Ályktun um málefni eldri borgara
Á félagsfundi Pírata þann 7. april 2021 var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun í kosningu með hraðmeðferð sbr. gr. 6.9 í lögum Pírata.
6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stefnu- og málefnanefndar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar.
Fundargerð félagsfundar:
https://github.com/piratar/Skjalasafn/blob/master/Fundarger%C3%B0ir/F%C3%A9lagsfundir/2021/2021-04-07.mdnn
Atkvæðagreiðsla í hraðmeðferð: https://x.piratar.is/polity/1/issue/451/
Málsnúmer: | 15/2021 |
---|---|
Tillaga: | Ályktun um málefni eldri borgara (staðfesting) |
Höfundur: | Gormur |
Í málaflokkum: | Heilbrigðismál, Mannréttindi, Velferðarmál |
Upphafstími: | 08/04/2021 11:31:15 |
Umræðum lýkur: | 22/04/2021 20:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 15/04/2021 20:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 22/04/2021 20:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 14 |
Já: | 7 (50,00%) |
Nei: | 7 |
Niðurstaða: | Hafnað |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Ályktun um málefni eldri borgara
Þau sem komin eru á efri ár eiga að njóta mannvirðingar og víðtækra réttinda, enda vel að því komið eftir langt ævistarf. Tryggja þarf framfærslu þeirra, viðunandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt öryggi í húsnæðismálum. Þess skal gætt að samráðs, jafnræði og meðalhófsreglu sé beitt í opinberum stjórnsýsluákvörðunum sem snúa að eldri borgurum. Meginstef Pírata í málefnum eldri borgara er velsæld, öryggi og virðing.
Í þessu skyni álykta Píratar að:
- Ellilífeyrir á að fylgja launavísitölu.
- Lífeyrissjóðsgreiðslur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
- Húsnæði og þjónusta við hæfi í heimahéraði sé tryggt og komið verði í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Heimaþjónusta verði efld til að gera eldri borgurum kleift að búa sem lengst á eigin heimili.
- Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, félagslegur stuðningur, aðgerðir til að draga úr einangrun, fjölbreytt félagsstarf og stuðningur til sjálfshjálpar verði skipulögð í samráði við eldri borgara þannig að fjármunir í málaflokknum nýtist sem best.
Greinargerð:
1. Ellilífeyrir á að fylgja launavísitölu.
Útrýmum fátækt eldri borgara sem reiða sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það er einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir fylgi verðlagsþróun og dugi fyrir framfærslu eldri borgara sbr. málssókn eldri borgara gegn ríkinu. Ellilífeyrir hefur dregist aftur úr miðað við lágmarkslaun. Þetta er ávísun á fátækt og jafnvel sárafátækt þeirra eldri borgara sem treysta eingöngu á ellilífeyri sér til framfæris.
Píratar vilja að lögfest verði lágmarksframfærsluviðmið til að koma í veg fyrir fátækt. Þetta þýðir á sama tíma að framfærsluviðmið ólíkra stjórnsýsluaðila verður að samræma og á sama veg verða reikningar á frítekjumarki að vera þeir sömu fyrir alla ellilífeyrisþega til að jafnvægisregla hins opinbera haldi velli.
Eldri borgarar skulu hafa valfrelsi á að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Þetta er hagkvæmt fyrir hrausta eldri borgara og þjóðarbúið. Taka þarf tillit til fjölgunar eldri borgara og aukins heilbrigðis.
2. Lífeyrissjóðsgreiðslur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
Áunnar greiðslur úr lífeyrissjóðum eiga ekki að skerða lögbundinn ellilífeyri. Þegar lífeyrissjóðakerfinu var komið á fót á sínum tíma áttu skyldusparnaður í lífeyrissjóð að koma til viðbótar ellilífeyri á efri árum. Þessu var breytt eftir hrun vegna bágrar stöðu ríkissjóðs og átti að vera tímabundin aðgerð. Það er löngu komin tími til að afnema þessar skerðingar.
Þó það hafi ekki verið forgangsatriði í stefnunni ættu ellilífeyrisþegar einnig að hafa frelsi til að stunda atvinnu við sitt hæfi eða stunda atvinnurekstur eftir getu án skerðinga ellilífeyris eða lífeyrissjóðsgreiðslna. Eldri borgara við fulla heilsu og með starfsgetu ætti að hvetja til þess að að seinka töku ellilífeyris og lífeyrissjóðsgreiðslna og fá að njóta þess með einhverjum hætti. Jafnvel má hugsa sér að seinkun á töku ellilífeyris feli í sér uppsöfnun á hluta réttinda.
Draga skal úr skerðingum á fjárhagslegri aðstoð vegna húsaleigu.
Það er ljóst að allar skerðingar vegna áunninna réttinda bitna ekki einungis á einstaklingunum sjálfum heldur sveitarfélögunum vegna lægra útsvars. Skerðingar og skilyrði eru engum til framdráttar.
3. Húsnæði og aðbúnaður við hæfi í heimahéraði sé tryggt og komið verði í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Heimaþjónusta verði efld til að gera eldri borgurum kleift að búa sem lengst á eigin heimili.
