Orkumálastefna
Samþykkt á félagsfundi (http://pad.piratar.is/p/Fundarger%C3%B026.4.2016)
Málsnúmer: | 23/2016 |
---|---|
Tillaga: | Orkumálastefna |
Höfundur: | bjornlevi |
Í málaflokkum: | Orkumál |
Upphafstími: | 28/04/2016 08:48:49 |
Umræðum lýkur: | 12/05/2016 08:48:49 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 05/05/2016 08:48:49 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 12/05/2016 08:48:49 (0 minutes) |
Atkvæði: | 64 (1 sitja hjá) |
Já: | 60 (93,75%) |
Nei: | 4 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun í
- Greinar §1 í grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu
- Greinar §2 í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi
- Greinar §4 í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð
- Greinar §5 í grunnstefnu Pírata um upplýsingafrelsi
Með hliðsjón af
- Umhverfisstefnu Pírata
- Markmiðum í Skipulagslögum nr. 123/2010
Álykta Píratar að
Landsmenn og lögaðilar eiga að hafa aðgang að ódýrri vistvænni orku og vera sem minnst háðir orkuinnflutningi.
Móta skal langtímaáætlun til 20 ára um orkuframleiðslu og orkunýtingu sem endurskoðuð er og uppfærð á 4 ára fresti.
Til að tryggja að þjóðin njóti arðs af orkuauðlindum skal innheimta arð af nýtingu þeirra t.d. með útgáfu orkunýtingarleyfa, sem orkuflutningsgjöld, sem tekjuskatta vegna orkusölu eða með öðrum hætti.
Sveitarfélögum verður gert leyfilegt að innheimta fasteignaskatt af öllum orkumannvirkjum þar sem eigendur starfa á samkeppnismarkaði.
Stuðla skal að sjálfbærni í orkunotkun og sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda, þannig að:
- Samgöngur verði vistvænar og mengunarlausar.
- Bílaflotinn og fiskiskipaflotinn noti einungis vistvæna orku úr endurnýjanlegum orkulindum sem framleidd er innanlands.
- Stefnt sé að því að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust árið 2040.
- Stefnt sé að notkun endurnýjanlegra orkulinda, vistvænni orkuöflun og orkuframkvæmdum sem hafa lítil sem engin umhverfisáhrif.
- Umhverfisáhrif framkvæmda í orkumálum og orkunýtingu verði metin af óháðum aðilum.
Efla þarf fjárhagslega hvata fyrir einstaklinga og smáfyrirtæki til framleiðslu á endurnýjanlegri og vistvænni orku til eigin nota, svo lengi sem ekki verður mengun, ónæði eða önnur truflun af.
Stuðla skal að gagnsæi og jafnræði í orkumálum, þannig að:
- Tölfræði um orkuframleiðslu, orkunotkun, orkunýtni, orkusölu, orkuverð og arð af orkuauðlindinni birtist reglulega sem opinber tölfræði hjá Hagstofu Íslands og tryggður sé rekjanleiki gagna um orkumál.
- Upprunavottorð orkukaupenda segi rétt til um hvaðan keypt orka kemur og hversu endurnýjanleg og vistvæn hún er.
- Öll orkuverð séu augljós, gagnsæ og opinber.
Stuðla skal að tækni- og vísindastefnu sem ýtir undir framþróun og rannsóknir nýrra endurnýjanlegra og vistvænna orkuauðlinda ásamt tækni til bætrar orkunýtingar. Einnig þarf að efla rannsóknarsjóði og vísindastarf til að tryggja framþróun á sviði orkumála.
Greinagerð
Í samræmi við §4 gr. í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð.
Langtímastefnumið er hluti af góðri stjórnsýslu, þar sem áætlað er langt fram yfir fjárlagatímabil og kjörtímabil, þannig að einkaaðilar sem opinberir geti stýrt efnahagslegum- og samfélagslegum ákvörðunum og dreift þeim yfir lengri tíma. Langtímastefnumið má meðhöndla sem skriflegar rammaáætlanir ekki ólíkt langtímamarkmiðum í skipulagsmálum og umhverfismeta sem slík í anda laga 105/2006 um umhverfismat áætlana. Skrifleg langtímaætlun er endurskoðuð og framlengd á 4 ára fresti. Langtíma- og skammtímaáætlanir um náttúruvernd, orkunýtingu, samgöngur, umhverfismál og aðra málaflokka verða að vera samstíga, þannig að leitast sé við að þær styðji við markmið og tímasetningar hver annarar.Í samræmi við §2 gr. í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi.
