Dýrahald og velferð dýra
Setja skal ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá og varúðarákvæði í löggjöf þannig að velferð dýra njóti vafans í ákvarðanatöku er varðar dýrahald, að hagur dýranna sé ætíð hafður að leiðarljósi.
Efla embætti yfirdýralæknis þannig að það geti unnið sjálfstætt að eftirliti, fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð. Stjórnsýsla dýravelferðar skal að vera óháð stjórnsýslu matvælaöryggis. Auka þarf valdheimildir til að sinna velferð dýra.
Tryggja þarf daglega stjórnsýslu sveitarfélaga með umsjón og ábyrgð velferð dýra þegar kemur að dýraathvarfi, neyðartilfellum, umönnun, vörslusviptingum, o.þ.h. hvetja þarf til þjónustu við dýraeigendur, m.a. með hundagerðum eða öðrum dýravinsamlegum útivistarsvæðum í bæjarfélögum.
Skýrir ferlar, skjót viðurlög og valdheimildir eru jafn áríðandi þættir til að tryggja velferð dýra, til dæmis ef taka þarf dýr af fólki sem ekki sinnir þeim, getur ekki sinnt þeim eða stundar dýraníð. Þessu þarf að bæta úr strax með auknu fjármagni.
Endurskoða þarf málameðferð við innflutning dýra og stytta eins og unnt er þann tíma sem fer í einangrun gæludýra.
Það þarf að viðurkenna hlutverk hjálpardýra og gildi þeirra eins og blindrahunda, t.d. fyrir þá sem glíma við einangrun, fötlun eða andlega annmarka.
Koma skal á samræmdri skráningu á gæludýrum sem nær til alls Íslands og birta tölfræði um fjölda dýra og tegundir.
Við slátrun þarf að huga að eftirliti með mannúðlegri meðferð dýra. Reglur og úrræði fyrir velferð allra húsdýra, með áherslu á alifugla, svín og loðdýra eiga að taka mið af þörfum dýranna til rýmis, loftgæða, heilsu og eðlislægra þarfa t.d. útivist. Ef ekki er unnt að mæta þörfum dýranna er ekki grundvöllur fyrir dýrahaldinu.
Að öll loðdýrarækt verði hætt fyrir 1 janúar 2023, engin ný leyfi útgefin eða ræktun aukin á tímabilinu þar til algjört bann tekur gildi.
Kröfur til heilnæmis, velferðar og öryggis dýra til matvælaframleiðslu skulu vera sambærilegar í matvörum sem seldar eru hér, óháð upprunalandi.
Halda skal lyfjanotkun búfjár og gæludýra í lágmarki og í samræmi við viðurkenndar rannsóknir.
Öll móttaka eða geymsla dýra og opinber þjónusta skulu vera eftirlitsskyld.
Koma þarf á samræmdu námi á Íslandi um dýraatferli, móttöku dýra, dýrahjúkrun og dýralækninum með því markmiði að fjölga dýrahjúkrunarfræðingum og dýralæknum.
Sá aðili sem veldur áverkum eða dauða dýra skal greiða kostnað sem af því leiðir. Ef atvik verða í atvinnustarfsemi sem skaða dýr, hvort sem er af gáleysi eða ásetningi, skal sá sem skaðanum veldur greiða að fullu fyrir björgun dýra eða upphreinsun.
Eftirfarandi stefna Pírata fellur úr gildi
- Stefnu um dýravernd og innflutning á lifandi dýrum:
Greinargerð
Dýrahald er mikilvægur málaflokkur þar sem gæludýr finnast á nær helmingi heimila landsmanna auk þess sem búfénaður og sjávardýr eru undirstaðan í meginatvinnuvegum landsins. Það er því hagur samfélagsins að vel sé hlúið að dýrunum bæði vegna tilfinningalegra tengsla fólks við gæludýrin sín og vegna kröfu um mannúðlega meðferð á húsdýrum og villtum dýrum. Þessi stefna Pírata miðar að því að bæta úr ýmsum vanköntum á núgildandi dýraverndarlöggjöf.
Stjórnarskrárvarinn réttur dýra til velferðar styrkir alla opinbera umgjörð dýraverndarmála, þá er best að hafa varúðarsjónarmið þannig að velferð dýra njóti vafans í öllu dýrahaldi. Varúðarsjónarmið í tengslum við meðferð dýra getur falist í ýmsu, svo sem tilkynningaskyldu um illa meðferð dýra, skyldu til að sinna dýrum í neyð, þar að auki að tryggð verði viðunandi umönnun við vörslu dýra, að viðbragðstími sé skjótur þegar upp koma vandamál og að málaflokkurinn sé nægilega fjármagnaður. Með varúðarsjónarmiði er velferð dýra sett í forgang, á undan fjárhagslegu hagræði fyrir einstaklinga, lögaðila eða stjórnsýslu t.d. þegar dýr finnast eða upp koma neyðartilfelli þar sem ódýrasti kosturinn, aflífun, er oft valinn sjálfkrafa af yfirvöldum eða að úrlausnir tefjast vegna formsatriða í stjórnsýslunni.
