Fara aftur í þing

Efnahagur og opinber tölfræði

Nýjar umræður

Það virðast ekki allir, hér inni, búa við saman fjármálakerfi og ég. En ég bý í heimi stórkostlega einhliða og óréttlátra þóknana-, vaxta- og verðtryggingarákvarðana. Ég er í heimi þar sem allt banka- og fjármálakerfið er sjúkt og beitir skuldara ofbeldi, enda þeim sköffuð aðstaða til þess af hinu opinbera. Í mínum heimi telja sumir skuldara hreinlega réttindalausa, eða að minnsta kosti telja að fjármagnseigendur eigi að hafa meira öryggi og réttindi, enda bý ég á Íslandi, landi aflandsfélaga. Að auki hefur orðið algjör viðskilnaður á milli hagsmuna almennings sem á fjármunina í lífeyrissjóðunum og þeirra sem stýra sjóðunum. Fjármununum okkar m.a. varið til bólumyndunar á hlutabréfamarkaðinum (Til kaupa bréfa í fyrirtækjum með markaðsráðandi aðstöðu sem beita okkur svo enn meira fjárhagslegu ofbeldi). En eins og allir vita vilja stjórnendur lífeyrissjóðanna halda í verðtrygginguna og nutu aðstoðar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við endurreisn sama sjúka fjármálakerfið og var fyrir hrun og olli hruninu! En augljósasta merkið um sjúka hugarfarið hérlendis, og telst eðlilegt og sanngjarnt hjá mörgum, er að það tíðkast hjá þeim sem starfa við "vörslu" peninga ANNARRA að telja sig eiga persónulegan rétt á ákveðnu hlutfalli þeirra (væntanlega eingöngu) vegna nálægðar sinnar við peninganna! Græðgin er svo kölluð laun, bónusar, kaupaukar o.fl. Lífeyrissjóðirnir (enda innan fjárfestingahafta) eru loksins farnir að lána óverðtryggð lán til íbúðakaupa í einhverju magni og vextir þeirra eru eitthvað að lækka, en enn alltof háir! En lífeyrissjóðirnir hafa áratugum saman verið að fjármagna að öllu leiti (beint og óbeint) lán til milliliða, eins og íbúðalánasjóðs og banka (rekstur þeirra svo 100% á ábyrgð okkar!), sem svo lána okkur peningana okkar til íbúðakaupa með álagningu og þóknunum! Þið væntanlega vitið að einkabankarnir stjórna peningamagni í umferð (og græða tugi milljarða á því á ári), ekki seðlabankinn og við? Síðan hækkar Seðlabankinn vextina til að slá á þensluna vegna útlána bankann og bankarnir græða enn meira vegna hærri vaxta! Þetta kerfi er algjör svikamilla og verður að breyta. Það bæri merki um mannvonsku og helsjúka meðvirkni með núverandi fjármála- og bankakerfi að greiða þessari tillögu ekki atkvæði sitt. Þetta er 100% prinsippmál að mínu mati. Ég segi 1000 sinnum já.
11/07/2016 10:14:17
þessu til viðbótar þá er rétt að hafa í huga að útreikningur vísitalna er einmitt mjög skýr og gegnsær - en öll rök gegn verðtryggingunni (bæði þau sem halda vatni og önnur) gilda nefnilega líka um breytilega vexti, sem er hinn valkosturinn.. en breytilegir vextir hafa nefnilega þann ókost til viðbótar að þeir eru ógagnsæir, byggja á vísitölunni - og verðbólguspám!
