Tillaga að stefnu í málefnum fanga
Málsnúmer: | 6/2014 |
---|---|
Tillaga: | Stefna í málefnum fanga |
Höfundur: | odin |
Í málaflokkum: | Mannréttindi, Persónuvernd, Tjáningarfrelsi, Velferðarmál |
Upphafstími: | 25/02/2014 12:59:42 |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 09/03/2014 12:59:42 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 15/03/2014 12:59:42 (0 minutes) |
Atkvæði: | 25 |
Já: | 25 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Stefna í málefnum fanga
Í ljósi eftirtalinna ákvæða úr grunnstefnu Pírata:
- 2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
- 3.2 Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.
- 4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
- 4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
- 4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
- 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
álykta Píratar að:
Fangar skuli hafa rétt á trúnaði í samskiptum við kjörna og skipaða fulltrúa.
Tryggja skuli rétt fanga til þess að virkja innra eftirlit eða koma kvörtunum á framfæri án ótta við eftirköst.
Efla þurfi betrun í formi launaðrar vinnu. Allur ágóði af atvinnustarfsemi fanga í fangelsum skal renna til fanganna sjálfra. Gæta skal þess að atvinnustarfsemi fanga verði aldrei hagnýtt af yfirvöldum.
Mataröryggi skuli tryggt óháð markaðsaðstæðum.
Auka þurfi gegnsæi í öllu er lítur að fangelsismálum.
Fangar geti kosið sér ytri talsmann (sem verður að mega vera fyrrverandi fangi).
Hagsmunasamtök fanga geti átt samskipti milli fangelsa.
Skýra þurfi löggjöf um útreikninga á refsitíma.
Einkaaðili skuli ekki ákveða refsingar.
Tryggja skuli rétt allra fanga, sama í hvaða fangelsi þeir eru vistaðir, til betrunarúrræða, afþreyingar og þeirra félagslegu úrræða og réttinda sem föngum ber.
Ekki má mismuna föngum í neinu tilliti, eftir því hvar þeir eru vistaðir, nema slík mismunun byggi á lögmætum, sanngjörnum og málefnalegum sjónarmiðum.
Tryggja skal velferð ungmenna sem dæmd hafa verið til refsivistar, í samræmi við alþjóðleg mannréttindi sem íslenska ríkið er skuldbundið af. Ungmenni skal ekki vista meðal fullveðja fanga.
Greinargerð
Um 1. gr.
Fangar hafa kosningarétt. Þeir eru að því leyti gildir borgarar í samfélagi okkar og verða að njóta þeirra borgararéttinda sem nauðsynleg eru til að geta uppfyllt lýðræðislegt hlutverk sitt sem kjósendur.
Fangar geta í dag ekki treyst því að þeir geti átt samskipti við kjörna fulltrúa án þess að samskipti þeirra séu hleruð af fangelsisyfirvöldum. Þótt eðlilegt sé að eftirlit sé með samskiptum fanga af öryggissjónarmiðum, þá er ekki eðlilegt að samskipti kjörinna fulltrúa við kjósendur sína séu hleruð. Ennfremur þarf fangi að geta tjáð kjörnum fulltrúum frá misbrestum í fangelsismálum án ótta við afleiðingar af höndum fangelsisyfirvalda.
Um 2. gr.
Fangar eru háðir fangelsisyfirvöldum og því er auðvelt að beita þá sviptingum eða refsingum af öðru tagi. Fangar og fyrrverandi fangar hafa kvartað undan því að reyni þeir að leita réttar síns sé þeim iðulega svarað með einhvers konar neikvæðum afleiðingum. Það eru ekki bara hagsmunir fanga heldur einnig samfélagsins að fangar geti lýst því sem gerist innan veggja fangelsis.
Um 3. gr.
Ljóst er að aflokinni afplánun þurfi fangar vinnu til þess að halda sér uppi. Margir fangar koma úr heimi fíkniefnasölu eða öðru umhverfi þar sem peninga er jafnan ekki aflað með hefðbundinni vinnu. Því er mjög hætt við því að ef fangi fær ekki vinnu að lokinni afplánun þá leiðist hann út í glæpi, hvort heldur sem er af neyð eða vantrú á vinnu sem afkomuleið. Fái fangar hins vegar tækifæri til þess að sjá afurð vinnu sinnar í fangelsi geta þeir þróað með sér vinnulund og séð afrakstur vinnu sinnar og gildi í því að leggja sig fram samfélaginu til bóta. Síðast en ekki síst getur verið mjög erfitt fyrir fanga að fá vinnu að lokinni afplánun vegna þess að þeir geta ekki sýnt fram á meðmæli eða vinnusögu. Með því að bjóða upp á uppbyggileg vinnuúrræði í fangelsum er bæði hægt að veita þeim tækifæri til að venjast vinnu og jafnframt auka líkur á því að þeir fái vinnu að afplánun lokinni.
Um 4. gr.
Fangar hafa sagt frá því að matarmál í fangelsum séu með öllu óviðunandi og hafa jafnvel fullyrt að ógerningur sé að lifa á þeim matarpeningum sem þeim eru úthlutaðir. Matur í Litla-Hrauni er keyptur í næstu búð og seldur í sjoppu fangelsisins með álagi til þess að reka verslunina. Matur í fangelsum er því háður ytra verðlagi en upphæð til matarinnkaupa er það hinsvegar ekki. Afleiðingin er sú að fangar mynda matarklúbba til þess að skipuleggja matarmálin sín.
Um 5. gr.
