Félagsleg velferð, útgáfa 2
Málsnúmer: | 2/2019 |
---|---|
Tillaga: | Félagsleg velferð |
Höfundur: | AlbertSvan |
Í málaflokkum: | Heilbrigðismál, Húsnæðismál, Menntamál, Velferðarmál |
Upphafstími: | 20/05/2019 16:59:40 |
Umræðum lýkur: | 03/06/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðsla hefst: | 27/05/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 03/06/2019 17:00:00 (0 minutes) |
Atkvæði: | 32 (1 sitja hjá) |
Já: | 26 (81,25%) |
Nei: | 6 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Félagsleg velferð
Tryggja ber efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi allra íbúa landsins í samræmi við samninga Sameinuðu Þjóðanna.
Tryggja þarf að allir íbúar landsins hafi aðgang að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi.
Lögfesta skal lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins.
Einstaklingar sem hafa þörf fyrir sértæk meðferðarúrræði eiga að geta fengið slíkt sem hluta af heilbrigðisþjónustu.
Einstaklingur sem hefur þörf fyrir stuðning vegna fötlunar sinnar á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).
Stuðla skal að bættum tækifærum eldri borgara til félagslegrar þátttöku og sjálfseflingar.
Vímuefnamisnotkun skal meðhöndluð sem heilbrigðismál með afglæpavæðingu og skaðaminnkun að leiðarljósi.
Bjóða skal fólki með skerta starfsgetu eða örorku upp á frístundamöguleika, menntun og heilbrigðisþjónustu eftir þörfum og stuðla að því að þeim standi til boða fjölbreytt atvinnutækifæri eftir getu.
Bjóða skal fólki með skerta starfsgetu eða örorku upp á skilyrðislausan örorku og endurhæfingarlífeyri, ásamt félagslegri þjónustu við hæfi.
Ríkið skal greiða allan kostnað við mat á örorku og endurhæfingarþörf.
Dregið skal úr skerðingum á fjárhagslegri aðstoð vegna húsaleigu.
Bjóða skal einstaklingum undir lögaldri að taka þátt í félags- og skólastarfi óháð fjárhag foreldra.
Tryggja skal öllu námsfólki 18 ára og eldri sem er í framhaldsskóla- og háskólanámi skilyrðislausa grunnframfærslu meðan á námi stendur. Námslán fyrir skólagjöldum og öðrum námsgögnum skulu vera aðgengileg á hagstæðum kjörum þeim sem þess kjósa.
Við samþykkt þessarar tillögu falla eftirfarandi samþykktir niður:
Fíkni og vímuefnastefna (https://x.piratar.is/polity/1/document/9/?v=5)
Endurhæfingar- og örorkulífeyrir (https://x.piratar.is/polity/1/document/196/?v=2)
Velferðar- og félagsmál (https://x.piratar.is/polity/1/document/11/?v=1)
Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn (https://x.piratar.is/polity/1/document/253/?v=1)
Stefnu um NPA (https://x.piratar.is/polity/1/document/310/?v=1)
Málefni spítalana og heilbrigðiskerfisins (https://x.piratar.is/polity/1/document/10/?v=1)
Greinargerð
Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eiga að vera í samræmi við alþjóðasamninga þar um. Það skal vera óháð uppruna eða stöðu hvers og eins landsbúa.
Þannig þarf að lögfesta lágmarksframfærslu fyrir alla landsbúa, tryggja aðgang að velferðarþjónustu og grunninnviðum ásamt því að efla þessi réttindi eins og mögulegt er. Þeir sem þurfa á meðferð að halda eiga að geta fengið hana sem hluta af sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu, þar með talin sálfræðiþjónusta og skaðaminnkunarúrræði vegna fíkni- og vímuefnavanda.
Ríkið þarf að tryggja félagslega velferð þeirra sem minna mega sín, hvort sem það eru ólögráða einstaklingar eða fólk með skerta starfsgetu eða örorku. Slíkt er uppbyggilegt fyrir allt samfélagið. Þá þurfa yfirvöld að draga úr húsnæðisskerðingum og tryggja fjárhag við mat á örorku fólks með skerta vinnugetu.
Huga þarf að félagslegum þörfum eldri borgara. Slíkt má gera með margvíslegum hætti, t.d. með því að opnunartímar félagsmiðstöðva taki mið af raunaðstæðum og þörfum eldri borgara, en miði ekki einungis við hefðbundinn dagvinnutíma starfsfólks fimm daga vikunnar. Afþreyingarmöguleika eldri borgara ber einnig að efla eftir fremsta megni. Draga skal úr takmörkunum á frelsi eldri borgara til að njóta lífsins á eigin forsendum.
