Verklagsreglur um bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni, og ofbeldi
Hér eru greidd atkvæði um breytingar um verklagsreglur um bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni, og ofbeldi.
Einnig er minnt á samhliða atkvæðagreiðslu um tilheyrandi breytingar á lögum Pírata:
Málsnúmer: | 6/2018 |
---|---|
Tillaga: | Verklagsreglur um bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni, og ofbeldi |
Höfundur: | jonthorgal |
Í málaflokkum: | Innra skipulag Pírata |
Upphafstími: | 12/11/2018 16:39:48 |
Umræðum lýkur: | 02/12/2018 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 26/11/2018 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 02/12/2018 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 48 (2 sitja hjá) |
Já: | 42 (87,50%) |
Nei: | 6 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Verklagsreglur
um bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og ofbeldi.
Til að tryggja að komið verði fram við allt félagsfólk, starfsfólk og gesti Pírata með reisn og virðingu og þeim sé kunnugt um hlutverk þeirra og ábyrgð á að allt starf Pírata verði laust við hvers konar mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni og ofbeldi, samþykkja Píratar eftirfarandi:
1. gr. Skilgreiningar.
1.1.Mismunun er að gera upp á milli einstaklinga út frá kynþætti, litarhafti, kyni, trú, þjóðerni, uppruna, kyneinkennum, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, fötlun, aldri, tungumáli, félagslegum uppruna, útliti eða annarri stöðu. Mismunun getur verið einangrað tilvik sem hefur áhrif á einn aðila eða hóp aðila í svipaðri stöðu eða birst í áreitni eða misbeitingu valds.
1.1.1. Bein mismunun: Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af öðrum þjóðfélagshópi fær, hefur fengið eða myndi fá við sambærilegar aðstæður.
1.1.2. Óbein mismunun: Þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kæmi verr við einstaklinga af einum þjóðfélagshópi borið saman við einstaklinga af öðrum nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
1.2. Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
1.3. Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
1.4. Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
1.5. Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
1.6. Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
1.7. Í verklagsreglum þessum skal mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni og ofbeldi nefnast einu nafni „brotlegt framferði“.
2. gr. Almennar reglur.
2.1. Tilgangur reglanna
Félaginu ber að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að grein 3.10. í lögum Pírata nái fram að ganga með þessum verklagsreglum. Greinin segir: “Allt starf Pírata skal vera laust við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni og ofbeldi, og er slíkt framferði brotlegt. Félagsmenn samþykkja í þeim tilgangi verklagsreglur sem gilda fyrir félagið og aðildarfélög þess.”
2.2. Gildissvið reglanna er allt starf Pírata.
Hvers kyns brotlegt framferði á vettvangi félagsins er brot á þessum reglum hvort sem hið ólögmæta framferði á sér stað á vettvangi félagsins, í raunheimum sem og netheimum, í félagsferð eða við aðrar aðstæður þar sem framferðið kann að hafa áhrif á starfsumhverfi félagsins.
2.3. Aðilar sem geta lagt fram kvartanir.
Þeir sem kunna að hafa orðið fyrir eða orðið vitni að brotlegu framferði á vettvangi félagsins geta lagt fram kvörtun eða ábendingu vegna brotlegs framferðis til trúnaðarráðs Pírata eins og nánar er útlistað í 5. grein að neðan.
2.4. Þolandi sé í bílstjórasætinu og alltaf vel upplýstur.
Á öllum stigum málsins skal halda þolanda vel upplýstum og virða óskir hans um framgöngu málsins, þ.m.t. að ef varði málið aðila í trúnaðarráði skipi framkvæmdarráð sérstakt trúnaðarráð í málinu, varði málið aðila í framkvæmdarráði á saman tíma skipi aðildarfélag nýtt trúnaðarráð.
3. gr. Skyldur félaga, starfsfólks og gesta, og sérstakar skyldur trúnaðarráðs, framkvæmdaráðs, stjórna aðildarfélaga, kjörinna fulltrúa og úrskurðarnefndar, sem og annarra sem starfa fyrir Pírata í umboði þeirra.
3.1. Ólögmætt framferði er ekki liðið.
Öllum sem starfa á vettvangi eða í umboði Pírata er skylt að sjá til þess að það taki ekki þátt í eða líði atferli sem telst ólögmætt framferði.
3.2. Fólki í trúnaðarstörfum er skylt að sýna frumkvæði og vera til fyrirmyndar.
Framkvæmdaráði, stjórnum aðildarfélaga, kjörnum fulltrúum, trúnaðarráði, úrskurðarnefnd og starfsfólki, sem og öðrum sem starfa fyrir Pírata eða í umboði þeirra, er skylt að sýna frumkvæði og vera til fyrirmyndar í að stuðla að umhverfi sem laust er við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni, og ofbeldi.