10/07/2016 16:28:53
Bofs: a) Ég veit ekki til þess að því hafi verið haldið fram að verðbólga/trygging sé *óhjákvæmileg* afleiðing af krónunni, heldur því að hún er afleiðing hennar. Þ.e. óstöðugleiki, sveiflur og verðbólga í íslensku hagkerfi hafa vissulega komið til af ýmsum þáttum, en fyrst og fremst er við því að búast þegar sjálfstæður gjaldmiðill er við lýði í 300-400 þúsund manna þjóðfélagi. Það er rétt sem þú segir að önnur ríki notast ekki við verðtryggingu, en íslenska krónan er einfaldlega langminnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi og hefur því mikla sérstöðu í þessu samhengi. b) Það er villandi að segja að skuldir heimilanna séu "til komnar vegna verðtryggingarinnar". Skuldir heimilanna eru tilkomnar vegna þess að þessi heimili tóku lán, verðtryggingin þýðir aðeins það að þau þurfa að greiða til baka sama markaðsverðmæti og þau tóku að láni - sem er eðlilegt. Það er ekki við verðtrygginguna að sakast þó svo að laun þessara heimila hafi ekki að sama skapi hækkað í takt við verðlagsþróun og því minnkað að markaðsverðmæti. Ef þú vilt forðast ranghugmyndir um verðtrygginguna í þessari umræðu þá er eiginlega algjört grundvallaratriði að setja ekki fram svona villandi fullyrðingar. c) Ég veit ekki hvaða rannsóknir þú ert að vísa í, en ef verðtryggingin hefur áhrif á verðbólgu þá geri ég ráð fyrir að það sé með þeim hætti að bankar sjái sér frekar fært en ella að veita lán. Þó svo það geti ýtt undir verðbólgu þá er það varla í hag neytenda að takmarka möguleika þeirra á lántöku. d) Þú segir að neytendur hafi ekki raunverulegt val en valið sem þeir hafa er einmitt það val sem búast má við í mjög óstöðugu hagkerfi; trygging gagnvart verðlagi eða mjög háir vextir. Ef þú bannar hvoru tveggja (með lögbanni á verðtryggingu og lágu þaki á vexti) þá þýðir það einfaldlega að bankar munu ekki sjá sér hag í því að veita lán og möguleikar neytenda til lántöku munu minnka verulega. Gegnumgangandi í þessum málflutningi virðist vera einhver hugmynd um lán sem sjálfsagðan hlut sem detta af himnum ofan og við þurfum bara að ákveða hvað við viljum borga mikið af þeim til baka; það er mikill misskilningur. Lán eru veitt eða ekki veitt eftir frjálsri ákvarðanatöku banka sem eru að leitast eftir hagnaði. Ef við bönnum þeim að veita lán á kjörum sem þeir eru líklegir til að amk. koma út á sléttu á þá munu þeir einfaldlega ekki vilja veita lán, svo einfalt er það. Þessi stefna mun því mjög líklega hafa þau áhrif að framboð á lánum verður miklu minna, ekki að lánakjör í landinu verði betri. e) Lánakjör geta verið mjög einstaklings- og aðstæðubundin og vissulega getur útreikningur þeirra verið flókin, en það er eðlileg afleiðing af flóknu hagkerfi og því að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna. Afnám verðtryggingar mundi ekki koma í veg fyrir það og í sjálfu sér er hún ekkert flókin hugmynd; að tengja afborganir við þróun vísitölu neysluverðs. f) Verðtrygging er hvorki eitur né myglusveppur og ólíkt þessum dæmum þá eru lántakendur fyllilega upplýstir um það þegar lánin þeirra eru verðtryggð og taka væntanlega ákvörðun miðað við þær upplýsingar. Það að þér finnist verðtrygging vera eitur gefur þér ekki rétt til að takmarka borgaraleg réttindi þeirra sem eru þér ósammála til að taka eigin ákvörðun um hvort þau vilja hana eða ekki. g) Eins og áður segir er ekki verið að fjölga valmöguleikum með þessari stefnu, heldur fækka þeim, vegna þess að ef bankar mega bara veita lán á kjörum sem eru nánast bókuð til að valda þeim tapi þá veita þeir ekki slík lán. Þá ertu að breyta valkostum neytenda úr "verðtryggð vs. óverðtryggð lán með hærri vöxtum" í "óverðtryggð lán með hærri vöxtum" og með þakinu verða valkostir langflestra að öllum líkindum "ekkert lán". h) Ég missti reyndar af þessari umræðu á Fuglabjarginu en ég efast um að það hefði breytt miklu, ég er ekki að leggja til einhverjar breytingar á útfærslu stefnunnar heldur að leggjast alfarið gegn grundvallarhugmyndinni með þessari stefnu. i) Ég held og vona að ef Píratar hafna þessari stefnu staðfestist trú stórs hluta kjósenda á því að við tökum upplýstar ákvarðanir eftir málefnalega umræðu, í stað þess að gefa verulega óskynsamleg kosningaloforð í von um að fólk kjósi okkur í afvegaleiddri von um að þau þurfi ekki lengur að borga lánin sín til baka.
10/07/2016 12:46:53
Hér á undan átti að standa í 5. mgr. "Jafnvel Seðlabanki Íslands treysti sér EKKI til að útskýra fyrir Umboðsmanni Alþingis hvernig verðtrygging er reiknuð..." Þetta misritaðist þannig að orðið "ekki" vantaði, eins og ætti að vera að hægt að ráða af samhenginu. Er hér með beðist velvirðingar á því með von um að þetta valdi ekki misskilningi. Rétta meiningin er sú að jafnvel æðsta stofnun í fjármálakerfi landsins getur ekki útskýrt á skiljanlegan hátt hvernig verðtrygging er reiknuð á jafngreiðslulán, og er því óraunhæft að ætlast til þess að venjulegir neytendur geti öðlast slíkan skilning upp á sitt einsdæmi.
