Rafbílavæðing

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.
  1. ÍSLAND OG STAÐAN Í DAG

Á Íslandi í dag eru um 240.000 ökutæki í notkun (fólksbílar, sendibílar, vörubílar, rútur o.s.frv.), sem er með því mesta sem gerist í heiminum í dag (miðað við höfðatölu).

Það liggur einnig fyrir að um 90% af öllum daglegum akstri er undir 50 km á dag og að hvert ökutæki er eingöngu notað að meðaltali um 2 tíma á sólarhring.

Stjórnvöld á Íslandi hafa ekki gert langtíma áætlun um rafbílavæðingu og raunar er algjör skortur á markvissri stefnumótun. Það hefur það í för með sér að erfitt er að fá venjulegt fólk til að færa sig frá bensín- og díselbílum yfir í rafbíla.

Meðan almenningur, fyrirtæki og stofnanir sjá ekki skýra stefnu frá stjórnvöldum, eru þeir ekki að fara að skipta yfir í rafbíla í stórum stíl.

Ein helsta hindrunin fyrir því að almenningur kaupi sér rafbíl, er skortur á hleðslustöðvum. Engin áætlun er fyrir hendi hvað varðar uppsetningu hleðslustöðva hvorki frá stjórnvöldum og ekki heldur frá fyrirtækjum sem gætu séð sér hag í að setja upp hleðslustöðvar.

Fyrirtæki og frumkvöðlar eru ekki að fara að leggja í mikinn stofnkostnað þegar stefna stjórnvalda er ómarkviss og ívilnanir einungis til eins árs í senn.

Meðan engin stefna er til staðar, þá er ekki líklegt að neinn sjái sér hag í því að setja upp kerfi hleðslustöðva á landinu, sem aftur hefur það í för með sér að fólk er hikandi við að kaupa sér rafbíl.

  1. LOFORÐ ÍSLANDS Á ALÞJÓÐAVETTVANGI

Í stuttu máli, þá hefur Ísland sett sér markmið um að 10% af bílaflotanum árið 2020 verði visthæfur, sjá nánar t.d. á bls. 11 hér:

http://graenaorkan.is.w7.nethonnun.is/wp-content/uploads/2011/10/Sk%C3%BDrsla-Gr%C3%A6nu-orkunnar-22.11.2011.pdf

Til að ná þessu markmiði, þá þyrftu visthæfir bílar að vera a.m.k. orðnir 24.000 eftir 4 ár. Í dag eru um 600 rafbílar á landinu, þannig að litlar líkur eru á að þetta markmið sé annað en orðin tóm.

Norðmenn eru með svipað markmið, þ.e.a.s. þeir ætla að vera með 200.000 rafbíla á götunum árið 2020. Þeir eru í dag komnir með um 60.000 rafbíla á göturnar, sjá nánar hér : http://gronnbil.no/

Forsætisráðherra Íslands hélt ræðu á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hinn 23. september 2014, þar sem hann lýsti því yfir að Ísland stefndi að því að vera jarðefnaeldsneytislaust þjóðfélag, sjá hér: http://eng.forsaetisraduneyti.is/minister/sdg-speeches/nr/8171

“Iceland is aiming to become a fossil fuel free economy, with almost all of our stationary energy coming from renewables, and our efforts towards reaching this goal are underway. We stand ready to work with you on this important issue and Iceland fully supports the statement – Putting Price on Carbon.”

Við þurfum því að taka okkur vel á til að ná að standa undir þeim væntingum sem Ísland hefur gefið út opinberlega.

  1. ÍVILNANIR

Hér er yfirlit yfir ívilnanir þær sem gilda á Íslandi fyrir rafbíla (bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg):

• Engir tollar og engin vörugjöld eru á rafbílum - þetta er varanlegt – þ.e.a.s. það þarf að breyta lögum til að þetta breytist.
• Enginn virðisaukaskattur er af fyrstu kr. 6.000.000 af hverjum rafbíl sem fluttur er til landsins (má samt ekki vera eldri en þriggja ára) – þessi niðurfelling á virðisaukaskatti gildir bara eitt ár í senn, þ.e.a.s. til áramóta. Á hverju ári þarf að leggja fram frumvarp aftur til að framlengja þetta ákvæði um eitt ár. Þetta skapar að sjálfsögðu óvissu.
• Frítt að leggja í stæði í Reykjavík í einn og hálfan tíma í senn (gildir ekki ef rafbíllinn er á nagladekkjum).
• Lægri bifreiðagjöld.

Til samanburðar er hér yfirlit yfir ívilnanir í Noregi fyrir rafbíla:

• Engir tollar og engin vörugjöld á rafbílum.
• Enginn virðisaukaskattur á rafbílum.
• Frítt að leggja í stæði.
• Frítt í gegnum göng og í ferjur.
• Heimilt að aka á forgangsakreinum fyrir strætisvagna og leigubíla.
• Lægri bifreiðagjöld.
• Afsláttur af tekjuskatti einstaklinga ef einstaklingurinn hefur aðgang að fyrirtækjabíl.
• Enginn virðsaukaskattur á rafbílum sem eru teknir á leigu hjá fjármögnunarfyrirtækjum.

