Samþykkt: Aðgerðastefna Pírata í loftslagsmálum
Aðgerðastefna Pírata í loftslagsmálum
Með tilvísun í:
1.-3. gr. Almennrar umhverfisstefnu
1 gr. Efnahagsstefnu Pírata
5-6. gr. Orkumálastefnu Pírata
2 gr. Landbúnaðarstefnu Pírata
Og með hliðsjón af:
Stefnu Pírata um Rafbílavæðingu
Auk ritaðra heimilda í heimildalista í greinargerð með stefnunni.
Álykta Píratar eftirfarandi til verndar lofthjúps jarðar:
Markmið með aðgerðastefnu Pírata í loftslagsmálum er að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og að axla ábyrgð á málaflokknum sem skilar markvissum og raunverulegum árangri og úrbótum til langs tíma.
1) Löggjafavaldið skal sjá til þess að í öllum samþykktum þingsins og langtímaáætlunum hins opinbera sé náttúruvernd höfð að leiðarljósi, ásamt beins og óbeins kostnaðar vegna þeirra, þ.m.t. útstreymis gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna.
2) Aðilar sem losa mengandi efni í umhverfið skulu ætíð bera kostnað af slíku, í samræmi við mengunarbótareglu og varúðarreglu.
3) Útstreymi gróðurhúsalofttegunda:
a. Minnka skal losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn fyrir árið 2025 (um 40% prósent) og að önnur losun þessara efna verði því sem næst engin árið 2040.
b. Byggja skal upp innviði fyrir rafknúin og visthæf ökutæki og skip.
c. Ríkið skal með svipuðum hætti stuðla að og styðja mengunarminni almenningsamgöngur og notkun rafmagnsreiðhjóla
d. Innleiða skal strax 6. viðauka við Marpol samningsins um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Þannig að hafið umhverfis Ísland verði ECA svæði og að skipum sem sigla þar um leyfist að losa brennisteinsmagn innan við 0,1%.
e. Meðferð og notkun svartolíu skal vera með öllu bönnuð í landhelgi Íslands fyrir árið 2025.
f. Skip sem sigla um íslenska landhelgi án þess að leggja að höfn eiga að greiða "landhelgisgjald" og það sé hærra fyrir skip sem ekki hafa bláfána, umhverfisvottun eða önnur óvéfengjanleg vottorð sem sýna fram á að ákvæði MARPOL séu uppfyllt í skipinu.
g. Gera skal metnaðarfulla áætlun um útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun, svo sem framræslu, námuvinnslu, uppistöðulónum, urðun, o.þ.h.
h. Stefna skal að verulega minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldi og jarðrækt. Taka þarf tillit til þess í nýrri landabúnaðarstefnu.
i. Efla skal skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi, en þó í samræmi við skipulagsáætlanir og aðrar reglur þar um.
j. Fara skal í markvissar aðgerðir um að ljúka endurheimt votlendis fyrir árið 2025.
k. Ísland á að taka skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögssögunni.
4) Nýta skal hagræna hvata til að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið:
a. Öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið skal greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta.
b. Mengunarrenta skal vera hærri en sú upphæð sem besta fáanlega tækni í mengunarvarnabúnaði kostar í hverju tilfelli.
c. Efla skal þekkingu, fjárhagslega hvata og uppbyggingu innviða fyrir ferðamáta með lítinn sem engan útblástur mengunarefna, svo sem gönguferðir, hjólreiðar og notkun almenningssamgangna.
d. Önnur ökutæki og vélar sem nýta jarðefnaeldsneyti skulu bera mengunarrentu í formi kolefnisskatts sem fer stighækkandi eftir því sem eldsneytisneysla og losun loftmengunarefna er meiri.
e. Ísland skal fylgja fordæmi framsæknustu nágrannaþjóða um að hætta sölu nýrra ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2025.
f. Ívilnanir við kaup á visthæfum bifreiðum skulu miða við að visthæf farartæki séu ætíð fjárhagslega betri kostur en kaup á bifreiðum sem losa gróurhúsalofttegundir.
g. Nýta skal skattkerfið í hvívetna til að hvetja til athafna sem hafa litla eða enga losun mengunarefna.