08/07/2016 17:00:27
Það er sorglegt að upplifa hversu margir sem hér hafa tjáð sig virðast telja sig vera uppfulla af sérfræðiþekkingu um verðtryggð lán án þess að færa fram nein sérstök rök fyrir sjónarmiðum sínum eða byggja þau jafnvel á ranghugmyndum og misskilningi. Til þess að umræða sem þessi geti orðið árangursrík er nauðsynlegt að hún byggist á staðreyndum en ekki getgátum og þjóðsögum. Nokkuð margir sem hér hafa tjáð sig virðast haldnir þeim misskilningi að verðtrygging neytendalána sé einhverskonar óhjákvæmileg afleiðing af því að Ísland skuli vera sjálfstætt ríki með sinn eigin gjaldmiðill. Þetta er hrein ranghugmynd. Verðtrygging er ekki óhjákvæmileg afleiðing sjálfstæðis annarra ríkja í peningamálum, ekki heldur þeirra sem eru ekki meðal útgefenda útbreiddust gjaldmiðla heims. Aðeins Ísland sker sig úr að þessu leyti, en það er ekki afleiðing af öðru en slæmum hagstjórnarlegum ákvörðun, en sú stærsta og versta þeirra var einmitt innleiðing verðtryggingar á sínum tíma. Það var ekki afleiðing efnahagslegrar óstjórnar heldur liður í henni. Aðrir virðast telja að verðtrygging sé ekki orsök neinna vandamála. Það er ekki heldur rétt, því eins og kemur fram í tölum frá Seðlabanka Íslands er helmingur allra skulda íslenskra heimila beinlínis til kominn vegna áhrifa verðtryggingar. Þannig er verðtrygging í raun stærsta orsökin fyrir þeim skuldavanda sem meirihluti þjóðarinnar hefur lent í á undanförnum árum og fjölmörg heimili hafa ekki enn náð að vinna sig út úr. Enn fremur hafa rannsóknir sýnt að áhrif verðtryggingar á útlán bankakerfisins eru þau sömu og af beinni peningaprentun, sem eykur við verðbólgu og viðheldur henni, og þannig má að segja verðtrygging sjálf sé í raun orsök verðbólgu. Afnám hennar er því grundvallarforsenda fyrir því að hægt verði að halda verðbólgu í skefjum til lengri tíma. Enn aðrir virðast telja að afnám verðtryggingar muni fela í sér færri valkosti fyrir neytendur. Slíkar fullyrðingar bera ekki vott um mikinn skilning á því ástandi sem er á íslenskum markaði fyrir neytendalán. Þar er neytendum einfaldlega stýrt inn í verðtryggðu lánin með því að krefjast allt of hárra okurvaxta af óverðtryggðum lánum þannig að þau verði síður vænlegur valkostur. Þess vegna hafa neytendur ekki raunverulegt val, einmitt vegna þess að framboðinu er stýrt. Í umræðu um afnám verðtryggingar hafa margir sagt að það sé ekki nóg eitt og sér, vegna þess að þá taki bara við óverðtryggð lán með háum vöxtum. Einmitt þess vegna felur þessi tillaga það einnig í sér að koma skuli böndum á vextina. Þá hefur það verið gagnrýnt að kveða á um hámark á vexti, þar sem þá sé um að ræða afskipti af verðmyndun á markaði. Vissulega er um að ræða inngrip, en engan veginn inngrip í neinn frjálsan samkeppnismarkað, því slíkur markaður er ekki fyrir hendi á þessu sviði hér á landi. Með tillögunni er því verið að grípa inn í óeðlilegt og óheilbrigt markaðsástand í því skyni að koma því í heilbrigðara horf. Rétt er að benda á í þessu samhengi að vaxtaþak er alls ekkert nýmæli, heldur er nú þegar í gildandi lögum um neytendalán ákvæði um hámark árlegs kostnaðar, sem hefur komið að góðum notum í baráttu við rányrkjustarfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja, en enginn hefur gagnrýnt það þjóðþrifaverk, heldur þvert á móti. Það eina sem þessi tillaga hér felur í sér er að þetta vaxtaþak sem er nú 50% plús stýrivextir, verði gert lægra í tilviki húsnæðislána, sem helgast af því að húsnæði er lífsnauðsyn, en kreditkortafyllerí og fjármögnun sólarlandaferða eru það ekki. Enn fremur hafa verið gerðar athugasemdir við þær tilvísanir til greina grunnstefnunnar sem þessi tillaga hefur að geyma. Þeirri gagnrýni hefur verið svarað áður í umfjöllun um málið. 