Kosningastefnuskrá Pírata fyrir Alþingiskosningar 2024
Stefnuskrá þessi hefur verið samþykkt á sameiginlegum fundi stefnu- og málefnanefndar 3. nóvember 2024. Í grein 7.2.4 í lögum Pírata segir að í aðdraganda alþingiskosninga skuli stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggi á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skuli samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins. Þetta ákvæði hefur haft að leiðarljósi í allri vinnu við gerð kosningastefnuskrárinnar og er þannig sérstaklega tilgreint í hverjum kafla stefnuskrárinnar á hvaða fyrirliggjandi almennu stefnu eða stefnum sá kafli byggir. Að baki þessari stefnuskrá liggur mikil og rík stefnumótunarvinna af hálfu grasrótar og frambjóðenda.
Undirbúningur kosningastefnuskrár hófst í október 2024 og var leidd af stefnu- og málefnanefnd. Settir voru upp fjórir verkefnahópar og auglýst var eftir þátttöku í þá í félagatali flokksins. Hóparnir voru samansettir af grasrót og kjörnum fulltrúum. Út frá þeirri vinnu Úr þeirri vinnu komu fyrstu drög að þeirri kosningastefnuskrá sem hér er lögð fram, en drögin voru unnin áfram af frambjóðendum Pírata eftir að prófkjörum lauk og ljóst var hver myndu koma fram fyrir hönd Pírata í komandi kosningabaráttu. Samþykkt var á áðurnefndum fundi að setja stefnuskrá þessa í rafrænt kosningakerfi flokksins til samþykktar og staðfestingar grasrótar. Tengil á stefnuna má finna hér á auðlesnari máta:
https://docs.google.com/document/d/1KXz4lcOYCoomW6CulX7zAWymU-h0NEui6rsnQbcLA/edit?tab=t.0
Málsnúmer: | 8/2024 |
---|---|
Tillaga: | Kosningastefnuskrá Pírata fyrir Alþingiskosningar 2024 |
Höfundur: | Kristin |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 05/11/2024 21:48:53 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 06/11/2024 22:19:52 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 07/11/2024 22:19:52 (0 minutes) |
Atkvæði: | 63 (1 sitja hjá) |
Já: | 59 (93,65%) |
Nei: | 4 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Kosningastefna Pírata 2024
Hin Píratalega aðferð
Áherslur Pírata á lýðræði, gagnsæi, mannréttindi og réttarríki
Gagnsæi, öflugt réttarríki, upplýst ákvarðanataka og verndun mannréttinda eru grunnforsendur fyrir heilbrigðu lýðræðisríki. Píratar vilja ekki að almenningur þurfi að treysta þeim sem valdið hafa í blindni heldur gera þeim kleift að fylgjast með, taka þátt og veita virkt aðhald. Öflugt réttarríki er mikilvæg forsenda fyrir stöðugu efnahagslífi og blómlegu atvinnulífi. Ef spilling og mismunun fá að þrífast í stjórnkerfinu fælir það fjárfesta og frumkvöðla frá þátttöku í samfélaginu. Virk verndun mannréttinda er grundvallarforsenda lýðræðisríkis þar sem borgarar búa við frelsi og öryggi.
Stjórnmálafólk Pírata leggur ríka áherslu á samráð. Hlusta þarf á þau sem þekkja málin best og afla sérfræðiþekkingar og gagna áður en ákvarðanir eru teknar. Píratar vilja efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku og leggja áherslu á fólkið – hugmyndir þess, velferð og valdeflingu. Á þessum grunni leggja Píratar áherslu á gott aðgengi að gögnum og upplýsingum, öflugt samráð og virka lýðræðisferla. Píratar vilja nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs, í fullu samráði við almenning og sérfræðinga.
Píratar ætla að:
- Samþykkja nýja, uppfærða stjórnarskrá.
- Tryggja aukið gagnsæi og upplýsta ákvarðanatöku.
- Styðja við lýðræðisleg vinnubrögð innan stjórnsýslunnar.
- Halda borgaraþing.
- Efla réttarríkið með Lögréttu og aðgengilegra dómskerfi.
- Styðja betur við frjálsa fjölmiðla og blaðamenn.
Ný stjórnarskrá
Píratar vilja nýja stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili. Sú stjórnarskrá skal byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og þeim ábendingum sem fram hafa komið síðan þá. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning og sérfræðinga, til dæmis með borgaraþingi eða öðrum þjóðfundi.
Tryggjum gagnsæi og upplýsta ákvarðanatöku
Píratar vilja aðhald með valdi, bæði opinberu valdi og peningavaldi. Gagnsæi í opinberri stjórnsýslu tryggir að stjórnvöld starfi í þágu almennings og sýni ábyrgð gagnvart honum. Krafa um gagnsæi á almenn fyrirtæki, hluthafaskrár og ársreikninga skapar heilbrigðan og réttlátan markað, þar sem hagsmunir bæði fjárfesta og samfélagsins í heild eru tryggðir.
Eflum frjálsa fjölmiðlun
Píratar vita að frjálsir og óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðissamfélagi. Hlutverk fjölmiðla er að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og hagsmunaaðilum aðhald og upplýsa almenning um samfélagið og áskoranir þess. Píratar ætla að auka styrki til óháðra fjölmiðla og koma á fót sérstökum rannsóknarsjóðum fyrir fjölmiðlafólk til þess að stunda rannsóknarblaðamennsku. Efla þarf réttarvernd fjölmiðlafólks til að hindra að það búi við fjárhagslega ógn eða jafnvel hótanir og kúgun vegna starfa sinna í þágu almennings. Stefnt skal að því að koma Íslandi í fremstu röð ríkja í mælingum á fjölmiðlafrelsi.
Aukum lýðræðisleg vinnubrögð stjórnsýslunnar
Píratar vita að öflugt samráð við stefnumörkun og þróun laga og regluverks eykur gæði þeirra. Því þarf að innleiða reglubundið samráð stofnana við notendur. Þjónusta hins opinbera þarf að vera á forsendum almennings og sýna næmni gagnvart þörfum íbúa. Píratar vilja að málin sem hefðbundin stjórnmál geti ekki leyst verði sett í farveg borgaraþinga. Þannig drögum við málin upp úr pólitískum skotgröfum. Borgaraþing er sérstök stjórnmálaleg aðferð notuð til að leysa úr viðkvæmum eða flóknum málum sem varða grundvallarmál samfélagsins. Borgaraþing Reykjavíkur hafa þegar verið innleidd undir stjórn Pírata. Fyrstu málin sem gætu farið á slíkt þing á vettvangi landsmálanna væru til dæmis ný stjórnarskrá, aðildarviðræður við Evrópusambandið og aðgerðir í loftslagsmálum.
Eflum réttarríkið
Öflugt réttarríki tryggir að öll séum við jöfn fyrir lögum og sitjum við sama borð gagnvart dómstólum og framkvæmdarvaldinu. Réttarríkið á að vernda réttindi borgaranna gagnvart yfirgangi valdhafa og tryggja aðgengi að dómstólum og öðrum réttarúrræðum þegar brotið er á réttindum fólks.
Öflugt réttarríki tryggir blómlega fjárfestingu og heilbrigða samkeppni á meðan veikt réttarríki eykur spillingu og sjálftöku. Píratar munu efla stofnanir sem hafa eftirlit með hagsmunum almennings, svo sem Samkeppniseftirlitið og Umboðsmann Alþingis, og koma á fót sérstakri stofnun sem rannsakar spillingu til að taka hana föstum tökum.
Píratar ætla að aðskilja eftirlit með störfum lögreglu frá framkvæmdarvaldinu og efla fræðslu gagnvart almenningi um réttindi sín í réttarríki. Auka þarf aðgengi almennings að réttarkerfinu, til dæmis með gjaldfrjálsum smákröfudómstól og rýmri skilyrðum til gjafsóknar.
Píratar vilja setja á fót Lögréttu sem tryggir gæði lagasetningar og til að samræma lög að stjórnarskrá Íslands. Hlutverk Lögréttu verður að veita ráðgefandi álit á því hvort lagafrumvörp standist stjórnarskrá og samræmist þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins.
Réttlátt efnahagskerfi í þágu almennings
Áherslur Pírata í efnahagsmálum
Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur samfélag og náttúru saman svo hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því viljum við byggja sjálfbært velsældarhagkerfi fyrir öll. Samfélag þar sem við öll blómstrum á eigin forsendum í sátt við umhverfi okkar.
Píratar vilja sjálfbærri nálgun í efnahagsmálum. Sú nálgun forgangsraðar almannahagsmunum umfram sérhagsmuni sem mun létta róður fjölskyldna sem glíma við verðbólguhlaðið heimilisbókhald. Draga þarf úr sveiflum hagkerfisins og skapa stöðugra efnahagsástand. Slíkt mun leiða af sér stöðugri gjaldmiðil og sjálfbæra verðmætasköpun, þannig að hægt sé að einblína á nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins og út um allt land. Píratar vilja endurskoða kerfi samfélagsins út frá lýðræðislegri og þjónustumiðaðri nálgun á forsendum almennings. Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa.
Píratar beita nýskapandi hugsun til að leysa málin á nútímalegan hátt. Ætlunin er að efla stafræna umbreytingu hins opinbera til að minnka vesen, sóun og mengun. Brugðist verður við húsnæðisvandanum af festu, að fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið með minnkandi verðbólgu sem meginmarkmið. Píratar munu einnig beita forvörnum í heilbrigðis- og velferðarmálum til að skapa lífsgæði og draga úr kostnaði á seinni stigum, auka aðgengi að menntun til að stuðla að meiri verðmætasköpun og leggja grundvöllinn að skapandi lausnum á vandamálum samtímans og framtíðarinnar.
Píratar ætla að innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup og hafa umhverfis- og loftslagsmálin að leiðarljósi við allar ákvarðanir. Slíkt er hagkvæmt til lengri tíma og skapar verðmæti fyrir framtíðarkynslóðir.
Píratar ætla að:
- Vinna bug á verðbólgunni með fjölbreyttum leiðum eins og bregðast af festu við húsnæðisvandanum og stuðla að stöðugra efnahagskerfi.
- Láta Ísland vera í fararbroddi í innleiðingu velsældarhagkerfis.
- Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
- Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
- Skapa aukin verðmæti og lífsgæði með stuðningi við nýsköpun og þróun.
- Endurskoða opinberan rekstur með stafræna umbreytingu að leiðarljósi.
- Standa með hagsmunum neytenda og almennings við allar efnahagslegar ákvarðanir.
- Efla gagnsæi, ábyrga áætlanagerð, tækifæri til aðhalds og lýðræðislegrar þátttöku.
- Tryggja umhverfislega sjálfbærni og innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup í öllum opinberum rekstri.
- Fjármagna grunninnviði velferðarsamfélagsins og standa með forvörnum, menntun og náttúrunni.
- Stuðla að sátt á vinnumarkaði.
Vinnum bug á verðbólgunni með meira framboði af húsnæði og stöðugra efnahagskerfi
Verðbólgan er að knésetja heimilin í landinu með tilheyrandi takmörkun lífsgæða, afkomukvíða og ofurvöxtum. Píratar ætla að ráðast að rót vandans, vegna húsnæðismarkaðarins, óstöðugs gjaldmiðils og verðtryggingar. Við ætlum að tryggja næga húsnæðisuppbyggingu með öruggri fjármögnun. Píratar ætla að skilyrða þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun að jafnaði um þriðjung af uppbyggingarþörf. Á sama tíma slá á þensluna þar sem hún er mest með því að hækka skatta á háar fjármagnstekjur og draga úr þeim skattaafslætti sem ferðaþjónustan býr við. Píratar vilja setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu og leyfa þjóðinni að kjósa um Evrópusambandsaðild.
Gjaldmiðillinn og verðtryggingin eru helstu drifkraftur óstöðugleika í íslenska hagkerfinu. Íslendingar greiða fyrir lélega hagstjórn með gengisflökti og verðbólgu. Með upptöku stöðugri gjaldmiðils verður hagstjórnin agaðri. Það getum við gert með því að binda krónuna við annan eða aðra gjaldmiðla eða einfaldlega með því að taka upp annan gjaldmiðil eins og evruna. Verðtryggingin veldur því að verðbólga orsakar til dæmis hækkun á verðtryggðri leigu sem mælist sem verðbólga sem veldur aftur hækkun á verðtryggðri leigu. Við verðum að koma í veg fyrir þann vítahring. Bæði krónan og verðtryggingin eru sjálfvirk hagstjórnartæki sem varpa ábyrgð af hagstjórn af ríkisstjórn, Seðlabanka og fjármálafyrirtækjum yfir á almenning, sem borgar fyrir hagstjórnarmistök þessara aðila.
Innleiðum velsældarhagkerfið
Efnahagsmálum þarf að haga út frá sjónarmiðum velsældar- og hringrásarhagkerfisins. Þannig stuðlum við að velsæld og lífsgæðum, en tryggjum um leið grunnþarfir almennings og förum vel með auðlindir. Alþjóðlegar reglur og staðlar hafa bæst við á síðustu árum sem munu hafa áhrif hérlendis strax á næsta ári og þá þarf atvinnulífið og hið opinbera að vera tilbúið.
Tæklum spillinguna og tryggjum sanngjarnt og réttlátt skattkerfi
Píratar leggja áherslu á að opinbert eftirlit virki fyrir almenning gegn starfsemi sem svindlar á fólki. Efla þarf lögreglu, skattrannsóknir og samkeppniseftirlit, slíkt verndar heiðarlega starfsemi og almenning. Dæmin um vinnumansal, kennitöluflakk, þunna eiginfjármögnun og ýmiss konar misnotkun eru of mörg. Við ætlum að loka skattaglufum og endurskoða skattkerfið með almannahagsmuni, réttlæti og sanngirni að leiðarljósi.
Píratar vilja létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, af barnafjölskyldum og skuldsettum. Endurskoða þarf fjármagnstekjuskatt, að ekki sé hægt að nota hann til að komast hjá því að greiða hátekjuskatt. Píratar vilja að hann sé þrepaskiptur með tilliti til tegundar fjármagnstekna. Setja skal á fót auðlindagjald fyrir hagnýtingu á sameiginlegum auðlindum, vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja með því að taka betur á þunnri eiginfjármögnun og taka á lóðréttri samþættingu í sjávarútvegi með því að aðskilja veiðar og vinnslu.