5) Loftslagssetur, gagnasöfnun, rannsóknir og upplýsingaveita:
a. Tryggja skal fjármagn til að mælingar og vöktun á mengunarefnum og útstreymi þeirra sé í samræmi við lög og reglugerðir þar um.
b. Komið verður á laggirnar Loftslagssetri Íslands þar sem óháðir sérfræðingar starfa við gagnaöflun, miðlun upplýsinga, rannsóknir, viðhald þekkingar, vottanir og þróun líkana og útreikninga.
c. Loftslagssetrið aflar gagna í samráði við aðrar fagstofnanir, svo sem Umhverfisstofnun, Vegagerð, Samgöngustofu, Landgræðslu, Hagstofu, ofl.
d. Loftslagssetur Íslands leiðir átak í að virkja einstaklinga og lögaðila til að tryggja skilning og samvinnu í að sporna gegn loftslagsbreytingum.
e. Allar niðurstöður úr loftgæðamælingum verða aðgengilegar fyrir almenning án tafar bæði myndrænt og sem ítarlegar gagnatöflur fyrir rannsóknaraðila.
f. Nýta skal hagræna umhverfisreikninga til að gefa vísbendingar um aðföng og afdrif efna og efnasambanda sem geta haft umhverfisáhrif.
g. Fylgja skal bestu fáanlegu fordæmum við að koma á kolefnisvottun neysluvöru og annars varnings og hvetja þannig til umhverfisvænna neysluhátta.
h. Fylgja skal stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.
i. Ísland tekur virkan þátt í alþjóðastarfi í loftslagsmálum og forvörnum gegn mengun.
Greinargerð
Markmið með aðgerðastefnu Pírata í loftslagsmálum er að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og að axla ábyrgð á málaflokknum sem skilar markvissum og raunverulegum árangri og úrbótum til langs tíma.
1) Langtímaáætlanir eru ein af megin stoðum góðrar stjórnsýslu að mati Pírata, enda stuðla þær að hóflegri ákvarðanatöku, markvissri ákvarðanatöku og fjárhagslegum stöðugleika. Í langtímaáætlunum svo sem um byggðamál, efnahagsmál, ferðaþjónustu, heilbrigðismál, menntamál, samgöngur, sjálfbæra þróun og umhverfismál þarf í öllum tilfellum að meta kostnað umhverfisþátta, þar með talið útstreymis gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna og aðgerðaráætlanir til að sporna við þeim.
2) Í samræmi við mengunarbótareglu (polluter pays principle) sem einnig er nefnt greiðsluregla, þarf að tryggja að þeir sem losa mengandi efni út í umhverfið greiði fyrir það, hvort sem um er að ræða starfsemi lögaðila eða athafnir einstaklinga. Þetta má t.d. gera í gegnum skattakerfið þannig að mengunarskattur leggist ofan á tilteknar atvinnugreinar sem losa mengunarefni.
Greiðslureglan felur í sér að sá sem mengar bætir tjónið á eigin kostnað (Umhverfisstofnun, 2012). Tilgangurinn með lið 2 er að færa þann til ábyrgðar sem veldur mengun. Það er svo kostnaður lendi ekki á samfélaginu öllu, svo tekist sé á við skaða á umhverfinu og svo stofnanir og fyrirtæki sýni fyrirhyggju gagnvart umhverfismálum.
Varúðarreglan kemur úr Ríó yfirlýsingunni frá 1992 og hefur verið orðuð svo á íslensku: "Ef óvissa ríkir um afleiðingar athafna eða athafnaleysis á náttúru og umhverfi skuli grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir að óæskilegar afleiðingar verði að veruleika, jafnvel þótt ekki sé til staðar fullkomin sönnun á orsakasambandi aðgerða eða aðgerðaleysis og mögulegra afleiðinga (Alþingi, 2015-2016). Samkvæmt varúðarreglu skal heilsa manna, náttúran og umhverfið njóta vafans þegar mengunarbótaregla er útfærð.
