Umboðsmaður sjúklinga
Núverandi sjúkra- og tryggingakerfi er flókið og er flestum einstaklingum ofviða. Sjúklingar eiga í miklum erfiðleikum að vinna með Tryggingastofnun, sjúkratryggingum og öðrum stofnunum og tryggingafélögum þar sem réttindi virðast oft vera vel geymd leyndarmál. Það er óheppilegt að leyfisveitandi læknaþjónustu sé jafnframt eftirlitsaðili. Því skal eftirlit með heilbrigðisþjónustu færast frá Landlæknisembættinu til Umboðsmanns sjúklinga. Umboðsmaður sjúklinga á stuðla að bættum starfsháttum í heilbrigðisþjónustu, þannig að þjónustuþegar upplifi minni streitu, skjótari bata og fái aðstoð frá innlögn inn á sjúkrahús þar til sjúklingurinn hefur fengið bata á ný (eða metinn til örorku). Þetta úrræði mun leiða til bæði aukinna lífsgæða og draga úr streitu einstaklingsins ásamt því að vera hagkvæmt fyrir aðrar stofnanir þar sem álag á þær mun minnka.
Grein 1. Auðvelda þarf gegnsæi sjúkra- og tryggingakerfis með því meðal annars að koma á laggirnar Umboðsmanni sjúklinga. Erfitt getur verið fyrir veika einstaklinga að sækja rétt sinn í núverandi kerfum án aðstoðar. Leitast skal við að sem viðamiklar upplýsingar fyrir sjúklinga séu á vef Umboðsmanns sjúklinga. Einnig skal hann starfrækja móttöku og símaþjónustu þar sem allir landsmenn geti fengið upplýsingar og/eða fengið úthlutað sínum eigin þjónustustjóra sem fylgir einstaklingnum og aðstandendum í gegnum kerfið frá upphafi til enda.
Grein 2. Fulltrúar Umboðsmanns sjúklinga eru fagaðilar sem geta gefið einfaldar leiðbeiningar og ráðleggingar til að flýta fyrir réttri sjúkdómsgreiningu og viðeigandi úrræðum sem heilbrigðiskerfið býður upp á. Til að auðvelda aðgengi að umboðsmanni sjúklinga er eðlilegt að nýta þá fjarskiptatækni sem tiltæk er að fremsta magni og til að auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustu og velferð sjúklinga. Umboðsmaður sjúklinga skal setja á laggirnar miðlæga vefþjónustu þar sem allir landsmenn geti fengið upplýsingar og/eða fengið úthlutað sínum eigin þjónustustjóra sem fylgir einstaklingnum og fjölskyldu hans í gegnum kerfið frá upphafi til enda. Leiðbeining sjúklinga sem ekki geta sjálfir leitað réttar síns getur m.a. farið fram með heimsóknum félagsráðgjafa og sálfræðinga sem staðsettir eru í heilsugæslum um land allt.
Grein 3. Heilbrigðisþjónustan á að vera gagnsæ og fyrirsjáanleg fyrir sjúklinga fatlaða, geðfatlaða og aðra hópa sem þurfa á mikillri aðstoð að halda eftir slys, aðgerðir, og þá sem eru langveikir. Mikil áhersla skal vera lögð á upplýsinga- og ráðgjöf um réttindi og skildur sjúkrastofnana, lækna, siðareglur og fagmannlega framkomu starfsmanna í heilbrigðisþjónustu. Ekkert er því til fyrirstöðu að bæði Landlæknir og Umboðsmaður sjúklinga veiti fyrirbyggjandi fræðslu og skilaboð í fjölmiðlum og vefmiðlum, dæmi um slíkt er t.d. í Rúmeníu þar sem fjölmiðlum er gert skylt að flytja auglýsingar og boðskap til almennings til að benda á heilbrigðan líffstíl og möguleg forvarnarúrræði.
Grein 4. Eftirlitshlutverkið felst í því að 1) safna gögnum um gæði og virkni heilbrigðisþjónustunnar frá þjónustuþegum (sjúklingum og aðstandendum) og 2) að miðla gögnum gæði og leiðir í heilbrigðisþjónustu til almennings, sem tölfræði og til Hagstofunnar og Ríkisendurskoðunar, eftir þörfum. 3) að taka við ábendingum, kvörtunum og kærum vegna heilbrigðisþjónustu.
