Lagabreytingartillaga: Aðildarfélög

Þessi tillaga er úreld. Nýrri útgáfa hefur tekið gildi.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að öll starfsemi Pírata fari fram undir merkjum eins heildarfélags. Reynslan af þátttöku Pírata í kosningum til Alþingis 2013 sýnir að þetta sé ekki vænlegt til árangurs til framtíðar. Því er hér lagt til að önnur félög geti orðið formlegur hluti af Pírötum, en nú þegar er starfandi félagið Ungir Píratar. Fyrir liggur að það er ekki í takt við grunnstefnu Pírata um að draga úr miðstýringu og miðlægni að allt starf og stefnumótun Pírata fari fram í gegnum stakt félag. Þó er nauðsynlegt að hafa í huga ákveðnar gildrur þegar kemur að starfsemi aðildarfélaga, eins og víkur að síðar.

Aðildarfélög geta verið af tvennu tagi, annars vegar almenn aðildarfélög – líkt og Ungir Píratar – eða svæðisbundin aðildarfélög – en fyrirséð er að stofnuð verði félög á borð við Pírata í Reykjavík og Pírata á Vestfjörðum. Ástæða þess að sérstaklega er gert ráð fyrir svæðisbundnum aðildarfélögum er sú að Píratar hafa það að markmiði sínu að taka þátt í kosningum á Íslandi, og því eðlilegt að skipting Pírata haldist í hendur við skiptingu íslenskrar stjórnsýslu. Af sömu ástæðu er þess krafist að starfssvæði aðildarfélags sé ekki minna en eitt sveitarfélag. Vert er að benda á að ekkert kemur í veg fyrir að aðildarfélag Pírata samanstandi aftur af aðildarfélögum, og því ekkert því til fyrirstöðu að fjölmennari sveitarfélög skipti starfsemi sinni upp með nákvæmari hætti.

Samkvæmt tillögum þessum er frelsi aðildarfélaga talsvert, en aðildarfélögum er einungis gert að brjóta ekki gegn grunnstefnu eða lögum Pírata. Þetta er gert til að draga úr líkum á því að stöðnun í einhverskonar kjarna verði þess valdandi að Píratar í heild festist í sama farinu og taki ekki áhættu þegar kemur að því að vinna að málefnum félagsins. Frelsi til þess að gera tilraunir er forsenda þess að starfshættir haldi áfram að þróast.

Þegar stuðst er við aðildarfélög, frekar en félagsdeildir, eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga. Helst þessara atriða er hættan á því að aðildarfélag verði óstarfhæft, þ.e., að félagið sé enn til og eigi jafnvel eignir, en ekkert gerist í því, þar sem félagsmenn eru orðnir of fáir eða stjórn félagsins bregðist ekki við. Tvær aðskildar ráðstafanir eru gerðar til að bregðast við þessu. Annars vegar er gerð krafa um að aðildarfélög skili ákveðnum lágmarksgögnum til Pírata (framkvæmdaráðs) í tæka tíð fyrir aðalfund Pírata; hins vegar að aðildarfélög setji sér lágmarksskilgreiningu á starfhæfni. Uppfylli aðildarfélag ekki þessi skilyrði er veitt heimild til að slíta því. Til að tryggja að Píratar missi ekki ráðstöfunarrétt á eignum aðildarfélaga er þess krafist að eignir aðildarfélaga renni til Pírata við slit þeirra.

Að öðru leyti snýr breytingartillagan að atriðum sem varða skipulag á aðkomu Pírata að kosningum og tengsl milli flokksins og kjörinna fulltrúa sem honum tengjast. Gert er ráð fyrir að alþingismenn Pírata muni starfa fyrir flokkinn í heild – það er, fyrir öll aðildarfélög hans. Aðildarfélögum er eftirlátið að skilgreina hlutverk sveitarstjórnarfulltrúa, og bera þeir engar skyldur gagnvart framkvæmdaráði. Þó er sérstaklega tekið fram að framkvæmdaráð geti óskað eftir því að kjörnir fulltrúar – sem eru meðal annars sveitarstjórnarmenn – mæti á framkvæmdaráðsfund.

Æskilegt er að a.m.k. grunnmynstur þessa fyrirkomulags verði orðið virkt fyrir áramót, en hugur hefur verið í ýmsum Pírötum að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum 2014.

Málsnúmer: 51/2013
Tillaga:Lög Pírata
Höfundur:odin
Í málaflokkum:Innra skipulag Pírata
Upphafstími:10/09/2013 19:52:41
Atkvæðagreiðsla hefst:25/09/2013 00:00:00 (0 mínútur)
Atkvæðagreiðslu lýkur:01/10/2013 23:59:59 (0 mínútur)
Atkvæði: 18
Já: 18 (100.00%)
Nei: 0
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:66.67%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.