Nýsköpunarstefna
Á félagsfundi Pírata þann 8. júlí 2021 var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun í kosningu sbr. grein 6.7 í lögum Pírata.
Fundargerð félagsfundar: https://office.piratar.is/index.php/s/kpKJABBSQntBRAK
Málsnúmer: | 29/2021 |
---|---|
Tillaga: | Nýsköpunarstefna |
Höfundur: | BaldurK |
Í málaflokkum: | Efnahagur og opinber tölfræði, Viðskipti |
Upphafstími: | 08/07/2021 18:31:14 |
Umræðum lýkur: | 22/07/2021 18:31:14 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 15/07/2021 18:31:14 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 22/07/2021 18:31:14 (0 minutes) |
Atkvæði: | 52 |
Já: | 51 (98,08%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í grunnstefnu Pírata
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.2. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.
4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
4.6. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
6.1. Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Og með hliðsjón af
● Nýsköpunarþing Pírata:
https://vimeo.com/555835306
● Nýsköpunarlandið Ísland:
https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/Nyskopun/NSL%C3%8D1.pdf
● Aðgerðaáætlun í þágu frumkvöðla og sprotafyrirtækja:
https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Atvinnuvegir/Nyskopun/151217-Adgerdaaaetlun-Frumkvaedi-og-framfarir.pdf
● Utanríkisþjónusta til framtíðar:
https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=ccd9f0d1-8f2c-11e7-941e-005056bc530c
● The Entrepreneurial State - Mariana Mazzucato
ÁLYKTA PÍRATAR AÐ:
- Stórauka stuðning við uppbyggingu og rekstur þróunarsetra, sem tryggja vinnuaðstöðu og miðlun þekkingar fyrir nýsköpun á landsbyggðinni, í náinni samvinnu við sveitarfélög. Tryggja þarf nána samvinnu milli þróunarsetra og tengsl þeirra inn í vistkerfi nýsköpunar.
- Einfalda stofnun, skattaumhverfi og rekstur nýsköpunarfyrirtækja, t.d. með því að skilgreina nýtt fyrirtækjaform, frumkvöðlafélög, sem er skilvirkara og hagkvæmara að stofna og reka en einkahlutafélög. Þörf yrði þá á að hafa skýra leið til þess að umbreyta frumkvöðlafélögum í hlutafélög þegar þau vaxa.
- Einfalda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja með auknum efnahagslegum hvötum og tilslökunum til fjárfesta og með því að byggja upp regluverk í kringum hópfjárfestingar.
- Leggja áherslu á nýsköpun á breiðari grunni og tryggja þar með fjölbreytta nýsköpun og samfélagsnýsköpun innan m.a. landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðamennsku, velferðar, menntunar, heilbrigðis, umhverfis og græns iðnaðar, auk allra sviða skapandi greina og við uppbyggingu framtíðarinnviða. Sérstök áhersla verði lögð á að styrkja sjálfbærni og samfélagslegar lausnir.
- Gera styrkjaumhverfið á Íslandi heildrænna, aðgengilegra, sveigjanlegra og kvikara. Samþætta á milli hinna ýmsu styrktarsjóða sem í dag koma að nýsköpun, t.d. með því að samhæfa umsóknarferli og utanumhald, og skilgreina skýrar leiðir fyrir nýsköpunarfyrirtæki og samfélagsleg verkefni til þess að sækja styrki, stuðning og aukið fjármagn eftir því sem að þau vaxa.
- Stórauka fjármagn til hinna ýmsu styrktar- og nýsköpunarsjóða og byggja upp hvetjandi leiðir til þess að auka fjárfestingar fagfjárfesta í nýsköpun.
- Tryggja stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og samfélagsleg verkefni á öllum stigum vaxtar með því að styðja við rekstur m.a. nýsköpunarhraðla og lausnamóta á sem flestum sviðum, ásamt stuðningi við ráðstefnur og viðburði innan nýsköpunarvistkerfisins. Hugað verði sérstaklega að fjármögnun fjölbreyttra verkefna á vaxtarstigi og uppbyggingu alþjóðlegra tenginga.
- Gera vistkerfi nýsköpunar á Íslandi aðlaðandi fyrir alþjóðlega frumkvöðla til að stofna nýsköpunarfyrirtæki og þróa sínar vörur/þjónustu hér á landi.
- Aukinn stuðningur við alþjóðlega sókn íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á erlenda markaði, t.d. með uppbyggingu vaxtarsprotaklasa sem býr m.a. yfir alþjóðlegu tengslaneti, markaðsþekkingu og dreifileiðum, í gegnum aukið norrænt og evrópskt nýsköpunarsamstarf og með skipun sérstaks “nýsköpunar-sendiherra” sem aðstoði íslenska frumkvöðla við að tengjast tæknigeiranum og sækja alþjóðlega styrki og fjármagn.
