Stefnubreytingartillaga um Pírataspjallið
Málsnúmer: | 12/2020 |
---|---|
Tillaga: | Stefnubreytingartillaga um Pírataspjallið |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 17/12/2020 20:42:09 |
Umræðum lýkur: | 31/12/2020 21:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 24/12/2020 21:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 31/12/2020 21:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 77 (5 sitja hjá) |
Já: | 50 (64,94%) |
Nei: | 27 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
5.2 Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
Álykta Píratar eftirfarandi:
Að Stefna um Pírataspjallið 30/2016 (https://x.piratar.is/polity/1/issue/239/) og Reglur: Pírataspjallið 3/2019 (https://x.piratar.is/polity/1/issue/398/) falli úr gildi og við taki eftirfarandi:
Stefna um Pírataspjallið 2.0
Píratar standa að og reka Facebook hópinn Pírataspjallið 2.0
Pírataspjallið heyrir undir framkvæmdastjórn Pírata sem ber ábyrgð á því.
Framkvæmdastjórn skipar umsjónaraðila (moderators) fyrir Pírataspjallið og skal sjá til þess að ávallt séu nægur fjöldi stjórnenda á Pírataspjallinu.
Framkvæmdastjórn skal sjá til þess að virk stjórnun sé á Pírataspjallinu og að því sé stýrt eftir siðareglum sem settar eru í samráði við stjórnendur Pírataspjallsins.
Siðareglunum er ætlað að umræður og málefni sem birt eru á Pírataspjallinu 2.0 endurspegli grunnstefnu Pírata svo og Píratakóðann.
Umsjónaraðilar Pírataspjallsins 2.0 semja reglur Pírataspjallsins 2.0. Reglur spjallsins skulu endurskoðaðar minnst árlega og skulu vera í góðu samræmi við grunnstefnu Pírata og Píratakóðann. Reglur þær sem umsjónaraðilar semja eru lagðar fyrir framkvæmdastjórn til samþykktar. Gömlu reglurnar gilda þangað til nýjar reglur eru tilbúnar og samþykktar af stjórn.
Umsjónaraðilar Pírataspjallsins 2.0 semja ritstjórnarstefnu sem borin verður undir framkvæmdastjórn til samþykktar.
Greinargerð
Markmið stefnu Pírata um Pirataspjallið 2.0
Pírataspjallið 2.0 er málgagn Pírata þar sem markmið er að efni þess hóps mun endurspegla það sem Píratar standa fyrir, grunnstefnu Pírata og Píratakóðann, alþjóðlegan sáttmála Pírata um allan heim.
Þátttaka í umræðum er opin öllum og leggjum við áherslu á að umræða sé lýðræðisleg og undirstriki stefnu Pírata um mikilvægi málfrelsis með ábyrgð.
Markmið Pírataspjallsins er að skapa vettvang fyrir Pírata, áhugafólk um störf Pírata og fólk sem vill eiga málefnalegar umræður um samfélagsleg og pólitísk málefni. Til þess að tryggja þátttöku fólks úr mörgum áttum þá er mikilvægt að Pírataspjallið hvetji fólk til þess að vera með umræður og skoðanaskipti á vettvangi sem vekur jákvæða upplifun, þ.e. hvetjandi umhverfi fyrir þátttakendur að ræða saman og að vanvirðing fyrir ólíkum sjónarhornum og einstaklingum verði ekki liðin.
Liður 1. Með vísun í:
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
2016 var kosið um stefnu vegna Pírataspjallsins og reglur spjallsins samþykktar í kosningakerfi Pírata.
Fyrirkomulag spjallsins út frá núverandi stefnu hefur verið í gildi sl. 4 ár og hefur framkvæmd reglna valdið flækjustigi fyrir umsjónaraðila og að tryggja jafna þátttöku allra sem í Facebook hópnum eru.
Á síðastliðnum fjórum árum hefur dregið úr umræðum og þátttakendum fækkað mjög. Pírataspjallið hefur fengið neikvæða ímynd og er frekar talinn vettvangur neikvæðra umræðna og vettvangur fárra aðila. Núverandi mynd Pírataspjallsins endurspeglar ekki þau gildi sem Píratar standa fyrir né þeim margbreytileika sem Píratar vilja að einkenni samfélagið og þann vettvang sem Píratar bera ábyrgð á.
Framkvæmdastjórn fól framkvæmdastjóra að undirbúa og setja starfshóp sem færi yfir fyrri ákvarðanir og greina Pírataspjallið í núverandi mynd út frá núverandi stefnu.
Eftir rýnivinnu starfshóps, framkvæmdastjórnar og starfsfólks Pírata hefur sú ákvörðun því verið tekið að ný stefna eigi að taka við þeirri eldri í ljósi upplýstra ákvarðana.
Liður 2. Með vísun í:
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
Pírataspjallið er álitið opinber vettvangur Pírata og eru umræðuefni sem þar eru tengd við störf og skoðanir stjórnmálahreyfingarinnar Pírata.
Sú skoðun hefur ekki tekið breytingum í gegnum árin. Pírataspjallið hefur verið þarfur og góður vettvangur fyrir fólk að kynna sér stjórnmál, samfélagsmál, þingstörf og fá mismunandi sjónarhorn á þau mál sem eru mest í brennidepli hverju sinni. Sú endurskoðun sem hefur átt sér stað á starfsemi Pírataspjallsins hefur leitt til þess að reglurnar þarfnast endurskoðunar svo og áherslur Pírataspjallsins.
Liður 3.
Framkvæmdastjórnar er heimilt að velja sjálfboðaliða til að sjá um stjórnun á Pírataspjallinu. Ber framkvæmdastjórn jafnframt ábyrgð á því að umsjónaraðilar séu virkir í sínum störfum og tryggja vellíðan sjálfboðaliða sem taka þátt í starfinu.
Liður 4:
Siðareglur þær sem settar eru fyrir Pírataspjallið er ætlað að undirstrika hugmyndafræði Pírata, borgararéttindi allra séu virt og að hin valdaminni séu vernduð af hinum valdameiri. Grunninn að siðareglum þessum má sjá í Píratakóðanum og grunnstefnu Pírata.
Liður 5. Með vísun í:
4.6 Píratar telja að öll höfum viði óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
Ný stefna Pírataspjallsins verður því lögð fyrir á félagsfundi Pírata til samþykktar. Sé stefnan samþykkt verður hún sett inn í kosningakerfi Pírata samkvæmt lögum Pírata um félagsfundi, stefnur og stefnubreytingar.
Liður 6. Með vísun í:
5.2 Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
Stjórnarskrárbundin réttur fólks til að tjá sig er Pírötum einna hugleiknastur. Píratar leggja mikla áherslu á að tjáningarfrelsi sé virt. Jafnframt er það mikilvægt málefni fyrir Pírata að frelsi eins, skerði ekki frelsi annars. Öllu frelsi fylgir ábyrgð og því mun Pírataspjallið 2.0, verandi málgagn Pírata leggja jafnt vægi á tjáningarfrelsi og vernd borgararéttinda einstaklinga.
Eftirfylgni
Starfshópur um stefnugerð sem leggur til þessar breytingar mun funda um gæði og gengi stefnunar aftur fyrir 1. apríl og kanna hvort þörf sé á breytingum á þeim eða endurskoðun á reglum Pírataspjallsins heildstætt og þá meta hvort þörf sé að leggja fyrir kosningu um lokun þess ef það telst á þeim tíma ákjósanlegur kostur.