Fjármál 1
Málsnúmer: | 4/2020 |
---|---|
Tillaga: | Fjármál 1 |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 29/01/2020 14:44:56 |
Umræðum lýkur: | 19/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 19/02/2020 15:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 64 (1 sitja hjá) |
Já: | 38 (59,38%) |
Nei: | 26 |
Niðurstaða: | Hafnað |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Þessi tillaga heitir Fjármál 1.
Hún er sett inn í kosningakerfi Pírata ásamt annarri sem fjallar um sömu mál og heitir Fjármál 2. Sú tillaga sem hlýtur hærra hlutfall atkvæða verður að lögum Pírata. Sé hlutfall jafnt ræður fjöldi já-atkvæða.
Hægt er að lesa tillöguna í heild hér:
https://docs.google.com/document/d/1_FHvFbg1rL2di2xseR48MYfYU9N0tpZYvnRlmkuMhRY/edit
Tillaga að lagabreytingum vegna fjármála aðildarfélaga
Lög Pírata
Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á 11. kafla um aðildarfélög
gr. 11 fellur brott. Ný grein orðist svo:
11. Kjördæmafélög og önnur aðildarfélög
11.1. Starfrækt skulu kjördæmafélög í öllum kjördæmum. Sé ekki starfandi kjördæmafélag í kjördæmi skal framkvæmdaráð stuðla að stofnun þess í samráði við önnur aðildarfélög í kjördæminu. Heimilt er að stofna kjördæmafélag sem nær yfir tvö kjördæmi.
11.1.a. Félag til almannaheilla sem óskar eftir að teljast aðildarfélag Pírata sendir umsókn þess efnis til framkvæmdaráðs, ásamt lögum sínum.Framkvæmdaráð úrskurðar hvort tilvonandi aðildarfélag uppfylli þau skilyrði sem hér eru lögð fram. Sé svo skal aðildarfélagið tafarlaust hljóta aðild, en að öðrum kosti skal því tilkynnt um þá ágalla sem eru á umsókninni. Sé um svæðisbundið aðildarfélag að ræða skal viðkomandi kjördæmafélagi einnig tilkynnt um aðildina.
11.2. Kjördæmafélögum og öðrum aðildarfélögum er óheimilt að ganga gegn lögum eða grunnstefnu Pírata. Úrskurðarnefnd er heimilt að víkja frá stjórn kjördæmafélags sem brýtur gegn landslögum eða virðir grunnstefnu Pírata að vettugi. Úrskurðarnefnd er einnig heimilt að fella niður aðild aðildarfélags sem brýtur gegn landslögum eða virðir grunnstefnu Pírata að vettugi.
11.3. Framkvæmdaráð heldur sameiginlega félagaskrá fyrir öll aðildarfélög Pírata. Allir félagar
aðildarfélags teljast jafnframt félagar í Pírötum. Nú segir félagsmaður sem gegnir trúnaðarstöðu í aðildarfélagi sig úr félaginu eða umræddu aðildarfélagi og skal framkvæmdaráð þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.
11.4. Aðildarfélagi ber að skila fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum sínum til framkvæmdaráðs. Hafi slík gögn borist fyrir lok júnímánaðar telst aðildarfélag vera virkt.
11.5. Aðildarfélagi ber að skilgreina í lögum sínum hvenær það teljist starfhæft. Uppfylli aðildarfélag ekki eigin skilyrði um starfhæfni skal því slitið. Einnig skal aðalfundi Pírata heimilt að boða aðalfund í eða slíta óvirku aðildarfélagi. Eignir aðildarfélaga skulu renna til Pírata við félagsslit.
11.6. Starfssvæði svæðisbundins aðildarfélags skal vera minnst eitt sveitarfélag. Einungis skal eitt svæðisbundið aðildarfélag starfa í hverju sveitarfélagi. Úrskurðarnefnd sker úr um ágreining um starfssvæði.
11.7. Aðildarfélagi er heimilt að skipta starfsemi sinni frekar. Aðildarfélagi ber að gera framkvæmdaráði grein fyrir slíkri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.
11.8. Aðildarfélögum skal heimilt að kveða á um í lögum sínum að kjörstjórn Pírata hafi yfirumsjón með persónukjöri á vegum aðildarfélagsins. Sé heimildin nýtt skal kjörstjórn Pírata þá taka að sér það hlutverk í samræmi við lög aðildarfélagsins. Nú er kosningarferli innan aðildarfélags í gangi þegar ný kjörstjórn Pírata er valin og skal hún þá taka við framkvæmd þeirra kosninga sem í gangi eru ásamt þeim gögnum er fyrri kjörstjórn höfðu borist.
12. kafli - Fjármál
Eftirfarandi ákvæði bætast við 12. kafla laganna um fjármál:
12.9 Framkvæmdaráð skal fyrir hvert starfsár gefa út fjárhagsáætlun í samráði við kjördæmafélög. Fjárhagsáætlun næsta árs skal liggja fyrir eigi síðar en 15. september ár hvert og send félagsmönnumöllum til upplýsinga.
