Verndun miðhálendis Íslands
Tillaga samþykkt á félagsfundi 29. mars 2016: http://pad.piratar.is/p/Fundarger%C3%B0293_2016
Málsnúmer: | 21/2016 |
---|---|
Tillaga: | Verndun miðhálendis Íslands |
Höfundur: | bjornlevi |
Í málaflokkum: | Umhverfismál |
Upphafstími: | 06/04/2016 13:34:46 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 13/04/2016 13:34:46 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 20/04/2016 13:34:46 (0 minutes) |
Atkvæði: | 181 (7 sitja hjá) |
Já: | 152 (83,98%) |
Nei: | 29 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í
- Almenna umhverfisstefnu Pírata.
Með hliðsjón af
- Laga og reglugerða um náttúruvernd og skipulag.
- Niðurstöður könnunar á viðhorfum Pírata til umhverfismála 2015.
- Þeirri staðreynd að góðir þjóðgarðar geta skilað miklum arði (sbr. frétt http://ruv.is/frett/godir-thjodgardar-skila-miklum-ardi)
Álykta Píratar
- Að stofnaður verði þjóðgarður sem nær yfir allt miðhálendið.
- Að unnin verði stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í samræmi við leiðbeiningar Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN).
- Að landsskipulag taki mið af stjórnunar- og verndaráætlun miðhálendisþjóðgarðs.
- Að tryggt verði fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu og tilheyrandi fræðslu.
Greinargerð
Píratar vilja stuðla að vernd miðhálendisins með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eins og það er skilgreint í lögum nr. 73/1993 og inniheldur þær tegundir svæðisverndar sem eru í samræmi við skilgreiningar Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN).
Hjá IUCN er þjóðgarður er skilgreindur á eftirfarandi hátt: “Stór náttúruleg eða lítt snortin svæði sem afmörkuð eru til verndar heildstæðum vistfræðilegum ferlum og þeim tegundum og vistkerfum sem einkenna svæðið. Jafnframt skapa svæðin margvíslega möguleika til andlegrar upplifunar, vísindaiðkunar, fræðslu, útivistar og afþreyingar fyrir ferðamenn af því tagi sem samrýmist menningu og umhverfissjónarmiðum” (Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Ísands 2011. Umhverfisráðuneytið, Reykjavík, bls 229).
Miðhálendi Íslands hefur verið skilgreint við gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið og Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Afmörkun miðhálendisins byggir á lögum nr. 73/1993. Þar segir að miðhálendi Íslands sé svæði sem afmarkast í aðalatriðum af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta. Þannig skilgreint spannar miðhálendið um 37.700 ferkílómetra lands.
Til þess að miðhálendið geti talist þjóðgarður þarf 75% af svæðinu að vera friðað frá allri notkun og ágangi almennings nema á merktum stígum. Þar á engin afskipti að vera höfð af gangi náttúrunnar.
Svæðisskipting innan þjóðgarða IUCN.
Svæði A, kjarninn (core zone): Ströng friðun, engin notkun, almenningi einungis leyfður aðgangur á merktum stígum, engin afskipti höfð af gangi náttúrunnar. Kjarninn er alltaf staðsettur þar sem sérstökustu svæðin eru í þjóðgarðinum, þess vegna geta verið margir litlir kjarnar í einum þjóðgarði.
Svæði B, almennt verndað svæði (general protected area): Aðeins skipulögð afþreyingarstarfsemi, engin önnur landnotkun, engin búseta.
Svæði C, landslagsvernd (protected landscape): Takmarkaður rekstur eða landnotkun sem er í samræmi við markmið verndunarinnar.
Svæði D; virkt/þróunar svæði, (transition zone): Arðbær landnotkun og búseta.
Til að þjóðgarður verði viðurkenndur af IUCN þurfa 75% af öllum þjóðgarðinum að vera á svæði A eins og fram kemur að ofan.
Aðrir verndarflokkar IUCN1 eru: Náttúruvé (Ia), óbyggð víðerni (Ib), náttúruvætti (III), friðlönd (IV), landslagsverndarsvæði (V) og verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu auðlinda (VI). Hver flokkur hefur sín sérstöku ákvæði um vernd og nýtingu sem eru misströng. Langstærsti hluti Vatnajökulsþjóðgarðs er í flokki II (þjóðgarður), en þar eru líka svæði í flokki Ia (náttúruvé) og VI (sjálfbær nýting). Í Vatnajökulsþjóðgarði hefur verið litið svo á að hefðbundin sjálfbær landnýting (sauðfjárbeit og veiðar) falli innan þess sem leyft er.
Þannig má álíta að stofnun miðhálendisþjóðgarðs kalli á breytingu á skipulagi miðhálendisins í þá átt að 75% af svæðinu verði ósnortið land í hæsta verndarflokki (svæði A skv. IUCN), en 25% af svæðinu verða skipulögð í samræmi við aðra svæðisflokkun að ofan.
Í 47. gr. laga 60/2013 um náttúruvernd stendur eftirfarandi um þjóðgarða:
“Friðlýsa má sem þjóðgarða stór náttúrusvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Þegar tekin er ákvörðun um stofnun þjóðgarðs skal einnig líta til mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Friðlýsingin skal miða að því að vernda heildstæð náttúruleg vistkerfi, jarðminjar, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið og tryggja aðgang almennings að því til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Leggja skal áherslu á fræðslu og upplýsingar í þessu skyni. Í þjóðgörðum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist. Frjálsa för fólks samkvæmt almannarétti er aðeins hægt að takmarka á afmörkuðum svæðum í þjóðgörðum þar sem það er nauðsynlegt til að vernda plöntur, dýr, menningarminjar eða jarðminjar. Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.”
Til viðbótar við ofangreind ákvæði laga um náttúruvernd og leiðbeiningar IUCN leggja Píratar til að fullt samráð verði haft við Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands varðandi undirbúning og útfærslu miðhálendisþjóðgarðsins.