- Gera atvinnustarfsemi á Íslandi aðlaðandi fyrir framsækin alþjóðleg fyrirtæki, m.a. með því að einfalda útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa fyrir erlenda sérfræðinga og maka þeirra, ásamt því að tryggja fjölskyldum þeirra aðgengi að allri helstu grundvallarþjónustu, t.d. öflugt alþjóðlegt nám á öllum skólastigum sem uppfyllir alþjóðastaðla.
- Setja á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar á sviði umhverfis- og loftslagsmála í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Í tengslum við þessa miðstöð verði settur á fót alþjóðlegur fjárfestingasjóður á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Setja upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.
- Stofna Nýsköpunarráð sem leiðir stefnumótandi vinnu í tengslum við eflingu vistkerfis nýsköpunar á Íslandi með þátttöku helstu hagsmunaaðila; svo sem ríki, sveitarfélaga, fjárfesta, menntakerfisins, verkalýðsfélöga, atvinnulífs og frumkvöðla.
- Tryggja samfellda fræðslu um og þátttöku í nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins. Aukin áhersla á hagnýtingu grunnrannsókna með stuðningi við verkmenntalínur í menntakerfinu og virkri samvinnu milli opinberra stofnanna, atvinnulífs, háskóla-, frumkvöðla- og alþjóðasamfélagsins. Hugað verði að aukinni lýðræðis- og jafnréttisfræðslu og kennslu í gagnrýninni og skapandi hugsun. Hlúð verði að samfélags- og hugvísindagreinum og skapandi greinum og vægi þeirrar menntunar fyrir fjórðu iðnbyltinguna.
- Unnið að því að gera innviði Vísindagarða og nánasta umhverfi framsýnt og aðgengilegt fyrir tilraunir nemenda, rannsakenda, frumkvöðla, opinberra stofnana og atvinnulífs. Jafnframt verði unnið að aukinni tengingu hins opinbera við háskóla- og nýsköpunarsamfélög og samvinnu um úrlausn áskorana. Þá verði skoðað að Listaháskóli Íslands verði hluti af Vísindagörðum til þess að stuðla að aukinni þekkingaryfirfærslu hönnunarhugsunar á milli greina og efla það mikilvæga hugvit enn frekar til fjölbreyttrar verðmætasköpunar.
- Hvatning til atvinnulausra einstaklinga til að taka þátt í nýsköpun, með fríum námskeiðum í frumkvöðlamálum, tryggða grunnframfærslu fyrir atvinnulausa sem stofna nýsköpunarfyrirtæki og möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að ráða fólk beint af atvinnuleysisskrá.
- Nýsköpun, nútímavæðing þjónustu og stafræn umbylting verði sett á oddinn innan opinbera geirans, með áherslu á aðgengi og notendur. Verja þarf auknu fjármagni í samsköpun og fræðslu, auk þess að leggja áherslu á skapandi vinnurými, notendaprófanir, rýningu á ferlum og að prófa sig áfram til að afla gagna til betri ákvörðunartöku. Forgangsröðun fjármagns verði á forsendum notenda, loftslagsins, jafnréttis og virðisauka.
- Hvetja til símenntunar í takt við tækni- og samfélagsbreytingar, m.a. áhersla á það að opinberir starfsmenn geti tímabundið unnið fjarvinnu erlendis hjá sambærilegum framsýnum stofnunum til þess að afla nýrrar þekkingar fyrir heimamarkað.
- Í opinberum innkaupum verði lögð áhersla á útboð áskorana í stað fyrirfram skilgreindra lausna. Auka þarf samvinnu milli opinberra aðila við sameiginleg innkaup, valforsendur skulu byggjast á sjálfbærni (vistferilskostnaði), nýsköpun og gæðum, og hvatt er til prófana á mismunandi lausnum með sem hagkvæmustum hætti til þess að gera samanburð og safna gögnum fyrir upplýstari ákvörðunartöku áður en farið er í stærri innkaup. Unnið verði að því að tryggja að opinber innkaup verði á færi sprotafyrirtækja og nýsköpunaraðila með endurskoðun og útvíkkun reglna og verkferla þar sem ekki verði gerðar óþarflega íþyngjandi kröfur um m.a. sterka fjárhagslega stöðu og reynslu.
- Leggja sérstaka áherslu á aukið gagnsæi, opin gögn og frjálsan hugbúnað í opinberri stjórnsýslu. Uppfæra gögnin reglulega, gera þau skiljanleg og aðgengileg á formi sem henta m.a. frumkvöðlum, nemendum og rannsakendum til þess að vinna með þau og móta nýjar lausnir með sem skilvirkustum hætti.