Mikið misræmi er milli þess sem kemur fram í fjölmiðlum frá fangelsisyfirvöldum og því sem fangar segja frá. Sem dæmi hafa matarklúbbar verið uppnefndir klíkumyndun þegar um er að ræða viðbrögð fanga við of lágum matarpeningum.
Um 6. gr.
Mikilvægt er að fangar hafi málsvara utan fangelsis sem er persónulega óháður duttlungum fangelsisyfirvalda. Fangar hafi rétt á því að kjósa þann talsmann sem geti tjáð sig opinberlega og opinskátt um fangelsismál án ótta við nokkurs konar sviptingar eða refsingar af hendi fangelsisyfirvalda. Ennfremur þarf sá aðili að geta leiðrétt rangfærslur og ranghugmyndir, um málefni er snerta fanga og fangelsismál, sem birtast í fjölmiðlum eða í opinberri umræðu. Mjög mikilvægt er að fangar geti kosið sér talsmann sem hefur sjálfur setið í fangelsi og því má ekki takmarka hugsanlega talsmenn við aðila með hreina sakarskrá.
Um 7. gr.
Aðstæður milli fangelsa eru mjög misjafnar og því er mikilvægt að hagsmunasamtök fanga geti borið saman bækur sínar og stjórn þeirra geti fundað óháð því í hvaða fangelsum stjórnarmenn sitja. Þá myndi talsmaður fanga, sbr. 6. gr., vera í samráði við hagsmunasamtökin og stjórnarmenn þeirra.
Um 8. gr.
Föngum er ekki ljóst fyrirfram hvernig refsing er reiknuð út. Sem dæmi mætti nefna ef tvö brot eru framin í sama sakamáli eða ef aukahegningu er beitt vegna agabrota á meðan á afplánun stendur. Það eru viðurkennd grunnréttindi að fólk hefur rétt á að þekkja afleiðingar gjörða sinna fyrirfram. Einnig þurfa fangar að geta vitað fyrirfram hvenær afplánun lýkur til þess að geta skipulagt framtíð sína, til dæmis gagnvart atvinnu og skóla en einnig gagnvart félagslífi.
Um 9. gr.
Einkaaðilum hefur verið falin ákveðin þjónusta í fangelsismálum sem eitt og sér er ekki endilega slæmt. Hinsvegar hefur borið á því að slíkir einkaaðilar hafi óbein áhrif á refsingar með því að tilgreina skilyrði fyrir þjónustu sinni. Notkun rafrænna ökklabanda á lokastigi afplánunar er háð því skilyrði að fangar hafi þegar tekið út hluta afplánunar á einkareknu áfangaheimili, en þar sem áfangaheimilið ákveður sjálft á hvaða forsendum fangi megi afplána, þá er ákvörðun um notkun ökklabanda á lokastigi refsingar raunverulega að miklu leyti í höndum einkaaðila. Slíkt fyrirkomulag er ótækt í réttarríki.
Um 10. gr.
Fangar hafa lýst því að úrræði til náms og starfa séu í mörgum tilvikum óviðunandi, fangar fái fá tækifæri til atvinnu og erfitt geti verið að stunda nám. Námsráðgjöf hafi nánast verið hætt og tölvu- og tækniaðstaða bágborin eftir að tölvubann var sett á. Þá hafi verulega verið dregið úr öllum möguleikum til hverskyns afþreyingar og dægrastyttingar. Tölvur hafi verið teknar af öllum föngum vegna þess að örfáir hafi brotið reglur; tími til að stunda líkamsrækt hafi verið takmarkaður verulega o.s.frv. Það sé föngum afar erfitt að hafa lítið sem ekkert við að vera og getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir móralinn og andrúmsloftið í fangelsum. Fangar fyllist óeirðar sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Fangar hafa einnig lýst misgóðu aðgengi að félagslegri- og sálfræðilegri þjónustu, sjá athugasemdir við 11. gr.
Um 11. gr.
Fangar hafa sagt frá því að aðstæður séu með afar misjöfnum hætti í fangelsum landsins og tækifæri til betrunar séu mjög misjöfn. Ástandið virðist sérlega slæmt í kvennafangelsinu í Kópavogi. Fangar hafa einnig lýst því að félagsleg þjónusta til að mynda sálfræðiþjónusta og námsráðgjöf sé misjöfn og með öllu óviðunandi í sumum fangelsum, fangaverðir hafa staðfest þær frásagnir. Óásættanlegt er að réttindi fanga séu jafn ójöfn og virðist vera og færa má rök fyrir því að sérstaklega sé um ólögmæta mismunun gagnvart konum að ræða.
Í ákvæðinu er sérstaklega vikið að félagslegum réttindum. Ekki er unnt að tryggja öllum föngum sömu borgaralegu réttindin, þar eð öryggiskröfur kunna að vera mismunandi milli fangelsa og deilda. Fangar geta til að mynda notið mismikils frjálsræðis eftir hegðun o.fl. Með félagslegum réttindum er átt við rétt til fæðis, klæðis, heilbrigðisþjónustu og önnur sambærileg réttindi.
Um 12. gr.
Íslenska ríkið hefur gert sérstakan fyrirvara við 2. og 3. mgr. 10. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, um aðgreiningu ungmenna frá fullveðja föngum í fangelsum. Hið sama gildir um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem áskilur að ungir fangar skulu aðskyldir frá eldri föngum. Íslensk fangelsi bjóða ekki upp á þennan möguleika og hafa því íslensk ungmenni verið vistuð á almennum deildum íslenskra fangelsa. http://www.ruv.is/frett/ungmenni-vistud-a-almennum-deildum