Tillaga um formann, varaformann og forsætisnefnd
Málsnúmer: | 2/2020 |
---|---|
Tillaga: | Tillaga um formann, varaformann og forsætisnefnd |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 29/01/2020 14:42:17 |
Umræðum lýkur: | 19/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 19/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 72 (1 sitja hjá) |
Já: | 41 (56,94%) |
Nei: | 31 |
Niðurstaða: | Hafnað |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
- gr.
Á eftir 10. kafla kemur nýr kafli, 10.a, sem nefnist Formaður, varaformaður og forsætisnefnd og orðast svo:
10.a.1. Píratar kjósa formann á aðalfundi til tveggja ára sem hefur það hlutverk að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum.
10.a.2. Á sama fundi skal kjósa varaformann og einn aðila til viðbótar sem ásamt formanni skipa forsætisnefnd. Varaformaður gegnir hlutverki formanns til vara.
10.a.3. Kosning formanns, varaformanns og ritara fer fram í rafrænu kosningakerfi félagsins á meðan aðalfundur stendur yfir. Kosið skal sérstaklega í hvert embætti. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosninga. Að öðru leyti fer um kosninguna samkvæmt ákvæðum 4. kafla.
10.a.4. Forsætisnefnd fer með umboð til ríkisstjórnarmyndunar fyrir hönd hreyfingarinnar. Forsætisnefnd ákveður sjálf með hvaða hætti þátttaka hennar í viðræðunum er. Hafa skal reglubundið samráð við þingflokk og tryggja eins góða upplýsingagjöf til félagsmanna og hægt er hverju sinni.
10.a.5. Ríkisstjórnarsáttmála skal samþykkja í sérstakri rafrænni atkvæðagreiðslu sem stendur yfir í 48 tíma.
10.a.6. Tillaga um slit á ríkisstjórnarsamstarfi má bera upp á aðalfundi eða auka-aðalfundi ef tillaga kemur um það frá fimmtíu félagsmönnum a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund. Tillagan telst samþykkt þegar ⅔ greiða henni atkvæði.
10.a.7. Þrátt fyrir grein 10.a.1 er heimilt að bera upp tillögu á aðalfundi eða auka-aðalfundi um kosningu nýs formanns, jafnvel þó að kjörtímabili hans sé ekki lokið, ef tillaga kemur um það frá fimmtíu félagsmönnum a.m.k. 30 dögum fyrir aðalfund.
- gr.
Á eftir orðinu “með” í grein 4.3 kemur: a.m.k.
Greinargerð
Píratar hafa um langt skeið starfað án þess að nokkur einn aðili hafi haft umboð til að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar, nema þá kjörnir fulltrúar sem gera það stöðu sinnar vegna. Eftir þær umvendingar sem orðið hafa á íslenskum stjórnmálum á undanförnum misserum hefur smám saman komið í ljós tilteknir vankantar sem eru á ríkjandi fyrirkomulagi. Með tillögu þessari eru lagðar til tilteknar breytingar með það markmið að gera úrbætur á núgildandi fyrirkomulagi.
Um núgildandi skipulag.
Helsta ástæðan fyrir núgildandi ástandi, þ.e. formannsleysi, hefur yfirleitt verið sögð að Píratar séu stjórnmálaflokkar sem leggi áherslu á valddreifingu og flatan strúktur umfram miðstýringu valds. Er þetta sérstaklega rökstutt með tilvísan í grein 6.3 í grunnstefnu Pírata:
6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Tillaga þessi er lögð fram að þegar fenginni reynslu, enda tryggir núverandi fyrirkomulag hvorki valddreifingu né lýðræði innan hreyfingarinnar.
Núverandi fyrirkomulag gengur út frá því að þeir einu sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum séu annars vegar kjörnir fulltrúar í hefðbundnum störfum sínum sem og umboðsmenn sem fjallað er um í 10. kafla laganna. Eftir því sem vægi Pírata hefur aukist í stjórnmálum og aðkoma þeirra að lýðræðislegri ákvarðanatöku orðið meiri hafa möguleikar Pírata til að vinna að framgangi stefnumála sinna aukist. Hefur þetta oft kallað á að einn einstaklingur geti komið fram fyrir hönd hreyfingarinnar í viðræðum við aðra flokka. Í stjórnarmyndunarviðræðum hefur það veirð leyst með því að útnefna umboðsmenn í aðdraganda kosninga, sem hafa umboð til að semja um stjórnarmyndun við aðra stjórnmálaflokka. Slíkur umboðsmaður hefur þó ekki verið starfandi utan þess þegar ríkisstjórnarmyndunarviðræður fara fram og því enginn sem hefur heimild til að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar á þeim tæpu fjóru árum sem líða að jafnaði á milli alþingiskosninga.