Nýtum framkvæmdasjóð aldraðra til að byggja upp fleiri húsnæðisúrræði eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Í uppbyggingu húsnæðis verður áhersla á hjúkrunarheimili fyrir einstaklinga og sambúðarfólk.
Aukum fjármögnun á rekstri hjúkrunarheimila og annarrar öldrunarþjónustu á fjárlögum.
Uppbygging á öllum landssvæðum er nauðsynleg þannig að aldraðir geti komist í búsetuúrræði í heimabyggð og að sjálfsákvörðunarréttur hvers og eins sé virtur eins og mögulegt er. Það er óásættanlegt að eldri borgarar séu fluttir nauðugir hreppaflutningum í búsetuúrræði, þetta veldur óöryggi og oft mikilli fjarlægð frá fjölskyldu, vinum og vandamönnum. Hjón og sambúðarfólk á rétt á því að dvelja saman og það er virðingarleysi að stía þeim í sundur. Útrýma verður tví-, þrí- og fjölbýli ókunnugra. Heimaþjónustu þarf að efla verulega til að gera eldri borgurum kleift að búa heima sem lengst. Eldri borgarar vilja búa sem lengst heima og þetta úrræði er mun hagkvæmara fyrir hið opinbera en dvöl á hjúkrunarheimili.
Eldri borgarar eiga að njóta valfrelsis um búsetu- og meðferðarúrræði og tryggja verður kærurétt ef eldri borgarar telji sig órétti beitta í búsetu- og meðferðarúrræðum.
Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum árið 1981. Í reglugerð um framkvæmdasjóð aldraðra frá 2014 stendur: “Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.” Þannig getur sjóðurinn greitt tiltekið hlutfall af ólíkum húsnæðisúrræðum. Nauðsynlegt er að auka það hlutfall til að tryggja að húsnæðisúrræðin séu byggð eftir þörfum. Framkvæmdasjóður aldraðra skyldi fullnýta í uppbyggingu húsnæðis er nauðsynlegt að auka fjármögnun á rekstri öldrunarþjónustu á fjárlög. Það er ekki nóg að fjárfesta í húsnæði. Tryggja þarf fjármagn í rekstur og viðhald svo þjónusta við hæfi sé tryggð og húsnæði vel við haldið. Nú er svo komið að nokkur sveitarfélög treysta sér ekki til að reka hjúkrunarheimili í heimabyggð sökum fjárskorts. Ríki og sveitarfélög þurfa að setjast niður við samningaborðið og komast að raunhæfri niðurstöðu um fjármagn til rekstrar hjúkrunarheimila og staðfesta í fjárlögum.
4. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, félagslegur stuðningur, aðgerðir til að draga úr einangrun, gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, fjölbreytt félagsstarf og stuðningur til sjálfshjálpar verði skipulögð í samráði við eldri borgara þannig að fjármunir í málaflokknum nýtist sem best.
Eldri borgarar eiga rétt á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu við hæfi. Greiðsluþátttöku þeirra í lyfjakaupum þarf að minnka. Gögn sýna að eldri borgarar neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf vegna fjárhagsvanda. Eldri borgarar eiga einnig rétt á gjaldfrjálsri geðheilbrigðisþjónustu og tannlækningum. Eldri borgarar þurfa öryggi og því verður að tryggja að þeir fái heimilislækni sem hefur yfirsýn yfir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fyrir skjólstæðing og tryggir nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Það er óásættanlegt að eldri borgarar þurfi sjálfir að leita til mismunandi lækna og sérfræðinga sem ekki hafa þekkingu á málefnum og þörfum einstaklings og getur valdið miklu hugarangri og óöryggi. Stuðla skal að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir fólk á öllum aldri, þar með talið að tryggja að heilnæmt mataræði sé fyrir aldraða á heilbrigðis- og umönnunarstofnunum.
Stuðlum að bættum tækifærum eldri borgara til félagslegrar þátttöku í atvinnulífi, sjálfboðavinnu, opinberri umræðu og lýðræðislegrar þátttöku. Spornum við einangrun eldra fólks og aukum á frelsi eldri borgara til að njóta lífsins á eigin forsendum.
Tryggja þarf að eldri borgarar hafi aðgang að félagslegum stuðningi og auðvelda aukna félagslega þátttöku þeirra á meðal. Mörg góð dæmi eru um slíkt t.d. Karlar í skúrum, heimsóknavinir, ýmis verkefni Rauða Krossins, göngudeildir, dagdvalarúrræði ofl. Í Finnlandi eru dæmi um hvernig sveitarfélög nýta þjónustu eldri borgara í verkefnum þar sem yngri bæjarbúum er boðin frí aðstaða til handavinnu og léttra smíða og viðgerða. Opnunartímar félagsmiðstöðva eiga að taka mið af raunaðstæðum og þörfum eldri borgara en ekki af hefðbundnum dagvinnutíma starfsfólks fimm daga vikunnar.
Styðjum eldri borgara til sjálfseflingar. Það eflir sjálfstraust og virkni einstaklinga að þeir fái aðstoð við að hjálpa sér sjálfir.
Öll þjónustu- og úrræðahönnun þarf að vera í samráði við eldri borgara og tryggja valfrelsi þeirra.