12.10 Í fyrstu fjárhagsáætlun að afloknum kosningum til Alþingis skal framkvæmdaráð tilkynna kjördæmafélögum hver grunnrekstrarfjárhæð á ári verði fram að næstu kosningum til Alþingis. Til viðbótar við grunnrekstrarfjárhæð skal framkvæmdaráð á ári hverju einnig úthluta fjármagni til kjördæmafélaga, með hliðsjón af rekstri Pírata annars vegar og umfangi aðildarfélaga samkvæmt neðangreindri reiknireglu hins vegar.
Reikniregla
Ólíkum þáttum er veitt hlufallslegt vægi. Skal hlutfall milli þátta haldast óbreytt á hverju kjörtímabili.
Fjöldi skráðra meðlima Pírata með lögheimili í kjördæmi: 25%
Hlutfall af heildaratkvæðum til Pírata í kjördæminu í síðustu kosningum til Alþingis: 25%
Fjöldi skráðra íbúa 1. janúar ár hvert í hverju kjördæmi: 25%
Stærð hvers kjördæmis í ferkílómetrum: 25%
Samtals: 100%
12.11 Framkvæmdaráð skal tilgreina í fjárhagsáætlun þá heildarupphæð sem úthlutað skal árlega samkvæmt ofangreindri reglu.
12.12 Framkvæmdaráð skal úthluta fjármunum til kjördæmafélaga í samræmi við fjárhagsáætlun. Úthlutun fer fram 1. mars ár hvert.
12.13 Framkvæmdaráði er einungis heimilt að úthluta fjármunum til kjördæmafélaga sem hafa skilað til framkvæmdaráðs fjárhagsáætlun og starfsáætlun fyrir komandi ár. Skulu kjördæmafélög skila áætlunum sínum í síðasta lagi 1. desember.
12.14 Framkvæmdaráði er einnig heimilt að úthluta fjármunum til aðildarfélaga sem ekki eru svæðisbundin. Úthlutun skal skilyrt við fjárhagsáætlun og starfsáætlun.
12.15 Þau kjördæmafélög sem nýta sér aðstöðu og starfsfólk Pírata í Reykjavík að jafnaði skulu greiða fyrir afnotin fast árlegt gjald sem skal haldast óbreytt milli Alþingiskosninga. Framkvæmdaráð ákvarðar fjárhæð gjaldsins.
12.16 Verði ófyrirsjáanlegar og meiriháttar breytingar á fjárhagi Pírata eða einhvers kjördæmafélaganna, getur framkvæmdaráð, með samþykki stjórna allra kjördæmafélaga og framkvæmd
aráðs, endurákvarðað árlega úthlutun fjármuna til kjördæmafélaga.
Ákvæði til bráðabirgða
Úthluta skal fjármunum til kjördæmafélaga eftir lögum þessum á næsta ári eftir að þau eru samþykkt.
Greinargerð
Stutta útgáfan
Kjördæmafélög verða gerð lögbundin. Þau fá úthutað fjármagni á hverju ári ef þau skila fjárhagsáætlun. Úthlutun skiptist í tvennt; fasta grunnupphæð sem er greidd út árlega en er óbreytt yfir heilt kjördæmatímabil, og árlega upphæð sem skiptist hlutfallslega byggt á fjölda skráðra Pírata, velgengni í síðustu alþingiskosningum, stærð kjördæmis og fjölda íbúa.
Framkvæmdaráð ákveður í samráði við kjördæmafélög hversu háar þessar upphæðir eru.
Engar kvaðir eru í lögunum um hversu háar fjárhæðir er að ræða, en tilgangur þessara breytinga er þó sá að tryggja rekstur kjördæmafélaga sem setur ákveðnar kvaðir á framkvæmdaráð.
Lengri útgáfan
Skipulagshópur sem myndaður var síðasta vor lagði fram eftirfarandi tillögu á aðalfundi 2019:
Fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga
Fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga verði eftir fyrirfram ákveðinni
formúlu fest í lög félagsins, t.d. skv. atkvæðafjölda, félagafjölda eða eftir
öðrum leiðum.
Í kjölfarið voru settar saman þessar tillögur að breytingum á lögum Pírata um rekstur aðildarfélaga. Í 12. kafla núverandi laga er ekkert minnst á fjárveitingar til aðildarfélaga og því yrði þetta viðbót við þann kafla.
Tilgangur lagasetningar
Þessar tillögur eru lagðar fram til að tryggja rekstrargrundvöll kjördæmafélaga til lengri tíma. Grunnrekstrarfjárhæð þarf að duga til að halda úti lágmarks starfsemi, breytanlega upphæðin svo lögð ofan á til að starfið blómstri.
Rétt er að taka fram að í núgildandi lögum Pírata hefur framkvæmdaráð endanlegt fjárveitingavald fyrir hönd landsfélagsins. Er því notast við orðið framkvæmdaráð í þessum tillögum, en auðvitað átt við fjárveitingavald burtséð frá því hvað það kallast eftir skipulagsbreytingar.