Upprætum fátækt
Skattkerfið má ekki hafa íþyngjandi áhrif á þau sem eiga nú þegar erfitt með að ná endum saman. Píratar ætla að tryggja lágmarksframfærslu. Létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, hækka persónuafslátt og greiða fólki út þann persónuafslátt sem það nýtir ekki. Ísland er ríkt land sem getur upprætt fátækt því mega lágmarkslaun aldrei vera undir lágmarksframfærslu á hverjum tíma. Til lengri tíma vilja Píratar skoða kosti þess að koma á fót skilyrðislausri grunnframfærslu á Íslandi.
Nútímavæðum þjónustuna með stafrænni umbreytingu
Píratar ætla að tryggja ábyrgan ríkisrekstur með því að skoða hvernig hægt er að leysa verkefni hins opinbera á nýskapandi hátt með stafrænni umbreytingu og skapa þar með betri þjónustu. Nútímavæðing þjónustu bætir lífsgæði en minnkar jafnframt mengun, vesen og sóun. Píratar hugsa kerfin út frá þörfum notenda, að málin séu leyst á sem skilvirkasta, skynsamlegasta og hagkvæmasta hátt. Þannig nýtum við okkur tækifærin sem felast í tækni, nýsköpun og umbótahugsun þegar kemur að opinberri stjórnsýslu, menningu, listum, íþróttum, umhverfismálum, menntun, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, öldrunarþjónustu og alls staðar þar sem hægt er að leysa málin á uppbyggilegri hátt.
Eflum og styðjum við nýsköpun og grunnrannsóknir
Píratar munu stuðla að aukinni verðmætasköpun og styrkja tekjuöflun ríkissjóðs með fjölbreyttum atvinnustoðum. Þær munu byggja á hugviti ferkar en auðlindum. Áhersla er lögð á nýsköpun á breiðari grunni og fjölbreytt nýsköpun þannig tryggð. Má þar meðal annars nefna samfélagslega nýsköpun innan m.a. landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðamennsku, velferðar, menntunar, heilbrigðis, umhverfis og græns iðnaðar, auk allra sviða skapandi greina og við uppbyggingu framtíðarinnviða. Sérstök áhersla verði lögð á að styrkja sjálfbærni og samfélagslegar lausnir. Þau sem nýta auðlindir skulu greiða fyrir það. Sú tekjuöflun á að nýtast í nýsköpun og rannsóknir. Aukin framleiðni, bæði á sviði hins opinbera og í atvinnulífinu, næst með áherslu á nýsköpun og rannsóknir.
Stöndum vörð um hagsmuni neytenda
Við alla ákvarðanatöku um atvinnu- og fjármál verða hagsmunir neytenda í fyrirrúmi. Hið opinbera á ætíð að stuðla að virkri samkeppni þar sem hætta er á fákeppni. Endurskoða þarf tollakerfið með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Ákvarðanir um fjár- og efnahagsmál og hvernig skuli leysa þjónustu hins opinbera skulu byggja á gögnum um hvað sé hagkvæmast og best fyrir almenning hverju sinni, í stað þess að takmarkast af hægri-vinstri kreddum. Gæði, hagkvæmni og jafnt aðgengi allra að þjónustu er mikilvægara en hugmyndafræðilegt rekstrarform.
Eflum gagnsæi, ábyrga áætlanagerð og lýðræði
Gagnsæi í fjármálum hins opinbera sem og í eignarhaldi fyrirtækja þarf að auka. Píratar munu gera meiri kröfur til kostnaðaráætlana í opinberum framkvæmdum og opna fjárlagagerð fyrir þátttökulýðræði. Einnig þarf að lýðræðisvæða fyrirtæki að fyrirmynd nágrannalandanna með því að gera starfsfólki hægara um vik að hafa aukin áhrif á stjórnun fyrirtækja.
Tryggjum sjálfbærni - umhverfismál eru efnahagsmál
Óspillt náttúra og sjálfbær nýting auðlinda eru framtíðarsparnaður okkar. Við gröfum undan stöðugleika með því að ganga á auðlindir okkar á ósjálfbæran hátt og verðum því að fara vel með náttúruna. Það er engin framtíð í mengun eða umhverfisslysum. Velsældarhagkerfi byggir á sjálfbærni sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika til framtíðar. Píratar munu því ávallt hafa hringrásarhagkerfið og loftslagsmálin að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup í öllum opinberum rekstri.
Fjármögnum grunninnviði samfélagsins, beitum forvörnum í heilbrigðis- og velferðarmálum og eflum menntakerfið
Forvarnir í heilbrigðis- og velferðarmálum skapa lífsgæði og draga úr kostnaði á seinni stigum. Píratar munu fjármagna gott heilbrigðiskerfi, með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál. Tækifæri til þess að tæknivæða og straumlínulaga heilbrigðisþjónustuna eru fjölmörg, og það kunna Píratar vel. Við munum auka aðgengi að menntun strax, sem stuðlar að meiri verðmætasköpun og skapandi lausnum á vandamálum samtímans og framtíðarinnar. Píratar munu uppfæra menntakerfið í samvinnu við fagfólk, allt frá leikskóla til háskóla og símenntunar, í takt við samfélags- og tækniþróun, byggt á okkar lýðræðishugsjón. Það tryggir tækifæri fyrir okkur öll til framtíðar.
Stuðlum að sátt á vinnumarkaði með sanngjörnum launum fyrir starfsstéttir grunninnviða
Sátt þarf að nást á vinnumarkaði, sérstaklega varðandi kaup og kjör starfsstétta þeirra samfélagslegu grunninnviða sem viðhalda góðu samfélagi. Við verðum að forðast misskiptingu auðs því hún grefur undan samfélagssáttmálanum.
Þak yfir höfuðið er mannréttindi
Áherslur Pírata í húsnæðismálum
Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, því skal fara með húsnæði fyrst og fremst sem heimili. Öll umgjörð um húsnæðismarkaðinn verður að taka mið af þeirri sýn en það hefur vantað upp á þetta á Íslandi. Píratar ætla að tryggja nægt framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði og passa að það húsnæði sem byggt er rati á markaðinn, ásamt því að setja stífari ramma um skammtímagistingu. Efla þarf réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Gæði og fjölbreytileiki á húsnæðismarkaði eru markmið Pírata, ásamt því að vinna gegn myglu og raka og bæta lánakjör með stöðugri gjaldmiðli.
Píratar ætla að:
- Tryggja næga uppbyggingu húsnæðis með því að skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf.
- Draga úr skammtímaleigu eins og Airbnb með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar eru skráðir til heimilis og herða eftirlit.
- Innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og bæta 0,7% aukafasteignargjöldum á aukaíbúðir.
- Setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
- Ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á allt of löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Vinna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
- Efla réttindi leigjenda, innleiða hvata til fjölgunar langtímaleigusamninga og verja leigjendur gegn hástökki í upphæðum leigusamninga.
- Tryggja að byggingarreglugerð skilyrði gæði eins og birtu, vistlegt umhverfi og nægan gróður við uppbyggingu.
- Endurvekja rannsóknir á myglu í Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins og standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
- Auka gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu.
Aukum framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði
Öll eiga að geta fundið húsnæði við hæfi á viðráðanlegu verði. Píratar munu fyrst og fremst ráðast í framboðsaukandi aðgerðir frekar en að fresta vandanum með aukinni eftirspurn. Tryggja þarf næga húsnæðisuppbyggingu með öruggri fjármögnun sem heldur dampi í kreppuástandi. Þannig er stuðlað að sveiflujöfnun sem styrkir framleiðni á húsnæðismarkaði. Tryggja þarf áframhaldandi öfluga óhagnaðardrifna uppbyggingu verkalýðsfélaga á íbúðarhúsnæði og stefna að því að skilyrða lífeyrissjóði til að fjármagna að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf eða um 1500 íbúðir á ári. Píratar munu gera langtímaáætlanir sem taka á innviðaskuld og húsnæðisskorti. Við viljum tryggja fjármagn snemma í uppbyggingarferlinu, til dæmis með útgreiðslu hlutdeildarlána á fyrri stigum, en það mun flýta fyrir að bygging nýs húsnæðis geti hafist.
Tryggjum að byggt húsnæði rati á markaðinn
Tiltölulega hátt hlutfall íbúða á markaði eru ekki skráð sem lögheimili. Við því þarf að bregðast til að styrkja stöðu ungs fólks og fyrstu kaupenda, og takmarka svigrúm fjárfesta til að halda húsnæði taktískt af markaði. Einnig þarf að takmarka gististarfsemi í óleyfi. Píratar vilja að húsnæði sé nýtt sem heimili frekar en fjárfesting. Slíkt er hægt að gera með lögheimilisskyldu, takmörkun á veðsetningarhlutfalli aukaíbúða við 60% og hærri fasteignagjöldum á aukaíbúðir um 0,7%. Skilyrða skal heimagistingu við íbúðir með skráð lögheimili og herða eftirlit með brotum á reglum um heimagistingu.
Styðjum við félagslega blöndun og fjölbreytt búsetuform
Píratar vilja greiða götu kjarnasamfélaga (e. co-housing) og fjölbreyttra búsetuforma. Stutt verður við félagslega blöndun byggðar, aukna uppbyggingu félagslegs húsnæðis og kvaðir lagðar á sveitarfélög um að bjóða upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði. Námsmannaíbúðum skal fjölga í takt við þörf, í nálægð við góðar almenningssamgöngur.
Eflum réttindi leigjenda og tryggjum þeim öruggt húsnæði til lengri tíma
Píratar ætla að efla réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fjölskyldufólk, svo skólaganga barna sé ekki trufluð af stanslausum flutningi. Skapa skal hvata til langtímaleigu, auka skyldur leigusala um sanngjarna umgjörð um útleigustarfsemi og vernda leigjendur gagnvart stökkbreytingu leigu. Leigjendur skal valdefla með aukinni upplýsingagjöf og ráðgjöf um réttarstöðu þeirra í samstarfi við félagasamtök.
Tryggjum gæði, vistvænt og öruggt umhverfi fyrir börn
Uppbygging þéttrar byggðar, með blöndu af atvinnustarfsemi, þjónustu og íbúðarhúsnæði, sem tryggir góða nýtingu innviða og skapar grundvöll fyrir vistvænar samgöngur, nærþjónustu og öruggt umhverfi út frá forsendum barna. Standa skal vörð um vaxtarmörk og sjálfbæra þróun byggðar. Tryggjum að byggingarreglugerð skilyrði gæði við uppbyggingu á forsendum íbúa eins og næga birtu, aðgengi fyrir vistvæna ferðamáta, vistlegt umhverfi og aðgengi að náttúru og gróðri.
Komum í veg fyrir myglu og styðjum við þau sem veikjast vegna myglu
Endurvekja þarf myglurannsóknir og aðrar byggingarrannsóknir sem hætt var með aflagningu Rannsóknarmiðstöðvar byggingariðnaðarins, enda af nógu að taka. Styðja skal við nýsköpun og þróun fyrirbyggjandi byggingaraðferða og tryggja útbreiðslu þekkingar þegar kemur að forvörnum gegn myglu í húsnæði. Þannig styðja Pírata við nýsköpun í notkun innlends byggingarefnis og auka hlut hráefnis sem er umhverfis- og náttúruvænt. Við þurfum að nýta þekkingu erlendis frá í auknum mæli og miðla þessum upplýsingum betur til fagaðila. Tryggja þarf fullnægjandi viðhald á opinberum eignum og innleiða matskerfi og eftirlit með framkvæmdum. Þannig er komið í veg fyrir gallaðar nýbyggingar og brugðist rétt við vandamálum sem koma upp á byggingartíma. Efla skal hvata til þess að endurgera húsnæði frekar en að rífa niður til að byggja nýtt. Skapa þarf ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda, stuðla að vitundarvakningu um skaðsemi myglu og vinna gegn myglufordómum í heilbrigðiskerfinu.
Bætum vaxtarkjör og að rammi kringum lán, lánastofnanir og vaxtahækkanir verði skýrari
Lánakjör eru lykilþáttur í samkeppnishæfni landsins. Í nágrannalöndum okkar þurfa lántakendur almennt að vinna mun færri vinnustundir til að greiða afborganir íbúðalána. Píratar vilja auka efnahagslegan stöðugleika með stöðugri gjaldmiðli, en slíkt leiðir af sér betri lánakjör fyrir almenning. Auka skal gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu. Þannig stöndum við vörð um hag neytenda. Einnig þarf að tryggja sanngirni og gagnsæi við gjaldþrotameðferð og nauðungauppboð.
Græn umskipti fyrir framtíðina
Áherslur Pírata í umhverfis- og loftslagsmálum
Stærstu áskoranir samtímans mætast í loftslagsmálum og náttúruvernd. Píratar eru leiðandi á Íslandi í þeim málaflokkum og tala ávallt máli náttúrunnar. Umhverfismál eiga undir högg að sækja um allan heim og því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um náttúruvernd og sjálfbærni.
Náttúruvernd, loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegs fjölbreytileika haldast í hendur. Aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eða skaða náttúruna. Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem þær samfélagsbreytingar framtíðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Á sama tíma verðum við að hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Grípa tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gera betur fyrir bændur og neytendur. Píratar leggja ríka áherslu á dýravernd og vilja að vistmorð verði refsivert.
Píratar ætla að:
- Halda þjóðfund á hverju kjörtímabili til að finna lausnir í baráttunni gegn loftslagsmálum.
- Draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
- Stórefla stjórnsýslu loftslagsmála.
- Tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur.
- Efla nýsköpun í landbúnaði.
- Koma á grunnframfærslu til bænda og sjá til þess að framtíð þeirra sé ekki háð styrkjum og geðþótta stjórnvalda um búvörusamninga.
- Gera einfaldar og hraðvirkar breytingar á samgöngukerfinu, t.d. með því að stórefla Strætó strax. Koma á fót landsbyggðastrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er.
- Auka aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum, bæði með breytingum á skattkerfinu og í formi hringrásarstyrkja, til að lengja líftíma tækja og hluta.
- Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá.
- Friða heimskautaref, lunda, sel og hval.
Þjóðfundur á hverju kjörtímabili
Allur almenningur, óháð búsetu, aldri eða efnahag, hefur hagsmuni af því að skapa sjálfbært samfélag og að vel takist til í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Umskiptin þurfa að vera réttlát og finna þarf lausnir. Það munum við gera á þjóðfundi í upphafi hvers kjörtímabils.
Loftslagsaðgerðir á ábyrgð stjórnvalda og atvinnulífs
Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá mengandi fyrirtækjum og stjórnvöldum sem setja þeim reglurnar. Píratar ætla ekki að velta ábyrgðinni á einstaklinga heldur láta þá sem menga mest greiða fyrir slíkt í samræmi við mengunarbótaregluna. Þessi gjaldtaka á að renna að stórum hluta til grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.