Nánar um endurhæfingar- og örorkulífeyri
Tekjuskerðing lífeyris skerðir möguleika lífeyrisþega til þess að stunda þá vinnu sem þeir þó ráða við. Aðrir fylgikvillar tekjuskerðingar eru félagsleg einangrun og iðjufælni. Því ætti að draga úr búsetuskilyrðum, tekjuskerðingum og tímamörkum lífeyrisbóta upp að því marki sem unnt er. Á það einnig við um endurhæfingarlífeyri.
Í núverandi kerfi eru einnig lagðar miklar skyldur og kvaðir á bótaþega um upplýsingar og skýrslugerðir en slíkt eiga veikir einstaklingar sem eru að hefja endurhæfingu erfitt með að gera án aðstoðar. Einfalda má umsóknarferlið svo að læknir geti sent inn rafræna umsókn um endurhæfingu og örorku í stað sjúklingsins sjálfs.
Alla ferla, þ.á.m. umsóknir, ætti að gera sem fljótlegasta, einfaldasta og sjálfvirkasta með upplýsingatækni, skjólstæðinum lífeyriskerfanna og réttindum þeirra til heilla.
Nánar um vímuefnamál
Vímuefnaneysla og vandamál henni tengd brjótast út á mjög misjafnan máta milli landa og því er engin ein tiltekin útfærsla sem hentar öllum samfélögum. Bæði er misjafnt hvaða vandamál séu algengust, hvaða vímuefni séu notuð mest en sömuleiðis lagalegt umhverfi þeirra vímuefna sem mestu samfélagslegu tjóni valda. Sem dæmi eru stærstu vímuefnavandamálin á Íslandi ekki tengd ólöglegum vímuefnum, heldur löglegum en lyfseðilskyldum efnum ásamt hinu löglega vímuefni áfengi. Þannig þurfa misjöfn lönd misjafnar útfærslur jafnvel þótt mannvirðing, útvíkkun mannréttinda, skaðaminnkun og afglæpavæðing séu forsendur stefnunnar.
Tillagan um stefnu í vímuefnamálum byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif neyslu ólöglegra vímuefna án þess að vinna endilega að minnkun vímuefnaneyslu.
Nauðsynlegt þykir að setja sérstakar stefnur um skaðaminnkandi úrræði fyrir vissa hópa í samfélaginu sem vegna ólíkra aðstæðna þarfnast sérstakrar athygli og stefnumótun.
Sá hópur sem er hvað viðkvæmastur fyrir skaðlegum áhrifum vímuefnanotkun eru fangar. Algengt er að yfirvöld beri fyrir sig að leyfi þau skaðaminnkunarúrræði innan veggja fangelsa séu þau að gefa í skyn að fangelsin séu ekki örugg. Oft telja yfirvöld að viðurkenni þau þörf á skaðaminnkunarþjónustu viðurkenni þau samtímis ósigur; þá sé viðurkennt að þau hafi ekki stjórn á vímuefnaneyslu fanga. Yfirvöld nefna einnig gjarnan að skaðaminnkunarúrræði á borð við sprautu- og sprautunáladreifingu ógni öryggi fangavarða og annars starfsfólks í fangelsum. Þó er það reynsla þeirra landa sem bjóða upp á slík úrræði, að hægt sé að útfæra þau á öruggan hátt.
Ungt fólk er einnig sérstaklega viðkvæmt fyrir skaðlegum áhrifum vímuefna. Reynslu- og þekkingarleysi veldur því að ungmenni eiga það á hættu að taka of stóran skammt, neyta þeirra á óöruggan hátt og setja sig því í aukna hættu á alvarlegum heilsumissi eða jafnvel andláti. Því er mikilvægt að hanna skaðaminnkunarúrræði með þennan hóp sérstaklega í huga, til þess að fræða hann um sem öruggasta notkun vímuefna, enda sé forvörnum einnig beitt til þess að reyna eftir fremsta megni að forðast vímuefnaneyslu ungmenna.
Loks ber að nefna aðra viðkvæma hópa eins og einstaklinga með geðröskun eða geðfötlun, þolendur mansals, fólk sem starfar í kynlífsiðnaði sem og aðra jaðarsetta hópa. Jaðarhópar eru sérstaklega líklegir til þess að ofnota vímuefni og ánetjast þeim og þarfnast því sérstakrar athygli, fyrirbyggjandi úrræðna og meðferðarúrræðna.