3) Ísland skal setja metnaðarfull markmið til að minnka skjótlega alla losun gróðurhúsalofttegunda í það minnsta í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2016 auk þess sem stórátak verður gert í að minnka losun sem ekki fellur undir Parísarsamninginn, t.d. fimm ára áætlun um endurheimt votlendis og 10 ára áætlun í skógrækt og uppgræðslu. Þarna má meðal annars setja markmið þess efnis að Ísland verði kolefnisjafnað árið 2025 og jafnvel aflögufært um að markaðssetja kolefniskvóta til annarra ríkja.
Uppbygging á göngustígum, reiðhjólastígum og hleðslu fyrir rafbíla á að fá forgang á næstu árum. Rafbílavæðing getur aðeins hafist fyrir alvöru þegar hleðslustöðvar eru orðnar almennar, bæði á vegum einkaaðila og sveitarfélaga. Einnig þarf að styrkja innviði rafhleðslustöðva í höfnum landsins til að hægt verði að draga or og að lokum banna notkun olíunotkunar fyrir ljósavélar og álíka búnað í höfnum landsins. Þegar bátar og skip verða komin með tengingu við rafmagn í landi skapast einnig forsenda til að hlaða batterí sem létta undir eldsneytisnotkun á siglingu.
Í skýrslu umhverfisráðuneytisins frá 2009 um aðgerðir í loftslagsmálum kom fram að bætt aðgengi til göngu og hjólreiða væru ábatasamir aðgerðir, vegna beins sparnaðar í samfélaginu auk þess að vera fýsileg leið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðir sem tengjast því að bæta aðgengi til hjólreiða mætti horfa til Hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar, og meðal annars fela í sér að sem hluti af Samgönguáætlun verði til Hjólreiðaáætlun og Gönguáætlun Íslands.
Eitt skref í baráttu við loftslagsmengun er að innleiða viðauka 6 í MARPOL alþjóðasamningnum um varnir gegn mengun sjávar. Þannig verður hægt að koma í veg fyrir alla brennslu á svartolíu í landhelgi Íslands, krefjast upplýsinga um olíunotkun allra sæfara og krefjast gjalds af öllum skipum sem ekki geta sýnt með óyggjandi hætti fram á að þau uppfylli þær mengunarvarnarreglur sem Ísland hefur sett.
Í atvinnuvegastefnum skal sérstaklega hugað að því að draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda frá hvers kyns framleiðslu og landnotkun s.s. framræslu, námuvinnslu, uppistöðulóna, urðun, o.þ.h. Einnig er eftir er einnig að huga að úrbótum í flugsamgöngum og skoða hvaða hagrænu hvata er mögulegt að nýta þar til að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Íslensk yfirvöld eiga ekki að beita sér fyrir því að auka veg tiltekinna atvinnuvega, t.d. málmbræðslna, stórra vatnsaflsvirkjana og meðfylgjandi uppistöðulóna eða gas og olíuleitar í efnahagslögssögunni, sem stuðlar að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda og öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum, t.d. á Drekasvæðinu svokallaða. Þess í stað þarf hið opinbera einbeita sér að því að nýta endurnýjanlegar og vistvænar orkulindir til að knýja framleiðslu, samgöngur og siglingar af öllu tagi, ásamt því að viða að samfélagi þar sem einstaklingsfrelsi og framtakssemi vega hærra.
