Lagabreyting um kosningakafla og skyndikosningar í lögum Pírata
Málsnúmer: | 4/2024 |
---|---|
Tillaga: | Lagabreyting um kosningakafla og skyndikosningar í lögum Pírata |
Höfundur: | indridistefans |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 14/10/2024 22:18:28 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 14/10/2024 22:30:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 15/10/2024 22:30:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 147 (1 sitja hjá) |
Já: | 105 (71,43%) |
Nei: | 42 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Núverandi lög:
4.16. Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn er tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Aðilar í kjörstjórn skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstöðum á vegum félagsins eða aðildarfélaga á meðan setu þeirra stendur. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosningar í stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Ákvarðanir hennar skulu teknar með óháðum og óhlutdrægum hætti.
Verður:
4.16. Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn og þrjá til vara sem tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd prófkjara og kosninga í stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Kjörstjórn setur sér starfsreglur innan mánaðar frá því að hún nær kjöri þar sem fram koma skilyrði um hæfi og verklagsreglur við undirbúning kosninga.
Aðili í kjörstjórn sem hyggst taka þátt í kosningum eða prófkjöri sem kjörstjórn ber ábyrgð á að framkvæma skal upplýsa kjörstjórn um það og víkja sæti þegar kjörstjórn tekur þá kosningu fyrir, og kemur þá varamaður í hans stað. Framkvæmdastjóri Pírata er kjörstjórn innan handar við störf sín. Kjörstjórn er heimilt að tilnefna aðila til þess að aðstoða við framkvæmd prófkjöra eða kosninga að því tilskildu að viðkomandi séu ekki í framboði í þeim kosningum eða prófkjöri sem um ræðir.
Greinargerð:
Kjörstjórn Pírata í núverandi mynd hefur mjög takmörkuðu hlutverki að gegna og reglur um að aðilar í henni megi ekki gegna öðrum trúnaðarstöðum fyrir Pírata útilokar að áhugasamir einstaklingar taki virkan þátt í starfi félagsins í tvö ár. Lagt er til að kjörstjórn hafi varamenn sem geti gengið í störf aðalmanna vilji aðalmenn bjóða sig fram í embætti á vegum flokksins eða taka þátt í prófkjöri.
Lagt er til að kjörstjórn Pírata taki að sér að framkvæma prófkjör Pírata á landsvísu til þess að tryggja eftir fremsta megni samræmingu reglna og framkvæmdar. Þá eru kjörstjórnir í öllum landshlutum mannaflsfrekar vegna þeirrar kröfu að í þeim sitji 3 einstaklingar í hverju kjördæmi sem ekki sinni öðrum trúnaðarstörfum á sama tíma.
Núverandi lög:
11.8. Aðildarfélögum skal heimilt að kveða á um í lögum sínum að kjörstjórn Pírata hafi yfirumsjón með persónukjöri á vegum aðildarfélagsins. Sé heimildin nýtt skal kjörstjórn Pírata þá taka að sér það hlutverk í samræmi við lög aðildarfélagsins. Nú er kosningarferli innan aðildarfélags í gangi þegar ný kjörstjórn Pírata er valin og skal hún þá taka við framkvæmd þeirra kosninga sem í gangi eru ásamt þeim gögnum er fyrri kjörstjórn höfðu borist.
14. Þátttaka í kosningum
14.1. Þátttaka í kosningum er á ábyrgð aðildarfélaga á kjörsvæði. Ábyrgðaraðila ber að setja skýrar reglur um framboð Pírata. Hafi aðildarfélögum innan kjördæmis til Alþingiskosninga ekki komist saman um annað skal starfa kjördæmisráð skipað einum fulltrúa fyrir hvert sveitarfélag þar sem Píratar hafa starfsemi. Kjördæmisráð, sé það starfandi, ber alfarið ábyrgð á þátttöku Pírata í kosningum til Alþingis innan kjördæmis síns.
Starfi engin aðildarfélög innan kjördæmis til alþingiskosninga er framkvæmdastjórn í samráði við stefnu- og málefnanefnd heimilt að standa fyrir kjöri á lista fyrir það kjördæmi. Skulu allir félagsmenn Pírata hafa kosningarétt í slíku kjöri. Þeir sem raðast í fimm efstu sæti listans bera ábyrgð á þátttöku hans í kosningum.
14.2. Stefnu- og málefnanefnd annast samræmingu kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélögin. Stefnu- og málefnanefnd er heimilt að útbúa kosningastefnuskrá fyrir Alþingiskosningar út frá samþykktri stefnu.
14.3. Heimilt er að stofna til kosningabandalags við Alþingiskosningar. Aðildarfélögum er heimilt að veita samskonar heimild í lögum sínum hvað varðar sveitarstjórnarkosningar.
14.4. Allir félagsmenn, sem kjörgengir eru til þeirra kosninga sem um ræðir, geta gefið kost á sér á framboðslista.
14.5. Raða skal á framboðslista samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsmanni er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sæti. Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.