Þeir fulltrúar Pírata sem sæti eiga á Alþingi hafa fengið til þess umboð í gegnum prófkjör Pírata og svo í gegnum lýðræðislegar kosningar þar sem þjóðin greiðir atkvæði. Er umboð þeirra til að taka þátt í löggjafarstarfi Alþingis því nokkuð skýrt. Staðreyndin er þó sú að á vettvangi formanna stjórnmálaflokka fer fram ýmis starfsemi sem heyrir ekki beint undir þingið, þó að þeir hlutir sem þar séu ræddir kunni að tengjast löggjafarvaldinu með beinum eða óbeinum hætti. Á vettvangi formanna stjórnmálaflokka eru rædd ýmis atriði, það sem kalla mætti „stórpólitísk“ mál. Það eru mál sem kunna að hafa verið rædd á Alþingi eða í undantekningartilvikum í sveitarstjórnum og að ekki hefur náðst að leiða þau til lykta á þeim vettvangi. Þegar slík staða kemur upp er alvanalegt að formenn stjórnmálaflokka hittist til að semja um lyktir slíkra mála. Líta má því á fundi formanna stjórnmálaflokka sem samningafundi stjórnmálaflokkanna, þar sem hver flokkur á sinn fulltrúa. Í flestum stjórnmálaflokkum fer sá sem semur fyrir hönd flokksins með umboð grasrótar. Það sama á þó ekki við hjá Pírötum, enda hefur þessi skylda alla jafna fallið í hendur formanns þingflokks.
Verkaskipting þingflokksformanns og formanns í hefðbundnu valdafyrirkomulagi er að þingflokksformenn hafa heimild til að koma fram fyrir hönd þingflokks, en formenn fyrir hönd heilla stjórnmálaflokka. Þannig hittast þingflokksformenn reglulega til að ræða skipulag þingstarfa og í sumum tilvikum lyktir einstakra mála. Þegar hins vegar um er að ræða mál hvers úrslit teljast svo veigamikil að stjórnmálaflokkum þykir réttara að þeir starfi í umboði grasrótarinnar allrar, fremur en einungis þingflokks þá eru formenn kallaðir saman til viðræðna. Þar sem Píratar hafa ekki haft formann hefur þessu hlutverki að mestu verið sinnt af þingflokksformanni til þessa. Verður það að teljast nokkuð bagalegt fyrir flokk sem leggur áherslu á valddreifingu og beint lýðræði að sá fulltrúi sem tekur þátt í slíkum viðræðum hafi ekki til þess umboð hreyfingarinnar, heldur einungis þröngs hóps kjörinna fulltrúa.
Sá fulltrúi sem tekur þátt í slíkum viðræðum þarf að hafa óskorað umboð frá stjórnmálaflokki sínum og mögulegt þarf að vera að kalla hann til ábyrgðar þegar teknar eru ákvarðanir sem flokksmenn kunna að telja að gangi í berhögg við hagsmuni flokksins. Í núverandi fyrirkomulagi fylgir þessu hlutverki engin ábyrgð – enda eru þingmenn sjálfstæðir í störfum sínum og einungis bundnir eigin sannfæringu eins og segir í 48. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar þingflokksformaður gegnir þessu hlutverki er engin leið að kalla hann til ábyrgðar fyrir ákvarðanir sem hann tekur fyrir hönd flokksins, enda hefur hann ekki skýrt umboð til að taka slíkar ákvarðanir. Hið gagnstæða gildir um aðra stjórnmálaflokka, þar sem formenn sem fara með þetta samningshlutverk geta einungis haldið stöðu sinni að því gefnu að meirihluti flokksmanna verji þá vantrausti.
Hlutverk formanns í íslenskum stjórnmálum.
Þrátt fyrir þá galla sem kunna að fylgja núverandi fyrirkomulagi Pírata þá eru einnig gallar við hið hefðbundna formannshlutverk sem finna má í flestum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Ef skipa á formann Pírata er nauðsynlegt að huga að því hvernig slíkt er mögulegt án þess að ganga gegn grunngildum félagsins um valddreifingu og lýðræði.
Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar leggur til að takmarka völd formanns við aðeins þau störf sem hann þarf umboð til að gegna fyrir hönd hreyfingarinnar og ekkert frekar en það. Byggist nálgunin á þeirri hugmynd að formaður sé ekki yfirmaður flokksins eða eins konar forseti, heldur sé honum fengið það afmarkaða hlutverk að geta komið fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum. Önnur hlutverk sem tengjast ekki því starfi hans myndu einna helst vera til að auka á vald hans og búa því til hættu á því að tillagan dragi úr valddreifingu og lýðræði innan hreyfingarinnar. Því er tillagan afmörkuð við það orðalag sem hér er lagt til: að formaður hafi einungis heimild til að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum.
Samþykkt þessarar tillögu myndi svara þeim vandamálum sem hér hafa verið talin upp: að einn einstaklingur hafi of mikil völd til að semja og koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar án þess að hafa til þess skýrt. Það myndi efla möguleika grasrótarinnar á að kalla samningamann sinn til ábyrgðar ef þess þyrfti og vera enn frekar fallið til þess að skapa traust á störfum kjörinna fulltrúa, enda er líklegra til að traust skapist um fulltrúa sem hefur lýðræðislegt umboð og getur aðeins setið með samþykki meirihluta félagsmanna. Þá myndi slík tillaga efla valddreifingu og lýðræði innan Pírata, þar sem hreyfingin sjálf – grasrót félagsins – hefði valdið til ákveða hver kæmi fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum, ekki einungis þröngur hópur kjörinna fulltrúa, eins og núverandi fyrirkomulag býður upp á.
Umboðsmenn Pírata.
Þau sjónarmið hafa komið upp að með þessari tillögu verði lítil sem engin þörf fyrir umboðsmenn Pírata sem fjallað er um í 10. kafla laganna. Þess skal þó getið að hægt er að skilgreina hlutverk umboðsmanna mun víðara en það hlutverk sem meintum formanni og forsætisnefnd er falið með tillögu þessari. Verður því ekki talin nauðsyn að fella kaflann úr gildi að sinni, en þó er ráðlegt að nytsemi umboðsmannakerfisins verði endurmetin að nokkrum mánuðum liðnum og þá tekin ákvörðun um hvort að hann verði í lögunum til frambúðar.
Um grein 10.a.1.
Lagt er til að formaður verði kosinn á aðalfundi til tveggja ára sem hefur það hlutverk að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum. Eins og áður sagði er eina formlega hlutverkið sem formanni er falið samkvæmt grein þessari að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum. Í því felst að hann getur komið að samningaviðræðum fyrir hönd hreyfingarinnar og setið fundi með öðrum formönnum stjórnmálaflokka. Þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum er umboð hans takmarkað í samræmi við greinar 4-5.
Lagt er til að kjörtímabil formanns verði tvö ár. Þó er ekki loku skotið fyrir að kjörtímabil formanns verði styttra, ef ákveðið er að halda nýja kosningu um formann í samræmi við grein 6.
Um grein 10.a.2.
Grein 2 kveður á um skipan forsætisnefndar. Í henni sitja formaður, varaformaður og einn aðili til viðbótar. Saman skipa þau forsætisnefnd sem er hugsuð sem sá aðili í skipulagi Pírata sem fer með það hlutverk að sinna ríkisstjórnarmyndun, þó að lokavaldið um samþykkt stjórnarsáttmála verði auðvitað ávallt í höndum almennra félagsmanna. Ekkert er sérstaklega kveðið á um hlutverk varaformanns, nema að hann gegni störfum formanns til vara, þ.e. í forföllum hans. Ekki er loku fyrir það skotið að varaformanni kunni að vera falin önnur hlutverk, annaðhvort formleg eða óformleg eftir því sem fram líða stundir, en ekki verður talin þörf á því á þessari stundu að lögbinda hönum frekari skyldur eða valdheimildir.
Um grein 10.a.3.
Greinin kveður á um hvernig kosningu formanns, varaformanns og forsætisnefndaraðila skuli háttað. Kveðið er á um að hún fari fram í rafrænu kosningakerfi félagsins á meðan aðalfundur stendur yfir, en að öðru leyti fari um kosningu samkvæmt ákvæðum 4. kafla laganna sem fjallar um kosningu í embætti. Eiga þar sérstaklega við greinar 4.12, sem segir að kjörstjórn taki við framboðum í öll embætti og tryggir að allir frambjóðendur fái sanngjarna kynningu og 4.13 um að frambjóðendur í embætti skuli skila inn hagsmunaskráningu til kjörstjórnar, einni viku fyrir aðalfund. Þá mun sú kjörstjórn sem kveðið er á um í grein 4.18 sjá um framkvæmd kosninganna. Í greininni er enn fremur kveðið á um að kjósa skuli sérstaklega í hvert embætti og að magn atkvæða skuli ráða kosningu, en slíkt verður að teljast eðlilegt þegar ekki er um að ræða listakjör.