Efla græna nýsköpunarstyrki
Píratar ætla að veita öfluga styrki til nýsköpunar til að byggja upp grænan og sjálfbæran iðnað til framtíðar um allt land. Með rannsóknum í þróun tæknilausna sem mæta loftslagsvandanum og stuðla að samdrætti í losun og kolefnisbindingu og að hann njóti stuðnings.
Stóreflum stjórnsýslu loftslagsmála
Með eflingu stjórnsýslu loftslagsmála verða aðgerðir í málaflokknum mun markvissari og öflugri en hingað til. Umhverfismál þurfa að fá sterkari stöðu innan Stjórnarráðsins, svo umhverfisráðherra næstu ríkisstjórnar geti brugðist við loftslagsvánni með afgerandi hætti. Píratar munu stofna miðlæga skrifstofu fyrir loftslagsmál, sem hefur skýrt umboð til að samhæfa áætlanir allra ráðuneyta, að þær séu í samræmi við loftslagsmarkmið.
Loftslagsráð sem aðhaldsverkfæri
Loftslagsráð á að vera skipað sérfræðingum sem geta gefið hlutlaust mat á aðgerðir og árangur í loftslagsmálum. Þannig mun Loftslagsráð setja stefnuna fyrir öll stjórnvöld að fara eftir og veita þeim aðhald.
Tryggjum vernd náttúru hálendisins í þágu komandi kynslóða
Vinna við stofnun þjóðgarðs á að fara fram í lýðræðislegu ferli og á að vera sameiginlegt verkefni samfélagsins, enda mikilvægt að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem standa með náttúruvernd. Tryggja þarf fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu.
Stórátak í friðlýsingu á sjó og landi og hafi
Ráðist verður í stórátak í friðlýsingu á landi og í hafi til að ná alþjóðlegum skuldbindingum. Villidýralög verða endurskoðuð til að þau verndi betur þau dýr sem lifa í náttúru Íslands. Hvalir verða friðaðir samhliða því.
Sjálfbær og loftslagsvænn landbúnaður og nýsköpun
Hvergi er eins mikil þörf á nýsköpun og í landbúnaði á komandi árum. Landbúnaður í heiminum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í allri ræktun og vegna breyttra neysluvenja almennings í tengslum við græn umskipti samfélagsins. Í slíkum breytingum felast bæði áskoranir og tækifæri. Píratar eru óhræddir við að taka skrefin inn í framtíðina, efla menntun í landbúnaði og leggja ríka áherslu á nýsköpun fyrir bændur, með hvötum til lífrænnar ræktunar og annarrar mikilvægrar þróunar. Grípa þarf tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gera betur fyrir bændur og neytendur.
Réttlát umskipti og betri stuðningur við bændur
Píratar ætla að tryggja réttlát umskipti bænda. Grunnframfærslu verður komið á til þeirra sem vinna í landbúnaði og verður séð til þess að framtíð þeirra verði ekki háð styrkjum og geðþóttaákvörðunum stjórnvalda um búvörusamninga. Sérstaklega verður stutt við unga bændur til að koma í veg fyrir frekara brottfall úr stéttinni og til að halda landinu í byggð. Bætt lánakjör til ungra bænda verða tryggð þeim sem leggjast í framkvæmdir á nýju húsnæði undir landbúnað.
Efling fræðslu á loftslagsvænum landbúnaði og stuðningur við nýsköpun
Fræðsla á loftslagsvænum landbúnaði verður efld, að kolefni sé bundið í jarðveg og minni þörf sé fyrir aðföng (t.d. áburð). Dæmi um slíkan landbúnað er nú þegar fyrir hendi á Íslandi, í formi auðgandi landbúnaðar (e. Regenerative agriculture) og lífræns landbúnaðar. Píratar munu styðja við nýsköpun í garðrækt, ylrækt og jarðrækt, með áherslu á lífræna framleiðslu, með hvatastyrkjum og sanngjörnu verði á rafmagni.
Tryggjum fæðuöryggi
Fæðuöryggi og fjölbreytt úrval matvæla þarf að tryggja á umhverfisvænan hátt. Styrkja þarf rannsóknir og framleiðslu sem nýta bestu fáanlegu tækni á sjálfbæran máta og draga úr kolefnisfótspori innfluttra og innlendra afurða. Tryggja skal neytendavernd matvæla og að innfluttar vörur séu vottaðar rétt og skýrt.
Orka í þágu samfélags
Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar. Sú áætlun þarf að taka tillit til nauðsynlegra samfélagsbreytinga og hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Virkjað hefur verið nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi og draga þarf úr vægi hennar. Tryggt verður að ný orkuvinnsla nýtist til orkuskipta og að orkan verði nýtt til uppbyggingar í þágu grænnar nýsköpunar.
Tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku
Stöndum með almenningi, að fólki sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að það sitji við sama borð hvar sem er á landinu. Þetta á við um hita jafnt sem rafmagn hjá öllum íbúum landsins. Þannig forgangsraða Píratar almenningi og smærri fyrirtækjum.
Hverfum frá ósjálfbærri stóriðjustefnu
Hverfa þarf frá ósjálfbærri stóriðjustefnu og virkjunarþrýstingnum sem henni fylgir. Virkjað hefur verið nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi og draga þarf úr vægi hennar.
Orkuvinnsla sem nýtist til orkuskipta
Ný orkuvinnsla á að nýtast til orkuskipta og orkan til uppbyggingar á grænni nýsköpun.
Umhverfisvænir orkukostir
Píratar vilja tryggja varúðarsjónarmið svo nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Vindorka krefst þess að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Græn skref fyrir almenning
Píratar vilja vinna sérstaka stefnu um réttlát umskipti sem tryggir að öll geti tekið þátt í grænum umskiptum og verði ekki fyrst og fremst á færi þeirra efnameiri.
Auðveldum fólki að vera umhverfisvænir neytendur
Til að auðvelda almenningi að vera umhverfisvænir neytendur þarf að auka gagnsæi og upplýsingagjöf um vöru og þjónustu, til dæmis með samræmdri merkingu kolefnisspors á umbúðir matvæla, við þjónustu- og farmiðakaup og á annarri söluvöru. Tryggja þarf að upplýsingar um efnanotkun og aðra mengun af völdum framleiðslu séu aðgengilegar við kaup.
Aukum ábyrgð framleiðenda að draga úr myndun úrgangs
Píratar ætla að innleiða rétt til viðgerða. Við munum auðvelda aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum, bæði með breytingum á skattkerfinu og í formi hringrásarstyrkja, þannig lengjum við líftíma tækja og hluta. Skyldum framleiðendur til að framleiða vörur þannig að auðvelt sé að gera við þær.
Vistvænar og aðgengilegar samgöngur
Samgöngur eiga að vera aðgengilegar óháð búsetu. Fólk verður að hafa greiðan aðgang að samgöngum um land allt, en samhliða verður að byggja upp hvata til að nota vistvæna samgöngumáta. Almenningssamgöngur þurfa að vera raunverulegur kostur um allt land. Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt, efla vistvæna ferðamáta svo fólk geti notað hjól og strætó hvar sem það býr og tryggja aðgengi að rafhleðslu við alla þjóðvegi. Stuðningskerfi til einstaklinga sem velja sér vistvæna ferðamáta verður umbylt, að það sé ekki aðeins fyrir kaupendur rafbíla heldur einnig þá sem kjósa reiðhjól sem fararkost.
Styðjum við virka og græna ferðamáta um land allt
Ráðast þarf í kröftuga uppbyggingu innviða og þjónustu í þágu virkra og grænna ferðamáta. Þannig aukum við hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar og aukum notkun almenningssamgangna.
Hækkum upphæð samgöngustyrkja
Samgöngustyrkir eru einföld en mikilvæg aðgerð, því ferðir til og frá vinnu eru stór hluti af mengun samgangna. Píratar ætla að efla samgöngustyrki enn frekar, sem er einfaldlega gert með því að hækka mánaðarlegar greiðslur til þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur og virka ferðamáta.
Stóreflum almenningssamgöngur
Við verðum að taka stór skref til að breyta samgöngukerfinu til að ná hröðum árangri í loftslagsmálum. Meðal þess sem hefur mikil áhrif og er hægt að gera hratt er að stórefla strætó strax, byggja upp landsbyggðarstrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er.
Dýravelferð
Gæludýr finnast á nær helmingi heimila landsmanna auk þess sem búfénaður og sjávardýr eru undirstaðan í meginatvinnuvegum landsins. Það er því hagur samfélagsins alls að vel sé gætt að dýrum, bæði vegna tilfinningalegra tengsla fólks við gæludýrin sín og vegna krafna um mannúðlega meðferð á húsdýrum og villtum dýrum.
Friða villt dýr sem eru á válista
Friða skal heimskautaref, lunda, sel og hval.
Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá
Velferð dýra verður að njóta vafans. Það er gert með því að setja varúðarákvæði í löggjöf þannig að við ákvarðanatöku er varðar dýrahald, sé hagur dýranna ætíð hafður að leiðarljósi.
Tryggjum að framleiðsluhættir í landbúnaði hafi velferð dýra að leiðarljósi
Skýrir ferlar, skjót viðurlög og valdheimildir eftirlitsaðila eru nauðsynlegir þættir til að tryggja velferð dýra, til dæmis ef taka þarf dýr af fólki sem ekki sinnir þeim, getur ekki sinnt þeim eða stundar dýraníð. Þessu þarf að bæta úr strax með auknu fjármagni og markvissum aðgerðum.
Mannúðleg meðferð dýra við slátrun
Við slátrun þarf að huga að eftirliti með mannúðlegri meðferð dýra. Reglur og úrræði fyrir velferð allra húsdýra, með áherslu á alifugla, svín og loðdýr, eiga að taka mið af þörfum dýranna til rýmis, loftgæða, heilsu og eðlislægra þarfa, þar með talið útivist. Ef ekki er unnt að mæta þörfum dýranna er ekki grundvöllur fyrir dýrahaldinu.
Sjálfbær verðmætasköpun og lausnir framtíðarinnar
Áherslur Pírata í atvinnu- og nýsköpunarmálum
Sjálfvirknivæðing, gervigreind og aðrar tækninýjungar breyta bæði samfélaginu og atvinnulífinu hratt. Ein stærsta áskorun næstu ára felst í því að rækta nútímalegt samfélag þar sem ávinningi tækniframfara er dreift með sanngjörnum hætti. Til að tryggja sjálfbært samfélag sem getur tekist á við þessar áskoranir, leggjum við höfuðáherslu á að gera Ísland að nýsköpunarlandi þar sem tækifærin eru til staðar fyrir fólk um allt land. Með öflugri, sjálfbærri og grænni uppbyggingu innviða í öllum sveitarfélögum landsins viljum við skapa framtíð sem byggir á fjölbreytni og samfélagslegri nýsköpun. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar.
Píratar ætla að:
- Efla nýsköpun um land allt
- Byggja upp græna og örugga innviði
- Gera Ísland að miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
- Gera sjálfbæra ferðamála- og iðnaðarstefnu
- Gera Ísland tilbúið til þess að takast á við gervigreind
- Frelsa handfæraveiðarnar og styðja við atvinnutækfæri víða um land
- Stuðlum að sjálfbærari ferðaþjónustu svo samfélagið í heild njóti góðs af ferðaþjónustunni
- Uppfærum landbúnaðarkerfið með beinum stuðningi til virkra bænda
Efling nýsköpunar um allt land
Meiri áhersla á nýsköpun er lykillinn að því að takast á við síbreytilegan heim. Byggja þarf upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Einnig þarf að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja til að hvetja til frumkvæðis og nýsköpunar. Styrkir til nýsköpunar eiga að vera öflugir og einfaldir til umsóknar, með sérstakri áherslu á græna sprota, opin gögn, sjálfbærar og samfélagslegar lausnir. Píratar munu innleiða nýsköpun í menntakerfinu og opinberum rekstri til að ná hagræði með nýrri tækni og þekkingu.
Uppbygging grænna og öruggra innviða
Til að styðja við sjálfbæra þróun viljum við ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti um land allt. Tryggja skal dreifingu þriggja fasa raforku óháð veðurfari og nota umhverfisvæna orku í sjálfbæran iðnað. Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka og munu aukna áhrif hvers landshluta á forgangsröðun. Stuðla skal að umhverfisvænni uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og sorpmálum í samvinnu við sveitarfélögin. Píratar styðja við bindingu og föngun gróðurhúsalofttegunda og munu framkvæma stórátak í orkuskiptum.
Ísland sem miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
Píratar stefna að því að stofna alþjóðlegt þekkingar- og nýsköpunarsetur á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Við munum auka samvinnu við háskóla innan lands og utan, með áherslu á kennslu, rannsóknir, tilraunasvæði, opin gögn og nýsköpun, og setja upp alþjóðleg lausnamót, nýsköpunarhraðla og fjárfestingarsjóði í samvinnu við íslenskt og alþjóðlegt atvinnulíf. Ísland verður þekkingarmiðstöð framtíðarsamfélagsins, sem laðar að sér sérfræðinga og frumkvöðla.
Sjálfbær ferðamála- og iðnaðarstefna
Til að tryggja réttlátt samfélag í takt við tækniframfarir vilja Píratar framfylgja heildstæðri iðnaðarstefnu fyrir Ísland sem setur sjálfbæra þróun í forgang. Það þarf að lýðræðisvæða fyrirtæki með fulltrúum starfsmanna í stjórnum, eftir fyrirmyndum annarra Norðurlanda. Tryggja skal réttlát umskipti og sanngjarna skiptingu auðs og gæða í grænni umbyltingu hagkerfisins. Píratar leggja áherslu á að ferðaþjónustu verði stýrt á sjálfbæran hátt til að verndar náttúrunni og tryggja langvarandi ávinning fyrir samfélagið. Styrkja skal nýsköpun í ferðaþjónustu, með áherslu á menningu, náttúru og samfélagslega ábyrgð.