Eitt af þeim atriðum sem ný stjórnarskrá á að tryggja er að auðlindir Íslands tilheyri þjóðinni og að arður af þessum auðlindum renni til samfélagsins. Í þessu felst m.a. að mögulegt sé að innheimta gjöld eða skatta af notkun orkuauðlindarinnar, flutningsgjald og að undanþágur frá þessu séu gagnsæjar og gefnar á jafnréttisgrundvelli.Í samræmi við §4 gr. í grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð.
Með breytingum á lögum um eignir og mannvirki sem undanþegin eru fasteignagjöldum sveitarfélaga má opna fyrir umræður og valfrelsi á sveitarstjórnarstigi til að innheimta skatta af orkumannvirkjum í einkaeigu.Í samræmi við Skipulagslög og niðurstöðu viðhorfskönnunar Pírata til auðlinda- og umhverfismála vorið 2015.
Íslensk yfirvöld þurfa að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, í samræmi við lög, reglur og alþjóðasamþykktir þar um. Píratar vilja draga sem mest úr notkun jarðefnaeldsneytis þannig að lítil þörf verði fyrir það sem orkugjafa í framtíðinni. Þannig verður Ísland minna háð erlendri orku og sjálfbærar auðlindir í sameign landsmanna nýttar frekar. Við viljum að landsmenn hafi bæði rétt og tækifæri til að nýta endurnýjanlega og vistvæna orku sem er bæði aðgengileg, ódýr og traust. Í samgöngum þarf að stefna að sjálfbærni í orkunýtingu þannig að bifreiðaflotinn nýti innlenda orkugjafa t.d. rafbílar eða tvinnbílar og verði að mestu mengunarlaus. Stefnt skal að notkun á endurnýjanlegri orku og vistvænum orkugjöfum eða öðrum orkugjöfum sem hafa lítil sem engin umhverfisáhrif. Einnig þarf að tryggja að umhverfisáhrif orkuframkvæmda og áætlana séu metin af heilindum, þá helst þannig að val á matsaðilum, hvort sem eru fyrirtæki, sérfræðingar eða stofnanir, sé tryggt raunverulegt hlutleysi og geta til að meta raunveruleg umhverfisáhrif án þess að hagsmunir matsaðila séu í húfi.Í samræmi við §2 gr. í grunnstefnu Pírata um aukin borgararéttindi.
Frelsi einstaklinga og lögaðila til að framleiða eigin orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum á vistvænan máta er tryggð þannig að þeir sem búa við þær aðstæður að geta nýtt sér sólarorku, vindorku eða álíka vistvæna orku, geti gert slíkt án frekari málalenginga, þó skal slíkt ekki vera á skjön við gildandi skipulagsáætlanir, aðrar rammaáætlanir, né valdi ónæði, skaða eða truflun í nágrenni eða umhverfi. Einnig þarf að stuðla að því að ná markmiðum um nýtingu á vistvænum innlendum orkugjafa. Ríkið getur stutt við þessa þróun á ýmsan hátt, t.d. með afnámi VSK á vörum eða með sjóðum sem sækja má í, þannig að einstaklingar eða fyrirtæki geti komið sér upp búnaði (sólarsellum, varmaskiptum eða ófyrirséðri tækni) til þess að framleiða orku til eigin nota. Setja þarf markvissa opinbera langtímastefnu og breyta löggjöf um innflutning og rekstur á búnaði, vélum og ökutækjum sem nýta vistvæna innlenda orkugjafa. Skoða má að hafa rafmagn framleitt með endurnýjanlegum auðlindum til notkunar á vistvæn ökutæki og fiskiskip án endurgjalds.Í samræmi við §5 gr. í grunnstefnu Pírata um upplýsingafrelsi.
Það er ekki í lagi að orkufyrirtæki selji upprunavorttorð þannig að á orkureikningum einstaklinga, lögaðila eða í skýrslum eða tölulegum upplýsingum ríkisins komi fram eitthvað annað en raunverulegur uppruni orkunnar.Í samræmi við §1 gr. í grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun.
Opinberir aðilar ættu að fjárfest í framtíðinni með því að móta og stuðla að tækni- og vísindastefnu fyrir samfélagið og styrkja grunnrannsóknir og vísindastörf af öllu tagi, t.d. með föstum árlegum sjóðum til rannsókna á vistvænum orkugjöfum.
Orðskýringar
- Endurnýjanlegar orkulindir: Orkulindir sem geta endurnýjað sig í sífellu, svo sem fallvötn, jarðhiti, vindorka, sjávarföll og sólarorka. Endurnýjanleg orka er t.d. vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi, en ekki jarðefnaeldsneyti og afurðir þess.
- Með vistvænni orku og vistvænni orkuöflun er átt við hagkvæma nýtingu endurnýjanlegra orkulinda sem lítil eða engin umhverfisáhrif hljótast af.