Þrátt fyrir fyrstu málsgrein skal ábyrgðaraðilum tveggja eða fleiri kjördæma heimilt að halda sameiginlega framboðslistakosningu fyrir kjördæmi sín. Skal þá raðað á framboðslista kjördæmanna þannig að frambjóðendum sameiginlegu kosningarinnar sé dreift á framboðslistana í sem mestu samræmi við úrslit þeirra.
14.6 Ábyrgðaraðila er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd kjörs á framboðslista. Í slíkum reglum er heimilt að kveða á um skilyrði atkvæðisréttar í kosningu á framboðslista. Félagsmaður, sem getur sýnt fram á að hann muni að óbreyttu hafa kosningarrétt við Alþingiskosningar, skal ætíð hafa atkvæðisrétt í kosningum á framboðslista í kjördæmi sínu. Þó má gera kröfu um að félagsmaður hafi verið skráður um ákveðið tímabil áður en kosning fer fram.
14.7. Framkvæmdastjórn skal sjá til þess að kynningarferli á þeim sem gefa kost á sér á framboðslista endurspegli sem best gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
Verður:
Grein 11.8 fellur brott
Grein 14. - 16. orðast sem hér segir:
Ný 14. grein
14. Prófkjör og röðun á lista fyrir Alþingiskosningar
14.1. Kjörstjórn Pírata hefur umsjón með prófkjörum félagsins fyrir þingkosningar. Kjörstjórn ákveður tímasetningu prófkjara og skal auglýsa fyrirhuguð prófkjör með minnst mánaðar fyrirvara í gegnum félagatalið. Bregða má frá þessari reglu ef boðað er til kosninga með minna en 3 mánaða fyrirvara en þá verður að auglýsa prófkjör með minnst viku fyrirvara. Sé borin upp og samþykkt tillaga á Alþingi um þingrof sem er kynnt með minna en mánaðar fyrirvara skal haga prófkjörum og röðun á lista eftir ákvæðum 16. greinar um skyndilegt þingrof.
14.2. Kjörstjórn Pírata semur nánari reglur um prófkjör Pírata í samvinnu við stefnu- og málefnanefnd, sem leggja þarf fyrir kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar innan mánaðar frá því að dagsetning prófkjara hefur verið ákveðin.
14.3. Allir félagsmenn, sem kjörgengir eru til þeirra kosninga sem um ræðir, geta gefið kost á sér á framboðslista og tekið þátt í kosningu um þá. Þó má setja kosningarétti það skilyrði í prófkjörsreglum að félagsmaður hafi verið skráður félagi í flokknum í allt að 15 daga áður en kosning fer fram.
14.4. Kjörstjórn Pírata ber ábyrgð á því að allir frambjóðendur hafi tækifæri til þess að kynna sig fyrir félagsmönnum í aðdraganda prófkjörs.
14.5. Úrslit prófkjara eru bindandi fyrir helming þingsæta hvers kjördæmis fyrir sig, námundað upp á við. Raða skal í efstu sæti framboðslista í hverju kjördæmi samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schultze-aðferð.
14.6. Kjörstjórn Pírata raðar í sæti neðar á lista með fjölbreytni og jafnrétti að leiðarljósi ásamt því að taka mið af úrslitum prófkjörsins. Kjörstjórn er heimilt að bæta öðrum sem ekki voru í prófkjöri á listann með samþykki þeirra sjálfra og í samráði við þau sem hlutu bindandi kjör á listann.
14.7. Frambjóðanda er heimilt að taka sæti neðar á lista en kjör hans segir til um og færast þá aðrir frambjóðendur upp. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sætI
14.8. Starfsfólki Pírata og starfsfólki þingflokks Pírata er ekki heimilt að taka bindandi sæti á framboðslista félagsins.
Greinargerð:
Í núgildandi reglum er valdsvið hvað varðar prófkjör og kosningabaráttu óskýrt og dreifir útfærslunni að miklu leyti inn í lög aðildarfélaga sem stundum eru óvirk og því oft ómögulegt að fá skýra mynd af framkvæmd prófkjara og kosningabaráttu. Séu öll kjördæmi í fullri virkni er hins vegar mjög mannaflafrekt að manna allar þessar stöður og nokkur vafi leikur á því að það sé góð nýting á sjálfboðaliðum að hafa hátt í 20 sjálfboðaliða á landsvísu að skipuleggja prófkjör.
Miðað við núverandi lög er næsta ómögulegt að hafa framkvæmdina með nokkru móti samræmda sem hætt er við að letji frambjóendur til þess að gefa kost á sér. Með því að gefa kjörstjórn skýrt umboð til að skipuleggja og framkvæma prófkjör er búið að taka að miklu leyti á þeim göllum sem eru á núgildandi lögum.
Hvað varðar það að gefa frambjóðendum færi á að kynna sig, eins og lagt er til með lagabreytingu þessari, þá er átt við tryggja skuli eftir fremsta megni jafnt aðgengi að þeim kynningarfundum sem eru haldnir, ekki fylgja þessu nein auglýsingapláss eða fjármagn til birtinga.
Til að tryggja eftir fremsta megni að framboðið endurspegli gildi Pírata er talið nauðsynlegt að gefa kjörstjórn svigrúm til að eiga við neðri hluta listans.