Ísland - tilbúið í gervigreind
Aðlaga námskrár á öllum skólastigum til að innihalda kennslu í gervigreind, gagnavísindum og forritun. Endurmenntun og símenntun þarf einnig að mæta framtíðinni og bjóða fólki upp á fræðslu um síbreytilegt samfélag. Rannsaka þarf hvaða störf eru í mestri hættu vegna sjálfvirknivæðingar og hvernig megi bregðast við því. Er það liður í að tryggja að umskipti yfir í sjálfvirkara hagkerfi verði sanngjörn og að enginn hópur verði útundan. Setja þarf reglur og viðmið um notkun gervigreindar til að vernda persónuvernd, gagnsæi og ábyrgð. Píratar telja mikilvægt að rannsaka möguleg áhrif gervigreindar á samfélagið og lýðræðið í þeim tilgangi að undirbúa okkur undir þau tækifæri og áskoranir sem fylgja þróun gervigreindar. Mikilvægt er að fara í mótvægisaðgerðir til að vinna gegn skaðlegum áhrifum tækniþróunar á samfélagið og komandi kynslóðir.
Sjálfbær framtíð í sjávarútvegi
Áherslur Pírata í sjávarútvegsmálum
Sjávarútvegsmál eru meðal mikilvægustu hagsmunamála þjóðarinnar og nauðsynlegt er að ná breiðri sátt í þessum málaflokki. Tryggja þarf að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á sjávarauðlindinni, sem hægt er að gera með því að samþykkja almennt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Sjávarauðlindin er sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Enginn getur fengið fiskveiðiheimildir eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, og aldrei má selja þær eða veðsetja. Þjóðin skal njóta sanngjarnrar auðlindarentu af sjávarauðlindinni.
Píratar vilja stuðla að sjálfbærum sjávarútveg með öflugum rannsóknum og eftirliti. Mikilvægt er að skýr skil séu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu þeirra og eftirlits með framkvæmdinni. Fiskveiðistjórnun má ekki verða fórnarlamb úreltrar stjórnsýslu eða pólitískra átaka milli ráðuneyta. Píratar styðja fjölbreytt útgerðarform og sjávarútvegsfyrirtæki í stað samþjöppunar og einsleitni. Sjávarútvegur er grunnstoð byggðar um land allt og því ber okkur að standa vörð um lífríki hafsins.
Píratar ætla að:
- Tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og sanngjarnt auðlindagjald til þjóðarinnar
- Tryggja frjálsar handfæraveiðar og strandveiðar
- Takmarka gildistíma veiðiheimilda og stuðla að jafnræði við úthlutun heimilda
- Tryggja sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf
- Banna hvalveiðar
- Banna sjókvíaeldi í opnum sjókvíum
- Banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi
- Beita sér fyrir og alþjóðlegu banni gegn olíuleit og olíuvinnslu, námavinnslu á hafsbotni
- Þrýsta á að norðurskautssvæðið njóti sérstakrar friðlýsingar
Frjálsar handfæraveiðar og strandveiðar
Handfæraveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær skulu gerðar frjálsar til atvinnu öllum sem hana vilja stunda. Það skal gert undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunar og í áföngum. Veiðigeta mun þannig takmarkast af tíðarfari og smæð báta. Píratar ætla að tryggja öllum handfærabátum, með fjórar rúllur, 48 daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar.
Jafnræði í aðgengi að tímabundnum fiskveiðiheimildum
Píratar munu tryggja jafnræði í aðgengi að tímabundnum fiskveiðiheimildum, nauðsynlega nýliðun í greininni í gegnum uppboð veiðiheimilda og frjálsar handfæraveiðar.
Tryggja skal sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf
Koma þarf í veg fyrir pólitísk afskipti af rannsóknum, veiðiráðgjöf og eftirliti. Mikilvægt er að fleira en eitt ráðuneyti deili því valdi í sem fylgir slíkri vinnu. Stefna skal að rafvæðingu smábátaflotans við Íslandsstrendur.
Gagnsæi í öllum störfum Hafrannsóknastofnunar
Mikilvægt er að gagnsæi sé í hávegum haft í öllum störfum Hafrannsóknarstofnunar og henni tryggt nægt fjármagn. Píratar vilja efla rannsóknir á veiðiaðferðum, veiðarfærum, ástandi hafsbotns og grunnslóð. Sérstaklega þarf að taka tillit til rannsókna á áhrifum fiskeldis, í opnum sjókvíum, á vistkerfi fjarða.
Hvalveiðum skal hætt við strendur Íslands
Hvalir hafa margvísleg jákvæð áhrif á náttúruna. Neðansjárvistkerfið reiðir sig á tilveru þeirra og er jörðinni lífsnauðsynlegt. Hvalastofninn þjónar einnig mikilvægu hlutverki í baráttunni við hlýnun jarðar. Hvalveiðar eru gagnrýndar um allan heim og skaðar ímynd landsins með tilheyrandi neiðkvæðum efnahagslegum áhrifum. Píratar munu banna hvalveiðar.
Bann á opið sjókvíaeldi
Til að vernda íslenskan laxastofn og koma í veg fyrir frekar mengun og eyðileggingu sjávarríkisins þarf að banna opið sjókvíaeldi. Fiskeldi í opnum sjókvíum hefur gríðarlega mengandi áhrif og slæmar afleiðingar fyrir náttúruna, lífiríki sjávar og vistkerfið í heild. Byggja þarf upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa. Byggja þarf upp samfélagið á forsendum íbúanna.
Bann á olíuleit og tryggjum aukningu friðlýstra svæða
Skip sem leggjast við höfn á Íslandi skal tengja við íslenskt rafmagn svo þau brenni ekki svartolíu. Píratar munu fjölga friðlýstum svæðum og þjóðgörðum á hafi, til verndar hrygningarsvæðum og viðhalds líffræðilegrar fjölbreytni. Við verðum að vernda hafsbotninn gegn mannvirkjum og veiðarfærum sem geta valdið þar óafturkræfum spjöllum. Píratar ætla að banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi.
Aðgengi að andlegu og líkamlegu heilbrigði fyrir öll
Áherslur Pírata í heilbrigðismálum
Félagsmál og heilbrigðismál eru tvær hliðar á sama peningi. Til að ná utan um þær áskoranir sem bíða okkar sem samfélag þurfa þessir tveir málaflokkar að vinna í takt. Þess vegna leggja Píratar áherslu á að vinna að streitulausara samfélagi, að fólk geti lifað af laununum sínum og hafi meiri frítíma fyrir samveru með fjölskyldu og vinum og til að sinna hugðarefnum. Forvarnir og efling lýðheilsu mynda grunninn að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skulu fara fram m.a. í menntastofnunum og félagslegu þjónustukerfi sem og á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Heilbrigðisþjónusta skal vera aðgengileg í heimabyggð fólks. Heilbrigðiskerfið er öryggisnet þjóðarinnar og gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að forvörnum og fræðslu.
Píratar ætla að:
- Tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag
- Stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu
- Stuðla að gagnsæi í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins
- Leggja áherslu á snemmtæka íhlutun, forvarnir og tæknilausnir
- Setja heilbrigðismál í forgang í fjárlögum og tryggja fjármögnun
- Einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingalífeyri
- Koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag
Hámarka skal heilbrigðisþjónustu í hag landsmanna, þannig að allir hafi beinan og óheftan aðgang að persónulegri heilbrigðis- og félagsþjónustu. Fræðsla og upplýsingar um þjónustu skulu vera óháð búsetu og fjárhag notenda.
Stefnt er að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls
Kostnaður almennings fyrir þjónustu skal vera sá sami óháð því hvort þjónustuveitandi er opinber eða einkaaðili. Píratar stefna að því að gera læknisþjónustu gjaldfrjálsa, enda eru komugjöld stór hindrun þeirra efnaminni. Við bætum skilvirkni með því að hjálpa fólki að fá þjónustu á réttum stað og losnum þannig við komugjöld.
Gagnsæi í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins
Uppbygging og þróun heilbrigðiskerfisins þarf að vera gagnsæ, til dæmi með opinberri tölfræði um öll svið þjónustunnar. Vísindalegar aðferðir skulu liggja að baki ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu, hvort sem þar sé fjallað um stefnumótun kerfisins eða ákvarðanir varðandi einstaka sjúklinga.
Áhersla á snemmtæka íhlutun, forvarnir, nútímavæðingu þjónustu og tæknilausnir
Fjármögnun heilbrigðismála skal tryggð í samræmi við áætlanir yfirvalda. Snemmtæk íhlutun í gegnum samfélagsverkefni og samstarf við skóla og vinnustaði tryggir að við grípum fólk snemma og stuðlum að velsæld frá upphafi. Píratar munu innleiða tæknilausnir í heilbrigðisþjónustu til þess að auka gæði og hagkvæmni og bæta aðgengi fólks á landsbyggðinni að læknisþjónustu. Heilbrigðisþjónustu skal hugsa út frá þörfum notenda og sífellt leita að úrbótatækifærum í skipulagi starfsins.
Einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingalífeyri
Tekjuskerðing skerðir möguleika lífeyrisþega til að stunda viðráðanlega vinnu. Tekjuskerðingar stuðla að félagslegri einangrun og geta dregið úr virkni. Draga þarf úr búsetuskilyrðum, tekjuskerðingum og tímamörkum lífeyrisbóta að fremsta megni. Í núverandi kerfi eru einnig lagðar miklar skyldur og kvaðir á bótaþega um upplýsingar og skýrslugerðir. Píratar munu gera slíka upplýsingagjöf einfaldari, skilvirkari og notendavænni. Komið verður upp umboðskerfi fyrir fagaðila svo þeir geti fengið umboð með öruggum hætti til að sækja um þjónustu fyrir hönd skjólstæðinga og aðstandanda.
Umboðsmaður sjúklinga
Píratar ætla að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga. Hann munn standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga, vera opinber talsmaður þeirra, sinna eftirliti með heilbrigðisþjónustu með tilliti til réttinda sjúklinga og sinna leiðbeinandi fræðsluhlutverki.
Geðheilbrigði og forvarnir í forgang
Áherslur Pírata í geðheilbrigðismálum
Félagslegir þættir og lífsaðstæður hafa veruleg áhrif á geðheilbrigði. Orsakir andlegra áskorana eru oft vegna utanaðkomandi þátta og það þarf batamiðaða samfélagslega nálgun, virkari forvarnir, aðgerðir gegn fordómum og jaðarsetningu, bæði innan og utan kerfis, og tryggja að grunnþarfir íbúa í landinu séu uppfylltar. Andlegar áskoranir geta verið eðlilegar afleiðingar af óeðlilegum aðstæðum. Í stað þess að sjúkdómsvæða andleg veikindi með áherslu á lyfjanotkun telja Píratar mikilvægt að leggja áherslu á batamiðaða nálgun. Hún snýst um að valdefla einstaklinginn, sníða meðferðina að honum og leyfa honum að ráða för. Geðheilbrigðismál eru ein af grunnstoðum samfélagsins og eru mælikvarði á heilbrigði samfélagsins alls. Því er mikilvægt að tryggja að þjónustan sé öllum aðgengileg óháð búsetu og fjárhag.
Píratar ætla að:
- Setja geðheilbrigðismál í forgang og tryggja fjármögnun.
- Leggja áherslu á forvarnir, valdeflingu, samvinnu og skaðaminnkun.
- Taka upp batamiðaða nálgun og þjónustu.
- Niðurgreiða sálfræðiþjónustu.
- Tryggja samfellt aðgengi að þjónustu og styðja aðstandendur.
- Leggja áherslu á sérhæfða bráðaþjónustu og búsetuúrræði við hæfi.
Geðheilbrigði sett í forgang með fjármagnaðri áætlun
Stórauka þarf fjárframlög til geðheilbrigðismála. Píratar ætla að sjá til þess að fjármagnið nýtist sem best, með áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Horfa þarf heildrænt á stefnur og aðgerðir stjórnvalda til lengri tíma þvert á málaflokka, með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.
Batamiðuð nálgun og þjónusta
Batamiðuð nálgun byggir á mikilvægi utanaðkomandi þátta á geðheilsu einstaklinga, hvernig andleg heilsa mótast af streitu og áföllum. Það er ólíkt þeirri ríkjandi nálgun í íslenska geðheilbrigðiskerfinu að sjúkdómsvæða andleg veikindi með áherslu á lyfjanotkun. Hugmyndafræði batastefnunnar byggir á sjálfsákvörðunartöku og sjálfsstjórn, að fólk hafi stjórn á eigin lífi og með stuðningi, finni þær leiðir sem henta þeim í leið sinni til bata.
Áhersla á forvarnir, valdeflingu, samvinnu, skaðaminnkun
Félagslegir þættir og lífsaðstæður hafa veruleg áhrif á geðheilbrigði. Píratar leggja áherslu á samfélagsbreytingar sem draga úr streitu, stuðla að því að foreldrar hafi tíma til að móta djúp tengsl við börnin sín og að fólk hafi tækifæri til sjálfsskoðunar og sjálfsræktar. Draga þarf úr þvingunum vegna geðrænna vandkvæða og koma upp meðferðarúrræðum sem byggja á valdeflingu og samþykki. Notendur skulu hafðir með í stefnumótun í málaflokknum og við útfærslu þjónustunnar. Píratar munu tryggja möguleika notenda til að leita réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir.
Niðurgreiða sálfræðiþjónustu, sérstök fræðsla og þjónusta fyrir nemendur
Sálfræðiþjónusta og viðurkenndar samtalsmeðferðir eiga að vera aðgengilegar og gjaldfrjálsar. Píratar munu bjóða notendum upp á eins góða og gagnreynda þjónustu og völ er á. Við ætlum að tryggja aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu. Hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði, forvörnum og einkennum algengra geðkvilla verða útfærð í aðalnámskrá.
Tryggja samfellt aðgengi að þjónustu og styðja aðstandendur
Huga þarf sérstaklega að hópum sem falla á milli kerfa og/eða vantar sérhæfða þjónustu. Píratar munu sérstaklega tryggja áframhaldandi stuðning við börn þegar þau ná átján ára aldri, að ekki verði rof á þjónustu. Aðstandendum verður einnig tryggð viðeigandi þjónusta og fræðsla.
Sérhæfð bráðaþjónusta og búsetuúrræði við hæfi
Bráðaþjónusta við fólk sem glímir við geðrænar áskoranir er sérhæft úrlausnarefni og því eðlilegt að aðskilja frá annarri bráðaþjónustu. Sú þjónusta verður að vera aðgengileg allan sólarhringinn, allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar skulu bregðast við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi og/eða fíknivandi eru til staðar. Píratar ætla að tryggja öllum sem eru með geðfötlunargreiningu búsetu við hæfi sem og notendastýrða eftirfylgni þegar formlegri meðferð lýkur.