Dæmi eru um að einstaklingar sem hafa merki um vímuefnanotkun í sjúkraskrá sinni mæti mismunun í heilbrigðiskerfinu. Þeim hefur t.d. verið neitað um verkjalyf og viðeigandi meðferð vegna viðhorfa heilbrigðisstarfsmanna um að viðkomandi sé einungis að reyna að ná sér í vímuefni til misbeitingar.
Sömuleiðis hefur borið á því að einstaklingar sem greinast með svokallaðan tvíþættan eða margþættan vanda, þ.e.a.s. eiga við vanda vegna vímuefnaneyslu ásamt geðröskun eða geðfötlun, fái ekki viðeigandi meðferð vegna þess að meðferðarstofnanir eru ekki í stakk búnar til þess að taka á slíkum vanda. Þá er fólki með geðröskun oft gert að hætta allri vímuefnaneyslu vilji það fá meðferð við geðrænum vandamálum sínum, án þess að tekið sé tillit til þess að vímuefnanotkunin og geðræni vandinn haldast oft í hendur.
Að lokum er ráðlegt að kanna kosti þess og fýsileika að regluvæða ólögleg vímuefni. Regluvæðing gerir ráð fyrir mismunandi höftum og reglum fyrir hvert vímuefni byggt á áhættunni sem fylgir notkun þeirra sem og þörfum samfélagsins. Umrædd höft gætu falið i sér reglugerðir um og eftirlit á framleiðslu efnanna (framleiðsluleyfi), reglur um efnið sjálft (verð, styrkleiki, umbúðir), reglur um aðgengi að efninu (söluleyfi, sölustaðir, aldurstakmarkanir) sem og markaðssetningu efnisins (auglýsingar og merkjavara).
Nánar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)
Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að allir séu bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Markmið er að tryggja öllu fötluðu fólki rétt til sjálfstæðs lífs með lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), sem eitt af meginformum þjónustu. NPA byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf, „e. Independent Living“ sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna upp úr 1970. Með NPA er markmiðið að tryggja að einstaklingar sem þurfa aðstoð í lífi sínu stjórni því sjálfir hvers konar þjónustu þeir njóta, hvar, hvenær og hvernig hún er veitt og af hverjum. NPA byggir á mati um þjónustuþörf viðkomandi og er í kjölfarið háð tilteknum fjárhags- og tímaramma. Markmiðið með NPA er að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns á við aðra.
Krafa notenda um að þeir eigi möguleika á notendastýrðri persónulegri aðstoð hefur hefur orðið ríkari hér á landi undanfarin ár. Einnig hafa sveitarfélög krafist þess að NPA skuli lögfest hér á landi. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks á Íslandi, s.s. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands o.fl. hafa undanfarin ár krafist þess að notendastýrð persónuleg aðstoð verði tekin upp á Íslandi og lögfest. Þá hafa sérstök félög innan þeirra banda einnig lagt mikla áherslu á mikilvægi NPA. Einnig hafa sérstök samtök verið mynduð til þess að tryggja innleiðingu og lögfestingu NPA. Innleiða þarf með efnislegum hætti skyldu ríkisins til þess að tryggja fötluðu fólki rétt þess til sjálfstæðs lífs, sbr. 19. gr. samningsins. Þar segir:
> 19. gr. Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
>
> Aðildarríkin að samningi þessum viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og til þess að stuðla að fullri aðild að og þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
>
> a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
>
> b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuúrræðum og annarri stoðþjónustu samfélagsins, einnig að persónulegri aðstoð sem er nauðsynleg til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til þess að koma í veg fyrir einangrun og aðskilnað frá samfélaginu,
>
> c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.
Fræðimenn, kjörnir fulltrúar, hagsmunasamtök fatlaðs fólks hér á landi og erlendis, og starfsfólk sveitarfélaga hafa nefnt að NPA sé sú aðferðafræði sem einna helst uppfyllir markmið Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
NPA hefur verið tekið upp í samanburðarlöndum. Í Svíþjóð hefur NPA boðist einstaklingum frá árinu 1984 og var lögfest árið 1994. Þar í landi er þjónusta veitt óháð tegund skerðingar. Frá árinu 1994 hefur Norðmönnum staðið NPA til boða og var réttur til þjónustunnar óháð tegund skerðingar lögfestur árið 2000. Í Danmörku átti t.a.m. hreyfihamlað fólk, rétt til slíkrar þjónustu fram til ársins 2009 þegar réttur til NPA var lögleiddur óháð tegund skerðingar.
