Fjölmenningarstefna
Á félagsfundi þann 13. júlí 2021 var samþykkt að setja fjölmenningarstefnu í vefkosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata í samræmi við grein 6.7 í lögum Pírata:n6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.nFundurinn samþykkti jafnframt að stefnurnar skyldu vera til kynningar í 4 daga en í kosningu í 7 daga.nnFundargerð fundarins má nálgast hér: https://office.piratar.is/index.php/s/bQxDamD6ey6Mrey
Málsnúmer: | 33/2021 |
---|---|
Tillaga: | Fjölmenningarstefna |
Höfundur: | BaldurK |
Í málaflokkum: | Mannréttindi |
Upphafstími: | 13/07/2021 18:30:50 |
Umræðum lýkur: | 24/07/2021 18:30:50 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 17/07/2021 18:30:50 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 24/07/2021 18:30:50 (0 minutes) |
Atkvæði: | 48 |
Já: | 47 (97,92%) |
Nei: | 1 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með vísan í grunnstefnu Pírata:
- Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna
- Borgararéttindi
Með vísan í samþykkta stefnu Pírata:
67/2016 Almenn stefna um útlendinga
Álykta Píratar eftirfarandi:
1. Útlendingastofnun verði lögð niður
1.1. Leggja skal Útlendingastofnun í núverandi mynd niður og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum.
1.2. Taka skal markviss skref til að stuðla að hraðari, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt.
2. Flóttafólk
2.1. Bæta skal móttökuferli fólks á flótta og stuðla að því að Ísland hafi burði til að taka við fleiri einstaklingum og fjölskyldum á flótta.
2.2. Beiting matskenndra ákvæða útlendingalaga skal taka mið af aukinni mannúð, skilningi og virðingu fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd.
2.3. Umsóknir um hæli skulu almennt vera teknar til efnismeðferðar.
2.4. Brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, eru ólíðandi og þær verður að stöðva án tafar.
2.5. Brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, eru ómannúðlegar og þeim skal hætta án tafar.
2.6. Ákvörðun um frestun réttaráhrifa skal tekin af dómara en ekki kærunefnd útlendingamála. Í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og fram að því að einstaklingur er fluttur úr landi.
2.7. Íslensk stjórnvöld skulu standa við skuldbindingar sínar á grundvelli Samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og tryggja að fórnarlömbum mansals verði veittur viðeigandi stuðningur og hjálp.
3. Réttindi erlends verkafólks
3.1. Grípa verður til aðgerða til að stöðva víðtæk brot á erlendu launafólki, og tryggja að réttindi þeirra samkvæmt lögum og kjarasamningum séu tryggð.
3.2. Efla skal fræðslu fyrir útlendinga á íslenskum vinnumarkaði og aðgang að upplýsingum á móðurmáli.
3.3. Styrkja skal heimildir eftirlitsaðila, þ.m.t. stéttarfélaga, til öflunar gagna.
3.4. Skýra og bæta skal heimildir til beitingu viðurlaga gagnvart brotlegum atvinnurekendum.
3.5. Festa skal í lög viðurlög eins og févíti þegar uppvíst verður um brot.
3.6. Útvíkka skal skilgreininguna á vinnumansali þannig að hún nái utan um öll tilvik þess.
3.7. Taka skal markvissar aðgerðir til að tryggja öruggt og heilnæmt húsnæði fyrir erlent verkafólk.
4. Atvinnuleyfi fylgi veitingu dvalarleyfis
4.1. Öllum tegundum dvalarleyfa skal almennt fylgja atvinnuleyfi.
5. Menntun
5.1. Einstaklingar með erlendan bakgrunn skulu hafa aðgang að fjölbreyttum menntaúrræðum sem henta þeirra þörfum.
5.2. Nám í íslensku á að vera aðgengilegt öllum, án tillits til aldurs, uppruna, eða fjárhagslegrar stöðu. Slíkt nám ætti að vera í boði á öllum færnistigum og ætti að búa nemandann undir líf í íslensku samfélagi.
5.3. Efla skal íslenskukennslu á leikskólastigi og bjóðum börnum á öllum skólastigum sem ekki hafa öðlast færni í íslensku einstaklingsmiðaða kennslu án almennrar aðgreiningar frá öðrum nemendum.