3.3. Framkvæmd reglnanna skal vera skjót, sanngjörn og hlutlaus.
Trúnaðarráði og úrskurðarnefnd ásamt framkvæmdaráði og stjórnum aðildarfélaga er skylt að tryggja að kvartanir vegna brotlegs framferðis hljóti eins skjóta meðferð og auðið er á sanngjarnan og hlutlausan hátt, í samræmi við þá ábyrgð sem þau bera í verklagsreglum þessum og lögum Pírata.
3.4. Ábyrgð á innleiðingu reglnanna.
Framkvæmdaráð ber ábyrgð á innleiðingu þessara verklagsreglna.
4. gr. Forvarnir
4.1. Forvarnir.
Félaginu ber að koma í veg fyrir brotlegt framferði. Í þeim tilgangi verður eftirfarandi forvörnum beitt.
4.2. Regluleg fræðsla fyrir starfsfólk og almennt félagsfólk.
Framkvæmdaráð stendur reglulega fyrir skyldubundinni vitundarvakningu fyrir allt starfsfólk Pírata til að vekja athygli á að ólögmætt framferði verði ekki liðið, að veita leiðsögn varðandi lög, reglur, stefnur og verklag og að stuðla að samlyndu vinnuumhverfi sem er laust við ógnanir, fjandskap og hvers konar mismunun eða hefndarráðstafanir. Skulu fundirnir auglýstir og opnir almennu félagsfólki.
4.3. Þjálfun fyrir trúnaðarráðsfulltrúa.
Framkvæmdarráð skal tryggja markvissa þjálfun á framkvæmd reglnanna fyrir tilvonandi trúnaðarráðsfulltrúa sem skylt er að ljúka henni til að geta tekið sæti í trúnaðarráði.
4.4. Starfsfólk og trúnaðarmenn fái afrit af reglunum.
Framkvæmdaráð, stjórnir aðildarfélaga og kjörnir fulltrúar skulu sjá til þess að starfsfólk þeirra og aðrir sem taka að sér trúnaðarstörf fyrir þá fái eintak af reglunum við skipan og undirriti það sem staðfestingu á skilningi á reglunum og vilja til að fylgja þeim. Undirrituð staðfesting skal varðveitt af framkvæmdaráði.
4.5. Starfsfólk kynni sér reglurnar.
Starfsfólk ber ábyrgð á að kynna sér lög og reglur Pírata varðandi ólögmætt framferði og þá valkosti og tiltækar leiðir til að bregðast við slíku framferði.
4.6. Óskir um ráðgjöf varðandi reglurnar.
Ef þörf er á trúnaðarleiðsögn eða ráðgjöf um mál sem gætu valdið ólögmætu framferði, er heimilt að ráðgast við trúnaðarráð Pírata sem er bundið trúnaði.
5. gr. Ráðstafanir til úrbóta.
5.1. Skráning atburðar.
Einstaklingar sem telja sig þolendur ólögmæts framferðis eru hvattir til að bregðast við eins fljótt og auðið er. Þolandi getur valið óformlegt eða formlegt ferli í samræmi við greinar 5.5 - 5.18. Án tillits til valinnar leiðar er þolandi hvattur til að halda skrá yfir atburði, skrá dagsetningar, staði, atvikalýsingu og nöfn vitna og annarra sem kunna að hafa upplýsingar varðandi atvikið eða aðstæðurnar.
5.2. Meðhöndlun kvartana og ábendinga. - Trúnaður og friðhelgi einstaklinga.
Farið skal með allar kvartanir og ábendingar um ólögmætt framferði með ítrustu varfærni til að vernda friðhelgi viðkomandi einstaklinga og tryggja trúnað eins og auðið verður. Þess skal sérstaklega gætt að lögum um persónuvernd sé fylgt við söfnun, geymslu, aðgengi, vinnslu, birtingu og eyðingu gagna.
5.3. Rösk viðbrögð við kvörtunum og ábendingum.
Skylt er að bregðast við kvörtunum og ábendingum um ólögmætt framferði röggsamlega og eins fljótt og auðið er.
5.4. Aðstoð fyrir þá sem kvartað er undan.
Einstaklingar sem kvartað er undan vegna ólögmæts framferðis geta leitað aðstoðar hjá trúnaðarráði.
Óformleg lausn
5.5. Þolandi tilkynnir geranda sjálfur.
Þolendur geta í eigin persónu beðið viðkomandi að hætta þar sem í sumum tilvikum gerir meintur gerandi sér ekki grein fyrir að framkoman sé særandi. Reyndar getur mismunur á stöðu eða valdi eða önnur atriði torveldað bein samskipti og þolendum er ekki skylt að standa andspænis geranda.