Forsendur
Mjög erfitt er að búa til sanngjarnar úthlutunarreglur til aðildarfélaga þar sem þau eru gríðarlega mismunandi að stærð, sama hvort átt sé við að flatarmáli eða fjölda, og misburðug. Er því lagt upp með í þessum tillögum að skylda framkvæmdaráð að styðja við starfsemi kjördæmafélaga (sem annað hvort eru til eða eru í burðarliðnum í öllum kjördæmum) og fjárveiting verði til þeirra. Til þess að þetta sé hægt eru einnig lagðar til breytingar á 11. kafla núverandi laga um aðildarfélög (ásamt nokkrum kosmetískum breytingum).
Kjördæmafélög
Breytingar á 11. kafla um aðildarfélög snúast aðallega um breytt orðalag til að lögbinda framkvæmdaráð til að halda úti kjördæmafélögum. Má nefna sem dæmi að nú til dags má vísa aðildarfélagi úr Pírötum. Er lögunum breytt þannig að slík brottvísun sé enn möguleg, svo lengi sem félagið sé ekki kjördæmafélag. Einnig er orðalagi breytt aðeins þannig að félagi til almannaheilla er heimild aðild að Pírötum, í stað þess að í dag geti tæknilega séð hvaða lögaðili sem er orðið aðili að félaginu. Tækifærið var einnig nýtt til að bæta orðalag í grein 11.3, án nokkurra breytinga á inntaki.
Fjármál
Lagt er upp með að öll kjördæmafélög fái ákveðna, fasta upphæð á hverju ári. Er þessi upphæð óbreytanleg á milli Alþingiskosninga. Einnig ákvarðar framkvæmdaráð á hverju ári heildarupphæð frá landsfélagi til kjördæmafélaga. Sú upphæð deilist á milli þeirra miðað við ákveðna reikniformúlu. Er þar tekið tillit til stærðar kjördæmis, fjölda íbúa í kjördæmi, fjölda félagsmanna Pírata með lögheimili í kjördæminu og hlutfall atkvæða til Pírata í síðustu alþingiskosningum. Lagt er til hér að hver þessara þátta vegi 25%. Þannig er tekið tilliti til bæði óbreytanlegra þátta sem og þátta sem hægt er að efla með starfsemi félagsins.
Ekki er gert ráð fyrir skyldu-úthlutun fjármuna til aðildarfélaga sem ekki eru bundin við kjördæmi. Ekkert í þessum tillögum bannar þó framkvæmdaráði að úthluta þeim fé, eða að bæta við fé til kjördæmafélaga vegna t.d. sérstakra stórviðburða. Mikilvægt er þó að taka fram að búist er við að svæðisbundin aðildarfélög sem ekki eru kjördæmafélög sæki fé til síns kjördæmafélags.
Til að tryggja rétta meðferð fjármuna á öllum stigum Pírata eru allar úthlutanir bundnar við framlagningu fjárhagsáætlunar og starfsáætlunar fyrir komandi ár, bæði hjá landsfélagi og kjördæmafélögum.
Í ljósi þess að starfsemi Pírata í Reykjavík nær nú þegar yfir tvö kjördæmi er gert ráð fyrir að kjördæmafélag geti náð yfir tvö kjördæmi.
Dagsetningar
Í tillögunum eru nokkrar dagsetningar sem ættu að leggja grunn að starfi stjórna Pírata. Verður hér gerð fyrir þeim og af hverju þessar dagsetningar urðu fyrir valinu.
15. september: Fjárhagsáætlun framkvæmdaráðs þarf að liggja fyrir. Sérstaklega að afloknum kosningum þarf framkvæmdaráð smá tíma til að stilla af starfið næstu árin með tilliti til rekstrargrunns kjördæmafélaga, en þó ekki meiri tíma en svo að kjördæmafélög geti í framhaldinu stillt sitt starf af.
1. desember: Fjárhagsáætlun og starfsáætlun kjördæmafélaga þarf að liggja fyrir. Gera má ráð fyrir að sökum samráðs við gerð fjárhagsáætlunar framkvæmdaráðs að fjárhagsáætlanir kjördæmafélaga verði í samræmi við þá áætlun.
1. mars: Bæði fasta rekstrarfjárhæðin og upphæð samkvæmt reiknireglu greidd til kjördæmafélaga. Ræðst þessi dagsetning að því að fjárframlög íslenska ríksins greiðast út í febrúar.
Mismunandi útfærslur af úthlutun fjármuna
Hægt er að skoða nokkur dæmi af úthlutunarupphæðum hér:
https://docs.google.com/document/d/1_FHvFbg1rL2di2xseR48MYfYU9N0tpZYvnRlmkuMhRY/edit
Rétt er að taka fram að þessar tölur eru eingöngu til að sýna fram á hvernig þessar tölur eru fundnar, það er framkvæmdaráðs í samráði við kjördæmafélög að ákveða hver grunnrekstrarfjárhæð og árleg úthlutun skuli vera.