Lagabreyting - Framkvæmdaráð
Að fenginni reynslu undanfarinna ára er ljóst að ákveðinna breytinga er þörf á skipulagi framkvæmdaráðs. Þessari tillögu er ætlað að lagfæra þá annmarka sem eru á núverandi skipulagi ráðsins.
Málsnúmer: | 15/2017 |
---|---|
Tillaga: | Lagabreyting - Framkvæmdaráð |
Höfundur: | Bergthor |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 13/07/2017 22:45:30 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 27/07/2017 22:45:30 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 03/08/2017 22:45:30 (0 minutes) |
Atkvæði: | 79 (2 sitja hjá) |
Já: | 57 (72,15%) |
Nei: | 22 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 66,67% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
1. gr. 7. kafli um framkvæmdaráð orðast svo:
> 7.1. Framkvæmdaráð annast almenna stjórn og rekstur félagsins.
> 7.2. Framkvæmdaráði er heimilt að skipa tímabundið eða varanlega nefndir, vinnuhópa og málefnahópa eftir þörfum.
Hópar skipaðir af framkvæmdaráði skulu hafa ábyrgðarmann og skila vinnuskýrslu til ráðsins með reglulegu millibili.
Skýrslu ber að skila að lágmarki við lok starfa hópsins.
>> 7.2.1. Framkvæmdaráð skal setja þeim hópum sem það skipar reglur.
>> 7.2.2. Reglur settar málefnahópi skipuðum af framkvæmdaráði mega ekki brjóta gegn reglum um málefnahópa í 6. kafla.
>> 7.2.3. Reglum um nefndir og vinnuhópa skipuðum af framkvæmdaráði er heimilt að kveða á um lokaða fundi. Rökstyðja þarf þá heimild í reglunum.
>> 7.2.4. Framkvæmdaráði er heimilt að slíta þeim hópum sem það skipar.
> 7.3. Í framkvæmdaráði sitja tíu fulltrúar. Kjörtímabil þeirra skal vera tvö starfsár.
>> 7.3.1. Fjórir meðlimir framkvæmdaráðs, helmingur kjörinna fulltrúa, eru kjörnir í kosningu á aðalfundi ár hvert.
>> 7.3.2. Kosning fer fram í rafrænu kosningakerfi félagsins. Atkvæði og niðurstöður eru talin með STV talningaraðferðinni.
>> 7.3.3. Einn meðlimur framkvæmdaráðs er slembivalinn á aðalfundi ár hvert.
>> 7.3.4. Slembival skal fara fram á undan kosningu. Sé frambjóðandi til framkvæmdaráðs valinn í slembivali fellur framboð hans niður nema hann hafni slembivalda sætinu.
>
> 7.4. Framkvæmdaráð skiptir með sér hlutverkum eftir hvern aðalfund. Skipa skal formann, gjaldkera, ritara og alþjóðafulltrúa.
>> 7.4.1. Hafi framkvæmdaráð ekki komið sér saman um formann eftir tvo löglega framkvæmdaráðsfundi skal fara fram kosning meðal allra félagsmanna um formannsembættið í rafrænu kosningakerfi félagsins.
>
> 7.5. Félagsmenn sem hafa verið skráðir í félagið í 30 daga eða lengur, aðrir en kjörnir fulltrúar, geta átt sæti í framkvæmdaráði. Þó skal enginn sitja í framkvæmdaráði lengur en tvö kjörtímabil samfleytt.
>
> 7.6. Framkvæmdaráð skal funda að lágmarki mánaðarlega, og skal boða alla fulltrúa ráðsins til fundarins með að lágmarki viku fyrirvara.
>> 7.6.1. Þrátt fyrir gr. 7.6. má boða fundi framkvæmdaráðs með minna en viku fyrirvara ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ákvarðanir samþykktar á slíkum fundi taka gildi án tafar en framkvæmdaráði ber þó að taka þær fyrir á næsta löglega boðaða fundi, til samþykktar eða synjunar.
>
> 7.7. Halda skal fundargerð fyrir hvern fund framkvæmdaráðs og skal hún birt innan mánaðar.
>
> 7.8. Fundir framkvæmdaráðs skulu að jafnaði vera opnir öllum.