Mannvirðing, fordómaleysi og stuðningur við fólk með fíknivanda
Áherslur Pírata í skaðaminnkun í fíkni- og vímuefnamálum
Fólk með fíknivanda ber að nálgast af virðingu og með skaðaminnkun og afglæpavæðingu að leiðarljósi. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af notkun vímuefna. Píratar hafa frá upphafi barist fyrir skaðaminnkandi nálgun sem byggir á vísindum og gagnreyndum aðferðum.
Birtingarmynd vandamála tengd vímuefnanotkun er margbreytileg. Píratar leggja þó ávallt áherslu á mannvirðingu, mannréttindi og skaðaminnkandi stefnubreytingar eins og afglæpavæðingu.
Píratar ætla að:
- Skoða notkun vímuefna út frá skaðaminnkandi nálgun.
- Stuðla að áfallamiðaðri nálgun, þjónustu og úrræðum.
- Fjölga sértækum úrræðum fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir.
- Leggja áherslu á virðingu og mannréttindi.
- Efla félagslega velsæld með áherslu á forvarnir, félagsstarf og notendavæna þjónustu.
- Afglæpavæða neysluskammta vímuefna og tryggja lagalegan grundvöll fyrir skaðaminnkandi þjónustu.
Skaðaminnkandi nálgun
Píratar hafa frá upphafi beitt sér fyrir skaðaminnkandi nálgun í vímuefnamálum. Við höfum m.a. beitt okkur fyrir því að hætta að refsa vímuefnanotendum, enda eru refsingar til þess fallnar að hindra notendur vímuefna í að fá aðgengi að heilbrigðisþjónustu og skaðaminnkandi úrræðum. Vegna ávana- og fíkniefnalöggjafar er t.d. ekki hægt að setja á laggirnar efnagreiningu á vímuefnum, þróa verklag við notkun vímuefna í neyðarskýlum, skaðaminnkandi úrræði og hjúkrunarheimili fyrir fólk með virkan vímuefnavanda o.fl. Píratar ætla að endurskoða löggjöfina og kanna kosti og fýsileika þess að regluvæða ólögleg vímuefni. Regluvæðing gerir ráð fyrir mismunandi höftum og reglum fyrir hvert vímuefni byggt á áhættunni sem fylgir notkun þeirra sem og þörfum samfélagsins.
Áfallamiðuð nálgun, þjónusta og úrræði
Áfallamiðuð nálgun byggir á mikilvægi utanaðkomandi þátta á geðheilsu einstaklinga, hvernig andleg heilsa mótast af streitu og áföllum. Með áfallamiðaðri nálgun og þjónustu er átt við að skapa umhverfi þar sem öll eru örugg án þess að ýtt sé undir áfallaviðbrögð. Slíkar nálganir eru mannúðlegar, margreyndar og vísindalega rannsakaðar í þjónustu við fólk með fíknivanda.
Sértæk úrræði fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir
Píratar ætla að setja sértækar stefnur um skaðaminnkandi úrræði fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Þörf er á fleiri og fjölbreyttari skaðaminnkandi þjónustu fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir. Nauðsynlegt er að vernda slík rými með lagalegum hætti. Sá hópur sem er hvað viðkvæmastur fyrir skaðlegum áhrifum vímuefnanotkunar er fangar. Skaðaminnkandi úrræði hafa gefist vel í öðrum löndum. Píratar munu útfæra slík úrræði í fangelsum landsins á öruggan hátt. Ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir skaðlegum áhrifum vímuefna. Píratar ætla að draga úr vímuefnanotkun ungmenna með forvörnum og fræðslu. Einnig þarf að fræða unga vímuefnanotendur um eins örugga notkun vímuefna og mögulegt er, til að draga úr hættu á dauðsföllum ungmenna af völdum þekkingarleysis. Jaðarhópar eru sérstaklega viðkvæmir og líklegri til þess að ánetjast vímuefnum og þarfnast því sérstakrar athygli, fyrirbyggjandi úrræða og sértækra meðferðarúrræða.
Virðing og mannréttindi í forgrunni
Mikilvægt er að passa upp á mannréttindi fólks sem notar vímuefni. Dæmi eru um að einstaklingar með sögu um vímuefnanotkun mæti mismunun og fordómum í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að þjónustan sé áfallamiðuð og að skaðaminnkandi úrræði séu við hæfi. Einstaklingar sem hafa greinst með margþættan vanda fá oft ekki viðeigandi meðferð við hæfi og meðferðarstofnanir eru oft ekki í stakk búnar að taka á slíkum vanda sem er óásættanlegt. Þessu munu Píratar breyta.
Efla félagslega velsæld með áherslu á forvarnir, félagsstarf og notendavæna þjónustu
Þátttaka í skipulögðu félagsstarfi í öruggu umhverfi hefur mikið forvarnargildi fyrir fólk á öllum aldri. Stuðla þarf að félagslegri velferð fólks og draga úr frelsistakmörkunum til að allir geti notið lífsins á eigin forsendum. Fjölga þarf tækifærum til félagslegrar þátttöku með sérstöku tilliti til fólks sem hætta er á að einangrist. Píratar munu bjóða upp á valdeflandi og fjölbreytt félagsstarf á landsvísu með viðeigandi aðgengi, í samræmi við ólíkar félags- og þjónustuþarfir fólks. Efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eiga að vera í samræmi við alþjóðasamninga óháð uppruna eða stöðu. Píratar munu lögfesta lágmarksframfærslu, tryggja aðgang að velferðarþjónustu og grunninnviðum, þar með talið að sálfræðiþjónustu og skaðaminnkunarúrræðum vegna fíkni- og vímuefnavanda.
Afglæpavæðing
Píratar ætla að afglæpavæða neysluskammta vímuefna. Samhliða mun fara fram endurskoðun á refsiramma gagnvart vímuefnabrotum á grundvelli mannréttinda, mannhelgi og mannúðar og í takt við nýjustu þekkingu. Píratar vilja draga úr eftirspurn eftir vímuefnum með gagnreyndum og fyrirbyggjandi forvörnum sem leggja áherslu á skaðaminnkun og mannúð. Píratar ætla að tryggja lagalegan grundvöll fyrir rekstur neyslurýma og annarrar skaðaminnkandi þjónustu, eins og t.d. nálaskiptaþjónustu. Píratar telja mikilvægt að regluvæða kannabis og skoða fýsileika þess að regluvæða hugvíkkandi efni.
Valdefling nærsamfélaga
Áherslur Pírata í byggðamálum
Öll sveitarfélög landsins eiga að vera sjálfbær og geta boðið íbúum upp á þá grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á. Þannig sköpum við aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum. Píratar vilja draga úr miðstýringu valds og færa ákvarðanatöku í málefnum byggða og sveitarfélaga í auknum mæli til nærsamfélagsins. Einnig þarf að tryggja að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar ætla að vinna að byggðarstefnu í samvinnu við íbúa en aukið íbúalýðræði í nærsamfélagi er grundvöllur fyrir sterku og valdeflandi samfélagi.
Píratar ætla að:
- Draga úr miðstýringu og efla lýðræði.
- Efla tekjustofna sveitarfélaga.
- Styrkja innviði um allt land.
- Auka aðgengi að þjónustu óháð búsetu.
- Valdefla íbúa með beinu lýðræði.
Drögum úr miðstýringu valds og eflum lýðræði
Píratar ætla að draga úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Við viljum leyfa fólki að taka þátt í ákvörðunum sem varða það beint. Þetta á ekki síst við um nærsamfélagið þar sem fólk á heima.
Eflum tekjustofna sveitarfélaga
Hluti af eflingu nærsamfélagsins felst í fleiri möguleikum til tekjuöflunar. Píratar vilja að skattar á borð við gistináttagjald og hlutfall af fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti renni til sveitarfélaganna. Skatttekjur sem myndast vegna seldrar vöru og þjónustu eiga að efla samfélagið sem skapaði þær.
Sterka innviði út um allt land
Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur.
Aðgengi að þjónustu óháð búsetu
Aðgengi að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu, íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi á að vera öllum tryggð. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.
Valdið til fólksins
Til að tryggja að sveitarfélög iðki vönduð vinnubrögð þarf að færa meira vald til fólksins og gefa því verkfæri til aðhalds og eftirfylgni. Píratar vilja auka gagnsæi í stjórnsýslukerfi sveitarfélaganna öllum til gagns. Lækka ætti hlutfall íbúa sem þarf til að kalla borgarafund saman og óska ætti eftir íbúakosningu um einstök málefni. Þá þarf að auka aðgengi íbúa að upplýsingum og almennt lækka þröskuldinn fyrir lýðræðislegri þátttöku íbúa.
Eflum ungt fólk fyrir framtíðina
Áherslur Pírata í málefnum ungs fólks
Píratar ætla að skila samfélaginu betra í hendur kynslóða framtíðarinnar en við tókum við því. Til að ná því fram er ungt fólk lykilþátttakendur í að skapa réttlátari, sjálfbærari og fjölbreyttari heim. Píratar vilja að ungt fólk hafi aðgang að þeim verkfærum, tækifærum og búi að því sjálfstrausti sem þarf til að vaxa og dafna sem sjálfstæðir, upplýstir og virkir þátttakendur í samfélaginu. Því leggjum við áherslu á að tryggja réttindi ungs fólks til að hafa áhrif, þróa hæfileika sína og taka þátt í samfélagslegum ákvörðunum sem móta framtíðina.
Píratar ætla að:
- Auka aðgengi að menntun og starfsþjálfun.
- Innleiða gagnrýna hugsun og efla þátttöku ungs fólks í lýðræðislegum ákvörðunum.
- Lækka kosningaaldur.
- Hlusta á og valdefla yngri kynslóðir.
- Bregðast við ákalli ungs fólks um samfélagslegar umbætur.
- Leggja áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika.
- Styðja við andlega og líkamlega heilsu ungs fólks.
- Bæta kjör ungs fólk.
- Tryggja lausnir við viðráðanlegu húsnæði.
- Huga að ungum foreldrum.
- Tryggja að barnasáttmálinn verði virtur.
Aðgengi að menntun og starfsþjálfun
Menntun er lykillinn að því að opna tækifæri fyrir ungt fólk. Píratar munu tryggja jafnan aðgang að menntun fyrir alla unga einstaklinga, óháð félagslegum og efnahagslegum bakgrunni. Skólakerfið skal bjóða fjölbreytt námstækifæri og starfsþjálfun þar sem ungt fólk getur öðlast þá hæfni sem nauðsynleg er í breytilegu samfélagi. Píratar ætla að auka aðgengi að menntun í nærsamfélaginu og leggja áherslu á nýsköpunarlandið Ísland um allt land. Sveigjanlegt og aðgengilegt nám sem undirbýr ungt fólk fyrir framtíðarstörf í sjálfbæru samfélagi er ekki einungis góð hugmynd, það er nauðsynlegur grundvöllur Íslands til framtíðar.
Gagnrýnin hugsun og þátttaka í lýðræðislegum ákvörðunum
Píratar leggja áherslu á að auka tækifæri ungs fólks til að taka þátt í lýðræðislegum ferlum á öllum sviðum, svo sem í skólastarfi, stjórnmálum og atvinnulífi. Gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi þarf að efla, með menntun sem gerir ungu fólki kleift að greina upplýsingar, taka sjálfstæðar ákvarðanir og beita áhrifum sínum til jákvæðra breytinga.
Lækkun kosningaaldurs
Píratar ætla að lækka kosningaaldur og færa öllum þeim sem verða 16 ára á árinu kosningarétt í öllum kosningum. Ungt fólk á að fá rödd í samfélaginu og tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta líf þess og framtíð.
Hlustum á og valdeflum yngri kynslóðir
Það þarf virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að nýta skýrar boðleiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri við valdhafa. Píratar munu koma þeim vettvang á laggirnar, sem og þingfundum ungmenna, en þar fara ráðamenn þjóðarinnar í hlutverk áheyrenda. Einnig þarf að tryggja að í framhaldinu taki við ferli sem vinni úr niðurstöðum fundanna. Samráð og samtal verða að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum því stjórnvöld bera ábyrgð á því að vinna úr hugmyndum samráðsins.
Bregðumst við ákalli um samfélagslegar umbætur
Á undanförnum árum hefur ungt fólk sýnt fádæma frumkvæði með mikilli þátttöku í samfélagsumræðunni, sem endurspeglast m.a. í loftslagsverkföllum, baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá, kröfum um umbætur í menntakerfinu og framfærslu meðan á námi stendur. Við eigum að taka kröfur þeirra alvarlega og fagna frumkvæðinu með samstarfi og aðgerðum.
Jafnrétti og fjölbreytileiki
Píratar krefjast jafnréttis og virðingar fyrir fjölbreytileika á öllum sviðum samfélagsins. Ungt fólk á rétt á að lifa í samfélagi þar sem það getur verið það sjálft, óháð kyni, kynhneigð, trúarbrögðum, uppruna eða fötlun. Píratar ætla að tryggja að ungt fólk hafi jafna möguleika til að þróa hæfileika sína og taka þátt í samfélaginu. Við leggjum áherslu á samfélag sem hvetur til víðsýni, virðingar og samstöðu.
Stuðningur við andlega og líkamlega heilsu
Andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að velferð ungs fólks. Píratar munu auka aðgengi að heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu í menntakerfinu, ásamt stuðningi við sveigjanlegt og heilbrigt skóla- og vinnuumhverfi. Stuðlað skal að aukinni þekkingu á heilsuvernd og forvörnum sem styrkja sjálfstraust og heilbrigða sjálfsmynd ungs fólks.
Bætt kjör fyrir yngra fólk
Efnahagslegt öryggi er mikilvægur þáttur í því að ungt fólk geti skipulagt framtíð sína og fylgt draumum sínum. Við viljum tryggja að ungt fólk fái stuðning við að hefja nám, atvinnu eða frumkvöðlastarfsemi. Stuðlað skal að efnahagslegum stöðugleika með aðgengi að hagnýtum námskeiðum, ráðgjöf og fjárhagsaðstoð við unga frumkvöðla og nýsköpunarverkefni.
Píratar ætla að hækka útgreiðanlegan persónuafslátt, innleiða námsstyrki í auknum mæli og auka áherslu á nýsköpun. Tryggja skal nemendum atvinnuleysisbætur þegar framboð á sumarvinnu fyrir námsfólk þrýtur. Stúdentar greiða í atvinnuleysistryggingasjóð og því eðlilegt að þeir geti sótt í hann þegar á reynir. Enginn á að missa réttindi við það eitt að mennta sig. Lægri skuldir stúdenta að loknu námi leiðir af sér bætta andlega líðan og fleiri tækifæri í kjölfarið. Við viljum að ungt fólk geti tekið fyrstu skrefin inn í framtíðina án skuldbindinga.