Allt frá árinu 2008 hefur legið fyrir álit nefndar félags- og tryggingamálaráðherra sem skipuð var í febrúar það ár til að fjalla um fullgildingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Meðal þess sem nefndin lagði til var að notendastýrð persónulega aðstoð skyldi lögfest hér á landi í því skyni að uppfylla ákvæði 19. greinar samningsins. Nefndin lagði til að félags- og tryggingamálaráðuneytið miði að því að í síðasta lagi árin 2015 til 2020 hafi allir fatlaðir einstaklingar val um sjálfstæða búsetu og gefist kostur á viðeigandi þjónustu.
Jafnframt samþykkti Alþingi árið 2010 þingsályktunartillögu um notendastýrða persónulega aðstoð. Í ályktuninni segir meðal annars:
> Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk á Íslandi með það að markmiði að fatlað fólk geti almennt notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Ráðherra leggi fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþingi 2010.
Þann 17. desember 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði í lög um málefni fatlaðs fólks 59/1992, sem kvað á um að komið skyldi á fót sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Í kjölfar þess var sérstakri verkefnisstjórn komið á fót. Verkefnisstjórn, sem var skipuð á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, hefur unnið að málinu frá þeim tíma. Hlutverk verkefnisstjórnar hefur verið að móta ramma um fyrirkomulag NPA.?Verkefnisstjórnin hefur m.a. unnið að handbók, siðareglum, verklagsreglum, samningsformum, leiðbeinandi reglum, ramma vegna starfsleyfa umsýsluaðila ásamt ýmsu öðru.
Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins var gert ráð fyrir að fram komi frumvarp fyrir árslok 2014 þar sem lagt yrði til að lögfest verði að notendastýrð persónuleg aðstoð yrði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og skyldi efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu af framkvæmd samstarfsverkefnisins um innleiðingu NPA. Samþykkt var á Alþingi þann 30. júní 2015, að seinka umræddum tímafresti til ársloka 2016.
Reynsla af þjónustuforminu er til staðar hjá nokkrum sveitarfélögum, þar með öllum þeim stærstu. Við lagasetningu, gerð reglugerðar og annarrar vinnu við innleiðingu NPA skal einnig litið til þess sem kemur fram í úttekt Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, „Mat á samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð“, sem gerð var fyrir velferðarráðuneytið. Þar kemur einnig fram að af verkefninu er ábati samfélagsins meiri en kostnaður. Alþingi skal tryggja að fjármögnun verkefnisins verði í sátt við sveitarfélög og notendur.
Nánar um réttinn til náms
Til þess að byggja undir samfélag framtíðarinnar er ljóst að setja þarf skýra langtímastefnu í málefnum framhaldsmenntunar tryggja grunnframfærslu nemenda í framhaldsnámi og háskólanámi.
Tryggt skal að hagstæð og sanngjörn lán standi til boða sem henti aðstæðum hvers nemanda. Grunnframfærsla námsmanna í útlöndum ætti t.a.m. að vera hlutfall af grunnframfærsluviðmiði á Íslandi með tilliti til framfærsluviðmiðs þess lands sem námsmaður stundar nám í.
Námslán og námsstyrki ber að greiða fyrirfram til þess að fyrirbyggja óeðlilega skuldasöfnun námsmanna og draga úr peningaáhyggjum nemenda. Einnig ættu námslántakar að geta greitt upp lán sín með sem minnstum tilkostnaði. Þá er æskilegt að kanna reglulega kosti þess að fella niður eða afskrifa hluta af námslánum, enda eykur nám einstaklinga bæði skatttekjur í framtíðinni og auðgar íslenskt atvinnulíf. Draga ætti úr skerðingum námslána og námsstyrkja vegna annarra tekna, enda hafa skerðingar bæði letjandi áhrif og geta fest fólk í aðstæðum sem gera námið sjálft erfiðara en ella.
Auka ætti tækifæri erlendra ríkisborgara sem búsettir eru á Íslandi, til styrkja og lána til náms hér á landi.
Stefnugrundvöllur
Stefnan byggir á grunnstefnu Pírata:
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
Og er sett með hliðsjón af samþykktum Pírata:
Fíkni og vímuefnastefna (https://x.piratar.is/polity/1/document/9/?v=5)
Endurhæfingar- ogörorkulífeyrir (https://x.piratar.is/polity/1/document/196/?v=2)
Velferðar- og félagsmál (https://x.piratar.is/polity/1/document/11/?v=1)
Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn (https://x.piratar.is/polity/1/document/253/?v=1)
Stefnu um NPA (https://x.piratar.is/polity/1/document/310/?v=1)