>> 7.8.1. Framkvæmdaráð getur ákveðið að loka fundi eða hluta úr fundi þegar ræða á trúnaðarmál er varða flokkinn eða einstaklinga. Meirihluta ráðsmanna sem sitja fundinn þarf til þess að ákveða að loka fundum
>> 7.8.2. Rökstuðning fyrir lokun fundarins þarf að bóka í fundargerð og rita efni hins lokaða fundar í trúnaðarbók
>> 7.8.3. Meðlimir framkvæmdaráðs skulu rita undir trúnaðaryfirlýsingu gagnvart upplýsingum sem fram koma á lokuðum fundum
>> 7.8.4. Framkvæmdaráð getur ákveðið að skipa sérstaka áheyrnarfulltrúa sem hafa heimild til að sitja lokaða fundi. Þeir fulltrúar skulu einnig rita undir trúnaðaryfirlýsingu
>
> 7.9. Framkvæmdaráðsfundur telst löglegur ef að lágmarki fimm meðlima þess mætir.
>
> 7.10. Rita má nafn firmans á löglegum fundi framkvæmdaráðs.
>
> 7.11. Ef þrír fundir framkvæmdaráðs í röð falla niður vegna vanskipunar skal boðað til aukaaðalfundar.
> 7.12. Nú fer einhver varanlega úr framkvæmdaráði skal ráðið engu að síður teljast löglegt á meðan að minnsta kosti sex meðlimir sitja áfram í því.
Fari fjöldi meðlima framkvæmdaráðs niður fyrir þá tölu skal boða aukaaðalfund. Efni þess fundar skal vera kosning í laus sæti í ráðinu. Fulltrúar kjörnir á þeim fundi sitja út kjörtímabila þeirra sem þeir koma í staðinn fyrir. Skal beita hlutkesti til að ákvarða hvoru kjörtímabilinu nýkjörinn fulltrúi tilheyrir gerist þess þörf.
>
> 7.13. Ákvæði til bráðabirgða. Á fyrsta aðalfundi eftir samþykkt þessarar lagabreytingar skal velja tíu meðlimi í ráðið, átta kjörna og tvo slembivalda. Að lokinni þeirri kosningu skal slembivelja fjóra kjörna fulltrúa og einn slembivalinn sem sitja í skulu í eitt ár. Þeir fimm fulltrúar sem eftir eru sitja í fullt tveggja ára kjörtímabil."
>
gr. Gr. 12.7 fellur brott. Greinarnúmer eftirfarandi greina uppfærist til samræmis.
gr. Í stað orðsins "vinnuhópur" í gr. 6.10 kemur orðið "málefnahópur".
Athugasemdir
Að fenginni reynslu undanfarinna ára er ljóst að ákveðinna breytinga er þörf á skipulagi framkvæmdaráðs. Þessari tillögu er ætlað að lagfæra þá annmarka sem eru á núverandi skipulagi ráðsins.
Athugasemdir um einstakar greinar
gr. Hér kemur nýr 7. kafli um framkvæmdaráð.
7.1. Eftir sem áður er framkvæmdaráði ætlað að einbeita sér að rekstri flokksins en ekki pólítik sem slíkri. Það útilokar þó ekki einstaka fulltrúa í ráðinu frá þátttöku í pólitísku starfi flokksins á eigin vegum svo lengi sem það er ekki í krafti embættis síns sem fulltrúi í ráðinu.
7.2. Hér er lögfest heimild fyrir starfshætti sem framkvæmdaráð hefur viðhaft undanfarið um að skipa nefndir eða vinnuhópa til að vinna ákveðin verkefni fyrir ráðið eða flokkinn. Ráðið fær einnig heimild til að skipa málefnahópa. Það er undantekning frá þeirri reglu að framkvæmdaráð hlutist ekki til um pólitík sem slíka. Ástæðan er að fáir formlegir málefnahópar hafa verið stofnaðir af almennum félagsmönnum en í þess stað hefur málefnastarf verið unnið af einstaklingum eða fámennum hópum án formlegrar ábyrgðar. Með þvi að veita framkvæmdaráði þessa heimild getur það hlutast til um að koma skilgreindu málefnastarfi af stað þegar þörf er á því. Að öðru leyti er ekki ætlast til að framkvæmdaráð sem slíkt stýri eða hafi önnur áhrif á málefnastarfið.
