Aðgerðaráætlun í efnahagsmálum
Á félagsfundi Pírata þann 8. júlí 2021 var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun í kosningu sbr. grein 6.7 í lögum Pírata.
Fundargerð félagsfundar: https://office.piratar.is/index.php/s/kpKJABBSQntBRAK
Málsnúmer: | 26/2021 |
---|---|
Tillaga: | Aðgerðaráætlun í efnahagsmálum |
Höfundur: | BaldurK |
Í málaflokkum: | Efnahagur og opinber tölfræði |
Upphafstími: | 08/07/2021 18:27:32 |
Umræðum lýkur: | 22/07/2021 18:27:47 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 15/07/2021 18:27:47 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 22/07/2021 18:27:47 (0 minutes) |
Atkvæði: | 51 |
Já: | 49 (96,08%) |
Nei: | 2 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
- Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
- Borgararéttindi
Með tilvísun í stefnu Pírata
- gr. og 2. gr. stefnu Pírata um gerð hagkerfisins:
„Endurskipuleggja þarf hagkerfið til að tryggja stöðugleika þess þegar áframhaldandi vöxtur er útilokaður.
Tryggja þarf lágmarksafkomu hvers og eins, svo efnahagslegar þrengingar geti ekki svipt einstaklinga möguleikanum á því að nýta réttindi sín.“ - gr. stefnu Pírata um gerð hagkerfisins: „Stefna þarf að því að efnahagurinn þjóni þörfum samfélagins.“
- gr. Efnahagsstefnu Pírata: „Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.“
Álykta Píratar að á næsta kjörtímabili skuli framkvæma eftirfarandi aðgerðir á sviði efnahagsmála:
1. Fyrstu skrefin
1.1. Hækka skal persónuafslátt strax og hefja undirbúning að því að hann verði útgreiðanlegur.
1.2. Skilgreina skal samræmda lágmarksframfærslu af hálfu ríkisins sem öll stefnumótun skal taka mið af.
1.3. Byggja skal upp stigvaxandi skattkerfi þar sem skattar lækka á lægstu laun og hækka á hæstu laun.
1.4. Barnabætur skulu fylgja barni.
1.5. Efla skal gæða- og eftirlitsstofnanir sem tryggja heilbrigði og sanngirni hagkerfisins. Setja skal sjálfstætt embætti skattrannsóknarstjóri á fót á ný. Samkeppniseftirlitið og Fiskistofa skulu fá nægt fjármagn til að sinna eftirliti sínu og framtíð Neytendastofu tryggð. Tryggja skal Umboðsmanni alþingis fjármagn til að hefja frumkvæðisrannsóknir á ný.
1.6. Hefja skal víðtæka endurskoðun á opinberum útgjöldum til að skapa rými til nýrra útgjalda án þess að hækka þurfi heildarskatta eða auka útgjöld ríkissjóðs.
1.7. Byggja skal upp nýja atvinnu- og efnahagsstefnu þar sem áhersla verður á menntun, grunnrannsóknir, hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi. Í atvinnu- og efnahagsstefnu verða fyrstu skrefin að tryggja nægt framboð á störfum við hæfi, valdefla einstaklinginn með tækifærum til nýsköpunar og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu.
2. Á kjörtímabilinu
2.1. Hækka skal persónuafsláttinn í skrefum og greiða hann út til þeirra sem nýta hann ekki.
2.2. Einfalda skal skatta- og almannatryggingakerfin til að fækka og draga úr skerðingum.
2.3. Tryggja skal gagnsæi skatta- og almannatryggingakerfanna og stuðla að skilvirkni með stafrænum lausnum sem hægt er að einfalda og bæta.
2.4. Innleiða skal nýja atvinnustefnu á komandi kjörtímabili sem leggur grunninn að nýsköpunarlandinu Íslandi.
2.5. Vinna skal að öflugri, sjálfbærri og grænni innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar.
2.6. Stefnt skal að því að ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.
2.7. Endurskoða skal lífeyriskerfið í heild sinni og koma af stað blöndun á gegnumstreymiskerfi og séreignarsparnaði á kjörtímabilinu, til þess að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins verði tryggð. Samhliða þurfa atvinnustefna og breyttir atvinnuhættir að tryggja rétt á símenntun með sveigjanleg starfslok og styttri vinnutíma.
2.8. Endurhanna skal húsnæðiskerfið með tilliti til hagsmuna fjölskyldna og einstaklinga. Í þeirri vinnu skal leggja sérstaka áherslu á óhagnaðardrifin leigufélög. Í stað þess að stoppa í götin á núverandi kerfi þarf að hugsa það heildstætt og með sveitarfélögum byggja upp nýtt kerfi frá grunni sem nýtist fólki.
2.9. Grænvæðing efnahagslífsins skal vera grundvöllur efnahagsstefnu komandi ríkisstjórnar.
2.10. Píratar leggja áherslu á velsældarhagkerfið sem krefst þess að áherslan á hagvöxt landsframleiðslu minnki og fleiri mælikvarðar verði teknir með í reikninginn.
3. Til framtíðar
3.1. Vinna skal að umbreytingu stuðningskerfa ríkisins í skilyrðislausa grunnframfærslu. Það skal gert í nokkrum aðgreindum skrefum, m.a. með útgreiðanlegum persónuafslætti til hvers einstaklings og samhliða afnámi skerðinga í stuðningskerfum ríkisins.
3.2. Uppgjör skatta skal gert sjálfvirkt og þannig að öll kerfi virki í rauntíma.
3.3. Skattleggjum meira af auði og arði en minna af launum og eðlilegri neyslu.
3.4. Skattleggjum alla mengun í rauntíma.
3.5. Allar efnahagsaðgerðir og öll atvinnumál skulu byggjast á sjálfbærni samfélagsins í heild. Loftslagsváin krefst mikilla opinberra fjárfestinga sem skapa munu tækifæri til nýsköpunar og atvinnuþróunar.
3.6. Innleiða skal sveigjanlegri atvinnu-, mennta- og heilbrigðisstefnu. Atvinnustefna og breyttir atvinnuhættir, m.a. vegna tækniþróunar, krefjast áherslu á símenntun sem þarf að innleiða í samhengi við breytingu vinnutíma og atvinnutengda starfsþróun.
Greinargerð
Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því stefnum við að sjálfbæru velsældarhagkerfi fyrir alla, samfélagi þar sem allir geta blómstrað á eigin forsendum í sátt við umhverfi sitt. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja jöfn tækifæri í sjálfvirknivæddu samfélagi, þar sem skapandi lausnir ráða för í opnu, stafrænu og lýðræðislegu samfélagi. Baráttan gegn spillingu, fákeppni, einokun og peningaþvætti mun leika þar lykilhlutverk. Heimurinn er að þróast og við höfum ekki efni á því að spyrna á móti þeirri þróun til lengdar. Það sem ákvarðar hvort viss þróun sé neikvæð eða jákvæð fyrir samfélag er geta okkar til að sjá hvert við stefnum, horfast í augu við óhjákvæmilega þróun og undirbúa okkur.
Þessi aðgerðaráætlun er sett í aðdraganda kosninga 2021 og gefur mynd af þeim aðgerðum sem Píratar telja nauðsynlegar og réttar. Áætlunin er kaflaskipt og aðgerðir aðskildar eftir því hvort þær eiga að koma til framkvæmda á fyrsta árinu í kjölfar kosninga, yfir heilt kjörtímabil eða hvort að þær séu til lengri tíma.