Við teljum ekki rétt að sama stofnun hafi á hendi eftirlit og úrskurðarvald auk þess sem matvælamál og dýravernd eru málaflokkar sem oft eru í samkeppni og hætt við að annar málaflokkurinn hafi meira vægi en hinn. Þannig getur stofnun sjálfstæðs dýravelferðarsviðs sinnt yfirumsjón og samræmingu á meðan Matvælastofnun eða annar aðili sér um eftirlit og gagnasöfnun. En nauðsynlegt að stórefla hlut dýraverndar í stjórnsýslunni. Jafnframt þarf að auka valdheimildir stjórnsýsluaðila til að taka á erfiðum dýravanrækslumálum án tafar. Athuga þarf hvort færa þarf embætti yfirdýralæknis að fullu til annars ráðuneytis í þessu skyni og tryggja að embættinu sé skylt og kleift að sinna öllum dýravelferðarmálum jafnt, hvort sem um er að ræða villt dýr, húsdýr eða gæludýr. Önnur ástæða fyrir að gera stjórnsýslu tengdri velferð dýra sjálfstæðari er að dýr eru oft nátengd tilfinningum og velferð fólks, hvort sem um er að ræða gæludýr eða dýrahald til manneldis.
Samræma þarf á landsvísu samþykktir um gæludýr. Einnig þarf að bæta þjónustu við borgara, t.d. með viðunandi hundagerðum og útivistarsvæðum, sem eru ekki síður mikilvæg en íþróttasvæði, leikvellir, almenningsgarðar, ofl. Akureyri er góð fyrirmynd hvað þetta varðar. Afleggja þarf hundaleyfisgjöld og líta á gæludýraeign sem val á lífsstíl sem ekki er rétt að skattleggja, ekki frekar en barneignir. Það hefur sýnt sig að gæludýragjöld hafa yfirleitt ekki farið beint í þjónustu við gæludýraeigendur.
Það þarf að vera góð samvinna opinberra aðila við félagasamtök sem eru með reynslu og úrræði. Einnig þarf að tryggja að til sé samhæfð aðgerðaráætlun er upp koma umfangsmikil dýraverndarmál. Tryggja þarf fjármagn í málaflokkinn svo að honum sé vel sinnt.Skoða þarf úrbætur á heimildum til að svifta fólki leyfi til dýrahalds í alvarlegum tilfellum dýraníðs og flýta ferlum þar sem lögregla, ríki eða sveitarfélög geta tekið dýr frá fólki. Í dag eru til skýrir ferlar í dýraverndarmálum en viðurlög eru ekki nægilega skjót. Hæg stjórnsýsla í þessum málum bitnar á velferð dýra. Gera þarf margvíslegar breytingar í lagaumhverfinu, t.d. að vinna markvisst með félagasamtökum um dýravernd, hafa þarf hæft starfsfólk á vakt til að sinna dýrum í vörslu og sinna málum sem koma upp utan skrifstofutíma.
Auka á frelsi þegar kemur að innflutningi á dýrum til dýrahalds sem víst er að þrífist í íslenskri náttúru. Innflutningur dýra sem eiga sér ekki sögu í íslenskri náttúru en gætu lifað af í henni eiga þó að vera undir ströngu eftirliti. Skoða má upptöku gæludýravegabréfa, þ.e. sprautubók með örmerki og helstu upplýsingum um dýrið.
Ákvarðanir um einangrun dýra þarf að endurskoða. Mögulegt er að gera slíkt fyrir hjálparhunda og önnur dýr sem ætluð eru til aðstoðar við fatlaða, sem bæði er gott fyrir dýrin og einnig fyrir fólkið sem þarf á þeim að halda. Skoða má aðra möguleika en núverandi einangrunarúrræði, t.d. strangar heimasóttkvíar fyrir hjálparhunda sem fordæmi eru fyrir með nagdýrum og páfagaukum. Í einstökum tilfellum má lengja einangrun ef sýking eða önnur sértilfelli koma upp.Það er nauðsynlegt að viðurkenna hlutverk hjálpardýra og gildi þeirra eins og blindrahunda, t.d. fyrir þá sem glíma við einangrun, fötlun eða andlega annmarka. Einu dýrin sem nú fá undanþágur eru blindrahundar en mikil þörf er á hjálparhundum fyrir marga fatlaða þar sem félagskapur við dýr getur skipt sköpum í lífi einstaklinga sem eru einangraðir.