- Hlúð verði að aðlaðandi, samkeppnishæfum og nútímalegum samfélagsinnviðum; eins og grænum samgöngum og lifandi byggð, jafnrétti, virku lýðræði og gagnrýninni hugsun, fordómaleysi, umburðarlyndi, frjálslyndi og nútímalegri þjónustu með viðurkenningu á mikilvægi samfélagsgerðarinnar fyrir frjóan jarðveg skapandi hugsunar og nýsköpunar.
GREINARGERÐ:
Við viljum sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.
Nánar um ákveðnar greinar:
- Mikilvægt er að stuðningur við nýsköpun sé ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu, heldur sé markvisst unnið að því að skapa tækifæri til nýsköpunar út um allt land. Lagt er til að stórauka stuðning við þróunarsetur í byggðum landsins. Þróunarsetrin geta verið bæði miðstöð nýsköpunarþekkingar á svæðinu, auk þess að tryggja vinnuaðstöðu, bæði fyrir frumkvöðla og aðra þá sem búa á svæðinu eða eru tímabundið þar. Náið samstarf þarf á milli ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja uppbyggingu og rekstur þróunarsetra.
- Mikilvægt er að gera það auðveldara fyrir frumkvöðla að hefja rekstur nýsköpunarfyrirtækja og að opna á möguleika við að einfalda skattaumhverfi og rekstur þeirra. Það skapar ákveðið flækjustig að einfalda þessa hluti í sama fyrirtækjaformi og annar rekstur (einkahlutafélög). Því er lagt til að kannað verði sá möguleiki að búa til nýtt fyrirtækjaform, frumkvöðlafélög, að danskri fyrirmynd. Þetta fyrirtækjaform hafi einfaldara regluverk, hagkvæmari gjöld og skattalegar ívilnanir sem hvetji til nýsköpunar.
- Núverandi regluverk um skattaafslátt vegna nýsköpunarfjárfestinga hefur verið harðlega gagnrýnt þar sem að það nær einungis yfir einfaldar fjárfestingar fólks í nýsköpunarfyrirtækjum, en ekki til svokallaðra englafjárfestinga. Mikilvægt er að auka hvata fyrir englafjárfestingar á Íslandi og breikka þannig möguleika frumkvöðla i að sækja sér fjármagn innanlands, sér í lagi á fyrstu stigum rekstrar.
Á síðustu árum hefur hópfjármögnun frumkvöðlafyrirtækja rutt sér til rúms, bæði hér á landi og erlendis. Mikilvægt er að byggja upp regluverk í kringum þessar fjárfestingar sem bæði skapa tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki, en tryggja jafnframt rétt þeirra sem taka þátt í þeim. - Mikilvægt er að styðja við nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins, ekki bara þá nýsköpun sem byggir á tækni. Mikilvægt er að þessi stuðningur sé samt samhæfður þvert á sviðin, svo ekki sé verið að endurvinna sömu hlutina of oft.
- Við núverandi fyrirkomulag eru margir og ólíkir sjóðir til staðar sem oft er erfitt fyrir frumkvöðla að átta sig á. Mikilvægt er að gera þetta aðgengilegra fyrir frumkvöðla og auðvelda þeim að finna styrki við hæfi.
- Sú fjárfesting sem lögð er í styrktar- og nýsköpunarsjóði skilar sér margfalt til baka og því mikilvægt að ríkið stórauki það fjármagn sem lagt er í nýsköpunarfyrirtæki.
- Nýsköpunarfyrirtæki ganga í gegnum mörg, en vel skilgreind, vaxtarstig. Mikilvægt er að nýsköpunarumhverfið styðji vel við bakið á þeim á öllum stigum vaxtar, með sérstaka aukna áherslu á stuðning þegar kemur að erlendri markaðssókn.
- Með því að gera Ísland eftirsóknarvert og aðlaðandi fyrir erlenda frumkvöðla, þá aukum við fjölbreytni nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Lönd eins og Eistland hafa undanfarin ár laðað til sín frumkvöðla með auðveldu stafrænu umhverfi og ýmsum skattalegum hvötum.
- Það skref sem er hvað erfiðast fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki er að sækja á erlendan markað. Mikilvægt er að stórauka aðstoð við nýsköpunarfyrirtæki á þessu stigi. Það er gert með því að nýta betur norrænt og evrópskt samstarf á þessu sviði (t.d. í gegnum Nordic Innovation House) og með því að byggja upp alþjóðlegt tengslanet, t.d. með skipun nýsköpunar-sendiherra að fordæmi Dana og gert er í tillögum Utanríkisráðuneytisins að sterkari utanríkisþjónustu til framtíðar.