Grein 5. Með því að nýta rafræna tækni á Umboðsmaður sjúklinga að geta sinnt þörfum þeirra á rauntíma, sem sagt án tafar. Til þess þarf skilvirkt þjónustuver þar sem þjónustufulltrúar embættisins hafa greiðan aðgang að upplýsingum, ríka þjónustulund og yfirgripsmikla þekkingu á öllum hliðum heilbrigðisþjónustunnar. Símasvarendur umboðsmanns þurfa að geta beint erindinu tafarlaust til hæfari fagaðila þegar þess er þörf. Rafræn úrvinnsla á einnig að tryggja gott aðgengi allra landsmanna, hvort sem þeir búa í dreifbýli eða þéttbýli, eða eiga heimangengt eða ekki.
Grein 6. Innan lagaramma og fjárlagaramma þarf embætti Umboðsmanns sjúklinga að hafa svigrúm til að móta faglega stefnu til að þjónustan verði með besta móti á hverjum tíma. Í því ferli skal eðlilega tekið tillit til efnislegra athugasemda frá hagsmunasamtökum sjúklinga.
Grein 7. Nauðsynlegt er að setja tímamörk á úrvinnslutíma erinda til að tryggja skjótar úrbætur og bætta þjónustu, auk þess að tryggja gagnsæi og árangur.
Grein 8. Gera þarf ráð fyrir að í einhverjum tilfellum geti kærur verið vegna starfssemi embættisinss sjálfs. Í slíkum tilfellum þarf óháður aðili að skera úr um hvernig leysa skal úr slíkum málum og færa til betri vegar. Í einhverjum tilfellum getur verið þörf á að leita til erlendra aðila til að fá sannarlega óháðan úrskurð.
Málsnúmer: | 23/2017 |
---|---|
Tillaga: | Umboðsmaður sjúklinga |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Heilbrigðismál |
Upphafstími: | 05/10/2017 16:50:49 |
Umræðum lýkur: | 19/10/2017 16:50:49 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 12/10/2017 16:50:49 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 19/10/2017 16:50:49 (0 minutes) |
Atkvæði: | 27 |
Já: | 24 (88,89%) |
Nei: | 3 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Umboðsmaður sjúklinga
MEÐ TILVÍSUN Í GRUNNSTEFNU PÍRATA
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
4.2 Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
OG MEÐ HLIÐSJÓN AF:
Almennri heilbrigðisstefnu Pírata
Velferðar- og félagsmálastefnu Pírata.
ÁLYKTA PÍRATAR AÐ:
1. Umboðsmaður sjúklinga skal vera upplýsingamiðlari og þjónustuaðili fyrir sjúklinga, ásamt því að vera til aðstoðar og leiðbeiningar varðandi réttindi þeirra.
2. Umboðsmaður sjúklinga aðstoðar notendur heilbrigðisþjónustu og aðstandendur þeirra endurgjaldslaust með símaþjónustu, vefþjónustu og bréfleiðis, þar sem sjúklingar geta fengið faglegar ábendingar og leiðbeiningar um hvert það á að snúa sér í heilbrigðis- og tryggingakerfum, ásamt því að leiðbeina sjúklingum sem ekki eru færir sjálfir um að leita réttar síns sökum veikinda.
3. Markviss útgáfa verður á fræðandi og leiðbeinandi efni, bæði fyrir þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og aðstandendur þeirra. Einnig verða birt forvarnar- og varnarorð varðandi heilsurækt til almennra borgara í gegnum fjölmiðla, ljósvakamiðla og vefmiðla.
4. Umboðsmaður sjúklinga skal annast eftirlitshlutverk gagnvart heilbrigðisþjónustu og Landslækni, m.a. með söfnun á markvissri tölfræði og miðlun hennar.
5. Þar sem því er komið við skal þjónusta embættis umboðsmanns sjúklinga gerast með rafrænum hætti og án tafar.
6. Umboðsmaður sjúklinga skal móta stefnu sína með jafnræði og sanngirni að leiðarljósi og í viðeigandi tilfellum með hagsmunasamtökum sjúklinga.
7. Umboðsmaður sjúklinga skal taka við kvörtunum/kærum sem berast vegna heilbrigðisþjónustu og vinna úr þeim á eins skömmum tíma og mögulegt er, en þó eigi síðar en 90 dögum eftir að kvörtun/kæra er lögð fram.
8. Ef hagsmunaárekstar myndast vegna kærumála eða kvartana skal embætti umboðsmanns fá óháðan aðila til að skera úr um kæru eða kvörtun innan 120 daga.