Loftslagsaðlögunarályktun
Málsnúmer: | 6/2020 |
---|---|
Tillaga: | Loftslagsaðlögunarályktun |
Höfundur: | htg |
Í málaflokkum: | Gagnsæi, Umhverfismál, Þjóðaröryggi |
Upphafstími: | 07/02/2020 12:02:56 |
Umræðum lýkur: | 21/02/2020 12:30:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 14/02/2020 12:30:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 21/02/2020 12:30:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 47 (1 sitja hjá) |
Já: | 41 (87,23%) |
Nei: | 6 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Álykta Píratar eftirfarandi:
Stjórnvöld skulu birta áætlanir um aðgerðir til að tryggja velferð, öryggi og áframhaldandi tilveru ríkis og þjóðar í þeim aðstæðum að loftslagið jarðar verði þrem gráðum hlýrra um árið 2055, og fjórum gráðum hlýrra um árið 2090, en það var á tímabilinu 1850-1900. Áætlanirnar skulu vera aðgengilegar almenningi.
Greinargerð:
Loftslagshamfarir vegna hlýnunar af mannavöldum eru þegar hafnar og byrjaðar að ógna mannvirkjum, vistkerfum og mannslífum víða um heim. Fyrirséð er að ógnin sem af þessu stafar mun einungis fara vaxandi í nánustu framtíð. Því verða íslensk stjórnvöld þegar í stað að grípa til aðgerða sem miða að því að tryggja velferð þjóðarinnar til langframa.
Andrúmsloft jarðar er nú þegar einni gráðu hlýrra en það var á tímabilinu 1850 – 1900. Það stefnir í að jörðin hlýni um allt að þrem gráðum fram til ársins 2055 og að fjórum gráðum til ársins 2090 ef gildandi löggjöf heimsríkja breytist ekki.
Í fimmtu skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem út kom 2014, er sett fram spá um fjórar mögulegar sviðsmyndir út frá jafn mörgum forsendum. Sviðsmyndirnar heita á ensku ‘Representative Concentration Pathways,’ skammstafað RCP, og eru auk þess númeraðar til aðgreiningar. Tölurnar um hækkun hitastigs miða allar við meðalhitastig á árunum 1850 – 1900 (‘preindustrial’). Sú sviðsmynd sem leiðir til mestrar hlýnunar, RCP8,5, er stundum kölluð ‘business as usual’ og ‘líkleg hlýnun’ vísar til þess að 66 prósent líkur eru taldar á að hlýnunin verði á því bili sem þar er tiltekið (en 17 prósent líkur á að hún verði meiri).
Hlýnun miðað við árabilið 1850-1900, Celsiusgráður
Árabil: 2046–2065 (um 2055) 2081–2100 (um 2090)
Sviðsmynd: Meðaltal og ‘líkleg hlýnun’ Meðaltal og ‘líkleg hlýnun’
RCP2,6: 1,6 (1,0 til 2,2) 1,6 (0,9 til 2,3)
RCP4,5: 2,0 (1,5 til 2,6) 2,4 (1,7 til 3,2)
RCP6,0: 1,9 (1,4 til 2,4) 2,8 (2,0 til 3,7)
RCP8,5: 2,6 (2,0 til 3,2) 4,3 (3,2 til 5,4)
Á vefsíðunni Climate Action Tracker má sjá að gildandi löggjöf og raunverulegar aðgerðir (‘Current Policies’) stjórnvalda í löndum heims í desember 2019 þýddu áframhaldandi kolefnislosun sem valda mun 3,0 gráðu hlýnun á þessari öld, en mögulega 4,1 gráðu hlýnun. Sé horft til loforða og markmiða ríkja heims (Pledges and Targets) á þessu sviði stefnir í 2,8 gráðu hlýnun á þessu sama tímabili, en mögulega 3,5 gráða hlýnun.
Væru 17% líkur á ókyrrð í háloftunum, kysi maður aldrei að vera farþegi í flugvél sem myndi örugglega hrapa ef hún lenti í slíkum aðstæðum. Við þessum framtíðarhorfum þarf að bregðast þegar í stað með viðeigandi aðgerðum til að tryggja jafnt núlifandi Íslendingum sem framtíðarkynslóðum góða og örugga tilveru. Það er ekki eftir neinu að bíða, enda ekki langt í árið 2055 og þau sem fæðast í dag verða að líkindum flest á dögum árið 2090.
https://www.vedur.is/media/rannsoknir/Loftlagsskyrsla_Vefur-Kafli-3-Hnattraenar-loftslagsbreytingar.pdf
https://en.wikipedia.org/wiki/Representative_Concentration_Pathway
http://www.climatechange2013.org/images/report/WG1AR5_SPM_FINAL.pdf
https://climateactiontracker.org/global/cat-thermometer/
https://climateactiontracker.org/media/images/CAT-Thermometer-2019.09-3BarsText.original.png
Með tilvísun í Grunnstefnu Pírata:
1: um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu, heila.
4.3: Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.