5.6. Þolandi fær aðstoð trúnaðarráðs eða annars þriðja aðila.
Þolendur geta óskað aðstoðar þriðja aðila við að fá óformlega lausn. Eftir aðstæðum og persónulegum óskum geta þau leitað aðstoðar einhvers af eftirtöldum aðilum; trúnaðarráðs, framkvæmdastjóra Pírata, framkvæmdaráðs og stjórn aðildarfélags. Ekkert í þessum reglum er ætlað að standa í vegi fyrir því að þolendur leyti aðstoðar hjá þriðja aðila.
5.7. Þriðji aðili upplýsir gerenda og miðlar málum.
Sé ósk þolanda að ekki sé farið í formlegt ferli getur trúnaðarráð með samþykki þolanda hitt meintan geranda óopinberlega til að upplýsa viðkomandi um stöðu mála og ræða hvernig megi leysa vandann með hvað farsælustum hætti fyrir alla aðila.
5.8. Skylda um áframhaldandi stuðning við þolanda á öllum stigum ferlisins.
Óháð því hver niðurstaða málsmeðferðar kann að vera skulu þeir aðilar sem tilgreindir eru í grein 5.6 hér að framan halda áfram að veita þolanda stuðning á öllum stigum ferlisins.
5.9. Ef óformleg lausn fæst ekki.
Ef ekki tekst að leysa málið óformlega kemur það ekki í veg fyrir að það verði sótt formlega samkvæmt eftirfarandi ákvæðum:
Formlegt verklag
5.10. Skrifleg kvörtun.
Þolanda og vitnum að ólögmætu framferði er ávallt heimilt að leggja fram skriflega kvörtun til trúnaðarráðs. Í þeim tilfellum þar sem meintur gerandi er aðili í trúnaðarráði skal leggja fram kvörtun við framkvæmdaráð.
5.11. Form tilkynningar eða kvörtunar um meint ólögmætt framferði.
Kvörtunin eða tilkynningin ætti að lýsa ítarlega meintu tilviki eða tilvikum brotlegs framferðis ásamt öðrum gögnum og upplýsingum sem varpað geta ljósi á málið. Í tilkynningu eða kvörtun þarf eftirfarandi að koma fram:
- Nafn meints geranda;
- Tímasetningar og staður/staðir atviks/a;
- Lýsing á atviki/atvikum;
- Nöfn vitna, ef einhver eru;
- Dagsetning framlagningar og undirskrift þolanda eða þriðja aðila sem tilkynnir.
Ásamt öðrum upplýsingum sem varpað geta ljósi á málið.
5.12. Móttaka og frumathugun ábyrgðaraðila á tilkynningu eða kvörtun.
Við móttöku formlegrar kvörtunar eða tilkynningar skal trúnaðarráð fara yfir hana eins fljótt og auðið er til að meta hvort hún virðist hafa verið gerð í góðri trú og hvort nægjanlegur grundvöllur sé fyrir formlegri rannsókn og gagnaöflun. Ef svo er skal trúnaðarráð rannsaka ásakanir um ólögmætt framferði eins fljótt og auðið er.
Ef frumathugun gefur til kynna að grundvöllur sé fyrir ásökunum og að viðkomandi framferði sé mögulega refsivert samkvæmt landslögum, vísar trúnaðarráð málinu til framkvæmdaráðs og bendir þolanda á möguleikann á því að kæra málið til lögreglu.
5.13. Meintur gerandi upplýstur um rannsókn.
Í upphafi rannsóknar og gagnaöflunar, og í samráði við þolanda, upplýsir trúnaðarráð meintan geranda um eðli ásakana gagnvart viðkomandi. Meintur gerandi, ásamt öðrum sem rætt er við í rannsókninni, skal upplýstur um verklagsreglur þessar.
5.14. Rannsókn og gagnaöflun.
Rannsókn og gagnaöflun skal fela í sér viðtöl við þolanda, meintan geranda og aðra aðila sem kunna að hafa upplýsingar um meint brotlegt framferði.
5.15. Skýrsla um staðreyndir málsins.
Trúnaðarráð skal útbúa ítarlega skýrslu með greinargerð um staðreyndir sem þau hafa komist að og láta fylgja gögn eins og skriflega vitnisburði eða önnur skjöl eða gögn sem tengjast meintu ólögmætu framferði. Þessari skýrslu skal skilað til framkvæmdaráðs eigi síðar en þremur mánuðum frá framlagningu formlegrar kvörtunar eða tilkynningar.