7.2.1. Nefndir og hópar sem framkvæmdaráð skipar skulu vera vel skilgreind með reglum settum af ráðinu.
7.2.2. Þær reglur sem kveðið er á um í 6. kafla um málefnahópa gilda líka fyrir hópa skipaða af framkvæmdaráði. Þ.e. að tilkynna þarf öllum félagsmönnum um stofnun slíks hóps, öllum er heimilt að taka þátt í starfi hópsins og fundir þeirra þurfa alltaf að vera opnir.
7.2.3. Verkefni nefnda og vinnuhópa geta verið þess eðlis að eðlilegt sé að fundir þeirra séu lokaðir öðrum en þeim sem í þeim sitja. Sem dæmi um þetta eru nefndir skipaðar til að ráða starfsfólk annars vegar og hins vegar vinnuhópur um tæknimál þar sem aðgangsupplýsingar að kerfum gætu verið ræddar.
7.2.4. Það er eðlilegt að framkvæmdaráð geti slitið nefndum og hópum sem það skipar. Hvort sem það er af þvi að verki er lokið eða vegna þess að nefndin eða hópurinn er ekki starfshæfur.
7.3. Sú hefð hefur skapast að varamenn í framkvæmdaráði starfa sem virkir fulltrúar í ráðinu að því undanskildu að þeir hafa ekki atkvæðarétt á fundum ráðsins nema þegar þeir sitja í sæti aðalmanns. Því er hér lagt til að varamenn verði felldir úr lögunum og í þess stað teljist allir kjörnir fulltrúar sem aðalmenn í ráðinu. Þar sem allir eru í stöðu aðalmanns þá ætti að vera enn meiri hvati til að taka þátt í störfum ráðsins. Einnig felur gr. 7.2. í sér hvatningu til ráðsins að deila út verkefnum meira en hefur verið. Þar með ætti að vera óhætt að fækka heildarfjölda fulltrúa í ráðinu niður í tíu. Sléttur fjöldi fulltrúa í ráðinu ætti ekki að koma að sök þar sem skv. fundarsköpum falla tillögur á jöfnu. Því þarf 6 atkvæði til að tillaga sé samþykkt ef enginn situr hjá í kosningu um tillögu.
7.3.1. Til þess að verði meiri samfella í ráðinu þá er kjörtímabil fulltrúa lengt í tvö starfsár en helmingur þeirra, fjórir fulltrúar í hvert sinn, sé kosinn á hverjum aðalfundi. Samtals verða þá átta fulltrúar kjörnir í ráðið. Þetta tryggir að ekki sé skipt um allt ráðið á einu bretti og þar með helst reynsla innan ráðsins.
7.3.2. Þar sem ekki er lengur þörf á raðaðri niðurstöðu úr kosningu til framkvæmdaráðs þá er aftur skipt yfir i STV talningaraðferð þar sem sú aðferð skilar óröðuðu mengi þeirra sem hljóta kosningu.
7.3.3. Slembivöldum fulltrúum er fækkað í tvo þannig að einn er valinn á hverjum aðalfundi.
7.3.4. Slembivalið fer fram á undan kosningunni. Ef frambjóðandi er valinn í slembivali hefur hann þar með val um að þiggja það sæti og falla því frá framboði sínu eða hafna því vilji hann vilji hann frekar láta félagsmenn kjósa hvort hann verði í ráðinu eður ei.
7.4. Tekið er út að Condorcet siguvegari verði formaður en í þess stað ákveður ráðið sjálft hver fer með það embætti. Það er gert til að leggja meiri áherslu á að það sé formsatriði hver er formaður ráðsins í samræmi við flatan valdastrúktúr. Þetta gefur ráðinu líka betri möguleika á að velja úr sínum hópi hver fer með hvaða hlutverk í samræmi við vilja og getu hvers fulltrúa fyrir sig.
7.4.1. Til vara, ef ráðið er ófært um að komast að niðurstöðu, þá getur félagið leyst úr þeim hnút með því að kjósa formanninn beinni kosningu úr mengi fulltrúa ráðsins.