Skoða þarf að samræma skráningu gæludýra í sérstaka deild eða stofnun sem sinnir tölfræði og upplýsingagjöf. Með samræmdri skráningu er átt við samræmi milli skráningar ríkis og sveitarfélaga, auk skráninga á atburðum, innflutningi, kvörtunum og ýmsu öðru sem tengist dýrahaldi. Matvælastofnun hefur undanfarin ár haft ábyrgð á skráningu dýra en úthýst skráningu á gæludýrum til Völustakks sem er í eigu Dýralæknafélagsins. Uppfærsla og viðbætur á gögnum í því kerfi virðist oft handahófskennd og óáreiðanleg, svo sem skráning á dauða dýra. Jafnframt þarf að passa að skráning dýra og upplýsingaveita sé ekki hagnaðardrifin.
Verksmiðjubúskapur (þauleldi) á dýrum á ekki rétt á sér ef velferð dýra er hámörkuð til nytja. Þannig að ef ala á dýr í atvinnuskyni vegna afurða þeirra er eðlilegt að þörfum þeirra og velferð sé mætt til fullnustu. Í þessu ljósi er eðlilegt að líta svo á að afurðir dýra kosti í samræmi við áfallinn kostnað og vinnu að teknu tilliti til velferðar dýra.
Lönd sem við berum okkur saman við hafa flest hætt eða tekið ákvörðun um að hætta loðdýrarækt. Þar sem umfang loðdýraræktar á Íslandi hefur nú þegar minnkað umtalsvert vegna minnkandi eftirspurnar þá teljum við hægt að hætta loðdýrarækt fyrir 1 janúar 2023. Þar til verða engin ný leyfi gefin út eða loðdýrarækt aukin.
Til þess að ná fram kröfu og hafa eftirlit með heilbrigði og velferð dýra þarf að efla upprunavottanir, velferðavottanir og vitund neytenda á gildi slíkra vottana varðandi velferð og vernd lífríkis.
Nokkuð er um ofnotkun lyfja í dýrahaldi, bæði gæludýrum og búfé. Þar má endurskoða notkun sýklalyfja, stera og annars sem hefur áhrif á ónæmiskerfi dýranna og velferð þeirra að ósekju þetta, á við um bóluefni og ormalyf.
Allir verkferlar varðandi meðferð dýra þurfa að vera samræmdir um allt land og eftirliti þarf að koma í betra form. Til dæmis mætti koma á samræmdum gátlistum sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fylgir til að tryggja að bæði opinberir aðilar og þeir sem meðhöndla dýr í atvinnuskyni séu undir eftirliti eða með starfsleyfi eftir þörfum. Líklega er betra að hafa þetta eftirlit með “starfsstöðvum” á vegum sveitarfélaga líkt og hollustuháttaeftirlit.
Mikill skortur er á dýralæknum og faglærðu fólki sem getur hjúkrað, kennt, leiðbeint og sinnt dýrum hér á Íslandi. Rétt er að styrkja betur við almenn námskeið í umönnun dýra. Nokkuð er um að fólk sem sækir menntun erlendis ílengist þar. Þess vegna er mikill akkur í að mennta og endurmennta fólk á ýmsum stigum dýravelferðar og lækninga. Það má hugsa sér ýmsar útfærslur í slíkum menntamálum.
Þegar upp kemst um skaða eða dýradauða, hvort sem er viljaverk eða óviljaverk, sem ekki hefur fengist sérstakt leyfi fyrir skulu villt dýr í lífríki Íslands njóta vafans. Ef um er að ræða slys eða tilvik sem hefur áhrif á dýr skal ekki farið í strax aflífunaraðgerðir, ef mögulegt er að vernda og bjarga dýrum. Þeir sem valda skaða skulu greiða fyrir þá björgun, mótvægisaðgerðir eða upphreinsun, þannig að hvati myndist til að koma í veg fyrir slík tilvik. Þannig má vernda lífríki, vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika í samræmi við þróunarmarkmið til ársins 2030, sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti þann 25. september 2015. Slíkt má m.a. gera með því að auka ábyrgð aðila sem beint eða óbeint valda dýrum eða lífríki skaða.
Stefnan byggir á Grunnstefnu Pírata:
- 1.1. Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
- 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- 3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
- 4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
- 4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.
Samantekt: Dýrahald og dýravelferð er mikilvægur málaflokkur þar sem gæludýr finnast á nær helmingi heimila landsmanna, auk þess sem búfénaður og sjávardýr eru undirstaða atvinnuvega á Íslandi. Hvort sem dýr eru haldin af fólki eða lifa villt í náttúrunni er okkur skylda að huga að velferð þeirra.
Málsnúmer: | 9/2019 |
---|---|
Tillaga: | Dýrahald og velferð dýra |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Landbúnaður |
Upphafstími: | 16/08/2019 16:08:00 |
Umræðum lýkur: | 30/08/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 23/08/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 30/08/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 49 (3 sitja hjá) |
Já: | 40 (81,63%) |
Nei: | 9 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.