5.16. Aðgerðir á grundvelli skýrslu.
Á grundvelli skýrslunnar velur trúnaðarráð eina af eftirfarandi aðgerðum:
Framferði ekki brotlegt. Ef skýrslan gefur til kynna að ekkert ólögmætt framferði hafi átt sér stað, lokar trúnaðarráð málinu og tjáir meintum geranda og þolanda það með samantekt á niðurstöðum og málalyktum.
Framferði brotlegt. Ef skýrslan gefur til kynna að ásakanirnar byggist á staðreyndum en er ekki brot á landslögum, skal trúnaðarráð leggja til þær aðgerðir sem farið skal í. Trúnaðarráð mun upplýsa geranda og þá sem þurfa að sjá um eftirfylgd ráðstafana ef þörf krefur. Aðgerðir geta falist í skyldubundinni þjálfun, áminningu, breyttu starfssviði eða ábyrgð, ráðgjöf eða öðrum úrbótum. Trúnaðarráð upplýsir þolanda og geranda um niðurstöðu rannsóknar og aðgerðir.
Framferði mögulega refsivert. Máli vísað til lögreglu. Ef skýrslan gefur til kynna að grundvöllur sé fyrir ásökunum og að viðkomandi framferði sé mögulega refsivert, vísar trúnaðarráð málinu til lögreglu og upplýsir framkvæmdaráð.
5.17. Tilhæfulausar ásakanir.
Ef skýrslan gefur til kynna að ekki hafi verið grundvöllur fyrir ásökunum og þær séu settar fram af vítaverðum ásetningi, ákveður trúnaðarráð hvort gripið skuli til agaviðurlaga eða annarra aðgerða gagnvart einstaklingnum sem lagði fram kvörtun eða tilkynningu.
5.18. Ágreiningur um framkvæmd, túlkun og brot á verklagsreglum þessum.
Þolanda og meintum geranda er heimilt að áfrýja ágreiningi um framkvæmd, túlkun
og brot á verklagsreglum þessum til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu
samkvæmt grein 8.1 í lögum Pírata.
6. gr. Eftirlit.
6.1. Árleg samantekt um starf á grundvelli þessara reglna með tillögum til úrbóta.
Framkvæmdaráð gefur árlega út samantekt með yfirliti um starf á grundvelli þessara reglna frá síðustu samantekt, s.s. forvarnaraðgerðir, fjöldi tilkynninga og kvartana, og afgreiðslu þeirra samkvæmt 5. grein, sem og mat eða matsgerðir varðandi slíkar ráðstafanir og/eða aðgerðir með tillögum til úrbóta. Trúnaðarráð og aðildarfélög skulu koma þeim upplýsingum til framkvæmdaráðs fyrir aðalfund hvert ár.
6.2. Eftirlit með rannsókn.
Þar sem gagnaöflun og rannsókn er hafin eftir móttöku formlegrar kvörtunar yfir meintu brotlegu framferði, skal trúnaðarráð grípa til viðeigandi ráðstafana til að fylgjast með stöðu þolanda og meints geranda þar til skýrsla um rannsókn hefur verið lögð fram. Tilgangur slíks eftirlits er að tryggja að aðilar sýni samvinnu með gagnaöflun og rannsókn og að enginn aðili sæti hefndaraðgerðum vegna kvörtunar eða gagnaöflunar og rannsóknar. Verði vart við hefndaraðgerðir ber að tilkynna það trúnaðarráði og framkvæmdaráði tafarlaust. Trúnaðarráð getur óskað eftir upplýsingum frá framkvæmdarráði, aðildarfélagi, starfsfólki, kjörnum fulltrúum og öðrum í trúnaðarstöðum eins og þörf krefur.
6.3. Eftirlit með áhrifum af niðurstöðu mála.
Þegar rannsókn er lokið og niðurstaða liggur fyrir, gerir framkvæmdaráð, stjórn aðildarfélags og/eða kjörnir fulltrúar, eftir því sem viðeigandi er, ráðstafanir til að fylgjast með stöðu mála. Þessar ráðstafanir geta falið í sér en takmarkast ekki við eftirfarandi:
Reglulegt eftirlit með stöðu þolanda og meints geranda til að tryggja að enginn aðili sæti hefndaraðgerðum vegna rannsóknar, niðurstöðu rannsóknar eða eftirmála. Verði vart við hefndaraðgerðir skal tilkynna það trúnaðarráði og framkvæmdaráði tafarlaust.
Tryggja að lögum Pírata hafi tilhlýðilega verið fylgt.
Aðrar viðeigandi ráðstafanir tilgreindar, þá einkum forvarnir, til að tryggja að markmiðum laga Pírata og þessara verklagsreglna sé náð.
7. gr. Lokaákvæði
7.1. Þessar verklagsreglur öðlast þegar gildi.