4) Hagrænir hvatar eru mikilvægir til að ná markmiðum í minni losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisskattur á innflutning tækja sem brenna jarðefnaeldsneyti, markvissar aðgerðir til að fækka bifreiðum sem brenna bensíni og olíu, ívilnanir fyrir notkun vistvænna farartækja, álagning mengunarrentu/skatta á starfsemi sem losar mengandi efni og niðurfelling virðisaukaskatts á mengunarvarnabúnaði og vistvænum lausnum eru dæmi um fjárhagslega hvata sem virkja þarf til að ná skjótum árangri í verndun lofthjúps jarðar. Ein hugmynd er að safna mengunarrentu í mengunarvarnasjóð sem gæti m.a. tekið þátt í að fjármagna uppbyggingu innviða fyrir rafmagnhleðslustöðva.
Ljóst er að ívilnanir fyrir visthæfar bífreiðar þarf að vera til lengri tíma en eins árs í senn eins nú er.
Ekki má þó gleyma að samtvinna samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, sér í lagi á kolefnismarkaði og skoða þarf leiðir til að sporna gegn því að neytendur og starfsemi beri mikinn fjárhagslegan skaða vegna hækkunar verðlags.
5) Á Íslandi eru loftslagsmál, rannsóknir tæknimál og útreikninga á þeim dreifð á fjölda stofnana sem gerir samantekt og yfirlit með málaflokknum erfitt fyrir. Hugmynd um Loftslagssetur gengur skrefi lengra en nýleg þingsályktun um stofnun loftslagsráðs þar sem Loftslagssetur fær sérfræðinga til að vinna saman að því að ná markmiðum loftslagsráðs og framfylgja aðgerðaáætlun yfirvalda og ná skjótum markmiðum í loftslagsmálum eins og þessi aðgerðastefna ber með sér. Til þessa væri tilvalið að koma á fót lítilli aðgerðastofnun sem hefur með loftslagsmál að gera. Slíkt sýnir einnig vægi málaflokksins sem sumir telja að verði eitt helsta verkefni næstu áratuga.
Einnig ætti Loftslagsstofa taka þátt í að koma upp og halda utanum tölfræði ýmiskonar, t.d. um ferðavenjur, samsetningu samgagna á Íslandi eftir samgöngumáta og breytingar á þeim. Auk þess sem efla þarf fræðslu um þær samfélagsbreytingar sem nauðsynlegar eru til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda og annarrar mengunar, t.d að fræðsla um kolefnisspor varnings, súrnun hafsins o.þ.h. Fræðslan og tölfræðin þarf að vera bæði á íslensku, ensku og hugsanlega öðrum tungumálum sem stórir hópar landsbúa tala.
Hið opinbera skal ganga fram sem fyrirmynd félaga, lögaðila og einstaklinga í vistvænum innkaupum og grænum ríkisrekstri með því að stuðla að loftslags- og umhverfisvernd í daglegum rekstri og árlegum áætlunum. Hluti af því átaki er að koma á fót Loftslagssetri til frekari leiðbeininga og ráðlegginga.
Almennt séð má búast við að uppbygging hleðslustöðva á vegum sveitarfélaga þurfi að fjármagna til að byrja með t.d. með kolefnissköttum/mengunarrentu en notkunargjald muni greiða upp notkun og viðhald þeirra til lengri tíma. Mengunarrenta eða "landhelgisgjald" á skipaumferð mun greiða upp eftirlit með loftslagsáhrifum skipaflotans og skipaumferðar.
Heimildir:
Umhverfisstofnun. (2012, júní 15). Mengunarbótareglan innleidd í íslensk lög.
Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (Umhverfisráðuneyti, 2009
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá Umhverfisráðuneyti , desember 2009
Samkomulagi um loftslagsvænni landbúnað
Verkefni um endurheimt votlendis
Alþjóðlegir samningar um varnir gegn mengun sjávar frá skipum
Stefnu Ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur
Þingsályktun nr. 46/?145 um stofnun loftslagsráðs,2. júní 2016
Nefndaráliti utanríkismálanefndar 14.9.2016 um fullgildingu Parísarsamningsins
Tilheyrandi mál: | Aðgerðastefna Pírata í loftslagsmálum |
---|
Útgáfur
# | Staða | Höfundur | Lýsing |
---|---|---|---|
1 | Samþykkt | elinyr |