Vegna aðstöðumunar starfsfólks þingflokks þykir ekki viðeigandi að starfsfólk þingflokks taki þátt í prófkjörum eða bindandi sæti á lista framboðsins.
Ný 15. Grein
15. Þátttaka Pírata í Alþingiskosningum
15.1.Framkvæmdastjóri Pírata ræður kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við framkvæmdastjórn. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur og aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður.
15.2. Aðildarfélög eða kjördæmisfélög Pírata, eftir því sem við á, sjá um framkvæmd kosningabaráttu innan síns kjördæmis í samstarfi við frambjóðendur og kosningastjóra Pírata á landsvísu. Þeim er heimilt að ráða kosningastjóra fyrir sitt kjördæmi í samráði við framkvæmdastjóra Pírata og kosningastjóra Pírata á landsvísu.
15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stefnu- og málefnanefndar í opnu ferli innan hreyfingarinnar. Leggja skal kosningastefnuskrá Pírata fyrir kosningakerfið eins tímanlega og frekast er unnt fyrir kosningar.
15.4. Framkvæmd kosningabaráttu Pírata skal fara fram í sem bestu samræmi við grunnstefnu flokksins og samþykkta kosningastefnuskrá hans.
Greinargerð
Við kosningar til Alþingis er mikilvægt að framkvæmdin sem lögð er upp með sé skýr og hlutverk og ábyrgðir séu á hreinu. Þessi tillaga skýrir þessi hlutverk og fækkar þeim sem þurfa að koma að ákvörðunum og er til þess fallin að gera allt viðbragð snarpara og markvissara.
Í núgildandi lögum er ennfremur ekki hægt að hefja vinnu við kosningastefnuskrá fyrr en eftir prófkjör sem setur vinnunni óþarfa skorður. Með því að hefja vinnu við kosningastefnuskrá sem fyrst verður auðveldara að veita hinum almenna Pírata aðkomu að vinnunni.
Ný 16. Grein
16. Skyndilegt þingrof
16.1. Komi upp sú staða að borin sé upp og samþykkt tillaga um þingrof samkvæmt 24. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands með minna en mánaðar fyrirvara skal haga prófkjörum og röðun á lista samkvæmt greinum 16.2 - 16.6.
16.2. Komi til skyndilegs þingrofs og engin kjörstjórn sé starfandi skal framkvæmdastjórn skipa þrjá einstaklinga í kjörstjórn, og allt að 3 til vara.
16.3 Kjörstjórn Pírata semur og kynnir prófkjörsreglur fyrir prófkjör. Leitast skal til að víkja sem minnst frá fyrri samþykktri framkvæmd samkvæmt 14 og 15 grein þessara laga
16.4. Kjörstjórn Pírata skal á grundvelli prófkjörsreglna auglýsa og halda prófkjör svo fljótt sem því verður við komið og heimilt er að hafa fresti stutta en leitast skal við að þeir séu ekki skemmri en sólarhringur.
16.5. Kjörstjórn Pírata skal stuðla að því að allir frambjóðendur hafi tækifæri til þess að kynna sig fyrir félagsfólki.
16.6. Að öðru leyti skal haga prófkjörum og röðun á lista eftir ákvæðum 14. greinar.
Greinargerð:
Komi upp sú staða að tillaga um þingrof sé borin upp og samþykkt á Alþingi eru mest 45 dagar til kosninga. Þátttaka í þingkosningum er flókið verkefni sem krefst mikils vinnuframlags frá ótal fólki: starfsfólki, frambjóðendum, grasrót og öðrum sjálfboðaliðum. Við þingrof þarf að skila inn fullbúnu framboði 30 dögum fyrir kjördag sem gefur mjög skammann tíma. Við höfum mögulega allt niður í 8 daga til að útbúa framboðslista, þegar þetta er skrifað er boðað til kosninga með 48 daga fyrirvara sem gefur 18 daga því þingrofið verður ekki borið upp alveg strax.
Þessar tillögur ganga eins stutt og unnt er og styttir eingöngu þá fresti sem að nauðsynlegt er og geta komið í veg fyrir að Pírötum takist að bjóða fram. Eins tryggja þessar breytingar að mögulegt sé að halda prófkjör. En á sama tíma eru lagðar skyldur á framkvæmdaraðila að stíga varlega til jarðar og fara ekki í grundvallarbreytingar sem og að gæta að því að tryggja eins og unnt er jafnræði frambjóðenda. Athuga þarf að fáist þessi tillaga samþykkt mun þurfa að fara í að setja sérstök ákvæði um aðkomu Pírata að sveitarstjórnarkosningum í framhaldinu sú vinna yrði óhjákvæmilega að fara fram í nánu samráði við fulltrúa Pírata í sveitarstjórnum.
Annað
Við samþykkt þessara laga falla úr gildi allar greinar sem og kafli 14a.
Kafli 15 verður Kafli 17 undirgreinar breytast til samræmis.
Kafli 16 verður Kafli 18 undirgreinar breytast til samræmis.