Lagabreyting: Starfsmenn
Málsnúmer: | 13/2017 |
---|---|
Tillaga: | Lagabreyting: Starfsmenn |
Höfundur: | Beltiras |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 01/04/2017 09:15:00 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 15/04/2017 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 29/04/2017 12:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 43 (5 sitja hjá) |
Já: | 41 (95,35%) |
Nei: | 2 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Lagabreytingartillaga. 10. kafli um starfsmenn:
Gr. 1:
Grein 10.1. orðist svo:
"Framkvæmdaráði er heimilt að ráða starfsfólk fyrir hönd félagsins ef fjárreiður leyfa."
Gr. 2:
Grein 10.2. orðist svo:
"Framkvæmdastjóri, ef honum er til að tefla, skal hafa frumkvæði að ráðningu annars starfsfólk félagsins. Endanleg ráðning skal vera háð samþykki framkvæmdaráðs.
Framkvæmdaráði og framkvæmdastjóra er eingöngu heimilt að ráða starfsfólk að undangenginni auglýsingu um stöðuna, þar sem fram kemur starfslýsing og þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólksins."
Gr. 3:
Grein 10.3. orðist svo:
"Þrátt fyrir gr. 10.2 er framkvæmdaráði heimilt að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni án auglýsingar. Þó skal leitast eftir því að auglýsa þau störf og verkefni eftir fremsta megni."
Gr. 4:
Grein 10.5 skal orðast svo:
"Félagsmenn geta sent erindi um störf eða frammistöðu starfsmanns flokksins til framkvæmdaráðs og skal framkvæmdaráð þá við fyrsta tækifæri kanna slík erindi í samráði við næsta yfirmann starfsmanns. Framkvæmdaráð skal í kjölfarið undirbúa og fylgja eftir áætlun sem hefur það að markmiði að skapa sátt um störf og starfsfólk félagsins."
Athugasemdir:
Þessi tillaga dregur úr þeim takmörkunum sem lagðar eru á framkvæmdaráð vegna starfsmannaráðninga. Enda er fyrirséð að þær munu hamla áframhaldandi vexti félagsins. Þá er einnig lagt til mannúðlegra ferli til að taka á óánægju félagsmanna með störf starfsfólks félagsins.
Athugasemdir um einstakar greinar:
1. gr:
Eðlilegt er að framkvæmdaráð sé heimilt að ráða það starfsfólk sem þörf er á hverju sinni. Samkvæmt núgildandi lögum félagsins getur framkvæmdaráð einungis ráðið framkvæmdastjóra. Slíkt bindur félagið frekar mikið, t.d. ef meðlimir framkvæmdaráðs vilja sjá um atriði er snúa að kjarnarekstri, en ráða í staðinn t.d. einhvern til að stuðla að útbreiðslu eða efla tæknimál félagsins.
2. gr:
Hér er lögfest sú regla að auglýsa skuli allar ótímabundnar stöður hjá félaginu. Í auglýsingunni skuli koma fram starfslýsing og þær kröfur sem gerðar eru á starfsfólkið. Þá er fjarlægð sú íþyngjandi kvöð á framkvæmdaráð að leggja tillögu að ráðningu í aðra stöðu en framkvæmdastjóra fyrir kosningakerfið. Félagsfólk hefur aðrar leiðir til að hafa áhrif á ákvarðanir framkvæmdaráðs.
3. gr:
Engar félagsdeildir eru starfandi innan landsfélags Pírata. Þetta er arfleið frá fyrri útgáfu laganna sem er hér löguð. Framkvæmdaráð fær hér beina heimild til að ráða starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða í aðrar tímabundnar stöður án auglýsingar, ef nauðsyn krefur. Samhliða fylgir þó áskorun um að gera slíkt aðeins að undangenginni auglýsingu.
4. gr:
Markmið þessarar tillögu er að búa til faglegt ferli í kringum hugsanlegar uppsagnir á starfsfólki í kjölfar óánægju með störf þess. Ferlið sem er tilgreint í núgildandi lögum er niðurlægjandi fyrir hvern þann starfsmann sem fyrir því verður, kallar á fjölmiðlafár og hugsanlega lögsóknir í kjölfarið.