frelsi til að sérhæfa námsframboð sitt, og við gerð námsskráa sinna og skipulagningu náms að öðru leyti. Þeir skulu leitast við að gefa nemendum kost á breiðri menntun og þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum. Þeir skulu gera nemendum sem hyggja á framhaldsnám ljóst hvaða undirbúning þeir þurfi, og leitast við að bjóða upp á slíkt undirbúningsnám sem almennt fullnægir kröfum háskóla innanlands og erlendis.
3. Lengd framhaldsskólanáms má vera misjöfn eftir námsbrautum og framtíðarmarkmiðum nemenda. Þær námsbrautir/leiðir sem geta verið undirbúningur náms að loknum framhaldsskóla skulu gera skýrt hvað af náminu er nauðsynlegt fyrir slíkt framhald, en forðast skal að staðla nám nemenda umfram það. Þó skal hafa félagslegt hlutverk framhaldsskólanna og svigrúm til virks félagsstarfs nemenda í huga við skipulag námsbrauta og námslengdar.
4. Framhaldsskólar skulu leitast við að mæta þörfum nemenda sem hætt er við að vegna sérstöðu geti átt erfitt uppdráttar í skólakerfinu, svo sem fatlaðra og langveikra nemenda og nemenda með erlendan menningarbakgrunn, með það að markmiði að draga úr brottfalli þeirra.
GREINARGERÐ:
Nánast allir unglingar fara í framhaldsskóla, og óhætt er að segja að samfélagið geri núorðið ráð fyrir því. Þess vegna hefur hlutverk framhaldsskólanna orðið mun víðtækara en það var í upphafi, en framhaldsskólakerfið hefur ekki verið lagað að þeim veruleika nema að litlu leyti. Þar sem stór hluti nemenda fæst við annað en þær bóknámsgreinar sem voru lengi einráðar í framhaldsskólunum, og þar sem óeðlilegt er að mismuna nemendum eftir áhugasviðum þeirra, er mikilvægt að þessum sviðum sé gert jafn hátt undir höfði.
Auk bók- og verknámsgreina ættu þeir nemendur sem vilja fást við listir og aðrar skapandi greinar að geta gert það innan framhaldsskólakerfisins. Til dæmis er vandséð af hverju tónlistarnám (sem nemendur hafa getað fengið metið sem hluta af framhaldsskólanámi sínu) ætti ekki að standa til boða innan veggja framhaldsskólakerfisins, og fá að vera þar aðaláhersla þeirra nemenda sem þess óska.Sjálfsagt er að framhaldsskólar séu ólíkir hvað varðar námsframboð og starfsaðferðir, svo nemendur geti valið skóla sem hentar þeim best, og verið þar í umhverfi sem er ríkt af því sem þeir sækjast eftir.
Auk þess sem ólík störf og framhaldsnám krefjast ólíks undirbúnings ætti sú hugmynd að vera löngu úrelt að allir nemendur sem hyggja á háskólanám ættu að ljúka stúdentsprófi sem innihaldi tiltekið staðlað „magn“ náms. Stúdentsprófið varð til fyrir óralöngu og þjónaði þá allt öðrum tilgangi en framhaldsskólar gera í dag. Að því leyti sem framhaldsskólaganga er undirbúningur fyrir tiltekið háskólanám þurfa nemendur að vita hvaða kröfur þeir þurfa að uppfylla, en að öðru leyti ættu framhaldsskólar að bjóða upp á þá menntun, og í þeirri samsetningu, sem þeir og kennarar þeirra telja ákjósanlega og sem eftirspurn er eftir meðal nemenda. Þar sem félagsstarf nemenda er mikilvægur þáttur í skólagöngu margra þeirra þarf að taka tillit til þess við skipulag sjálfs námsins.
Þetta ætti að vera augljóst á grundvelli jafnræðissjónarmiða, sérstaklega þegar börn eiga í hlut, auk þess sem fjölbreytni samfélagsins ætti að endurspeglast í framhaldsskólunum.