- Það er flókið fyrir erlend fyrirtæki að opna skrifstofur á Íslandi í dag, sér í lagi ef þau ætla að fá erlenda starfsmenn til síns. Ferlið til þess að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga þarf að auðvelda stórlega og einnig er mikilvægt að makar þeirra fái einnig atvinnuleyfi. Erlendir sérfræðingar sem setjast að á Íslandi, jafnvel tímabundið, koma með nýja hugsun og alþjóðlegar tengingar inn í sinn geira víða um heim.
Að sama skapi þarf að styðja við aðgengi að ýmissi grunnþjónustu, svo sem að bjóða upp á nám á öllum skólastigum og aðgengi að opinberri þjónustu á ensku. - Ísland hefur um áratugabil verið leiðandi í rannsóknum og nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur miðlað þessari þekkingu víða um heim, til dæmis í gegnum Jarðhitaskóla SÞ (nú undir GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu). Við viljum byggja á þessum grunni og því góða orðspori sem Ísland hefur á þessu sviði til þess að setja upp alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
Þessi miðstöð, rekin í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir, fyrirtæki og sjóði, myndi leiða saman sérfræðinga, frumkvöðla, vísindamenn og opinbera aðila og hvetja til samstarfs í að leysa mörg þeirra krefjandi vandamála sem heimsbyggðin stendur fyrir þegar kemur að loftslagsvá. Í samvinnu við önnur ríki, fjárfesta og alþjóðleg fyrirtæki væri komið á fót alþjóðlegum fjárfestingarsjóð sem styddi við nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum. Samhliða því yrði skattaumhverfi fyrir fjárfesta sem vildu stofna sína eigin grænu fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi gert hvetjandi.
Með þessari vinnu yrði Ísland að leiðandi rödd og framkvæmdaraðila í baráttunni við loftslagsvá, í stað þess að einungis framkvæma okkar litla hlut í samdrætti útblásturs á heimsvísu. - Við viljum efla samstarf þvert á hagsmunaaðila innan nýsköpunarumhverfisins með stofnun Nýsköpunarráðs. Þessu ráði er ætlað að vera stefnumótandi og að styðja við mótun laga- og styrkja umhverfis fyrir nýsköpun á Íslandi.
- Við viljum stórauka stuðning við nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins. Í grunn- og framhaldsskólum má t.d. styðja framkvæmda ýmissa nýsköpunarviðburða, með uppsetningu fab-lab smiðja og aðgengi að „tækni-strætó“ sem ferðast á milli skóla með allra nýjustu tækin og tólin.
- Það hefur sýnt sig víða um heim að þegar tengsl atvinnulífsins við rannsóknir og frumkvöðlastarf innan háskólanna er aukið, þá leiðir það til aukinnar nýsköpunnar. Mikilvægt er því að styðja vel við uppbyggingu Vísindagarða og nánasta umhverfis og vera með skýra sýn á því hvernig hægt sé að auka þetta samstarf til framtíðar.
- Það að hefja störf hjá öðrum á ekki að vera eina leiðin út úr atvinnuleysi. Við viljum gefa þeim sem misst hafa atvinnuna möguleika á að læra um frumkvöðlastarf og gefa þeim kost á að stofna nýsköpunarfyrirtæki með því að tryggja þeim grunnframfærslu á fyrstu stigum þeirrar vegferðar. Einnig viljum við opna upp á þann möguleika að nýsköpunarfyrirtæki geti ráðið starfsfólk beint af atvinnuleysisskrá.
- Það er mikilvægt að nýsköpun sé einnig að eiga sér stað innan hins opinbera og við leggjum til ýmsar leiðir til þess að hvetja til hennar.
- Við lifum á tímum breytinga. Sjálfvirknivæðing og „fjórða iðnbyltingin“ mun gera störf dagsins í dag úrelt á skemmri tíma en við gerum okkur grein fyrir. Það er því mikilvægt að styðja við símenntun sem tryggir möguleika fólks til þess að takast á við þessar tækni- og samfélagsbreytingar.
- Í dag er flókið fyrir nýsköpunarfyrirtæki að taka þátt í opinberum útboðum þar sem margar kröfur eru íþyngjandi fyrir þau. Mikilvægt er að unnið sé markvisst að því að bæta verkferla og vinnu við útboð til þess að gefa þessum fyrirtækjum aukin tækifæri til þess að taka þátt.
- Aukið aðgengi að opnum gögnum er ekki einungis verkfæri til að tryggja gagnsæi í opinberum rekstri, heldur opnar það upp á möguleika fyrir frumkvöðla til þess að búa til nýjar og skilvirkar lausnir sem oft eru byggðar á innsýn og aðgengi að þessum gögnum.
- Mikilvægt er að byggja ekki aðeins upp sterkt frumkvöðlastarf, heldur líka grænt, skapandi og lifandi samfélag sem er hvetjandi til nýsköpunar á sem flestum sviðum.