Viðráðanlegt húsnæði
Húsnæðiskostnaður er ein stærsta hindrunin í vegi þeirra sem vilja koma undir sig fótunum. Skilvirk leið til þess að bæta úr því er að auka framboð af íbúðum fyrir ungt fólk, jafnt námsfólk sem og aðra. Það vilja Píratar gera t.d. í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg.
Ungir foreldrar
Það getur verið stórt og krefjandi skref að verða ungt foreldri. Aukin útgjöld og aukið álag koma sérstaklega niður á ungum foreldrum, sem að jafnaði eru tekjulitlir og í óðaönn að leggja grunn að framtíð sinni. Námsstyrkjakerfi, raunverulegt fæðingarorlof fyrir námsfjölskyldur, hærri fæðingarstyrkir, hærri barnabætur og sveigjanlegra fæðingarorlofskerfi eru meðal þess sem Píratar ætla að ráðast í, til að létta ungum foreldrum uppeldið.
Barnasáttmálinn verði virtur
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á að vera leiðarljós í öllu starfi sem varðar börn. Réttmætast væri að grunnskólar innleiddu sáttmálann í starfi sínu. Píratar telja að hafa eigi samráð við börn í öllum málum er þau varða, og að leyfa eigi í auknum mæli frumkvæði þeirra í ákvarðanatöku.
Öflugt menntakerfi er grunnstoð lýðræðisins
Áherslur Pírata í menntamálum
Menntastefna Pírata byggir á framtíðarsýn um jafnræði, einstaklingsmiðað nám og samvinnu. Við viljum skapa börnum tækifæri og stökkpall til lýðræðisþátttöku til að stuðla að heilbrigðu og skapandi lýðræðissamfélagi þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að þroskast í samræmi við eigin áhuga og styrkleika. Með áherslu á þverfaglegt nám, verkefnamiðað námsmat, heildræna nálgun á samfélagið og andlega og líkamlega vellíðan nemenda mun menntakerfið ekki aðeins styrkja einstaklingsbundna þekkingu heldur einnig sjálfstraust og ábyrgð til að takast á við áskoranir framtíðar.
Píratar ætla að:
- Leggja áherslu á nám á einstaklingsmiðuðum forsendum.
- Efla þekkingu, gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi.
- Stuðla að heildrænni nálgun og þverfaglegu námi.
- Tryggja jafnan rétt allra til náms.
- Valdefla nemendur og auka þátttöku þeirra í námsferlinu.
- Auka aðgengi að námsgögnum og tæknilausnum fyrir alla.
- Byggja upp skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan.
- Leggja áherslu á öryggi gegn ofbeldi og áreitni.
- Styðja við kennara sem fagfólk.
- Efla lýðræðislega þátttöku og ábyrgð.
- Stuðla að framtíðarsýn og langtímaáætlunum.
Nám á einstaklingsmiðuðum forsendum
Menntakerfið skal miða að því að styrkja hæfileika, áhuga og styrkleika hvers nemanda. Kennsluhættir skulu vera sveigjanlegir og aðlagaðir að fjölbreyttum námsþörfum, að allir nemendur fái tækifæri til að vaxa og dafna á eigin forsendum, óháð aldri, uppruna eða bakgrunni.
Þekking, gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
Píratar vilja að skólar leggi ríka áherslu á þjálfun í gagnrýnni hugsun, vísindalegri aðferðafræði og upplýsingalæsi. Nemendur skulu fá stuðning til að meta upplýsingar sjálfstætt, skynja áhrif fjölmiðla og greina gæði heimilda. Markmiðið er að nemendur verði virkir og upplýstir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.
Heildræn nálgun og þverfaglegt nám
Kennsla skal byggjast á þverfaglegum grunni þar sem tengsl milli námsgreina eru skoðuð og þróuð í samhengi og þar sem áhersla er á samvinnu. Námið skal einnig byggja á raunverulegum verkefnum sem tengjast samfélagslegum áskorunum, svo sem sjálfbærni, lýðræði og félagslegu réttlæti.
Jafnrétti til náms
Píratar vilja menntakerfi sem er aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag, fötlun, búsetu eða öðrum ytri þáttum. Jafnrétti til náms skal tryggt með stuðningi, hvort sem er í formi fjarnámslausna, fjárhagsaðstoðar eða tækni til að mæta fjölbreyttum námsþörfum. Haldið skal áfram í þá átt að færa okkur úr námslánakerfi yfir í styrkjakerfi og stúdentum skal tryggð viðeigandi framfærsla sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks.
Valdefling og þátttaka í námsferlinu
Auka skal frelsi nemenda og að þeir beri ábyrgð á eigin námi og fái tækifæri til að hafa áhrif á námsval og verkefni. Nemendur á öllum aldri skulu vera virkir þátttakendur í ákvörðunum sem varða þeirra nám og hafa möguleika á að læra á eigin hraða og kanna þau svið sem vekja áhuga þeirra.
Opinn aðgangur og tæknilausnir fyrir alla
Píratar vilja efla námsgagnagerð og tryggja að námsgögn séu aðgengileg á opnum og rafrænum vettvangi, að nám sé ekki háð fjárhagslegum aðstæðum nemenda. Skólar skulu notast við opinn hugbúnað eins og hægt er og stuðla þannig að því að nemendur og kennarar fái frelsi til að vinna með námsefni sem er hagkvæmt, sveigjanlegt og aðgengilegt.
Skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan
Menntakerfið skal leggja áherslu á líkamlega, andlega og félagslega heilsu nemenda. Skólarnir skulu tryggja aðgengi kennara og nemenda að ráðgjöf og þjónustu sem eykur vægi þessara þátta innan menntakerfisins, auk þess að stuðlað sé að góðum svefnvenjum og skólatíma.
Öryggi gegn ofbeldi og áreitni
Skólar skulu tryggja að til staðar séu verkferlar til að fást við úrlausn ágreiningsmála og að í öllum skólum séu virkar viðbragðsáætlanir við einelti. Samhliða þessu þarf að styrkja samstarf milli heimilis og skóla.
Stuðningur við kennara sem fagfólk
Kennarar skulu fá sveigjanlegt starfsumhverfi og stuðning til að þróa eigin kennsluhætti. Að þeir hafi möguleika á að vinna saman að þróun og skipulagi náms, þar sem samvinna, starfsþróun og aðgengi að viðeigandi tækni og tólum er tryggt. Verðmætið sem felst í störfum kennara skal viðurkennt þannig að laun og önnur kjör endurspegli samfélagslegt mikilvægi þeirra.
Lýðræðisleg þátttaka og ábyrgð
Menntakerfið skal stuðla að virkri þátttöku nemenda, foreldra og kennara í ákvarðanatöku um skólastarfið. Lýðræði, gagnsæi og jafnrétti skulu vera leiðarljós í stefnumótun og skipulagi menntakerfisins, þar sem allir hafa rödd og bera ábyrgð á því að móta skólaumhverfið.
Framtíðarsýn og langtímaáætlun
Setja skal fram skýra framtíðarsýn fyrir menntakerfið sem samræmist sjálfbærni, nýsköpun og samfélagslegum þörfum. Skólakerfið skal þróa langtímaáætlanir í takt við framfarir í tækni, vísindum og samfélagsþróun, sem endurskoðaðar eru reglulega og áhersla lögð á sveigjanleika. Lögfesta skal leikskóla og umgjörð sköpuð svo hægt sé að bjóða upp á leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi.
Aldursvæna Ísland Áherslur Pírata í málefnum eldra fólks
Píratar vilja stuðla að tækifærum eldra fólks til að lifa sjálfstæðu lífi með reisn, tryggja þeirra mannhelgi, afkomu og styrkja tækifæri til sjálfshjálpar. Við viljum koma fram við eldra fólk eins og um fullorðið fólk sé að ræða, það fái að ráða eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Píratar vilja skapa sanngjarnt og hvetjandi lífeyriskerfi með fullnægjandi grunnframfærslu, efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu við eldra fólk, auka heimaþjónustu og heimahjúkrun og gera fólki kleift að búa heima eins lengi og unnt er. Sömuleiðis er brýnt að fjölga hjúkrunarrýmum í takt við þörf og fjölga lífsgæðakjörnum og hentugu húsnæði fyrir eldra fólk í blandaðri byggð með kynslóðablöndun að leiðarljósi. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru sjálfstæði, velsæld, öryggi, samráð og virðing.
Píratar ætla að:
- Tryggja að ellilífeyrir fylgi launaþróun og tryggja valfrjálsa frestun töku hans.
- Sjá til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
- Styðja við kynslóðablöndun.
- Efla heimahjúkrun og heimaþjónustu svo fólk geti búið heima sem lengst.
- Fjölga fjölbreyttum búsetuúrræðum, styðja við lífsgæðakjarna og fjölga hjúkrunarplássum.
- Tryggja að mannhelgi og mannréttindi eldra fólks með mikla þjónustuþörf séu í hávegum höfð.
- Tryggja samráð við eldra fólk.
- Leita fjölbreyttra leiða til að rjúfa einangrun og vinna gegn einmanaleika eldra fólks.
Ellilífeyrir fylgi launaþróun
Útrýmum fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það er einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun, þó þannig að breytingar á ellilífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja. Að óháðir sérfræðingar verði fengnir til að reikna út kjaragliðnun ellilífeyris undanfarinna ára og hún unnin upp með reglubundnum hækkunum á kjörtímabilinu.
Sveigjanleiki við töku ellilífeyris
Píratar standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna við 67 ára aldur en á sama tíma hafi valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs.
Lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri
Við viljum lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins, hækka frítekjumark ellilífeyris í lágmarksframfærslu og afnema skerðingar. Brýnast er að afnema skerðingar vegna atvinnutekna.
Efling þjónustu í nærsamfélaginu
Píratar ætla að gera bragarbót á húsnæðismálum eldra fólks. Heimili fólks á að vera griðastaður. Búseta þarf því að endurspegla þarfir og áhuga fólks svo það geti varið efri árum í samræmi við eigin vilja og getu. Byrja þarf á því að tryggja húsnæði og þjónustu við hæfi í heimabyggð fólks og gera hjónum kleift að búa áfram á sama stað, óháð þjónustuþörf. Píratar vilja byggja upp lífsgæðakjarna í blandaðri byggð, stuðla að kynslóðablöndun og skapa kjarnasamfélög (co-housing) fyrir eldra fólk til að rjúfa einangrun og vinna gegn einmanaleika.
Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Nauðsynlegt er að fjölga úrræðum á milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimila. Má þar nefna heimahjúkrun og heimaþjónustu, þjónustuíbúðir, dagvistunarúrræði og aukinn og fjölbreyttari stuðning í daglegu lífi. Einnig er nauðsynlegt að stórauka uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við hækkandi meðalaldur þjóðar.
Fjölbreytt úrræði og samráð við eldra fólk
Stórauka þarf endurhæfingarmöguleika fyrir aldraða sem aftur eykur sjálfstæði og valdeflingu þeirra. Mikill skortur er á úrræðum til endurhæfingar eftir veikindi/slys sem aftur leiðir til óþarflega langra innlagna á sjúkrahús með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið.
Frelsi og tækifæri óháð fötlun og færni Áherslur Pírata í málefnum öryrkja og fatlaðs fólks
Píratar trúa því að með þátttöku allra í samfélaginu bætum við og eflum samfélag okkar. Við viljum valdefla einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Víðtækar skerðingar og hindranir í núverandi kerfum skapa samfélagslegt tap og fórna tækifærinu til að fjárfesta í einstaklingnum. Lífsgæði fatlaðs fólks skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins. Fatlaðir einstaklingar eiga að fá að lifa án mismununar, fordóma, og hvers kyns misréttis. Tryggja skal rétt allra sem þurfa til framfærslu vegna örorku og endurhæfingar og miða við að hún dugi til nægjanlegrar framfærslu og mannsæmandi búsetu. Sá réttur á ekki að vera takmarkaður af hjúskaparstöðu, búsetu eða öðrum valfrjálsum aðstæðum. Píratar ætla að afnema ómanneskjulegar skerðingar og byggja upp mannúðlegra stuðningskerfi hins opinbera. Það er hagur okkar allra að fólk fái tækifæri til að lifa og dafna út frá eigin þörfum og ástríðu.
Píratar ætla að:
- Gera úrbætur á almannatryggingakerfinu.
- Gera lífeyrisþegum kleift að afla tekna án skerðingar.
- Ráðast í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
- Endurskoða umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingalífeyri.
- Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Fjölga NPA-samningum.
- Auka frelsi til búsetu.
- Bæta framboð á störfum eftir ólíkri getu fólks.
- Hafa ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
Úrbætur í almannatryggingakerfinu
Örorku- og endurhæfingarlífeyrir á að standa öllum til boða frá 16 ára aldri til eftirlaunaaldurs. Takmörkuð búseta á Íslandi á ekki að skerða bótarétt og hætta skal strax öllum búsetuskerðingum. Píratar vilja afnema skilyrði til uppbóta á lífeyri og vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar úr almannatryggingakerfinu. Breyta þarf lögum um almannatryggingar svo að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun, og að breytingar á lífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Óháðir sérfræðingar verða fengnir til að reikna út kjaragliðnun lífeyris undanfarinna ára. Vinna þarf þessa kjaragliðnun upp með reglubundnum hækkunum á fjárhæðum örorku- og endurhæfingarlífeyris á kjörtímabilinu.
Leyfum lífeyrisþegum að afla tekna
Píratar ætla að hækka og lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka möguleika þeirra til tekjuöflunar meðfram lífeyrisgreiðslum án víðtækra skerðinga. Tryggt verður að eignir lífeyrisþega valdi ekki skerðingum á lífeyrisgreiðslum. Skerðingar vegna tekna úr lífeyrissjóðum verða afnumdar.
Endurhugsum kerfið frá grunni
Heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins getur ekki beðið. Búa þarf til gagnsætt, notendavænt og mannúðlegt framfærslukerfi sem tryggir öllum framfærslu sem þurfa. Markmið kerfisins á að vera að tryggja öllum mannsæmandi búsetu og lífskjör og efla þarf fólk á einstaklingsgrundvelli. Píratar eru ósammála hugmyndafræðinni um starfsgetumat og munu standa með öryrkjum gegn innleiðingu þess.
Endurskoðum umsóknarferlið
Tökum umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri í gegn til að einfalda það, gera það notendavænna og auka gagnsæi í meðferð umsókna. Látum ríkið standa straum af öllum kostnaði við mat á örorku og endurhæfingu.
Lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann hefur ekki verið lögfestur í heild sinni, þess vegna er mikilvægt að hann verði lögfestur og hljóti formlegt gildi.
Fjölgum NPA-samningum
Píratar ætla að afnema kvóta ríkisins gagnvart fjármögnun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og sjá til þess að öll sem þurfi þjónustuna hafi völ á henni. Það má ekki vera kvóti á réttindum fólks. Markmið Pírata er að tryggja notendum valfrelsi í sinni þjónustu og að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis til jafns við aðra. Þrátt fyrir að NPA hafi verið lögfest þá hefur aðgengi ekki verið tryggt og biðlistar langir með tilheyrandi annmörkum hér á landi, sem kemur í veg fyrir að fatlað fólk geti sótt rétt sinn í stjórnsýslu og fyrir dómstólum á grundvelli lífsgæðaskerðinga sem hindrar þátttöku þess í samfélaginu. Tryggja þarf fjármagn og útrýma biðlistum.
Starfsendurhæfing
Píratar standa vörð um starfsemi félaga og samtaka sem bjóða starfsendurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys sem er mikilvægt skref fyrir fólk til að ná aftur fyrri getu.
Samráð
Hafa skal ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
Mannúðleg utanríkisstefna
Áherslur Pírata í utanríkismálum
Íslenskt samfélag á frelsi sitt og frið undir því að alþjóðalög séu virt. Brot á mannúðarlögum eiga ekki að viðgangast. Píratar vilja að Ísland sé öflug rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum. Píratar leggja áherslu á að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar og að landið styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá stríðssvæðum. Píratar vilja að Ísland beiti sér fyrir friði í átökum. Píratar telja mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og að öflug utanríkisþjónusta tryggi virka hagsmunagæslu og borgaraþjónustu. Píratar vilja stórauka framlög Íslands til þróunarsamvinnu til að stuðla að réttlátari og sjálfbærari heimi.
Píratar ætla að:
- Gera Ísland að öflugri rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að friði, mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum.
- Tryggja að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar.
- Hafa forystu um að Ísland styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá átakasvæðum.
- Sjá til þess að Ísland beiti sér fyrir friði og gegn þjóðarmorði.
- Sjá til þess að Ísland fordæmi þjóðarmorðin í Úkraínu og Palestínu opinberlega.
- Leggja til að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um áframhald aðildaviðræðna við Evrópusambandið.
- Vinna að því að íslensk utanríkisþjónusta tryggi öfluga hagsmunagæslu og borgaraþjónustu.
- Stórauka framlög Íslands til þróunarsamvinnu.
Ísland sé öflug rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum
Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi og eigi frumkvæði að því að berjast fyrir friði, mannúð, mannréttindum, stöðu hinsegin og kynsegin einstaklinga og að alþjóðalögum sé fylgt. Ísland á aldrei að sitja hjá þegar þjóðarmorð eiga sér stað, eins og nú standa yfir í Palestínu. Þrátt fyrir smæð sína hefur Ísland sýnt að það getur verið öflug rödd í alþjóðasamfélaginu, rödd sem þorir að benda á óréttlæti og standa með þeim sem minna mega sín. Með því að standa fast á grunngildum sínum og tala skýrt gegn mannréttindabrotum, óháð stærð annarra ríkja, getur Ísland haft raunveruleg áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Með því að nýta sér stöðu sína sem óháð og friðsöm þjóð getur Ísland hvatt aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi sínu í baráttunni fyrir friði, mannréttindum og virðingu fyrir alþjóðalögum. Þetta er ekki aðeins siðferðileg skylda okkar heldur einnig mikilvægt fyrir alþjóðlegt samstarf og frið.
Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar
Píratar vilja að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi raunverulegar afleiðingar. Til að ná þessu fram ætti Ísland að beita viðskiptaþvingunum gegn ríkjum sem brjóta gegn alþjóðalögum og mannréttindum, og senda þannig skýr skilaboð um að slíkt verði ekki liðið. Einnig ætti Ísland að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að aðrar þjóðir geri slíkt hið sama, til að auka þrýsting á þessi ríki og stuðla að breytingum. Ísland ætti að vinna að því að komið verði á alþjóðlegu vopnabanni gegn ríkjum sem brjóta gegn alþjóðalögum og mannréttindum, til að hindra frekara ofbeldi og kúgun. Með því að draga úr stjórnmálasambandi við þessi ríki getur Ísland einnig undirstrikað alvarleika málsins og sýnt að það er leiðandi innan alþjóðasamfélagsins í baráttunni fyrir réttlæti og friði.
Ísland styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá átakasvæðum
Ísland ætti að styðja við fjölskyldusameiningar og taka á móti kvótaflóttamönnum frá átakasvæðum eins og Palestínu. Með því að auðvelda fjölskyldum að sameinast eftir að hafa verið sundraðar vegna átaka, sýnir Ísland mannúðlega afstöðu og stuðlar að betri aðlögun flóttafólks að samfélaginu. Móttaka kvótaflóttamanna er mikilvægt framlag til alþjóðlegrar ábyrgðar, þar sem Ísland hjálpar til við að létta á álagi í flóttamannabúðum og veitir fólki í neyð tækifæri til nýs lífs.
Ísland beiti sér fyrir friði og gegn þjóðarmorðum í Úkraínu og Palestínu
Píratar fordæma innrás Rússlands í Úkraínu og styðja úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og alþjóðlegt vopnabann gegn Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ.
Upplýst ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu
Píratar telja að þjóðin eigi að fá að kjósa um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við teljum nauðsynlegt að ljúka viðræðunum til að fá skýra mynd af því hvað aðild felur í sér fyrir Ísland. Aðeins með vitneskju um hvað kemur út úr viðræðunum er hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild sé hagstæð fyrir landið. Píratar leggja áherslu á að ferlið verði lýðræðislegt og gagnsætt, að almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum og geti tekið þátt í ákvarðanatökunni. Við viljum tryggja að vilji þjóðarinnar ráði för og að ákvörðunin um aðild verði byggð á staðreyndum og heildstæðum upplýsingum.
Öflug hagsmunagæsla og borgaraþjónusta
Píratar vilja sjá öfluga utanríkisþjónustu sem sinnir Íslendingum erlendis og styður við hagsmunagæslu Íslands á alþjóðavettvangi. Með því að efla utanríkisþjónustuna tryggjum við að Íslendingar fái þá aðstoð og þjónustu sem þeir þurfa, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Jafnframt getum við betur varið hagsmuni Íslands á sviðum eins og viðskiptum, umhverfismálum og mannréttindum. Öflug utanríkisþjónusta gerir okkur kleift að taka virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta Ísland og heiminn allan. Píratar leggja áherslu á að utanríkisþjónustan sé gagnsæ, skilvirk og starfi í þágu almennings. Með því að styrkja hana getum við stuðlað að aukinni velmegun, öryggi og réttlæti fyrir alla landsmenn.
Framlög Íslands til þróunarsamvinnu séu stóraukin
Píratar leggja áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu með það að markmiði að stuðla að réttlátari og sjálfbærari heimi. Píratar vilja að Ísland nái markmiði OECD um að 0,7% af vergri landsframleiðslu fari til þróunarsamvinnu fyrir árið 2030, þar af að minnsta kosti 0,2% til fátækustu ríkja heims. Þetta er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og sýnir ábyrgð Íslands sem hluta af alþjóðasamfélaginu. Píratar telja mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn fátækt og hungri. Með því að beita okkur fyrir því að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu, eflum við mannauð, stuðlum að auknum jöfnuði og leggjum okkar af mörkum til stöðugleika á heimsvísu. Aukning í framlögum til þróunarsamvinnu ætti að fara að mestu leyti í gegnum frjáls félagasamtök, líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.
Réttindi hinsegin fólks í fyrsta sæti
Áherslur Pírata í hinsegin málum
Þrátt fyrir miklar framfarir í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi undanfarin ár, þá hefur komið fram bakslag í samfélaginu – bæði hérlendis sem og erlendis. Slíkt bakslag hefur einna helst birst í auknum fordómum gegn hinsegin fólki og meiri öfgahyggju gegn réttindum þeirra. Píratar vilja sporna við þessari þróun.
Píratar ætla að:
- Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu.
- Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin para á við gagnkynja pör.
- Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.
- Bæta þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli.
- Banna öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna.
- Beita okkur fyrir sanngirni og skoða bótagreiðslur til þeirra sem hafa sætt óréttlátri meðferð vegna hinseginleika síns.
Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu
Píratar vilja koma Íslandi í fyrsta sæti á regnbogakorti ILGA Europe og Transgender Europe með því að uppfylla öll skilyrði kvarðanna.
Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin fólks
Píratar vilja tryggja að hinsegin mæður búi við sama lagalegt jafnrétti og gagnkynja pör í tengslum við tæknifrjóvgun, og þurfi ekki að skila aukalega inn staðfestingu á tæknifrjóvgun til Þjóðskrár. Uppfæra þarf ákvæði í stjórnarskrá um að öll séu jöfn fyrir lögum sem nái ekki aðeins til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna. Tryggja þarf að blóðgjöf hinsegin karlmanna og trans fólks verði leyfð án takmarkana. Framfylgja verður lögum um kynrænt sjálfræði sem gerir ráð fyrir því að kynsegin fólk hafi greiðan aðgang að salernis- og búningsaðstöðu í samræmi við kynvitund í almannarýmum og starfsstöðvum íþróttastarfs, á baðstöðum, og í líkamsræktarstarfi.
Útvíkka og bæta þarf þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli
Sjúkratryggingar eiga að taka þátt í niðurgreiðslu á öllum læknisfræðilegum þáttum kynstaðfestandi ferlis, svo sem vegna hárrótartöku, andlitsaðgerða, brjóstauppbyggingar og talþjálfunar. Koma þarf á niðurgreiðslu á kostnaði við frystingu kynfrumna fyrir trans fólk.
Píratar munu berjast gegn falsfréttum og áróðri, efla fræðslustarfsemi og tryggja að hinsegin fólk búi við sömu lífsgæði og annað fólk. Styrkja þarf löggjöf um hatursorðræðu og regluverk í kringum hatursglæpi.
Aðlögun hins opinbera að réttindum hinsegin fólks
Auka þarf ferðaöryggi kynsegin fólks með sérstöku fyrirkomulagi í tengslum við vegabréf, t.d. að það hafi aðgang að tveimur vegabréfum, annars vegar réttri skráningu og hins vegar hefðbundinni.
Banna þarf öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og vernda líkamlega friðhelgi þeirra og setja þarf á fót eftirlit og skráningu á inngripum í líkama intersex barna.
Greiða þarf fyrir því að hinsegin fólk sem hefur sætt óréttlátri meðferð fái aðgang að bótum og uppgjöri við fortíðina af hálfu stjórnvalda, t.d. intersex fólk sem hefur þurft að sæta broti á líkamlegri friðhelgi sinni með óþörfum læknisfræðilegum inngripum og HIV smitaðir, sem fengu enga þjónustu né stuðning vegna aðgerðarleysis stjórnvalda á tímum HIV faraldursins.
Auka þarf fjármögnun á hinsegin fræðslu
Píratar vilja að hinsegin málefni séu samtvinnuð í námsefni í skólum í samræmi við aðalnámskrá. Horfa þarf sérstaklega til inngildingar hinsegin fólks í íþrótta- og æskulýðsstarfi, og uppræta fordóma og útilokun þeirra. Efla þarf ráðgjöf og meðferðarúrræði sem styðja sérstaklega við hinsegin fólk. Huga þarf sérstaklega að stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda með skýrum lagaramma og vernd, og tryggja þarf sérstök úrræði fyrir þann hóp. Píratar vilja einnig skoða sérstöðu eldra hinsegin fólks, og sjá til þess að þjónusta við eldra fólk taki mið af sérþörfum og lífi þess og starfsfólk fái viðeigandi fræðslu.
Inngildandi samfélag fjölbreytileika og mannréttinda
Áherslur Pírata í fjölmenningar- og útlendingamálum
Píratar vilja byggja upp fjölbreytt og farsælt fjölmenningarsamfélag með því að tryggja innflytjendum tækifæri til virkrar þátttöku og sporna gegn fordómum. Píratar leggja áherslu á að vernda réttindi erlends launafólks, berjast gegn mansali, tryggja aðgengi að menntun og einfalda móttökukerfi fyrir útlendinga. Einnig vilja þeir mannúðlega meðferð fólks á flótta, að því sé leyft að vinna meðan umsókn er í ferli og að nauðsynleg þjónusta sé tryggð.
Píratar ætla að:
- Efla inngildingu fólks sem flyst til landsins.
- Tryggja vernd réttinda erlends launafólks.
- Efla baráttuna gegn mansali.
- Auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að menntun.
- Styðja betur við kennara og skóla til þess að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku.
- Koma á skilvirkara móttökukerfi mannúðar-, atvinnu-, og dvalarleyfa.
- Auka stuðning við fólk á flótta.
Inngilding innflytjenda
Píratar leggja mikla áherslu á að vinna að inngildingu fólks sem flyst til landsins, að því sé tryggð tækifæri til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Þetta krefst aðlögunar á báða bóga. Píratar vilja ráðast í samfélagsátak til að sporna við fordómum, útlendingahatri og hatursorðræðu, með það að markmiði að byggja upp samfélag sem grundvallast á samkennd og samhug. Mikilvægt er að kennsla sem fólki stendur til boða miði ekki eingöngu að máltöku heldur einnig að fræðslu um réttindi og skyldur ásamt hagnýtum upplýsingum um íslenska menningu og staðhætti. Píratar ætla að styðja við bakið á kennurum og efla menntakerfið til þess að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku.
Vernd réttinda erlends launafólks
Íslenskt samfélag byggir velsæld sína að miklu leyti á vinnuframlagi erlends launafólks. Píratar vilja hlúa að þessum mikilvæga mannauði og stöðva brot á réttindum þeirra sem hafa viðgengist vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Píratar leggja áherslu á að tryggja að réttindi samkvæmt lögum og kjarasamningum séu virt, og að öllum sem hingað koma til starfa séu veittar réttar upplýsingar um réttindi sín á tungumáli sem þau skilja og að heimildir eftirlitsaðila séu styrktar til að rannsaka brot. Einnig vilja Píratar að viðurlög gegn brotlegum atvinnurekendum séu nægilega þung til að vega upp á móti hagnaði af brotunum.
