Fíkni- og vímuefnastefna, útgáfa 5

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.

Þegar upprunaleg stefna var lögð til um afglæpavæðingu og skaðaminnkun í vímuefnamálum var einungis hin svokallaða "portúgalska leið" vel þekkt á meðal flutningsmanna en sömuleiðis var hún á þeim tíma skýrasta dæmið um útfærslu sem hafði skilað árangri þarlendis. Síðan þá hafa mun fleiri aðilar í ýmsum löndum farið ýmsar leiðir í átt að afglæpavæðingu og skaðaminnkun og eru þau úrræði í stöðugri þróun víðsvegar um heim. Afglæpavæðing og skaðaminnkun eru því ekki lengur séreinkenni lagaumhverfis vímuefnamála í Portúgal heldur heil hugmyndafræði sem nú haslar sér völl víða um heim og er til í mörgum útfærslum sem þó byggja á sömu gildum og portúgalska aðferðin.

Því er lagt til að beinar tilvitnanir í portúgölsku leiðina verði fjarlægðar úr stefnunni og þess í stað skerpt á afglæpavæðingu og skaðaminnkun án þess að getið sé um tiltekna útfærslu í tilteknu landi. Í gildandi stefnu er ennfremur hvergi minnst á skaðaminnkun sem þó er höfuðeinkenni portúgölsku aðferðarinnar og er því hér einnig lögð til áhersla á hana.

Þá er lagt til að í stað hugtaksins "fíkni- og vímuefni" sé einfaldlega notast við hugtakið "vímuefni" þar sem engin ástæða er til að gera greinarmun á þeim í lagalegum skilningi, jafnvel þótt fíkn og víma séu ólík hugtök.

Vímuefnaneysla og vandamál henni tengd brjótast út á mjög misjafnan máta milli landa og því er engin ein tiltekin útfærsla sem hentar öllum samfélögum. Bæði er misjafnt hvaða vandamál séu algengust, hvaða vímuefni séu notuð mest en sömuleiðis lagalegt umhverfi þeirra vímuefna sem mestu samfélagslegu tjóni valda. Sem dæmi eru stærstu vímuefnavandamálin á Íslandi ekki tengd ólöglegum vímuefnum, heldur löglegum en lyfseðilskyldum efnum ásamt hinu löglega vímuefni áfengi. Þannig þurfa misjöfn lönd misjafnar útfærslur jafnvel þótt mannvirðing, útvíkkun mannréttinda, skaðaminnkun og afglæpavæðing séu forsendur stefnunnar.

Tillögunum er einnig ætlað að skýra orðalag stefnunnar. Í gildandi tillögu er kveðið á um að leggja skuli fram frumvarp þess efnis að fara portúgölsku leiðina. Þó yrði slíkt ekki gert með frumvarpi heldur þingsályktunartillögu og reyndar ýmsum öðrum leiðum, svosem starfshópum og sjálfsagt einnig reglugerðum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum í framtíðinni. Því er lagt til að fjarlægð sé kvöð á um að tiltekið lagatæknilegt tæki sé notað til að ná settu markmiði. Í stað þess að vísa beinlínis í portúgölsku leiðina er lagt til einfalt orðalag sem kveður á um afglæpavæðingu ólöglegra vímuefna óháð því hvaða lagatæknilegu tæki séu notuð til að ná því markmiði, enda ekki sjálfstætt markmið að nota tiltekin lagatæknileg tæki.

Sumum töluliðum er skipt upp í fleiri ákvæði til að auka bæði skýrleika þeirra og nákvæmni.

Orðalagi um "ábyrga notendur fíkni- og vímuefna" og þá "sem ekki kunna sér hóf" er skipt út fyrir ótvíræðara og skýrara orðalag sem ekki einkennist af manngreiningaráliti.

Loks er lagt til að fjarlægð verði nokkur gögn "til hliðsjónar", hér eftir nefndir hliðsjónarliðir. Tveir eru liðir um árangur í Portúgal á ótilgreindum tíma og fullyrðingar um rannsóknir sem ekki eru tilgreindar í fullyrðingunni sjálfri, en liggja væntanlega til grundvallar í öðrum tilvísunum sem ekki er lagt til að verði fjarlægð. Einnig eru fjarlægðir hliðsjónarliðir sem eru taldir flækja það sem annars er skýrt best af þeim sem eftir standa. Þá er bætt við tilvísunum í nýlegri skýrslur um sama efni, þar á meðal skýrslu starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins, sem var unnin í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu Pírata, ásamt tilvísun í grunnstefnu samkvæmt lögum Pírata.

