Tjáningar- og upplýsingafrelsi
Tillaga þessi hefur verið samþykkt með atkvæðagreiðslu.
Lagt er til að Píratar tileinki sér IMMI-stefnuna.
Málsnúmer: | 31/2013 |
---|---|
Tillaga: | Tjáningar- og upplýsingafrelsi |
Höfundur: | odin |
Í málaflokkum: | Dómsmál, Mannréttindi, Persónuvernd, Tjáningarfrelsi |
Upphafstími: | 06/03/2013 01:26:04 |
Atkvæðagreiðslu lýkur: | 07/03/2013 01:26:04 (0 minutes) |
Atkvæði: | 24 (1 sitja hjá) |
Já: | 24 (100,00%) |
Nei: | 0 |
Niðurstaða: | Samþykkt |
Meirihlutaþröskuldur: | 50,00% |
Umræða
Þessu máli lauk fyrir nokkru síðan og er því krafist innskráningar til að sjá umræðu.
Með tilvísun til
- greinar 2.1 í grunnstefnu Pírata um styrkingu borgararéttinda
- greinar 4.3 í grunnstefnu Pírata um aðgengileika upplýsinga
- greinar 5.1 í grunnstefnu Pírata um frelsi til að afla og dreifa upplýsingum
- greinar 5.2 í grunnstefnu Pírata um tjáningarfrelsi
og með hliðsjón af
- greinargerð með þingskjali 688 á 138. löggjafarþingi, tillögu til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis,
- samþykkt þeirrar tillögu án mótatkvæða (þingsályktun 23/138),
- starfi stýrihóps um framkvæmd tillögunnar
- grein laga 33/1944, stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands
- lögum 81/2003 um fjarskipti,
- Stjórnsýslulögum nr. 37/1993,
- lögum 38/2011 um fjölmiðla,
- ráðleggingu Evrópuráðs R(2001)7 um afglæpavæðingu meiðyrðalöggjafar,
- skuggaskýrslu European Digital Rights frá 17. mars 2011 um gagnageymd,
- umsögn 1/2006 frá Data Protection Working Party "on the application of EU data protection rules to internal whistleblowing schemes in the fields of accounting, internal accounting controls, auditing matters, fight against bribery, banking and financial crime."
- ályktun Evrópuráðs 1729 (2010) um vernd afhjúpenda
- dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Bjarkar Eiðsdóttur (46443/09) og Erlu Hlynsdóttur (43380/10)
- Áfram skal unnið að því að gera lagaumhverfi á Íslandi með því heppilegasta sem þekkist varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.
- Nýta skal þessa lagalegu sérstöðu til að laða að erlendar fjárfestingar og erlend viðskipti.
- Breyta skal XXV. kafla almennra hegningarlaga þannig að greint sé milli þriggja mikilvægra flokka mála sem er þar slegið saman í einn: ærumeiðinga, hatursáróðurs, og brota gegn friðhelgi einkalífsins. Hver þessara flokka verðskuldar sjálfstæða meðferð í lögum.
- Fella skal niður refsiréttarákvæði um meiðyrði, og færa slík mál alfarið í einkarétt með tilheyrandi niðurfellingu á fangelsisrefsingu og breytingu á bótaréttindum ærumeiddra til að gætt sé meðalhófs.
- Koma ber í veg fyrir að lögbanni sé beitt til að hindra birtingu, enda sé þar ekki um að ræða ábyrgð fyrir dómi.
- Setja skal lög sem setja höfðun meiðyrðamála eða lögbannskröfu á dreifingu tímatakmörk.
- Setja skal heildstæð lög um vernd afhjúpenda.
- Afnema skal 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga, um svokallaða gagnageymd, þar sem fjarskiptafyrirtæki eru látin sinna eftirliti með öllum fjarskiptum almennings.
- Breyta skal regluverki um áfrýjun mála til Hæstaréttar þannig að engra lágmarksbóta sé krafist í málum sem snúa að tjáningarfrelsi.
- Endurskoða skal ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (30/2002) með hliðsjón af auknu rekstraröryggi milliliða í fjarskiptum.
- Setja skal starfshóp til að kanna hvort gildandi persónuverndarlög nægi til að takast á við þær hættur sem steðja að friðhelgi einkalífsins í netvæddu samfélagi og gera tillögur um úrbætur.