Barátta gegn mansali
Píratar telja brýnt að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Það felur í sér að tryggja öryggi þolenda mansals með veitingu dvalarleyfis og veita þeim viðeigandi stuðning og aðstoð. Efla þarf greiningu og skráningu hugsanlegra þolenda mansals og lækka þröskuldinn fyrir veitingu umþóttunarleyfa til að tryggja betur öryggi þeirra. Skýra skal ábyrgð og verkaskiptingu innan málaflokksins og tryggja fjármögnun úrræða sem taka við fólki sem leitar hjálpar vegna mansals.
Aðgengi að menntun
Píratar vilja tryggja að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntunarúrræðum sem henta þeirra þörfum. Menntun erlendis frá skal metin að verðleikum, en þar sem nauðsynlegt er að bæta við þekkingu vegna staðhátta, eins og í lögfræði eða kennslu, skal fólki gert kleift að sækja viðbótarnám til að komast inn á íslenskan vinnumarkað með sína menntun eins fljótt og auðið er. Nám í íslensku skal vera aðgengilegt öllum, óháð aldri, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða vinnutíma, og vera í boði á öllum færnistigum til að búa einstaklinginn undir líf í íslensku samfélagi.
Skilvirkara móttökukerfi
Píratar vilja einfalda umsóknarferli dvalar- og atvinnuleyfa sem er nú óþarflega flókið, óskilvirkt og kostnaðarsamt. Píratar vilja að öllum tegundum dvalarleyfa fylgi óbundið atvinnuleyfi. Píratar leggja til að færa verkefni Útlendingastofnunar til annarra viðeigandi stofnana og einfalda umsóknar- og skráningarkerfi fyrir útlendinga til muna. Markmiðið er að draga úr mun á aðstöðu fólks sem kemur frá löndum utan og innan EES-svæðisins, auka möguleika ríkisborgara landa utan EES til að flytjast til landsins og auðvelda leiðina að veitingu ríkisborgararéttar til að hvetja til virkari þátttöku í samfélaginu. Einnig skal unnið að því að draga úr lögfræðikostnaði bæði ríkis og umsækjenda með skýrara og einfaldara regluverki.
Stuðningur við fólk á flótta
Píratar vilja auka mannúð og lækka kostnað við móttöku flóttafólks á Íslandi með því að leyfa því að vinna meðan umsókn þeirra er til meðferðar og með því að straumlínulaga umsóknarferlið til að auka skilvirkni. Umsóknir um alþjóðlega vernd skulu almennt teknar til efnismeðferðar, og umsækjendum skal veitt sérstakt atvinnuleyfi. Beiting matskenndra ákvæða útlendingalaga skal taka mið af mannúð, virðingu fyrir fólki og skilningi á aðstæðum þess. Umsækjendum skal standa til boða mannsæmandi og örugg búseta meðan á umsóknarferli stendur, og að þeir fái aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og lögfræðiþjónustu, og þeim skal skipaður málastjóri sem fylgir þeim í ferlinu frá upphafi til enda. Sömu réttindi skulu gilda jafnt gagnvart einstaklingum, foreldrum og börnum sem hingað koma til lands.
Femínismi og jafnrétti til grundvallar lýðræðissamfélagi
Áherslur Pírata í jafnrétti
Píratar styðja og standa með réttindabaráttu kvenna, kvára og hinsegin fólks og vilja að jafnrétti, tækifæri og samfélagsþátttaka allra kynja séu tryggð. Píratar setja í forgang að taka á launamisrétti, hárri tíðni kynbundins ofbeldis og margþættri mismunun gegn hinsegin konum, konum af erlendum uppruna, konum með fötlun, konum með fíknivanda, láglaunakonum og heimilislausum konum. Píratar hlusta á grasrótarhreyfingar femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks sem skoruðu á stjórnmálafólk að ráðast í markvissar aðgerðir til að taka á mismunun og ójafnrétti á Íslandi.
Píratar ætla að:
- Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.
- Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum.
- Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi.
- Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
- Tryggja brotaþolum í kynferðisbrotamálum fullnægjandi þjónustu, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir.
- Láta brot á nálgunarbanni hafa afleiðingar, að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni.
- Endurskoða lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars betur brot í netheimum og á samskiptamiðlum.
- Færa kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.
- Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.
- Efla lög um bann við hatursorðræðu og gera hana á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs refsiverða.
Leiðréttum kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa
Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Konur mynda meirihluta í mörgum lykilstéttum innviða Íslands en búa við að störf þeirra eru ekki metin að verðleikum í launum og réttindum. Píratar vilja leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði. Þá ætlum við að setja reglur um launagagnsæi byggðar á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.
Fjölskyldur og jafnrétti
Píratar ætla að lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi. Píratar vilja lengja fæðingarorlof í skrefum og skilgreina leikskólaþjónustu sem grunnþjónustu. Þá verður að afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun. Uppfæra verður lög um fæðingarorlof, að konur og fæðandi foreldri fái að lágmarki mánuð aukalega í fæðingarorlof fyrir fæðingu án þess að það bitni á rétti þeirra til samvistar með barninu eftir fæðingu.
Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi
Píratar ætla að berjast af krafti gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Að brotaþolum sé tryggð fullnægjandi þjónusta, s.s. túlkaþjónusta og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir. Að fræðsla hjá þeim sem koma að málum sem tengjast kynbundnu ofbeldi, sérstaklega í tengslum við stöðu jaðarsettra hópa, verði gerð skyldubundin. Þetta á við um dómara, ákærendur, lögregluna og aðra sem koma að málum er varða kynbundið ofbeldi.
Píratar ætla að endurskoða lög um kynferðisbrot til að ná betur utan um brot í netheimum og á samskiptamiðlum. Við viljum gefa lögreglunni rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni og tryggja að brot á því hafi áhrif. Auka skal forvarnir gagnvart heimilisofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, sem og stuðning við þolendur. Bjóða skal upp á sérstök úrræði og fræðslu fyrir hinsegin þolendur heimilisofbeldis, sem og innflytjendur.
Hatursorðræða og forvarnir
Píratar vilja stuðla að því að kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni verði færð inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla. Píratar telja mikilvægt að kynfræðsla taki einnig til félagslegra þátta, upplýsts samþykkis og mannhelgi. Slík fræðsla taki mið af fjölbreytileika með tilliti til kynferðis, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar eða annars kyngervis. Skýra þarf regluverk í kringum bann við hatursorðræðu og gera hana refsiverða á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs.
Aðgengi að menningu er næring fyrir sálina og lýðræðið
Áherslur Pírata í menningu og listum
List speglar samfélagið og er virkt afl í mótun þess. List speglar ekki aðeins raunveruleikann heldur er hún virkt afl í mótun hans, og því geta birtingarmyndir á einsleitri ímynd Íslands í listum verið útilokandi fyrir stóran hóp Íslendinga og ýtt undir hamlandi staðalímyndir. Píratar telja mikilvægt að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar.
Jafnræði, fagmennska, gagnsæi og sjálfbærni verða að vera í fyrirrúmi til að tryggja heilbrigt listalíf framtíðarinnar.
Píratar ætla að:
- Leggja áherslu á listmenntun barna og fullorðinna.
- Hampa barnamenningu eins og auðið er.
- Tryggja Listaháskóla Íslands nýtt og betra húsnæði.
- Auka aðgengi að listum og menningu óháð efnahag eða stöðu og búsetu.
- Auka sýnileika og þátttöku fatlaðs fólks, fólks af erlendum uppruna og fjölbreyttra hópa óháð stétt og stöðu í list og menningu.
- Styðja vel við menningarstofnanir og skapa þeim rekstrarlegan fyrirsjáanleika.
- Standa með íslenskri kvikmyndalist, Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslum til kvikmyndagerðar.
- Vinna gegn miðstéttarvæðingu (e. gentrification), standa með jaðarhópum og styðja við minni tónleikastaði.
- Styðja listamannalaun og aðgengi að styrkjum og tækifærum fyrir listafólk.
- Hlúa að varðveislu menningararfsins og styðja við rannsóknir á honum.
- Leggja áherslu á umhverfisvæna list.
Efling listmenntunar
Listmenntun leikur lykilhlutverk í að rækta gagnrýna hugsun, lestrarskilning, greiningarhæfni og almennt læsi barna og fullorðinna á samfélagið. Mikilvægt er að einstaklingar fái grunnskilning í listrænum aðferðum líkt og hljóðfæraleik, leiktúlkun eða sjálfbærinni hönnun. Aðgangur einstaklinga að listmenntun eins og ritlist og menningarstofnunum eins og leikhúsum er einnig uppistaðan í varðveislu og þróun íslenskrar tungu. Aðgengi einstaklinga að listmenntun á ekki að vera skert vegna samfélagslegrar stöðu eða uppruna.
Tryggja Listaháskóla Íslands nýtt og betra húsnæði og nægt fjármagn
Listaháskóli Íslands á að vera mótandi afl í listalífi landsins en hefur löngum verið fjársveltur og í óviðunandi húsnæði. Píratar vilja beita sér fyrir að staðið sé að flutningi skólans í nýtt og betra húsnæði hratt og örugglega sem og fullnægjandi fjármögnun Listaháskólans.
Aukið aðgengi að listum og menningu
Píratar vilja auka aðgengi að listum, sér í lagi þeirra hópa sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að listmenntun og störfum innan listgreina. Það eru mannréttindi að stunda listir og Píratar vilja tryggja almennt aðgengi að listum og listnámi á öllum menntastigum óháð efnahag, búsetu, uppruna, líkamsgetu eða annarra þátta. Aðgengi að menningu er mannréttindi og því þarf að ná miðaverði á listviðburði niður.
Auka sýnileika listar og menningar
Aukinn sýnileiki og fjölbreyttar birtingarmyndir ólíkra hópa í listsköpun snýst um jafnrétti og réttlæti í lýðræðissamfélagi. Liststofnanir eiga að endurspegla félagslegan og menningarlegan fjölbreytileika samfélagsins og vilja Píratar styðja við þá vegferð.
Styðja vel við menningarstofnanir og skapa þeim rekstrarlegan fyrirsjáanleika
Tryggja þarf góð rekstrarskilyrði og rekstrarlegan fyrirsjáanleika fyrir menningarstofnanir sem ríkið veitir fjármagn til og skipta sköpum fyrir samfélagið. Einnig er mikilvægt að styðja við sjálfstæðu listasenuna til að hlúa að grasrótinni, nýliðun og listrænni fjölbreytni. Píratar standa með list og menningu og tækifærum nemenda, barna og fullorðinna til að fá að njóta.
Standa með íslenskri kvikmyndalist, Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslum til kvikmyndagerðar
Píratar vilja blómlega íslenska kvikmyndagerð. Kvikmyndamiðstöð er mikilvæg lykilstofnun þegar kemur að stuðningi við íslenska kvikmyndalist og endurgreiðslur til kvikmyndagerðar. Hún hefur stutt við uppbyggingu mikilvægra innviða fyrir kvikmyndagerð sem hefur skapað samfélaginu mikil verðmæti.
Standa með jaðarhópum á miðstéttarvæddum svæðum (e. gentrification)
Algeng þróun þéttbýliskjarna er í átt að miðstéttarvæðingu með lýðfræðilegri breytingu hverfa og sjáum við teikn á lofti hvað þetta varðar í miðborg Reykjavíkur. Í slíkri þróun er algengt að auðmagnið ýti menningarlegu auðmagni út. Píratar standa fyrir þeirri viðleitni að standa gegn þeim þrýstingi og gera jaðarhópum og efnaminni aðilum í lista- og menningarstarfsemi kleift að starfa innan svæðisins. Ein leið er að styðja við minni tónleikastaði sem hafa verið á undanhaldi innan miðborgarinnar.
Aukinn aðgangur að list á landsbyggðinni
Efla þarf listmenntun og listsköpun á landsbyggðinni og því þarf að styðja við núverandi stofnanir og bæta aðstöðu þeirra. Veita þarf auknu fjármagni til listrænna verkefna sem virkja samfélög á landsbyggðinni. Bæta þarf aðgengi ungmenna og fullorðinna utan höfuðborgarsvæðisins að framhaldsnámi í hljóðfæraleik svo þau standi ekki hallandi fæti í samkeppni við nema af höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að aðstoða Listaháskólann við að ná til nemenda á landsbyggðinni til dæmis með ferðastyrkjum fyrir inntökupróf og fjármögnun kynninga á námi skólans.
Aukin þátttaka listafólks af erlendum uppruna
Píratar vilja beita sér fyrir aukinni þátttöku listafólks af erlendum uppruna í listnámi og lista- og menningarstarfi. Þá eru Píratar fylgjandi því að listamenn utan Evrópu, bæði þau sem hafa stundað nám á Íslandi og önnur, geti sótt um listamanna-visa á Íslandi eins og tíðkast í öðrum löndum. Þá þarf að stórauka sýnileika fólks sem hefur annað móðurmál en íslensku í liststofnunum eins og leikhúsunum og fjölmiðlum eins og Ríkisútvarpinu.
Listamannalaun og betri styrkir og kjör fyrir listafólk
Styrkjakerfin sem sjálfstætt listafólk reiðir sig á í dag þarf að endurhugsa frá grunni. Endurskoða þarf styrkjakerfin með hliðsjón af öðrum Norðurlöndum, til dæmis hvernig Noregur hefur útfært sína langtímastyrki. Auk þess vilja Píratar tryggja nýliðunarstyrki til ungs listafólks og standa með listamannalaunum.
Hlúa að varðveislu menningararfsins og koma Vísindasafni á laggirnar
Píratar telja að hlúa þurfi að söfnum og safnastarfi sem varðveita menningararf og miðla sögu þjóðarinnar til að gera þeim kleift að miðla safnkosti sínum með stafrænum hætti til að stuðla að auknu aðgengi almennings. Píratar vilja koma Vísindasafni á laggirnar og auka fé í sjóðum, svo sem í Fornminjasjóði og Safnasjóði, til þess að auka rannsóknir á menningararfinum. Slíkt styrktarfé er einnig grunnskilyrði fyrir menntun nýrra starfkrafta og styðja við innlent hugvit.
Umhverfisvæn list
Umhverfisleg sjálfbærni og hringrásarhagkerfi skulu vera í fyrirrúmi í listframleiðslu. Það skal meðal annars gert með stuðningi við grænar lausnir, stefnumótun og fræðslu. Veita skal styrki til sjálfbærra verkefna í listum og hönnun. Stofnanir skulu setja sér umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun. Koma skal á fót umhverfisstyrkjum til verkefna sem hafa sérstaklega í huga nýjar umhverfisvænar leiðir í listum og hönnun.