5.4. Efla skal móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna.
5.5. Auðvelda skal fólki erlendis frá að fá menntun sína metna.
6. Menningarleg aðlögun
6.1. Hjálpa skal útlendingum betur að aðlagast íslenskri menningu og gefa þeim tækifæri til að verða hluti af íslensku samfélagi
6.2. Taka skal markviss skref til að taka vel á móti innflytjendum með fjölbreyttan bakgrunn hvaðanæva að úr heiminum, t.d. með eflingu fjölmenningarseturs.
6.3. Grípa skal til aðgerða til að sporna við fordómum og útlendingahatri en þess í stað miða að því að byggja upp samfélag sem byggir á samkennd og samhug, með sérstöku samfélagsátaki.
Með samþykkt þessarar stefnu fellur úr gildi almenn stefna um útlendinga, nr. 67/2016.
Greinargerð.
Fjölmenning er fjársjóður. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina. Íslenskt samfélag myndi ekki ganga án útlendinga og nýstárlegar hugmyndir kvikna ekki úr einsleitni, heldur úr samtali og samvinnu fjölbreyttra einstaklinga. Setja þarf því nýjan tón í málefnum innflytjenda á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að taka vel á móti fólki sem vill setjast hér að.
Gera þarf gríðarlegar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og málsmeðferð í málefnum útlendinga hér á landi. Útlendingastofnun er ófær um að sinna vel þeim verkefnum sem henni hafa verið falin. Nauðsynlegt er að leggja stofnunina niður og færa ætti verkefni hennar til Þjóðskrár Íslands og sýslumannsembætta landsins. Er þá eðlilegt að fjármagn til verkefnisins fylgi, til viðbótar við það fjármagn sem er nauðsynlegt til að vinna á núverandi biðtíma umsókna og stuðla að einfaldari og skilvirkari vinnslu umsókna til framtíðar. Sú stofnun sem fer með málefni útlendinga á að vera í þjónustuhlutverki gagnvart skjólstæðingum sínum, en núverandi meðferð stjórnsýsluvalds í málaflokknum hefur ekki sýnt að þetta þjónustuhlutverk sé í fyrirrúmi og úrbætur því nauðsynlegar.
Grípa þarf til sértækra aðgerða til að standa betur vörð um réttindi erlends verkafólks á Íslandi, enda höfum við endurtekið séð dæmi þess að erlent verkafólk búi við afar bágbornar aðstæður hér á landi, og full ástæða til að gera úrbætur þar. Í stefnunni eru tilgreindar nokkrar sértækar aðgerðir til að ná því markmiði að stöðva brot á erlendu launafólki og tryggja að réttindi þeirra samkvæmt lögum og kjarasamningum séu tryggð. Heimildir eftirlitsaðila verði styrktar og heimildir til beitingu viðurlaga gagnvart brotlegum atvinnuveitendum verði skýrðar. Setja verður heimildir til beitingu viðurlaga í lög, t.d. að beita atvinnuveitendur févíti. Útvíkka verður skilgreininguna á vinnumansali til að ná betur utan um tilvik þess og taka markvissar aðgerðir til að tryggja öruggt og heilnæmt húsnæði fyrir erlent verkafólk.
Það felast mörg og oft vannýtt tækifæri í þeim mannauði sem flyst til Íslands frá útlöndum. Að veita fólki tækifæri til að nýta menntun sína og reynslu hér á landi yrði landi og þjóð mjög til framdráttar. Útlendingar hafa sinnt mikilvægum störfum hér á landi, sem annars hefði í mörgum tilfellum verið ógjörningur að sinna. Útlendingar eru ómissandi hluti margra starfsstétta hér á landi, má þar sem dæmi nefna verslunar- og þjónustustörf og ræstingastörf, en einnig sérfræðistörf, t.d. í heilbrigðisgeiranum. Við eigum að meta menntun og reynslu innflytjenda að verðleikum og auðvelda þeim að gefa af sér til samfélagsins.
Menningarleg aðlögun er lykillinn að velgengni innflytjenda á Íslandi og farsælu fjölmenningarsamfélagi. Hér á landi er þegar að byggjast upp gróskumikið fjölmenningarsamfélag, en menningarleg aðlögun innflytjenda er nauðsynleg til að taka vel á móti nýjum hópum útlendinga og tryggja þannig aðlögun þeirra í íslenskt samfélag.