Ferðamálastefna

Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.

Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning á fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim, þróun sem ekki sér fyrir endann á. Efnahagslegur ábati þessa er mikill fyrir þjóðarbúið, en um leið hefur skapast þörf fyrir ýmsar aðgerðir til að mæta þörfum greinarinnar, en jafnframt að tryggja að aukinn ágangur skaði ekki viðkvæma náttúru landsins. Ekki er gott að spá fyrir um þróunina, en ljóst að þörf er á áætlun í ferðamálum, bæði til lengri tíma og svo þarf að bregðast strax við brýnustu vandamálunum sem nú þegar blasa við. Vegna ófyrirsjáanleika vaxtarins í greininni er ljóst að endurskoða þarf langtímaáætlunina mjög reglulega.

Í samræmi við stefnu Pírata um valddreifingu viljum við leggja áherslu á mikilvægi nærsamfélagsins, í þessu tilfelli sveitarfélaganna, í uppbyggingu innviða og til að vernda umhverfið og að þeim séu tryggðir tekjustofnar til þess að sinna því. Sveitarfélögin, ásamt ríki og fyrirtækjum í ferðaþjónustu, þurfa að eiga gott samstarf, en ekki að vinna hvert í sínu horni, svo að tryggt sé að reynsla ferðamanna sé sem jákvæðust. Ríkinu ber auk þess að styðja sem best við greinina, m.a. með því að tryggja framboð af menntun fyrir ferðamálafræðinga, leiðsögumenn og landverði. Verði "fullnægjandi" menntun þessara stétta vel skilgreind samstarfi við viðeigandi starfsstétt, en ljóst er að efla þarf þessar starfsstéttir, m.a. með auknu samráði opinberra aðila við þær.

Hluti af eflingu nærsamfélagsins felst í að gistináttagjald á gistingu renni til sveitarfélaganna. Slík innheimta útilokar ekki annars konar gjaldheimtu, eins og af bílastæðum, komugjöld eða náttúrupassa, þótt ekki sé tekin afstaða til þessara atriða í þessari ályktun. Þar sem gríðarlegur munur er á dýrustu og ódýrustu gistingu, er stungið upp á að gistináttagjald sé prósentutala, frekar en föst upphæð. Þeir sem hafi efni á dýrari gistingu borgi meira. Þá mætti hugsa sér að sveitarfélögin hefðu einhvern ramma, líkt og með útsvarið, við álagningu gistináttagjalds.

Hin gríðarmikla aukning ferðamanna hefur valdið miklu álagi á vinsæla ferðamannastaði, sem kallar á uppbyggingu, bæði hvað varðar þjónustu við ferðamenn og verndun umhverfisins. Ásóknin hefur auk þess vaxið gífurlega utan helsta ferðamannatímans - vetrarmánuðirnir njóta líka síaukinna vinsælda. Það kallar á sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða, t.d. vegna hálku eða ófærðar. Fólk kemur til Íslands til að njóta óspilltrar náttúru og til þess að spilla sem minnst þeirri upplifun, skal gæta þess að mannvirki falli sem best að náttúrulegu umhverfi, auk þess sem framkvæmdirnar séu með þeim hætti að þær séu afturkræfar.

Tilhneigingin hefur verið til þess að ferðamenn sæki í sömu staðina, eins og Gullna hringinn og Bláa lónið, en forsenda þess að um frekari vöxt í fjölda ferðamanna verði að ræða er að þeir dreifist víðar um landið. Til staðar er fjöldi náttúruperla og áhugaverðra staða sem þola meiri ásókn, en sitthvað skortir á um kynningu þeirra. Ríkið getur haft frumkvæði um slíka kynningu.

Hlutverk björgunarsveita verður sífellt mikilvægara með auknum fjölda fólks sem ferðast um landið, jafnt sumar sem vetur. Ljóst er að hefðbundin innkoma þeirra dugir ekki til að mæta auknum kostnaði og vinnu sem af þessu hlýst, og þarf ríkið að koma þar inn með aukna fjárveitingu.

Opinberir aðilar þurfa að vera vakandi, þegar tækifæri bjóðast, til að auka hlut ríkisins í eign á landi með náttúruperlum, t.d. þegar þær eru til sölu.

Hluti af upplifuninni um hið ósnortna og náttúrulega sem ferðamenn sækjast eftir hér á landi, er að geta farið um óhindrað. Því skal leggja skal sem minnstar hindranir fyrir því að fólk geti farið um landið, t.d. meðfram ám og ströndum, í lögmætum tilgangi, með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Hluti af því að auka fjölbreytni í ferðamennsku er að fólk hafi greiðan aðgang á milli staða. Margir ferðamenn kjósa að nota almenningssamgöngur og sem lágmark skal tryggja að þær nái til helstu þéttbýlisstaða á landinu. Ef sett verður niður samgöngustefna Pírata gæti þessi liður frekar átt heima þar.

Málsnúmer: 41/2016
Tillaga:Ferðamálastefna
Höfundur:Bergthor
Í málaflokkum:Samgöngur, Umhverfismál, Viðskipti, Þjóðaröryggi
Upphafstími:30/05/2016 00:50:53
Umræðum lýkur:13/06/2016 00:50:53 (0 minutes)
Atkvæðagreiðsla hefst:06/06/2016 00:50:53 (0 minutes)
Atkvæðagreiðslu lýkur:13/06/2016 00:50:53 (0 minutes)
Atkvæði: 115 (5 sitja hjá)
Já: 89 (77,39%)
Nei: 26
Niðurstaða:Samþykkt
Meirihlutaþröskuldur:50,00%

Umræða

Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.