1.1 upplýst ákvarðanataka: sú tilvísun helgast af því að lán sem er með minnst fjóra mismunandi kostnaðarliði þar sem hver þeirra tekur mið af öðrum, er afar flókin fjármálaafurð. Jafnvel Seðlabanki Íslands treysti sér að útskýra fyrir Umboðsmanni Alþingis hvernig verðtrygging er reiknuð ofan á jafngreiðslu lán með vísan til þess hveru flókið það væri, og er því algjörlega óraunhæft að ætlast til þess að almennur neytandi geti skilið slíkt fyrirbæri alveg sama hversu vel hann er upplýstur. 2.1 Efling og verndun borgararéttinda. Það eru borgaraleg réttindi að njóta verndar fyrir skaðlegu innihaldi í neysluvörum. Verðtrygging í neytendalánum er einmitt slíkt skaðlegt innihaldsefni í vöru sem er boðin neytendum. Engin hefur lögvarða hagsmuni af því að hafa frelsi til að selja neytendum eitruð matvæli, eða húsnæði sem er gegnrotið af myglusvepp, og það er heldur ekki borgaralegur réttur neins að menga umhverfið og skerða með því lögvarða hagsmuni samborgara sinna og samfélagsins í heild. Að sama skapi eru það ekki heldur lögvarðir hagsmunir neins að hafa frelsi til þess að bjóða neytendum lán með skilmálum sem eru skaðlegir, ekki aðeins þeim sjálfum heldur efnahagslífinu í heild og sem skaða því líka aðra neytendur, þar með talda þá sem aldrei hafa kosið þann valkost að taka á sig verðtryggðar skuldbindingar, og samfélagið í heild. Það að banna hluti sem eru skaðlegir almenningi, er í fullu samræmi við eflingu og verndun borgaralegra réttinda. 4.5. og 6.1 Geta til ákvarðanataka og sjálfsákvörðunarréttur. Eins og fyrr segir er markaðnum fyrir neytendalán á Íslandi handstýrt af ráðandi öflum og neytendur í mörgum tilvikum neyðast til að taka verðtryggð lán jafnvel þó þeir vilji það alls ekki, vegna þess hve hátt vöxtunum er stillt á óverðtryggðum lánum. Með tillögu þessari er því ekki verið að ræða um að fækka "valmöguleikum" heldur að gefa neytendum kost á valmöguleikum sem þeir hafa hingað til verið útilokaðir frá og veita þeim raunverulegan rétt til að ákveða sjálfir hvort þeir velji verðtryggð eða óverðtryggð lánakjör. Þeir sem hafa tekið þátt í spjallinu hér, eru eindregið hvattir til þess að skoða þær umræður sem þegar höfðu átt sér stað um tillöguna á fuglabjarginu og taka þátt í þeim. Þar er nú þegar búið að svara mörgum ef ekki velflestum af þeim sjónarmiðum efasemdarmanna sem hér hafa stigið fram. Reyndar hefði verið mun gagnlegra ef þeir hefðu tekið þátt í þeirri umræðu á fyrri stigum svo hægt hefði verið að útbúa tillöguna sjálfa þannig að hún gerði ráð fyrir og svaraði öllum þeim sjónarmiðum, í stað þess að þeir stígi fram núna fyrst þegar málið er komið í kosningu og ætli sér þá að finna henni allt til foráttu. Þetta er ekki meint persónulega í garð nokkurs manns heldur aðeins í þágu málefnalegrar umræðu sem ég hef lengi, oft og ítrekað, kallað eftir því að fari fram á vettvangi Pírataflokksins um þetta mál sem er eitt stærsta hagsmunamál almennra borgara hér á landi. Að lokum er svo rétt að hvetja þá sem eru í alvöru talað að velta því fyrir sér að kjósa gegn þessarri tillögu, að hugsa sig minnst tvisvar um það hvaða skilaboð Píratar væru að senda kjósendum, með því segjast ekki vilja afnema verðtryggingu og lækka vexti. Hætt er við að slík skilaboð myndu hrekja frá flokknum þann þorra kjósenda sem er fylgjandi afnámi verðtryggingar og lægri vöxtum og myndi fyrir vikið ekki geta hugsað sér að kjósa Pírata. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta í raun spurning um hvorum maður vill fylgja: hagsmunum almennings eða sérhagsmunum þeirra fjárfesta sem njóta góðs af ríkistryggingu fyrir því að fá alltaf jákvæða raunvexti af fjármagnseignum sínum á kostnað almennings.
