Stefna um sóttvarnir

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.

Með tilvísun í grunnstefnu Pírata

1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

1.2. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.

1.3. Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.

1.4. Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.

2.1. Píratar beita sér fyrir eflingu og vernd borgararéttinda.

2.3. Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.

2.4. Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.

3.2. Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.

3.3. Til friðhelgi telst réttur til leyndar og nafnleysis, og sjálfsákvörðunarréttur.

4.1. Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

4.2. Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.

4.4. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna.

4.5. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.

4.6. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.

6.1. Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.

ÁLYKTA PÍRATAR AÐ:

1.
Öflugt og vel mannað heilbrigðiskerfi er grunnforsenda fyrir góðum viðbrögðum og vörnum gegn heimsfaraldri. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar hefur lyft grettistaki í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn við algerlega óviðunandi aðstæður og viðvarandi fjársvelti. Því verður að linna. Tryggja verður viðunandi húsnæði, nægt fjármagn og fulla mönnun til þess að heilbrigðiskerfið geti staðist álagstíma og tryggt öllum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

2.
Stórefla þurfi fjármagn til geðheilbrigðisþjónustu til fólks sem verður illa úti andlega á tímum heimsfaraldurs.

3.
Stórefla þarf rannsóknir og gagnaöflun á áhrifum heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða á lýðheilsu og geðheilbrigði og tryggja opið aðgengi að þeim gögnum.

4.
Sett sé á stofn sérstök Sóttvarnarstofnun undir stjórn sóttvarnalæknis sem fari með það hlutverk að skipuleggja og leiða viðbrögðum við heimsfaraldri. Tryggja þarf nægilegt fjármagn til þess að stofnunin hafi bolmagn til þess að bregðast við og framkvæma sjálfstætt mat á leiðbeiningum alþjóðlegra stofnana.

5.
Leggja skuli áherslu á að allar ákvarðanir séu teknar á upplýstan máta, í ljósi nýjustu gagna og þekkingar.

6.
Leggja skuli áherslu á að ráðgjöf sérfræðinga sé grundvöllur fyrir öllum stjórnvaldsákvörðunum tengdum viðbragði við faröldrum.

7.
Leggja skuli áherslu á að almenningur sé upplýstur um forsendur allra þeirra ákvarðana sem teknar eru og að opið aðgengi sé að öllum þeim gögnum sem forsendurnar byggja á.

8.
Leggja skuli áherslu á að meðalhófsreglu sé gætt í öllum þeim sóttvarnaraðgerðum sem takmarka borgarafrelsi og friðhelgi einstaklinga.

9.
Leggja áherslu á breitt samstarf samfélagsins í að sporna við þeim hættum sem skapast kunna í heimsfaraldri. Leita skal leiða til að bæta fólki skaða sem það verður fyrir vegna sóttvarnaaðgerða og skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að fylgja þeim.

10.
Stofnaður verði þver-pólitískur samráðsvettvangur innan Alþingis í tengslum við stjórnvaldsaðgerðir tengdum heimsfaraldri.

11.
Áhersla sé lögð á að styðja við og vernda jaðarhópa innan samfélagsins á tímum heimsfaraldurs og tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

12.
Lögð skal áhersla á að tryggja skilvirkt skólastarf barna og unglinga á tímum heimsfaraldurs.

13.
Öflugar smitvarnir á landamærum eru skynsöm leið til takmörkunar á útbreiðslu smita á Íslandi. Af tvennu illu skal velja takmarkanir á landamærum frekar en frelsisskerðingar innanlands.

14.
Farið verði í marktækar aðgerðir, svo sem skilyrðislausa grunnframfærslu, til stuðnings þeim einstaklingum sem verða fyrir afkomumissi í kjölfar heimsfaraldurs og þeim boðið upp á fjölbreytt úrræði til þess að tryggja komu þeirra aftur inn á vinnumarkaðinn. Hverfa þarf frá ógegnsæjum og óskilyrtum styrkjum til stórra fyrirtækja, einblínum fremur á að styrkja starfsfólkið, einstaklinga beint.

15.
Aukin áhersla á að nýta og styðja við möguleika fólks til fjarvinnu og fjarnáms. Fjárfest verði í fólki og nýsköpun.

16.
Mikilvægt er að Ísland styðji við og sé fullur þátttakandi i alþjóðlegu samstarfi um viðbrögð við heimsfaraldri.

GREINARGERÐ

Fá mál snerta jafn mörg grunngildi Pírata og stefna um sóttvarnir. Umræður um hana voru einnig mjög virkar og upp úr þeim umræðum var þessi stefna skrifuð, en í henni er reynt að ná fram öllum helstu sjónarmiðum sem komu fram meðal þeirra sem tóku þátt.

Í þessari stefnu er lagt áherslu á að allar ákvarðanir tengdar sóttvörnum séu teknar miðað við bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingar og að þegar stjórnvaldsákvarðanir eru teknar þá sé meðalhófsreglan ávallt í fyrirrúmi. Í því sambandi er einnig lögð sérstök áhersla á að vernda fresli einstaklinga innanlands með öflugum vörnum á landamærum.

Að sama skapi telja Píratar að mikilvægt sé að tryggja nægt fjármagn til þess að hægt sé að rannsaka, bregðast við og fyrirbyggja heimsfaraldra. Í því sambandi er öflugt og vel mannað heilbrigðiskerfi er grunnforsenda fyrir góðum viðbrögðum og vörnum gegn heimsfaraldri.

Málsnúmer: 37/2021
Tillaga:Stefna um sóttvarnir
Höfundur:gislio
Í málaflokkum:Heilbrigðismál
Upphafstími:14/08/2021 11:50:37
Umræðum lýkur:28/08/2021 11:55:42 (0 minutes)
Atkvæðagreiðsla hefst:21/08/2021 11:55:42 (0 minutes)
Atkvæðagreiðslu lýkur:28/08/2021 11:55:42 (0 minutes)
Atkvæði: 42 (2 sitja hjá)
Já: 39 (92,86%)
Nei: 3
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:50,00%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.