7.5. Hér er það gert alveg skýrt að eingöngu þeir félagsmenn sem hafa verið í félaginu í 30 daga eða lengur geta setið í framkvæmdaráði. Þetta er í samræmi við gr. 4.9 um aðgang að aðalfundi. Samkvæmt hefðinni er hér litið svo á að með "kjörnir fulltrúar" sé átt við þá einstaklinga sem hafa verið kosnir með beinni kosningu í opinbert embætti. Þ.e. þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar. Skv. sömu hefð hefur ekki verið litið á einstaklinga sem sitja í opinberum ráðum eða nefndum í umboði þingmanna eða sveitarstjórnarfulltrúa sem “kjörna fulltrúa” í þessu tilliti.
7.6. Lágmarksfjöldi funda tryggir að framkvæmdaráð sé virkt. Skilyrði um hæfilegan boðunarfrest tryggir að fundir séu ekki boðaðir með óeðlilega skömmum fyrirvara.
7.6.1. Ef aðstæður krefjast þá er framkvæmdaráði heimilt að boða fundi með styttri fyrirvara svo hægt sé að bregðast fljótt við ef þörf krefur. Það er áskilið að ákvarðanir teknar á slíkum fundi séu staðfestar á næsta löglega boðuðum fundi.
7.7. Allar ákvarðanir framkvæmdaráðs verða að koma fram í opinberum fundargerðum. Með skýrum tímaramma á birtingu fundargerða er settur þrýstingur á ráðið að bíða ekki óhóflega lengi með að birta þær.
7.8. Í nafni gagnsæis þurfa fundir framkvæmdaráðs að vera opnir. Allir hafa málfrelsi og tillögurétt en aðeins fulltrúar framkvæmdaráðs hafa atkvæðarétt um mál á fundum þess.
7.8.1. Framkvæmdaráð getur með þessu lokað fundi eða hluta hans telji það brýna þörf þar á. Réttmætar ástæður fyrir slíkri lokun geta t.d. verið fjárhags- eða einkamálefni einstaklinga sem er rétt og eðlilegt að séu ekki fyrir allra augum sem og t.d. samningar við fyrirtæki sem hafa óskað eftir trúnaði.
7.8.2. Varnagli fyrir lokun fundar er að það þarf að rökstyðja lokunina í fundargerð. Ráðinu ber einnig að halda trúnaðarbók þannig að þeir sem hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingu geta kynnt sér málið. Seinni framkvæmdaráð munu þá einnig geta séð hvað hefur farið fram á lokuðum fundum.
7.8.3. Undirrituð trúnaðaryfirlýsing setur aukna pressu á fulltrúa ráðsins að halda trúnar.
7.8.4. Framkvæmdaráð getur með þessu heimilað öðrum en sitjandi fulltrúum í ráðinu að sitja lokaða fundi og fá aðgang að trúnaðarbók. Þar má t.d. telja óháða fundarstjóra, fulltrúa þingflokks og/eða sveitarstjórnarflokka, fulltrúa aðildarfélaga o.s.frv. eftir þörfum.
7.9. Lágmarksmæting á fundi tryggir umboð ákvarðana tekna á fundum ráðsins.
7.10. Meirihluta á löglegum fundi þarf til að skuldbinda félagið.
7.11. Ef of margir löglega boðaðir fundir falla niður í röð vegna vanskipunar má áætla sem svo að ráðið sé orðið óstarfhæft. Því er þetta varnagli sem tryggir að ráðið sé ekki óstarfhæft of lengi.
7.12. Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir einhverju brottfalli úr ráðinu á kjörtímabili þess. Ef fjöldinn fer niður fyrir lágmarkið þá má áætla að ráðið sé orðið óstarfhæft og því þarf að fylla upp í það að nýju.
7.13. Á fyrsta aðalfundi eftir samþykkt þessarar tillögu þarf að lagskipta kjörtímabili ráðsins. Helmingur ráðsins verður valinn á hverjum aðalfundi eftir þann fyrsta.
gr. Með samþykkt þessarar breytingar verður ekki þörf á grein 12.7 lengur.
gr. Þetta er lagfæring á greininni sem hefur gleymst þegar henni var síðast breytt. Þetta er nauðsynleg lagfæring svo ekki verði misskilningur um muninn á vinnuhóp og málefnahóp. Munurinn verandi sá að aðeins framkvæmdaráð getur skipað vinnuhóp um tiltekið verkefni, t.d. að sjá um tæknimál. Eftir sem áður getur hvaða félagsmaður sem er stofnað málefnahóp þó framkvæmdaráð fái þá heimild líka.