08/07/2016 16:50:19
Verðtryggingin er ekki vandamál, undirliggjandi vandamál er að verðbólga. Það má taka undarleg dæmi á stuttu tímabili, en til langs tíma liggur vandinn í að verðbólgu og að laun fylgdu ekki verðlagi. Það sem raunverulega skiptir máli er að lækka vexti.
07/07/2016 21:04:50
Tengjum krónu við 10-20 eða alla gjaldmiðla þar á meðal gulls..:) þá ættum við að ná þeim stöðuleika sem verður til þess að það skipti ekki máli hvort verðbólgan sé eða ekki. Því þá ætti þessi reglulegu hrun að hverfa.
07/07/2016 15:36:25
@ogardarsson: Það felst ekki nokkurs konar blekking í verðtryggingunni. Þegar maður tekur langtíma lán er ýmislegt sem maður þarf að skilja til að taka upplýsta ákvörðun, þar á meðal hvaða áhrif misjöfn vaxtastig hafa á greiðslur, muninn á jöfnum greiðslum og jöfnum afborgunum (mjög mikilvægur munur), hvað vaxtatímabil þýðir, hvort og þá hvað sé notað sem veð og ýmislegt fleira. Verðtryggingin er bara einn af mörgum þáttum sem neytandinn verður að vera upplýstur um. Hún er engu flóknari en aðrir sjálfsagðir þættir þess að taka lán, heldur hefur einfaldlega þann eiginleika að fara eftir vísitölu hvers þróun er ekki þekkt fyrirfram. Það felst augljóslega áhætta í þeim fjármálagjörningi, en það gerir hann ekki að neins konar blekkingu. Þetta er leið til þess að minnka áhættu lánveitanda með þeim afleiðingum að hann sér sér fært að hafa vextina þó nokkuð mikið lægri, svo mikið lægri að það er algert make-or-break fyrir tekjulægra fólk, sem án verðtrygginga gæti einfaldlega ekki ráðið við húsnæðislán vegna hárrar greiðslubyrði. Áhættan er ekki afleiðing verðtryggingarinnar, heldur öfugt, sem þýðir að ef verðtryggingin er bönnuð, þá birtist sú áhætta í formi hærri vaxta, eins og tilfellið er nú þegar með óverðtryggð lán. Það er hvorki umdeilt né umdeilanlegt að íslenska krónan er mjög verðbólgugjörn og auðséð að hvorki bankar né neinn annar, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, munu lána til 15-40 ára í íslenskri krónu nema annaðhvort með verðtryggingu og þolanlegum vöxtum, eða án verðtryggingar og mjög háum vöxtum. Það felst engin blekking í því, heldur er þetta tæki til að gera þolanlega vexti möguleika meðfram verðbólgusækinni krónu. Ef fólk á í vandræðum með að taka upplýsta ákvörðun um verðtryggð lán, þá er það vandamálið sem við eigum að leysa. En verðtryggingin er nauðsynleg fyrir tekjulægri einstaklinga sem ekki hafa efni á risavöxtum óverðtryggðra lána. Tillagan hér á ferð felur það eitt í sér að svipta lántakendur valkostum.
07/07/2016 09:00:56
Ég get ekki séð af hverju Píratar ættu að vilja standa gegn fjölbreyttari valkostum neytenda; að taka óverðtryggð lán á háum vöxtum eða verðtryggð lán á lægri vöxtum. Verðtryggingin er tilkomin vegna mun meiri áhættu og óstöðugleika gjaldmiðils / verðbólgu hér á landi heldur en annars staðar. Hún gerir ekkert nema að tryggja það að lán sé greitt til baka á sama markaðsverðmæti og það var tekið. Það er ekki vandamál, vandamálið er óstöðugleikinn og sú staðreynd að laun fylgja ekki verðbólgu með sama hætti. Fyrir utan að byggja að því er virðist á misskilningi um þetta eðli verðtryggingarinnar felur þessi stefna í sér mjög undarlega takmörkun á valfrelsi neytenda sem væri líkleg til að leiða af sér miklu hærri óverðtryggða vexti á lánum og þar með minni möguleika almennings til lántöku. Ég ætla því að kjósa á móti þessari stefnu og hvet aðra eindregið til þess að gera það sama.
06/07/2016 17:33:24