  1. STEFNA, MARKMIÐ OG FRAMKVÆMD

Ef niðurstaða fæst um að það sé til hagsbóta fyrir Íslendinga að rafbílavæða landið, þ.e.a.s. að nýta íslenska orku til að koma okkur á milli staða á landi, þá er ekki nægilegt að tjalda til einnar nætur.
Nauðsynlegt er að setja fram mælanleg markmið, heildstæða stefnu og hefja síðan framkvæmdir.
Til að alvöru skriður komist á málið, þá þurfa Íslendingar og einnig erlendir aðilar (framleiðendur rafbíla, hleðslustöðva og aðrir er koma með einhverjum hætti að rafbílavæðingu) að fá skýr og trúverðug skilaboð um að Ísland ætli að skipta úr bensín- og díselbílum yfir í rafbíla.
Þjóðarátak þarf til og allir verða að koma að þessu máli, stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar.

  1. GRUNNÁÆTLUN

• Móta stefnu í rafbílavæðingu Íslands og kynna hana rækilega.
• Setja á fót vinnuhóp sem fylgir stefnunni eftir.
• Kynna áætlun um uppsetningu hleðslukerfis fyrir rafbíla um allt land.

  1. TILLÖGUR

• Enginn virðisaukaskattur verði innheimtur af rafbílum meðan ívilnanir eru í gildi. Sama gildir einnig um langtímaleigu, kaupleigu og rekstrarleigu á rafbílum. *
• Fá orkufyrirtæki, verslunarmiðstöðvar og fleiri aðila til samstarfs við hið opinbera um uppsetningu hleðslukerfis fyrir rafbíla víða um land.
• Gera það að skilyrði hjá opinberum stofnunum að fyrsti valkostur við endurnýjun bifreiða verði rafbíll.
• Kolefnisgjald verði hækkað á innflutt jarðefnaeldsneyti og vörugjald/mengunargjald í réttu hlutfalli við útblástur ökutækja. Gjaldinu yrði skilað aftur til viðhalds og endurbóta vegakerfisins eða með öðrum hætti til hagsbóta fyrir alla ökumenn.
• Sjá til þess að rafbílum megi leggja frítt í gjaldskyld stæði. *
• Gera ferjusiglingar og jarðgöng gjaldfrjáls fyrir rafbíla. *
• Endurskoða undanþágur á vörugjöldum vegna bílaleigubíla, leigubíla, sendibíla og annarra ökutækja sem ganga fyrir bensíni og dísel.
• Vera með sérstakar númeraplötur á rafbílum svo að ekki fari á milli mála hverrar gerðar bílarnir eru.

(*) Ívilnanir gildi í vissan árafjölda eða þar til ákveðnu hlutfalli í fjölda rafbíla er náð á landinu (t.d. 10%). Eftir það dragi úr ívilnunum, þrep fyrir þrep. Þar með er ákveðinni óvissu eytt og unnt að gera langtíma áætlanir, bæði hvað varðar kaup og sölu rafbíla, uppsetningu hleðslustöðva og þjónustuaðila.

  1. NIÐURSTAÐA

Ef af rafbílavæðingu verður og við berum gæfu til þess að skipta um orkugjafa í samgöngum á sama hátt og við gerðum á sjöunda áratugnum þegar við skiptum úr því að hita húsin okkar upp með olíu og kolum yfir í að nota heitt vatn, þá er nokkuð öruggt að:

• Ísland mun spara mikinn gjaldeyri, til lengri tíma litið.
• Ísland mun nýta betur þá fjárfestingu sem hefur verið lögð í uppbyggingu orkuvera.
• Ísland mun ná markmiðum sínum varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.
• Ísland mun verða talið eitt af “hreinustu” löndum í heimi.
• Orkuöryggi eykst og komist verður hjá erfiðum og ófyrirsjáanlegum sveiflum í orkuverði.
• Ráðstöfunartekjur íslenskra heimila munu aukast um a.a. 30.000 kr. á hvert heimili á mánuði.

Verkefnið er sérstaklega skemmtilegt þar sem nánast engir ókostir fylgja þessum breytingum. Þessar breytingar munu líklegast verða, hvort sem við förum á fullu í þetta verkefni eða ekki. Við eigum hins vegar sögulegt tækifæri til að taka af skarið í þessum efnum og jafnvel að verða fyrsta þjóðin sem segir skilið við bensín og olíu á ökutæki.

Málsnúmer: 16/2016
Tillaga:Rafbílavæðing
Höfundur:odin
Í málaflokkum:Orkumál, Samgöngur, Umhverfismál
Upphafstími:16/03/2016 12:41:42
Umræðum lýkur:30/03/2016 12:41:42 (0 minutes)
Atkvæðagreiðsla hefst:23/03/2016 12:41:42 (0 minutes)
Atkvæðagreiðslu lýkur:30/03/2016 12:41:42 (0 minutes)
Atkvæði: 124 (4 sitja hjá)
Já: 112 (90,32%)
Nei: 12
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:50,00%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.