Stefnutillagan byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif neyslu ólöglegra vímuefna án þess að vinna endilega að minnkun vímuefnaneyslu.

Nauðsynlegt þykir að setja sérstakar stefnur um skaðaminnkandi úrræði fyrir vissa hópa í samfélaginu sem vegna ólíkra aðstæðna þarfnast sérstakrar athygli og stefnumótun.

Sá hópur sem er hvað viðkvæmastur fyrir skaðlegum áhrifum vímuefnanotkun eru fangar. Algengt er að yfirvöld beri fyrir sig að leyfi þau skaðaminnkunarúrræði innan veggja fangelsa séu þau að gefa í skyn að fangelsin séu ekki örugg. Oft telja yfirvöld að viðurkenni þau þörf á skaðaminnkunarþjónustu viðurkenni þau samtímis ósigur; þá sé viðurkennt að þau hafi ekki stjórn á vímuefnaneyslu fanga. Yfirvöld nefna einnig gjarnan að skaðaminnkunarúrræði á borð við sprautu- og sprautunáladreifingu ógni öryggi fangavarða og annars starfsfólks í fangelsum. Þó er það reynsla þeirra landa sem bjóða upp á slík úrræði, að hægt sé að útfæra þau á öruggan hátt.

Ungt fólk er einnig sérstaklega viðkvæmt fyrir skaðlegum áhrifum vímuefna. Reynslu- og þekkingarleysi veldur því að ungmenni eiga það á hættu að taka of stóran skamm, neyta þeirra á óöruggan hátt og setja sig því í aukna hættu á alvarlegum heilsumissi eða jafnvel andláti. Því er mikilvægt að hanna skaðaminnkunarúrræði með þennan hóp sérstaklega í huga, til þess að fræða hann um sem öruggasta notkun vímuefna, enda sé forvörnum einnig beitt til þess að reyna eftir fremsta megni að forðast vímuefnaneyslu ungmenna.

Loks ber að nefna aðra viðkvæma hópa eins og einstaklinga með geðröskun eða geðfötlun, þolendur mansals, fólk sem starfar í kynlífsiðnaði sem og aðra jaðarsetta hópa. Jaðarhópar eru sérstaklega líklegir til þess að ofnota vímuefni og ánetjast þeim og þarfnast því sérstakrar athygli, fyrirbyggjandi úrræðna og meðferðarúrræðna.

Dæmi eru um að einstaklingar sem hafa merki um vímuefnanotkun í sjúkraskrá sinni mæti mismunun í heilbrigðiskerfinu. Þeim hefur t.d. verið neitað um verkjalyf og viðeigandi meðferð vegna viðhorfa heilbrigðisstarfsmanna um að viðkomandi sé einungis að reyna að ná sér í vímuefni til misbeitingar.

Sömuleiðis hefur borið á því að einstaklingar sem greinast með svokallaðan tvíþættan eða margþættan vanda, þ.e.a.s. eiga við vanda vegna vímuefnaneyslu ásamt geðröskun eða geðfötlun, fái ekki viðeigandi meðferð vegna þess að meðferðarstofnanir eru ekki í stakk búnar til þess að taka á slíkum vanda. Þá er fólki með geðröskun oft gert að hætta allri vímuefnaneyslu vilji það fá meðferð við geðrænum vandamálum sínum, án þess að tekið sé tillit til þess að vímuefnanotkunin og geðræni vandinn haldast oft í hendur.

Að lokum er lagt til að kanna kosti þess og fýsileika að regluvæða ólögleg vímuefni.
Regluvæðing gerir ráð fyrir mismunandi höftum og reglum fyrir hvert vímuefni byggt á áhættunni sem fylgir notkun þeirra sem og þörfum samfélagsins. Umrædd höft gætu falið i sér reglugerðir um og eftirlit á framleiðslu efnanna (framleiðsluleyfi), reglur um efnið sjálft (verð, styrkleiki, umbúðir), reglur um aðgengi að efninu (söluleyfi, sölustaðir, aldurstakmarkanir) sem og markaðssetningu efnisins (auglýsingar og merkjavara).

Málsnúmer: 22/2017
Tillaga:Fíkni- og vímuefnastefna
Höfundur:helgihg
Í málaflokkum:Heilbrigðismál
Upphafstími:05/10/2017 16:47:39
Umræðum lýkur:19/10/2017 16:47:39 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðsla hefst:12/10/2017 16:47:39 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðslu lýkur:19/10/2017 16:47:39 (0 mínútur)
Atkvæði: 54 (1 sitja hjá)
Já: 54 (100.00%)
Nei: 0
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:50.00%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.