Um grein 10.a.4.
Greinin fjallar um stjórnarmyndunarumboð. Greinin byggir nokkuð á núverandi verklagi við ríkisstjórnarmyndun, sem virðist hafa verið sátt um innan félagsins, en Píratar hafa tvisvar tekið þátt í ríkisstjórnarmyndun, árin 2016 og 2017. Í báðum tilvikum var um að ræða þriggja manna hóp umboðsmanna sem valinn var skv. 10. kafla núgildandi laga. Hér er lagt til að formfesta það ferli, þó með vísan til þeirrar reynslu sem fengist hefur af viðræðunum hingað til, sérstaklega að þegar líður á viðræðurnar er algengt að formenn flokkana vilji geta átt minni fundi þar sem aðeins er einn fulltrúi frá hverjum flokki. Því er kveðið á um að forsætisnefndin skuli sjálf ákveða með hvaða hætti þátttaka hennar í viðræðunum er. Hún getur þá metið á hverjum tímapunkti hvernig best er hægt að haga framkvæmd viðræðna. Til þess að tryggja gott flæði upplýsingar er kveðið á um reglubundið samráð við þingflokk og að upplýsingagjöf til félagsmanna sé eins góð og hægt sé hverju sinni.
Um grein 10.a.5.
Kveðið er á um að ríkisstjórnarsáttmáli teljist ekki samþykktur af hálfu Pírata fyrr en hann hefur verið samþykktur með meirihluta atkvæða í kosningakerfi flokksins, enda getur þátttaka í meirihlutasamstarfi aðeins verið ákveðin af félaginu í heild.
Um grein 10.a.6
Greinin kveður á um hvernig skuli bera upp tillögu um slit á ríkisstjórnarsáttmála. Rétt verður að teljast að nokkurn grunnfjölda félagsmanna þurfi til að bera upp tillöguna og er þar miðað við sama fjölda félagsmanna og þurfa að bera fram vantraust á formann sbr. grein 10.a.7. Sá fjöldi sem hér er lagður til er þó aðeins um 1% félagsmanna og er þröskuldurinn þó ekki hár. Aukinn meirihluta þarf til að samþykkja tillöguna.
Um grein 10.a.7.
Grein 6 kveður á um verklag þegar upp kemur vantraust á formann. Segir hún að heimilt sé að bera upp tillögu á aðalfundi eða auka-aðalfundi um kosningu nýs formanns, jafnvel þó að kjörtímabili hans sé ekki lokið, ef tillaga komi um það frá a.m.k. fimmtán félagsmönnum. Settur er tímafrestur upp á 30 daga, enda kallar slík tillaga á mikinn undirbúning af hálfu félagsins og skipuleggjenda aðalfundar þar sem einnig þarf að fara fram kynning á frambjóðendum.
Greininni er ætlað að tryggja að félagið geti kallað formann sem ekki nýtur trausts til ábyrgðar. Er það lykilþáttur í að tryggja það valddreifingarmarkmið sem þessi tillaga grundvallast á. Með því að binda heimildina við aðalfund eða auka-aðalfund má tryggja að hægt sé að grípa til aðgerða hvenær sem óánægja sé með störf formanns og þá í gegnum boðun auka-aðalfundar ef slík tillaga verður ekki borin upp á reglulegum aðalfundi. Með því að tilgreina að lágmark fimmtán skuli standa að tillögunni er þó loku skotið fyrir það að lítill hópur eða jafnvel einstaka félagsmenn sem kunna að vera ósáttir við sitjandi formann geti kallað til ítrekaðra atkvæðagreiðslna um kosningu nýs formanns.
Um 2. gr. tillögunnar.
Í 2. gr. tillögunnar er orðinu “a.m.k.” bætt við grein 4.3. um tímamörk á boðun aðalfundar. Ekki er skýrt af ákvæðinu hvort að það þriggja vikna tímamark sem tilgreint er í greininni eigi að teljast lágmarkstími eða hvort að boða eigi fundinn með nákvæmlega þriggja vikna fyrirvara. Þegar formannskjör er á dagskrá er gert ráð fyrir a.m.k. 30 daga fyrirvara og því nauðsynlegt að boða fundinn fyrr. Í því ljósi er lagt til að orðin “a.m.k.” bætist við greinina til þess að tryggja að það sé skýrt að heimilt sé að boða fundinn með lengri fyrirvara þegar þess krefur.